Mig langar að birta þessa mynd af mér í dag fyrir framan þinghúsið í Berlín.
Árið 2009 varð dóttir mín tvítug. Ég gaf henni í afmælisgjöf
ferð okkar tveggja til einhverrar evrópskrar borgar að hennar vali – hún valdi
Berlín. Hún gerði ekki bara það – hún skipulagði að við fórum í gönguferð með
leiðsögn um slóðir SS manna og hún skipulagði að við fórum saman til Sachsenhausen
búðanna – líka með sögulegri leiðsögn.
Þessi heimsókn er greypt í minni mitt og mun verða það til
dauðadags. Ég hef lesið ótal, ótal bækur um hryllilega glæpi nasista í síðari
heimsstyrjöldinni en ég hafði aldrei skynjað hvað gerðist með sama hætti og ég
gerði í þessari heimsókn. Hryllingurinn varð áþreifanlegur. Óhugnanlegt
skipulagið í þessari verksmiðju illskunnar líður mér aldrei úr minni og ég sannfærðist
um það sem ég vissi fyrir að þessir glæpir voru á einstakir í mannkynssögunni. Einmitt
fyrir það. Skipulagið.
Íslendingurinn Leifur Muller var í Sachsenhausen. Leifur
Muller sem Garðar Sverrisson skrifaði um í bókinni „Býr Íslendingur hér?“
Mamma og pabbi fluttu til Reykjavíkur árið 2002 og fluttu í
sama hús og ekkjan hans átti heima. Það er ekki lengra síðan þessir atburðir
gerðust en þetta.
Ég var 25 ára þegar ég fékk starf við það að sjá um
útflutning lagmetis - starf þar sem ég var í sambandi við Þýskaland og
Þjóðverja alla daga og þannig átti það eftir að verða næstu 17 árin eða svo. Mér
líkaði vel að vinna með Þjóðverjum. Mér fannst þeir vinalegir og mér fannst
þeir almennt alls ekki taka sjálfa sig of hátíðlega. Þeir voru áreiðanlegir og
það var auðvelt að treysta þeim. Ég fór í ferðir til Þýskalands í frí og ég
heimsótti Þjóðverja sem ég átti viðskiptasambönd við. Þýskaland var og er í
uppáhaldi.
Á morgun verða þingkosningar í Þýskalandi. Þingkosningar þar
sem allar líkur eru á að Afd - Alternative für Deutschland fái í það minnsta
20% atkvæða. Ég játa að ég er hrædd við þessar kosningar. Logandi hrædd.
Hægri öfgamennirnir Elon Musk og J.D. eiga enga ósk heitari
en Afd verði sigurvegarar morgundagsins. Ég hef marga íslenska hægri (karl-) menn
grunaða um að fylgja þeim að málum. Þá sem langar svo til að hrinda feminismanum
á Íslandi. Þá sem langar svo til að endurheimta karlaveldið eins og það var
fyrir 30 árum síðan. Þá sem fyrirlíta manneskjur sem eru öðruvísi en við á litinn
og líta á hvíta vestræna karlinn sem æðstu og merkilegustu tegund sem uppi
hefur verið nokkurn tíma.
Ég er hjartanlega ósammála þeim. Ég er sannfærð um að
manneskjan er söm hvar sem hún fæðist og hvernig sem hún er á litinn. Ég veit
hins vegar að saga okkar og menning er ólík frá einu svæði til annars og
tækifæri okkar til mannsæmandi lífs gjörólík frá einu svæði til annars.
Að Netanyahu og Ísraelar skuli hafa gert Hitler og nasista
að fyrirmynd sinni í framkomu sinni og tali gagnvart Palestínumönnum gerir
ekkert annað en sannfæra mig um að manneskjan er söm við sig. Sagan endurtekur
sig sífellt.
Ég vona samt að hún geri það ekki á morgun. Ég vona með öllu
sem ég á til að dagurinn á morgun slökkvi ekki vonina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli