Vorið 2015 gekk ég í björg – ég hrundi saman með þeim hætti að ég hefði aldrei ímyndað mér fyrirfram að slíkt ætti fyrir mér að liggja. Að upplifa slíkt er lífsreynsla – lífsreynsla sem aldrei verður frá manni tekin.
Því sem gerðist verður best lýst með því að
segja að það var eins og sjálfið væri ekki lengur til. Það hefði verið
yfirtekið af harðstjóra sem var til staðar í þessu sama höfði og hafði tekist
ætlunarverkið að berja niður sjálfið sem fyrir var í mél. Þessi harðstjóri
hafði verið lengi að verki og hann átti eftir að vera lengur að áður en hann
gaf eftir.
Það sem kom mér aftur af stað í bata var lítið
appelsínugult kver sem heitir Servant as leader. Ég hafði sem betur fer
haft krafta til þess að ákveða að nota tímann til að gera eitthvað sem mögulega
gæti verið mér til gagns. Að tillögu dóttur minnar ákvað ég að klára BS gráðu í
viðskiptafræði og Sigurður Ragnarsson, þá forstöðumaður viðskiptadeildar
Háskólans á Bifröst, var svo indæll að leyfa mér það þótt diploman mín væri
orðin 14 ára.
Það reyndist gera mér gott að setjast aftur á
skólabekk – þó það verði að viðurkennast að viðskiptafræði var ekki fagið sem
ég brann fyrir. Þar inn á milli reyndust þó sem betur fer fög sem gáfu manni
færi á að hugsa og það voru þau sem héldu í mér lífi. Og það var einmitt þar
sem ég fann þetta litla appelsínugula kver sem fyrr er getið.
Það er ástæða þess að ég rita þessar línur í
dag. Ég var að ljúka lestri bókarinnar Hlaðan – þankar til framtíðar
eftir Bergsvein Birgisson. Fyrir mér var lesturinn sérstök upplifun sem mig
langar að gera grein fyrir hér.
Bergsteinn Birgisson fjallar í þessari bók um
hluti sem eru nákskyldir þeim ég upplifði og gerði að umtalsefni í BS-ritgerð
minni í viðskiptafræði það sama ár – árið 2016 – árið sem Trump var kjörinn
forseti Bandaríkjanna fyrra sinni.
Lestur þessa appelsínugula kvers vorið 2016
snart mig eins og vitrun. Það gerðist eitthvað stórmerkilegt í höfðinu á mér
sem ég upplifði með þeim hætti að það var eins og ég hefði endurheimt sjálfið
sem ég hafði tapað. Það var eins og sjálf mitt væri aftur „heilt“ án þess að ég
hefði hugmynd um af hverju. Þessi reynsla varð til þess að ég varð að kafa ofan
í hvað eiginlega gerðist. Ég henti BS ritgerðarefni sem ég hafði fyrir löngu
ákveðið að vinna að og leitaði til kennara að þeim áfanga sem kenndi þetta
litla kver þetta vor „þjónandi forystu“
og fékk hann til að samþykkja að verða leiðbeinandi minn. Verkefnið var að kafa ofan í hvað gerðist í hausnum á mér – án þess að hafa hugmynd um
hvernig ég færi að því. Vissi bara að ég ætlaði að gera það!
Það er skemmst frá því að segja að þessi
hugmynd átti eftir að leiða mig inn á braut sem var ólýsanlega gaman að upplifa
eftir það sem á undan var gengið. Sjálfið var í ham þetta sumar árið 2016.
Ástríðan sem alltaf hafði verið mitt aðalsmerki kviknaði svo um munaði. Ég var
að tapa mér, það var svo gaman. Ég las heimspeki og ég las Freud. Ég las Pál
Skúlason og ég las Sókrates, Nietzsche, Kirkegaard og Schiller. Ég las og las
og las og ég var á lífi – guð hvað það var gott að vera aftur á lífi! Það var
undursamlegt – verður eiginlega ekki lýst þannig að aðrir sem ekki hafa
upplifað það sama geti skilið.
Ég varð fyrir mörgum uppljómunum þetta sumar
sem ekki er hægt að gera grein fyrir í einni stuttri umfjöllun á
laugardagsmorgni í desember 2025. En aðalmálinu get ég gert grein fyrir – því
sem ég er enn algjörlega sannfærð um að var það sem bjargaði sjálfi mínu þetta
sumar – það var heimspeki. Það var heimspekin sem „heilaði“ sjálf mitt þetta
sumar. Heimspekin í kverinu Servant as leader. Það var hún sem bjargaði
mér og að halda áfram að kafa ofan í hana var það sem kom mér á réttan kjöl. Ég
er ekki í vafa. Ekki eitt augnablik. Þið hin getið ekki vitað þetta, því ekkert
ykkar var inni í höfðinu á mér. Ég veit það og mun alltaf vita það.
Það fór svo að ég skrifaði tvær BS ritgerðir –
þeirri fyrri var hafnað af leiðbeinandanum – enda ekki nema von – hún var
óreiðan ein – ástríðufullur persónulegur óður um það sem gerðist í sjálfi
höfundar þetta vor og sumar. Ég varð fyrir áfalli þegar það gerðist en gaf mig
ekki því ég vissi upp á hár hvernig ég ætlaði að klára ritgerðina og mér tókst
það.
Ég kláraði ritgerð í viðskiptafræði frá
Háskólanum á Bifröst sem byggir á kveri Roberts K. Greenleaf Servant as
leader, Sigmund Freud, heimspeki Páls Skúlasonar, Sókratesar og Nietzsche.
Það var mikil spenna yfir jólin 2016 um hvort ritgerðin yrði samþykkt enda var
hún algjörlega mín afurð frá A-Ö – leiðbeinandinn hafði ekkert fengið um hana
að segja annað en að samþykkja hvernig ég ætlaði að taka á efninu í annarri tilraun.
Tímaþröngin var slík að ég skilaði ritgerðinni inn óyfirlesinni og þannig er
hún enn á vef Háskóla Íslands með orða- og stafsetningarvillum – en hún er þar.
Mér tókst að útskrifast sem viðskiptafræðingur með BS gráðu með einkunnina 7
fyrir ritgerðina og þóttist góð. Það hafðist.
Því er ég að segja frá þessu hér að þessi saga
mín fjallar um sama efni og Bergsveinn Birgisson gerir að umtalsefni í bók
sinni Hlaðan – þankar til framtíðar. Hún fjallar um að maðurinn er
heimspekileg vera. Ég skrifaði grein á dögunum þar sem ég fjallaði um sama
efni. Um mikilvægi hug- og félagsvísinda fyrir heill mannsins.
Ég hef fundið það á eigin skinni að hug- og
félagsvísindi eru mér lífsnauðsynleg. Ég get ekki lifað þar sem greiningin og
mælingin ein ræður ríkjum. Fyrir mér boðar hugmyndafræði Trump og hans kóna –
tæknirisa Bandaríkjanna – dauða mennskunnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli