Á dögunum horfði ég á myndina The Boat That Rocked á RÚV. Ég elska þessa mynd – hún gerir mig alltaf svo glaða. Tíminn sem hún lýsir er svo ólíkur tímanum sem við lifum á nú og ég kann svo rosalega miklu betur við hann en þennan ferkantaða nútíma. Það er mín trú að við hefðum rosalega gott af svolitlu rokki núna. Svolítilli óhlýðni. Óþekkt. Ég væri til í að unga fólkið okkar væri óhlýðnara, óþekkara. Í stað þess að samsama sig hægri öfgamönnum væri ég til í hippa. Fleiri sem gæfu skít í að leggja allt sitt í að vera sætir á samfélagsmiðlum. Mikið rosalega held ég að það myndi gera okkar tímum gott. Okkur öllum.
Hér í Svíþjóð þar sem ég er stödd með dóttur, tengdasyni og dótturdætrum horfði ég á dögunum á jóladagatalið um Randalín og Munda – dásamlegt sjónvarpsefni sem á það sammerkt með bíómyndinni sem ég nefndi hér að ofan að vera undursamlega fyndin. Fullorðna fólkið allt saman fullkomlega sjálfhverft með hausinn uppi í eigin rassi – svolítið eins og við erum í nútímanum.
Að síðustu horfði ég á jóladagatalið um Snæholt – fyrstu útgáfuna. Dásamleg áminning um hvað það er sem skiptir máli. Við vitum það í raun öll innst inni. Við vitum að það er gott að vera þar sem við megum vera þau sem við erum. Að það er frelsi til þess að vera sá sem maður er sem býr til gott samfélag. Samfélag gleði þar sem okkur líður vel.
Við vitum það öll að kærleikurinn er það eina sem skiptir máli og að stjórnlyndi er vont.
Samfélag þar sem við erum rænd gleðinni er vont samfélag þar sem illt er að eiga heima. Gleði er mælikvarði á líðan mannsins.
Í lok síðasta árs las ég tvær bækur sem höfðu mikil áhrif á mig – bækur sem ég setti í jólapakka til margra sem mér þykir vænt um: Mennska eftir Bjarna Snæbjörnsson og Konan sem í mér býr eftir Britney Spears.
Sú fyrri, Mennska, fjallar um samfélag sem kennir ungum manni frá fyrstu tíð að hann sé ekki eins og hann eigi að vera. Sögumaður er næmur einstaklingur sem nemur sterkt þau skilaboð sem hann fær frá barnæsku og það hefur gríðarleg áhrif á hann. Þau áhrif að hann þróar með sér sjálfshatur sem hann áttar sig ekki á fyrr en hann er orðinn fullorðinn. Á sama tíma er hann einstaklega ástríkur einstaklingur sem þykir vænt um allt og alla – það skynjar maður sterkt frá hverri blaðsíðu. Þessa bók mundi ég vilja að við fengjum ungt í skólum landsins til að lesa og ræða. Einstök bók sem lýsir með skýrum hætti andlegri baráttu einstaklings sem er öðruvísi gerður en þorpið þar sem hann býr í samþykkir. Hann veit það þó ekki sjálfur. Hefur ekki hugmynd um að hann sé öðruvísi – áttar sig ekki á því fyrr en hann er kominn á fullorðinsár – svo sterk áhrif hafði þorpið á hann. Þorpið þar sem hann á heima gæti verið hvar sem er í heiminum. Í Rússlandi. Bandaríkjunum. Þýskalandi. Litháen. Albaníu. Ítalíu. Hvar sem er.
Hin bókin, Konan sem í mér býr, eftir Britney Spears, lýsir þeirri hræðilegu reynslu þegar stjórnun sjálfsins er fullkomlega yfirtekin af öðrum einstaklingi. Þessi hæfileikaríka og klára unga kona þurfti að þola helvíti af hálfu föður síns í vel á annan áratug áður en hún losnaði undan valdstjórnun hans.
Þetta gerist í Bandaríkjunum – ríkinu sem við höfum lært að tengja við einstaklingsfrelsið. Það sviptir þessa heimsfrægu og hæfileikaríku ungu konu sjálfræði og veitir föður hennar valdið yfir henni. Skelfileg en holl lesning sem fyllir mann ólýsanlegri reiði og réttlætiskennd.
Af hverju er ég að segja frá þessu hér? Á Þorláksmessu árið 2025. Ég er að því vegna þess að ég hræðist þá þróun sem á sér stað í samfélaginu sem ég bý í. Í heiminum allt um kring. Ég hræðist það að fólk aðhyllist stjórnlynda brjálæðinga sem vilja ráða því hverjir mega vera til og hverjir ekki. Brjálæðinga sem vilja að konur séu sætar heimavinnandi húsmæður og karlar snyrtilega klipptir í jakkafötum. Brjálæðinga sem vilja færa heiminn aftur á bak í öllu tilliti þangað sem hvíti karlinn er við stjórnvölinn.
Mig langar ekki þangað. Charlie Kirk og Snorri Másson voru ekki og eru ekki handhafar kærleikans og þar með ekki boðskapar Jesú Krists þótt þeir stæri sig af því að standa vörð um „kristileg gildi“.
Mig langar í heim þar sem við fáum öll að vera eins og við erum. Heim eins og íslenska kirkjan auglýsir núna. Heim eins og Jesús Kristur boðaði. Heim þar sem við erum öll jöfn. Heim umburðarlyndis. Heim kærleika.
Fæðingarhátíð frelsarans – hátíð ljóssins – fer í hönd. Jesús Kristur hefur alltaf verið boðberi kærleikans í mínum huga og verður alltaf.
Gleðileg jól og hafið það sem allra best yfir hátíðarnar og á nýju ári!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli