sunnudagur, 14. desember 2025

Testósterón og þjóðernisrembingur

Testósterón og þjóðernisrembingur er einhver versta blanda sem ég veit. Íslensk stjórnmál í mínum uppvexti voru uppfull af hvoru tveggja. Testósteróni og þjóðernisrembingi. Það var alveg sama hvort stjórnmálakarlarnir voru vinstra eða hægra megin í pólitík – þeir voru uppfullir af rembu alla daga. Það var eitt það fyrsta sem ég lærði um stjórnmál að fá óbeit á þessum þætti í fari íslenskra stjórnmálakarla. Þannig er ég enn.

Fátt á ég erfiðara með að þola en þennan rembing – stöðuga rembing þar sem íslenskir karlar halda að þeir séu miklu betur gerðir til allra hluta en karlar annars staðar. Sömu menn halda því á lofti að Íslendingar séu svo miklu klárari og betri en aðrir. Þetta er svo óskaplega þreytandi viðhorf. Yfirlæti og sjálfsupphafning.

Íslendingar geta verið ágætir en þeir geta líka verið gjörsamlega óþolandi á stundum og við mættum svo gjarna við smáskammti af auðmýkt og lítillæti alla jafna. Það mundi gera okkur gott.

Ég hef oft velt því fyrir mér hverju þetta sæti. Hvernig stendur á því að Íslendingar sem voru bláfátækir fyrir aðeins 100 árum, láta alltaf eins og þeir séu vitrari og klárari en allir aðrir? Hvaðan kemur þessi oflátungsháttur? Svarið hef ég auðvitað ekki en líklega liggur það í því hvað þjóðin er ung - að Íslendingar séu eins og unglingar, oft – með lítið sjálfstraust undir niðri en temji sér oflátungshátt út á við.

Því geri ég þessa þætti að umfjöllunarefni dagsins að mér sýnist sem þetta tvennt sé að yfirtaka heiminn – testósterón og þjóðernisrembingur – og það er vont. Vont fyrir okkur öll sem byggjum þennan heim. Oflátungsháttur.

Donald Trump og hans kónar. Nigel Farage sem ég les núna að sé kominn í forystu fyrir stærsta stjórnmálaflokki Bretlands, Sigmundur Davíð. Allt eru þetta karlar fullir af rembingi. Rembingi sem segir að þeir séu svo miklu betri en annan fólk. Þeirra húðlitur, þeirra kyn, þeirra þjóðir eru svo miklu betur gerðar en allar aðrar. Það er ekki þannig. Bandaríkjamenn, Bretar eða Íslendingar eru ekki best gefna fólk sem uppi hefur verið. Það hefur hins vegar aldrei verið skortur á yfirlæti hjá þessum þjóðum. Rembingi.

Ég var 25 ára þegar ég hóf störf í alþjóðlegum viðskiptum. Ég lærði fljótt að Íslendingar voru ekki sérfræðingar á neinu þeirra sviða sem ég starfaði innan. Samt létu þeir alltaf þannig. Karlarnir. Þeir létu eins og þeir vissu allt best.

Íslendingar þróuðu viðskipti í fullkomlega spilltu umhverfi. Helmingaskiptum Sambandsins og íhaldssins. Við sem ólumst upp á síðari hluta tuttugustu aldar á Íslandi vissum öll að viðskipti byggðu miklu fremur á stjórnmáskoðunum fólks en nokkru öðru. Aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu árið 1994 gjörbreytti öllu. Og stofnun Bónuss í lok níunda áratugarins.

Að vera þátttakandi í þeim gríðarlegu breytingum sem urðu á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar með upptöku innri markaðarins í Evrópu 1. janúar 1993, evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og síðast en ekki síst upptöku evrunnar, gerði mig að sannfærðum Evrópusambandssinna sem ekkert fær haggað.

Í störfum mínum átti ég í viðskiptum við Evrópska markaðinn áður en innri markaðurinn tók gildi. Ég upplifði breytinguna. Þessa gríðarlega breytingu sem varð við að markaðurinn varð einn í stað tólf. Síðar einn í stað 15, 25 og að lokum 27 eins og hann er samsettur nú.

Upptaka evrunnar var samt enn meiri breyting. Að þurfa ekki lengur að umreikna í þýsk mörk, franska og belgíska franka, ítalskar lírur, spænska peseta, hollensk gyllini o.s.frv., o.s.frv. var bylting – ekkert minna.

Mér varð strax ljóst hversu byltingarkennd breyting þetta var fyrir viðskipti í álfunni. Markaður með einn gjaldmiðil í stað fjölda tryggði gagnsæi. Það varð strax svo augljóst að þjónusta og vörur til sölu í mismunandi löndum álfunnar myndu leita samræmis. Einfaldlega vegna þess að kaupandinn átti auðveldara með samanburðinn. Það gat til lengri tíma ekki verið neitt eðlilegt við að ein tegund þjónustu væri miklu dýrari í einu landi en öðru. Og hér verð ég að leggja áherslu á þetta orðasamband – til lengri tíma. Það varð mér ljóst strax að breytingin mundi taka  langan tíma.

Á sama tíma bjó ég í landi þar sem alltaf var hið sama uppi á teningnum hvað efnahagsástandið varðaði. Gjörsamlega óþolandi hagsveiflur endalaust. Fyrst og síðast gengi íslensku krónunnar sem stöðugt sveiflaðist og hafði þannig grundvallaráhrif á efnahagslega stöðu mína sem íslensks borgara. Verðbólga og vextir í tveggja stafa tölu viðvarandi ástand, meira og minna.

Þegar ég hóf störf á íslenskum vinnumarkaði 1983 fór verðbólgan yfir 100%. Þannig lærði ég strax í upphafi starfsævinnar að það eina sem skipti máli væri að eyða peningum sem fyrst. Í kjölfarið tóku svo við stöðugar gengisfellingar og uppsveiflur til skiptis þar sem við  – hinn almenni borgari – hafði nákvæmlega enga stjórn á eigin afkomu. Það eina sem skipti máli var að reyna að komast yfir húsnæði og geta haldið því – átt það með bankanum ævina á enda – þar sem ljóst varð strax í upphafi að með verðtryggða íslenska krónu mundi aldrei takast að eignast neitt. Hlutskiptið væri í besta falli að geta átt eignina með bankanum ævina á enda.

Blessað hrunið og eftirmálar þess – blessaðir vogunarsjóðirnir og erlendi túristinn hafa leitt til þess að gengissveiflurnar eru nú að mestu úr sögunni að því er virðist. Seðlabankinn hefur á að skipa góðum gjaldeyrisvaraforða svo fátt virðist fá haggað stöðugleika krónunnar. Það breytir miklu fyrir hag íslenskra launþega en verðbólgan er viðvarandi áfram og vextir þar af leiðandi háir.

Ég er komin á þann aldur að styttist í starfslok. Ekki mörg ár í það. Og þetta er enn staðan. Gjörsamlega óþolandi staða efnahagsmála. Ég var ein hinna heppnu sem ekki missti allt sem ég hafði áunnið í hruninu en það var fyrir einskæra heppni. Ég mun væntanlega eiga íbúðina sem ég á hlut í með bankanum ævina á enda. Þykist þó góð að vera laus undan verðtryggingunni – gerðist loksins núna þegar ég er komin á sjötugsaldurinn.

Þetta eru efnahagsmálin sem remburnar í landinu eru svo stoltar af og vilja umfram allt fá að viðhalda. Þær vilja fá að halda áfram að leika sér með hag fólksins í landinu eins og alla mína starfsævi. Vilja halda áfram að búa í haginn fyrir þá sem hafa orðið forríkir í þessu umhverfi síðustu áratugi. Menn eins og Sigmundur Davíð og hans kónar.

Til þess að geta gert það – til þess að hafa fullkomið frelsi til þess –  þurfa þeir að hafa tækin. Íslenska krónan er þar í forystusæti. Hún er gríðarlega mikilvægt tæki til misskiptingar auðs. Að loka íslenska markaðnum fyrir útlendingum er annað tæki. Gríðarlega mikilvægt tæki. Að tryggja að íslensku hrægammarnir einir hafi opinn aðgang að markaðnum. Það er grundvallarmál.

Ég vil losna undan þessum kónum. Losna undan þessu testósteróni og þjóðernisrembingi. Og það er mín sannfæring að til að svo megi verða þurfum við að horfa annað en til nýlenduherranna í Bretlandi eða forríkra, gjörspilltra karla í vestri.

Það er kominn tími til að Íslendingar sýni sjálfstraust til að standa á eigin fótum og gangi með opin augun til samstarfs við Evrópuþjóðir þar sem við eigum heima.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...