Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
mánudagur, 26. september 2016
Trúarbrögð eða pólitík?
Verr samið frumvarp hef ég ekki séð lengi og hef ég þó séð þau mörg. Illa ígrundað, algjörlega sniðið að hagsmunum íslenska ríkisins og stofnunarinnar sem úthlutar lánunum, Lánasjóði íslenskra námsmanna. Borgararnir, við íslenskur almenningur, hagsmunir okkar, koma ekki einu sinni upp við samningu frumvarpsins. Það er augljóst hverjum þeim sem les. Geðþótti lánastofnunarinnar lögfestur í nánast öllum greinum.
Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins líta á það sem hagsmuni sína að styðja þetta frumvarp í meginatriðum. Ganga svo langt að senda fulltrúa sína á opinbera fundi til að tala fyrir því. Ég spyr hvort að þetta viðhorf eigi meira skylt við trúarbrögð en nokkuð annað?
Hvaðan kemur sú afstaða þessara samtaka að styðja og fagna þessu frumvarpi? Hagsmuna hverra eru þau að gæta með þeirri eindregnu afstöðu? Hvað á íslenskt efnahagsumhverfi sameiginlegt með hinum Norðurlöndunum? Vextina? Launakjörin?
Hver er staða íslensks launafólks árið 2016? Almennra starfsmanna hins opinbera? Kvennastéttanna? Kennara svo dæmi sé tekið?
Er það forgangsmál núna haustið 2016 að lögfesta nýtt námslánakerfi þar sem vaxtaálag er ákvarðað af stjórn stofnunarinnar sem úthlutar lánunum?
Er það forgangsmál núna haustið 2016 að gera greiðslubyrði námslána þá sömu fyrir kennarann og fjármálaverkfræðinginn? Óháð launum þeirra að loknu námi? Af hverju er þetta pólitík Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins?
Hvaða hagsmuni og hverra hagsmuni eru þessi samtök að verja með stuðningi við þetta frumvarp?
laugardagur, 24. september 2016
Lygin er botnlaus
Páll Skúlason talar um að ljósbera hugsunarinnar. Er það ekki fallegt? Ljósberar hugsunarinnar? Gæti það ekki átt við um sannleikann? Traustið? Fegurðina?
Ef maðurinn sjálfur er eini mælikvarðinn á gæði samfélags hvar erum við þá stödd núna? Eiga framtíðarkynslóðir eftir að minnast okkar sem kynslóðar sem skilur eitthvað eftir sig? Hvað?
Elska börn meira en annað fólk og engin setning hefur verið í meira uppáhaldi en setningin „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki, því slíkra er guðsríki.“ Hvers vegna er svo augljóst. Samvistir við börn eru samvistir við sannleikann.
Keypti mér nokkrar bækur eftir Sigmund Freud í þýðingu Sigurjóns Björnssonar hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi á dögunum. Er óendanlega þakklát þessum mönnum báðum. Sigmund Freud fyrir að færa mér visku sína og Sigurjóni Björnssyni fyrir að gera hana aðgengilega með því að þýða hana yfir á tungumálið mitt. Þakklát Hinu íslenska bókmenntafélagi fyrir að vera til og fyrir að hafa staðið að útgáfu allra þessara yndislegu bóka sem ég ætti engan möguleika á að lesa nema af því að það er til.
Þetta eru vinir mínir í dag. Þeir sem færa mér viskuna og gefa mér færi á að næra visku-ástina sem ég þarf svo á að halda.
Þið haldið örugglega að ég sé skrítin. Hef alltaf verið skrítin svo það er ekkert nýtt í því. Svo gott að leyfa sér að vera það. Leyfa sér að vera það sem maður er. Felur gleðina í sér. Gleðin er góð. Ljósberi hugsunarinnar.
Sálin er ekki bara til – sálin er allt.
Allt sem skiptir máli.
Ætla í lokin að segja ykkur svolítið. Svolítið sem hefur ítrekað komið upp í hugann síðustu daga.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir voru strákar að hefja starfsemi á reyktum þorskhrognum í Kópavoginum þegar ég kynntist þeim fyrst. Hermann Guðmundsson, Róbert Wessmann og Baldur Guðnason voru sölumenn hjá Samskipum. Erlendur Hjaltason var stjórnarformaður flutningsfyrirtækisins þar sem ég starfaði. Höskuldur H. Ólafsson var deildarstjóri hjá Eimskip og gott ef ekki líka stjórnarformaður flutningsfyrirtækisins þar sem ég starfaði. Til að taka nokkur dæmi. Sjálf var ég starfandi í þjónustu við útflytjendur á lagmeti hjá Sölusamtökum lagmetis fyrst og síðar í þjónustu við –inn og útflytjendur hjá dótturfyrirtæki Eimskip þá, Jes Zimsen, síðar TVG-ZIMSEN.
Trúið mér, við vorum öll menn. Karlarnir sem nefndir eru og ég líka. Og erum enn.
Öll menn.
föstudagur, 23. september 2016
Nýlendustefna hverra gagnvart hverjum?
Mér þykir vænt um Vilhjálm Egilsson og held við séum samherjar í pólitík í mörgum málum. Auðvelt að taka undir margt af því sem hann segir í umræddri grein. Sannarlega eru aðstæður fólks út um land ekki þær sömu og aðstæður fólks á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hefur það aldrei verið og þannig er það ekki. Á ábyrgð hverra er sú staða uppi? Hverjir hafa setið í stjórnarráðinu síðustu 18 árin? Árin sem Vilhjálmur nefnir í umræddri grein?
Hvað hefur veriðfangsefni stjórnmálanna á Íslandi þessi sömu 18 ár? Síðustu 8 ár? Hvað var verið að fást við? Voru samgöngumál þar efst á blaði? Úthlutun fjármagns ríkisins til hinna ýmsu málaflokka? Menntamála? Húsnæðismála? Heilbrigðismála? Var það viðfangsefnið?
Staða ferðaþjónustunnar út um allt land í dag. Hverjum megum við þakka hana?
Hver hefur rekið nýlendustefnu gagnvart hverjum síðustu 18 ár? Hvenær kemur að því að stjórnmál á Íslandi fari að snúast um venjulegt fólk? Búa í haginn fyrir venjulegt fólk? Hafa þau gert það síðustu 18 ár? Síðustu 8 ár?
Í gærkvöldi horfði ég á „kappræður“ stjórnmálanna í sjónvarpinu á RÚV. Þar stóðu þeir sem við höfum gefið vægi til þess fullir sjálfstrausts.
Þau sem hafa verið í tiltektinni voru ekki eins keik. Ekki við því að búast. Það erum við sem búum þessar aðstæður til.
Við gefum Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni heimild til að standa í stafni fullir sjálfstrausts. Sennilega af því að við erum svo ánægð með stjórnmálin þeirra.
fimmtudagur, 22. september 2016
Utangenaerfðir
Horfði á þátt í sjónvarpinu í gærkvöldi, þar sem tilefnið var vonbrigði vísindamanna við að genamengi mannsins hefði ekki komið með þau svör sem vænst var. Reifaðar rannsóknir á „þessu sem stendur fyrir utan“ genið, mögulegum áhrifum þess á manninn. Leyndi sér ekki að mótstaða vísindanna er mikil við þennan möguleika.
Var flogaveik þegar ég var lítil og fram að tvítugu. Hef átt við alls kyns krankleika að stríða sem á uppruna sinn í taugakerfinu, og uppgötvanir sumarsins í félagsskap Freud og heimspekinga fyrri alda hafa bjargað lífi mínu. Bjargað lífi mínu í orðsins fyllstu merkingu og gera það á hverjum degi.
„Kulnaður“ andinn, ég sem lifandi lík, hef lifnað við í félagsskap með hugsuðum fyrri alda. Þar sem visku-ást, öðru nafni heimspeki, gegnir grundvallarhlutverki.
Þetta með tungumálið er nýjasta áhugamálið. Þessi tilhneiging okkar nútímamanna til að nota ekki tungumálið, orðin sem við eigum, heldur búa til ný. Ný orð sem oftar en ekki hafa enga tengingu og gætu allt eins verið kínverska. Orð eins og „háþrýstivökvabrotun“, „utangenaerfðir“, kulnun (er það ekki taugaveiklun?) Á ótal fleiri dæmi en nenni ekki að grafa þau upp núna og sannarlega hafa þau ekki fests í minninu enda hafa þau enga merkingu. Enga tengingu við eitt eða neitt. Eru bara innantóm tilgerðarleg orð nýja Guðsins. Það er túlkun mín.
Og þá kem ég að öðru. Mér. Vísindin hafa útskúfað „mér“. Þá á ég við, „ég“ er ákveðin skynjun á veruleikanum sem enginn annarr hefur. Það hvernig ég skynja heiminn er einstakt og enginn annarr skynjar hann eins. Þessa skynjun mína eru vísindin búin að útskúfa. Ekkert sem ég segi eða mér finnst er samþykkt sem „vísindi“, ef ég passa ekki upp á að merkja það vel einhverjum öðrum. Hver skyldi hann vera þessi einhver sem vísað er til?
Í viðskiptafræðinni er mælst til að ég noti ákveðið kerfi. Kerfi þar sem vísað er til hvaðan hugmyndin er komin. Hugmyndin má ekki koma frá mér. Þá er hún einskis virði. Allar greinar viðskiptafræðinnar eiga sér „föður“, hef enga móður fundið, eru þær til?
Ef einhver hefur nennt að lesa hingað þá ætla ég að taka nokkur dæmi um sjónvarpsþætti og kvikmyndir sem lýsa þessu mun betur sem ég er reyna að koma orðum að hér. Skynjun minni sem ég sé (og skynja) að er á fullu út um allt, ekki bara í höfðinu á mér, heldur í höfði margra annarra út um allan heim. Skynjun sem segir mér að við þurfum að beygja af leið. Af leið dýrkunar á Guðinn, þangað sem við höfum alltaf farið. Í það að þroska manninn. Þroska manninn og búa til visku. Visku til að skilja eftir fyrir framtíðarkynslóðir.
Lukka eða Lykke, á dagskrá RÚV á miðvikudagskvöldum: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/lukka/20160713
Age of ignorance, kanadísk bíómynd frá 2007: http://www.imdb.com/title/tt0819953/
The man who knew infinity: http://www.imdb.com/title/tt0787524/
Creation, bíómynd um sjálfan Charles Darwin, http://www.imdb.com/title/tt0974014/
Heimur mannkynsins, þáttaröð á mánudagskvöldum á RÚV: http://www.imdb.com/title/tt4162128/
Leynir sér ekki á upptalningunni að ég er þeirri kynslóð sem læt sjónvarpsstöð ennþá mata mig á efni.
Kannski er ekki allt sem sýnist.
miðvikudagur, 21. september 2016
Guðirnir í nútímanum
Mín afstaða að það sé tvímælalaust betra að Guð sé einn og að hann sé á himnum.
Sá Guð hefur reynst mér vel í gegnum lífið. Sýnt mér kærleika, væntumþykju og mildi. Guðirnir í fleirtölu á jörðinni eru refsiglaðir og enginn kærleikur þar í boði.
Með Guði í fleirtölu á jörðinni verður samfélagið gegnsýrt af trúarbrögðum og trúarbrögð rökræðir maður ekki eða efast um. Trúarbrögðum hlýðir maður í blindni. Gengst söfnuðinum á hönd. Ef maður gerir það ekki er von á refsingu.
Hugmyndafræðin um guðleg laun til elítunnar er grundvöllur trúarbragðanna. Hún slítur tengsl elítunnar við venjulegt fólk og gefur okkur færi á að dýrka það og dá sem Guði. Við byrjuðum á að gera íþróttamenn og kvikmyndastjörnur að Guðum. Nú eru Guðirnir orðnir miklu, miklu fleiri og trúarbrögðin mun samþættari inn í okkar líf. Stjórnendur fyrirtækja voru gerðir að Guðum með hugmyndafræði þar sem laun þeirra voru slitin úr samhengi við laun okkar hinna. Sú hugmyndafræði er við lýði enn.
Samfélag okkar er gegnsýrt af trúarbrögðum og hjarðhegðun þar sem sjálfstæðri hugsun er úthýst.
Sjálfstæð hugsun er ekki þóknanleg í samfélagi þar sem trúarbrögð ráða ríkjum. Guð er alvitur með geðþóttavald. Maður gagnrýnir ekki Guð eða rökræðir um Guð. Því Guð veit. Veit allt. Guð refsar. Refsar þeim sem hlýða ekki valdi hans.
Guð er karlkyns. Hefur alltaf verið karlkyns.
Kvikmyndirnar: ENRON - The smartest guys in the room. Inside job. Gasland og eflaust ótal margar fleiri gera grein fyrir þessum trúarbrögðum og áhrifum þess á samfélag. Við höldum samt enn ótrauð áfram. Sömu hugmyndafræði. Upphafningu Guða, ósnertanlegra Guða á meðal vor. Guða sem ekki má gagnrýna. Ekki má efast um. Má bara dýrka.
þriðjudagur, 20. september 2016
Sýndarveruleikinn nærður
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kjörinn með afgerandi meirihluta atkvæða til áframhaldandi forystu í Framsóknarflokknum í norð-austur kjördæmi. Sennilega fyrir afbragðs leik í upphafningu sýndarmennskunnar síðustu ár.
Kjósendur sýna vald sitt og hafa í hótunum við Alþingi vegna búvörusamnings sem allt í einu er orðið mál málanna. Ekki vegna þess að mönnum sé málið svo heilagt sem slíkt. Nei miklu fremur vegna þess að það er hentugt og vel til þess fallið að vekja á sér athygli núna, pólitískt. Populisminn blómstrar sem aldrei fyrr. Með stuðningi aflanna sem valdið hafa. Þeirra sem við höfum gefið vægi til að segja okkur hvaða skoðanir við eigum að hafa. Sem ef grannt er skoðað eru allt karlar. Páll Magnússon varð í 1. sæti Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Kollegu hans í áratugi Elínu Hirst var hent á haugana. Bjarni Benediktsson er aldrei spurður um hlutdeild sína í viðskiptalífinu fyrir hrun. Þorgerður Katrín þarf að gera grein fyrir „sínum málum“ en hún átti eiginmann sem var þátttakandi í hruninu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson. Þarf ég halda lengi áfram?
Samfylkingunni er úti. Alveg sama hvað frá henni kemur, það er „out“. Höfum raungert atriðið í áramótaskaupinu þar sem Davíð Oddsson henti Samfylkingunni á haugana. Og látum okkur vel líka. Beinlínis smjöttum á því hvað hún er ömurleg, enda ekki við öðru að búast af flokki þar sem konur eru svo vondar við karla.
Svo er Samfylkingin líka “kvenpersóna”, því förum við auðvitað með hana eins og við förum með konur. Fullkomlega lógískt.
Konur eiga að þóknast körlum og sjá um að sólin skíni á þá. Um leið og þær gerast of fyrirferðarmiklar er voðinn vís. Best að gera þær bara að sökudólgum fyrir öllu saman. Það kunnum við. Kunnum við konur því það eru ekki síst við sem sjáum um þetta alltsaman. Að upphefja karla og gera lítið úr kynsystrum okkar. Það kunnum við betur en flest.
Björt framtíð var voða smart fyrir síðustu kosningar. Nú er hún „out“, nema ef búvörusamningurinn kemur þeim til bjargar. Viðreisn er „in“ og smörtust alls. Þar eru Guðirnir. Elítan sem við trúum á, nærum og upphefjum alla daga. Þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því, fá ókeypis kynningu í fréttum á hverjum einasta degi, því þau eru svo smart.
Fullt af góðu fólki Bjartri framtíð og ekki síður í Viðreisn nú. Báðir flokkar hafa á að skipa vel gerðum einstaklingum sem auðvelt er að eiga samleið með í mörgu í pólitík og sannarlega ástæða til að gleðjast yfir að manni sýnist vönduðu vali einstaklinga á lista Viðreisnar. En fyrr má nú rota en dauðrota. Hvers konar samfélag er þetta eiginlega sem ég bý í?
Ætlum við að halda þessari leið áfram lengi enn? Flokka heiðarlegt og grandvart fólk í „gott“ fólk og „vont“ fólk? Upphefja eiginleika eins og sýndarmennsku, lygi og sundrung? Halda sýndveruleikanum á lofti þar sem kúgun til hlýðni er leiðandi afl?
mánudagur, 19. september 2016
Geðþóttinn
Nútíminn knýr mig til að kynna mér þessa sögu. Nútími þar sem við njótum þess að brjóta á og fara illa með einstaklinga alla daga. Njótum þess að brjóta einstaklinginn niður ef þess er mögulega nokkur kostur. Höfum verið að dunda okkur við það alla þessa öld. En við gerum það í felum. Gerum það þar sem enginn sér til. Gerum það á grundvelli laga þar sem geðþóttinn er lögfestur.
Geðþóttinn er svo þægilegur. Svo endemis einfaldur í meðförum. Svo gott að hafa vald til að gera bara nákvæmlega það sem manni sýnist, gagnvart hverjum þeim sem um ræðir. Túlka umhverfið svona í dag, og hinsegin á morgun. Hafa vald til að fara verulega illa með einhvern ef mér svo hugnast. Einstaklinga eða fyrirtæki, hvort heldur er. Bara að það sé örugglega tryggt að ég hafi valdið. Valdið til að gera það sem mér sýnist.
Best finnst okkur að lemja á þeim sem bágust hafa kjörin. Hefur tekist svo vel upp í því að nú er staða þeirra margra gjörsamlega vonlaus. Allar bjargir bannaðar. Sjálfsvirðing er of mikið. Hana á enginn skilið sem á í erfiðleikum. Það er of mikill lúxus.
Það sem vakti áhuga minn í viðtalinu við Björn Th. Björnsson og ég ætla að láta verða til þess að lesa þessa bók hans, Haustskip er þessi saga mannvonskunnar á Íslandi. Mannvonskunnar gagnvart lítilmagnanum. Saga sem ég átti að vera vel meðvituð um en var búin að gleyma. Gleyma í amstri dagsins þar sem neikvætt hreyfiafl er við stjórnvölinn. Sundrungarafl sem öll orkan fer í að reyna að lifa með.
Áherslan er öll á að hlusta á Guðina. Karlana sem við höfum gefið vægi til að vita. Skýrasta dæmið Kári Stefánsson. Kári opnar munninn til að segja eitthvað og samfélagið ætlar gjörsamlega um koll að keyra. Með fullri virðingu fyrir Kára Stefánssyni þá er meðhöndlun þess sem hann hefur að segja ekki skýrð öðruvísi en að hann tilheyri Guðunum.
Skoðun Guðanna hefur vægi. Skoðun þrælsins hefur ekkert vægi.
Íslenskt samfélag er í mínum huga óbyggilegt. Get ekki lifað í þessu fjandsamlega andrúmslofti. Andrúmslofti Guða og þræla. Andrúmslofti þar sem sundrungin ein ríkir og þeir einu sem vekja athygli á því eru þeir sem krefjast hlýðni af öðrum. Krefjast jákvæðni. Krefjast þess að tilfinningar séu útilokaðar. Krefjast þess að við séum ekki menn.
Gott samfélag er ekki svona. Gott samfélag er samfélag þar sem manni líður vel. Þar sem fjöldanum líður vel. Til að líða vel þarf ég leyfi til að vera nákvæmlega sú sem ég er og engin önnur. Gott samfélag sýnir kærleika.
Geðþóttinn innifelur ekki kærleika.
Geðþóttinn er vald yfir öðrum.
miðvikudagur, 14. september 2016
Val um visku eða heimsku
Áreiðanlega séð hana áður, man það satt að segja ekki, lýsingin á upphafningu græðginnar er alltaf söm, hvort heldur á Íslandi, Bandaríkjunum eða Grikklandi til forna. Botnlaus, mannskemmandi og vond. Eyðileggjandi afl eins og við Íslendingar þekkjum svo vel.
Varð ekki reið í þetta skiptið. Miklu fremur sorgmædd. Sorgmædd yfir upphafningu heimskunnar. Að við nútímamenn á þessari litlu eyju skulum hafa kosið að ganga þessu afli á hönd. Skulum ekki enn átta okkur á því að við þurfum að beygja af leið.
Pólitíkin okkar á ekki að snúast um karla - hún á að snúast um okkur. Líf karla, kvenna og barna. Að búa til umhverfi sem tryggir okkur góðar aðstæður, gott samfélag til að búa í. Ísland á 21. öld til þessa hefur ekki verið gott samfélag að búa í.
Mælikvarðinn á gæði samfélags er maðurinn sjálfur. Samfélag vantrausts er ekki samfélag vellíðunar. Miklu fremur samfélag vanlíðunar. Mátti skynja það skýrt í þáttunum „Baráttan um Bessastaði“. Frambjóðendurnir, flestir, sem þar voru á sviðinu skynjuðu þetta. Skynjuðu það að almenningi á Íslandi leið ekki vel. Við eigum að geta sagt okkur það sjálf. Vantraust þýðir að fólki líður ekki vel. Fólki sem líður vel treystir.
Við stöndum frammi fyrir kosningum þar sem ákvörðun verður tekin um hvert við ætlum að fara næstu fjögur árin. Þær kosningar skipta gríðarlega miklu máli. Við getum valið leið viskunnar í stað heimskunnar.
Því gladdi það mig að sjá yfirlýsingu Guðna Ágústssonar á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Verð að játa um leið að mér var skemmt að sjá framsetninguna. Framsetningu sem lýsir sér þannig að það er sem Guð hafi talað. Ef að karlarnir verða að leika Guði og það er okkur nauðsynlegt að leyfa þeim það þar sem við erum í stórum stíl hætt að trúa á hann á himnum verður svo að vera. Ef þeir hafa vit á að leiða okkur í átt til visku get ég fyrirgefið þeim það.
Sannleikurinn er mun betri vegvísir en lygin. Það mætti vera okkar fyrsta vers. Að gangast sannleikanum á hönd og hætta að ljúga.
Lygin birtist okkur m.a. í því að við tölum aldrei um það sem gerðist í hruninu. Tölum aldrei um það sem raunverulega gerðist hjá hverjum og einum einstaklingi. Gæti verið ágæt opnun í samhengi við framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til forystu í Framsóknarflokknum að birta höfuðstól láns míns opinberlega. Fyrir og eftir hrun.
Almenningur á Íslandi, (kjósendur sem hafa kosið að gera Samfylkinguna að eina sökudólg hrunsins) gæti þá séð samhengi hlutanna skýrt. Annars vegar hvað gerðist hjá „hinum venjulega manni“ við hrun íslensku krónunnar og hagkerfisins á haustmánuðum 2008 og hin hliðin er þá Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eigendamegin á þessu reikningsdæmi.
Við Sigmundur Davíð erum bæði Framsóknarbörn. Faðir Sigmundur Davíðs var þingmaður Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi, kjördæminu þar sem pabbi minn og bræður hans kusu flokkinn alla tíð. Stöðumynd af eignum og skuldum okkar sem einstaklinga fyrir og eftir hrun gæti gefið upplýsandi mynd af því sem raunverulega gerðist hér. Í samfélagi þar sem almenningur var notaður sem tilraunadýr í leik strákanna að gjaldmiðlinum.
Að síðustu kemur upp í hugann minning úr æsku sem lýsir ágætlega því sem mér liggur á hjarta. Undirskriftarlisti gekk í sveitinni til stuðnings starfandi lækni sem oft hafði orðið uppvís að því ítrekað að vera undir áhrifum áfengis við embættisstörf sín. Margir voru til í að skrifa undir. Það þarf vart að taka fram að viðkomandi læknir var karlkyns. Sveitungum mínum fannst fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að sýna honum stuðning til að halda embætti.
Eimir eftir af þessum hugsunarhætti enn?
mánudagur, 12. september 2016
Kona í heimi karla
Þeim fannst gott að geta leitað til mín. Voru hvergi öruggari. Hringdu alltaf í mig þegar mikið lá við. Og þó ekki lægi mikið við. Bara þegar þeir þurftu á þjónustu að halda, því ég var þeirra. Var þjónn þeirra. Þeir vissu það. Þekktu það og vildu hvergi annars staðar vera. Ég var sú sem þeir vissu að vakti yfir hag þeirra og gerði allt til að svara þörfum þeirra.
Var síðust til að fá farsíma. Sat heima klukkutímum saman um helgar - taldi það ekki eftir mér. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Fannst gaman að gefa - gerði það með gleði.
Síðust til að fá stjórnunarstöðu. Fékk hana ekki fyrr en rétt áður en ég hætti. Strákarnir komu og höfðu enga þekkingu, ekki á bransanum, ekki á viðskiptunum. Stundum með gráður, stundum ekki. Fóru beint í stjórnunarstöður - fengu miklu hærri laun. Ekki bara 10% eða 15% eða hvað það nú er, miklu, miklu hærri. Félagar mínir hinum megin við hafið skyldu þetta ekki og ræddu þetta við mig. Af hverju var þeim alltaf gert að fara í söluheimsóknir með strákum sem ekkert vissu um viðskiptin? Um bransann? Ég sagði þeim að svona væri þetta á Íslandi.
Ég gaf, gaf og gaf. Þar til ekkert var eftir. Ekkert nema skelin. Þegar ég leitaði til þeirra seinna eftir hjálp, var svarið „ég veit ekki hvernig þú ert á staðnum“ eða hvernig sem það var nú orðað. Veit ekki hvort kjaftasagan hafði náð þangað eða hvort þetta var bara eðlislægt vantraust til kvenna. Mun líklega aldrei vita það.
Lygin er kröftug. Árangursríkari en flest. Þarft ekki annað en koma henni af stað og hún vinnur verkið sjálf eftir það. Við ættum að þekkja það í nútímanum sem notum hana ítrekað og leyfum henni að eiga sviðið.
Kom að því að ég vildi ekki bara gefa. Vildi líka fá. Fá stöðu. Fá að stjórna. Gerði það alltaf hvort eð var. Vildi fá það viðurkennt. Í raunveruleikanum. Það stóð ekki til boða. Þeir lögðu mikið á sig til að koma í veg fyrir það. Merkilega mikið raunar.
Í háskólanum þar sem sökudólgaábendingin tók sig upp um tíma fékk ég að heyra frá karlkyns vini mínum að ég ætti að læra af þessu þegar hópur hans neitaði mér um aðgang. Ég hafði aldrei unnið með honum. Hann hafði enga reynslu af því að vinna með mér í hóp en var þess umkominn að segja að ég mætti ekki vera sú sem ég er. Að lækka rostann í konu er viðurkennt. Það ekki bara má – það á.
Lærði að lifa með þessu. Lærði að lifa með því að fá metnaði mínum ekki svarað. Var sárt, rosalega sárt, en staðreynd sem hægt var að lifa með. Lifa dáin. Það gerum við margar.
Þeir gerðu mig næstum gjaldþrota. Nokkur ár fóru í baráttu við kerfið um að ég ein bæri ekki ábyrgð á því sem gerðist í hruninu. Fyrir heppni sem byggir á vinnu annarra vannst sigur í þeim slag. Enginn hefur minnsta áhuga á að vita nokkuð um hvað gerðist.
Ég má ekki tala um karla sem hóp. Má ekki nota orðið karlar í niðrandi samhengi. Karlar máttu taka frá mér lífið, lífsgleðina. Máttu nýta mig þar til ekkert var eftir af mér og henda mér svo út á berangurinn. Það er í lagi. Að konur geri kröfur um annað en þjónkun og þjónustu við karla er fáheyrð frekja.
Af því að karlar eru Guðir og konur þjónar þeirra. Ef slagur verður milli karls og konu er karlinn fórnarlamb og konan sökudólgur.
Þennan jarðveg höfum við búið til og nærum og gefum súrefni alla daga.
Karlar njóta ástar.
Ást til kvenna er skilyrt.
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...