miðvikudagur, 5. október 2011

Dæmisaga af íslensku samhengi hlutanna

Bankastjóri bankans míns fékk 10 milljóna króna eingreiðslu fyrir það að hefja störf. Ég tók lán í sama banka upp á 12 milljónir árið 2006.

Stuttu eftir að fréttir bárust af eingreiðslunni og mánaðarlaunum bankastjórans velti ég upp þessu samhengi hlutanna í samtali við mann í íslensku viðskiptalífi. Viðkomandi fannst þetta fullkomlega eðlileg ráðstöfun hjá bankanum að greiða manninum eingreiðsluna - hann hefði jú „risikerað" starfi sínu hjá annarri fjármálastofnun með því að taka stöðuna. Annað hvort væri nú að greiða manninum almennilega fyrir að risikera svo veigamiklu hlutverki.

Við komumst aldrei svo langt að ræða lánið mitt eða hvaða afleiðingar sú lántaka hefði á mitt líf.

Það kom heldur ekki til tals að eingreiðslan til bankastjórans er hærri upphæð en mér hefur tekist að hafa í árslaun sem starfsmanni íslensks viðskiptalífs á þriðja áratug.

Ég og bankastjórinn sátum fyrir 23 árum sitt hvoru megin við samaningaborð og vorum fulltrúar síns hvors samningaaðilans - enda störfuðum við lengi í sömu atvinnugrein. Síðan eru liðin mörg ár og ég orðin miðaldra kona - enn í sömu atvinnugrein - hann orðinn miðaldra karl og stjórnandi í fjármálageiranum.

--------------------------------------------

Lántaka upp á 12 milljónir íslenskra króna árið 2006 er afstætt hugtak og ómögulegt að henda reiður á því hvað það þýðir haustið 2011 í sama samfélagi.

Nýjasta niðurstaða bankans segir að ég skuldi honum í dag:

Níumilljónirþrjúhundruðsjötíuogsjöþúsundeitthundraðsjötíuogfimm JPY - japönsk jen og Eitthundraðogtvöþúsundeitthundraðþrjátíuogþrjár48/100 CHF - svissneska franka. Skv. sölugengi á vef bankans í dag gera þetta tæplega 28. milljónir íslenskra króna. (Skv. netbankanum rétt tæpar 30 milljónir).

Bankinn sem lánið var tekið hjá er farinn á hausinn og bankinn sem tók við láninu fékk afskrifaðan stóran hluta þess.

Komið hefur á daginn að lánasamningur bankans frá árinu 2006 var ólöglegur gjörningur.

Ítrekað hefur komið fram í fréttum að þessi stofnun - bankinn - þar sem ég lagði launin mín inn á reikning frá því ég hóf störf á íslenskum vinnumarkaði fór ekki alltaf eftir ströngustu reglum um bankastarfsemi. Má mikið vera ef ekki verður staðfest að hann hafi í mörgu farið glæpsamlega að ráði sínu.

Varla hægt að efast um það lengur að hann - bankinn - ber mikla ábyrgð á því efnahagslega hruni sem varð á Íslandi og þar með verið stór áhrifavaldur í því að 12 milljónina skuldin mín við bankann hefur umbreyst í 30 milljónir.

Á laugardaginn mætti 2000 manns á þingsetningu við Austurvöll og viðhafði mótmæli. Hópurinn mótmælti með hávaða og eggjakasti núverandi ríkisstjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti íslenska lýðveldisins hélt ræðu þar sem hann krafði þingheim um sættir milli „þings og þjóðar" eins og hann orðaði það.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins flytur okkur fréttir af getuleysi og óstjórn núverandi ríkisstjórnar. Þingmenn stjórnarandstöðunnar - Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks taka undir sönginn.

Forystumenn í íslensku atvinnulífi hafa ekki annað fram að færa en að núverandi ríkisstjórn sé um að kenna allt sem við er að etja í íslensku efnahagslífi dagsins í dag. Jóhanna og Steingrímur skulu fara frá svo við geti tekið fólk sem treystandi er fyrir stjórnartaumunum í landinu.

Er það skrítið að manni finnist samhengi hlutanna í stjórnmálum á Íslandi stundum dálítið undarlegt?

þriðjudagur, 9. ágúst 2011

Þar liggja mörkin

Það er stundum gott að láta minna sig á. Ég upplifði það mjög sterkt á dögunum þegar ég las bókina „Lofuð“ eftir Elisabeth Gilbert. Lestur hennar eins og leysti mig úr fjötrum. Ég drakk í mig hugmyndir höfundar og naut þess ómælt að láta hana minna mig á. Minna mig á af hverju ég er sú sem ég er og af hverju ég er ósammála íhaldssömum hægri mönnum heimsins.

Það er af því að ég er jafnréttissinni. Það er af því að íhaldssamir hægri menn heimsins eru andstæðingar þeirrar hugmyndafræði .

Á laugardaginn var hjarta mitt fullt af gleði þar sem ég stóð og fylgdist með Gay Pride göngunni . Ég komst við eins og svo oft áður og þurfti að halda aftur af tárunum. Ástæðan var ekki sorg heldur gleði.

Ég horfði á borgarstjórann sem var „borgarstjórinn minn“ þann dag umfram aðra daga. Var að springa úr stolti yfir að búa í landi þar sem borgarstjórinn væri dragdrottning á slíkum degi og sýndi þannig samstöðu með þeim sem alla jafna eru álitnir „öðruvísi“.

„Hinsegin dagar“ eða Gay Pride hefur algjöra sérstöðu yfir aðrar hátíðir í mínum huga. Dagur samstöðu – dagur þar sem maður finnur væntumþykjuna og gleðina streyma allt um kring. Dagur sem ég sækist eftir að vera þátttakandi í og má helst ekki missa af.

Um kvöldið hlustaði ég á Pál Óskar í fréttum og fékk gæsahúð. Mig langaði að fá að faðma hann að mér og kyssa hann. Var svo glöð yfir því sem hann sagði. Svo glöð yfir að hann þyrði að standa upp fyrir feministum, fyrir kellingum, þyrði að benda á að um alla aðra en hvíta straight hægrisinnaða karla mætti viðhafa uppnefni. „Burt með kvenfyrirlitninguna „ sagði hann „burt með hatrið á öðrum kynþáttum“.

Ég upplifði orð hans persónulega. Hann stóð upp fyrir mig. Hann gagnrýndi upphátt þá sem leyfa sér að stimpla okkur hin „kommúnista“ eða „kellingar“ á hverjum degi af því að við erum ekki sammála þeim. Hann sagði upphátt af miklum eldmóði það sem mig hefur langað til að hrópa hátt svo lengi. Það var svo gott og það var svo þarft.

Hvað gerðist?

Ákall hans um umburðarlyndi, ást og kærleika var kveðið í kútinn. Snúið út úr orðum hans og gengið svo langt að það er ekki hægt að hafa það eftir.

Að tala um „hvíta hægrisinnaða karla“ sem hóp – er að ganga of langt. Þar liggja mörkin.

mánudagur, 4. júlí 2011

Ég opinberaði . . .

það sem ég hefur búið um sig í huga mér lengi. Það sem ég hef sagt upphátt við félaga mína í langan tíma - en ætlaði samt aldrei að segja opinberlega.

Ég hef alltaf vitað að besta veganestið á framabraut á Íslandi er að vera karlmaður í Sjálfstæðisflokknum - það að vinna vel og af heilindum skipti miklu minna máli. Ég hef oft fjallað um það. Hef samt aldrei sagt það hreint út áður að það að vera af kvenkyni og andstæðingur Sjálfstæðisflokksins ynni beinlínis á móti manni. Nú er það farið í loftið og verður ekki aftur tekið.

Vonandi rennur sá dagur upp einhvern tíma að hægt verði að tala um það opinberlega - á heiðarlegan og opinskáan hátt - en sá tími er sannarlega ekki runninn upp enn. Til þess er vald Flokksins enn of sterkt.

Játa það opinberlega að síðustu vikur, mánuði og ár hefur byggst upp innra með mér gríðarleg reiði út í þennan flokk - Sjálfstæðisflokkinn. Á sama tíma þykir mér mjög vænt um marga sem fylgja þessum sama flokki og ber virðingu fyrir þeim. Það er á tíðum erfið staða að lifa með.

Skortur flokksmanna á auðmýkt gagnvart þeirri stöðu sem við öll erum í er sárt og vont að upplifa. Að upplifa hrokann og drambsemina á uppgangstímanum var eitt - að þurfa að búa við sama hroka og dramsemi þegar allt er farið fjandans til er erfiðara.

Að upplifa það beinlínis - hlusta á það dag eftir dag eftir dag - að enginn geti stjórnað þessu landi annar en Sjálfstæðisflokkurinn. Að allt sé hér í volæði vegna þess eins að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd viðurkenni ég að ég tek persónulega. Að lesa blaðagreinar forystumanna íslensks atvinnulífs þar sem einungis vantar í fyrirsögnina - að það eina sem sé að í íslensku samfélagi sé að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd - er erfitt að kyngja.

Að lesa leiðara og blaðagreinar mætra manna sem ég ber virðingu fyrir setja Flokkinn ítrekað í öndvegi tekur á.

Þeir eru ófáir síðustu vikur og mánuði sem hafa sagt mér að ég „megi ekki taka þetta svona inn á mig". Að ég verði að læra að hætta á hlusta á fréttir. Hætta að láta líf mitt snúast um pólitík og snúa mér að öðru. Því sem er gott og skemmtilegt.

Ég leyfi mér enn að ráða þessu sjálf. Ég er pólitísk og mun verða svo lengi sem ég dreg andann. Ég trúi því að pólitík skipti máli og að vond pólitík hafi komið okkur á þann stað sem við erum. Ef það er eitthvað sem ég vil að við lærum af því sem hér gerðist síðasta áratuginn þá er það að við eigum að ræða pólitík. Að við eigum að vera pólitísk.

Ég trúi því staðfastlega og hef fyrir því ótal rök að Sjálfstæðisflokkurinn sé helsti dragbíturinn á jákvæðar breytingar í íslensku samfélagi. Flokkurinn sem getur ekki klofnað. Flokkurinn sem segist vera flokkur frjálsar samkeppni en berst fyrir viðskiptahöfum með kjafti og klóm. Flokkurinn sem flestir íslenskir karlmenn í stjórnum íslenskra fyrirtækja styðja og fylgja eins og hjörð. Án gagnrýni.

Ég hef sagt það áður og segi það enn: það á enginn ekki að sætta sig við að lúta forystu slíks hóps. Að lúta forystu gagnrýnislausrar hjarðar eftir það sem á undan er gengið er til of mikils mælst.

Á þessu byggir reiði mín. Hvort ég á rétt á henni er annað mál - en hún er þarna.

þriðjudagur, 3. maí 2011

Lögmálið um hækkun verðlags

Verður oft hugsað til pistils Margrétar Rúnar kvikmyndargerðarmanns í útvarpinu fyrir margt löngu þar sem hún gerði grein fyrir muninum á því að vera Þjóðverji eða Íslendingur. Hún hafði farið í hverfisbakaríið um morguninn og skildi ekkert í því að fyrir utan bakaríið stóðu fínu frúrnar í pelsunum sínum og var heitt í hamsi. Inni í bakaríinu var enginn. Þegar hún vildi vita hverju þetta sætti kom í ljós að brauðið hafði hækkað um pfenning í verði! Það vildu frúrnar ekki sætta sig við og keyptu því ekki brauðið!

Margréti fannst þetta að vonum stórmerkileg upplifun. Verandi Íslendingur með enga verðvitund eftir að hafa alist upp við stöðuga verðbólgu og lögmálið eina um hækkun verðlags alla tíð.

Ég heillaðist af þessum pistli og hef munað hann alla tíð síðan. Fyrir mér snerist þessi saga um grundvallaratriði. Þær afleiðingar sem það hefur á venjulegt fólk í samfélagi að lifa við óstjórn efnahagsmála og óðaverðbólgu ár eftir ár áratug eftir áratug. Þær afleiðingar að fólk lítur á það sem eðlilegan hlut að allt hækki - alltaf. Aðhald neytandans verður ekkert.

Ég ólst upp í þessum kringumstæðum. Þar sem það eitt gilti að eyða peningunum jafnharðan og þeirra var aflað. Að hlutirnir kostuðu eitt í búðinni í dag og annað á morgun. Ég lærði að umbera hækkanir verðlags án þess að segja neitt. Það var eðlilegt ástand.

Að alast upp við verðbólgu sem eðlilegt ástand er engu samfélagi hollt. Að alast upp við almenna óstjórn efnahagsmála er engu samfélagi hollt. Að alast upp með íslensku krónuna sem gjaldmiðil er beinlínis skaðlegt.

Ástæða þess að ég rifja þessa sögu upp er það fullkomna virðingarleysi sem ég upplifi af hálfu opinberra aðila í þessu samfélagi þessi misserin. Framkomu sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar og fyrirtækisins Orkuveitu Reykjavíkur. Dónaskapinn sem þessir aðilar sýna og finnst sjálfsagt. Það er ekkert sjálfsagt við það og það er ástæða til þess í það minnsta að fjalla um það opinberlega.

Það sem ég kalla fullkomið virðingarleysi og dónaskap er að senda út í upphafi árs bréf til borgarbúa þar sem tilkynnt er si svona að frá og með næstu mánaðarmótum - 1. febrúar 2011 muni Orkuveita Reykjavíkur innheimta vatns- og fráveitugjald mánaðarlega af íbúum sveitarfélagsins.

Bréfið er sent út hálfum mánuði áður en innheimtan byrjar skv. þessum nýju reglum. Engin kynning á málinu fyrirfram. Ekkert. Bara versgú - gjörðu svo vel að borga það sem okkur dettur í hug að rukka þig um. Engar upplýsingar um að þessi gjöld hafi áður verið hluti fasteignagjalda. Engar upplýsingar um á hvaða forsendum gjaldtakan er ákvörðuð. Ekkert. Bara seðill sem tilkynnir að frá og með næstu mánaðarmótum sé þér gert að greiða mánaðarlega greiðslur sem heita frá og með þeim degi „vatns- og fráveitugjöld".

Sagan er ekki öll. 18. apríl 2011 kemur annar sambærilegur seðill. Nú er það tilkynning um hækkun á viðkomandi gjöldum. Enn engar upplýsingar. Ekki er á þessari tilkynningu stafkrók að finna um hækkun gjaldskrár. Bara ný „álagning" eins og það heitir. Eins og hún hafi komið af himnum ofan - engin skýring - ekkert. Aftur versgú - gjörðu svo vel að borga okkur það sem þér ber.

Í millitíðinni hafði Reykjavíkurborg sent heim miða þar sem tilkynnt var að frá og með 1. maí þyrfti maður annað hvort að taka upp á því að fara annað hvort í göngutúr með ruslatunnuna sína vikulega í veg fyrir sorpbílinn eða að greiða aukalega 4.800 krónur til að fá hana losaða.

Það er eitt að sætta sig við hækkanir opinberra fyrirtækja og borgarsjóðs. Það er annað að sætta sig við virðingarleysi og að vera meðhöndlaður eins og slíkir hlutir sem hér er fjallað um komi manni ekki við og séu sjálfsagðir.

Það er ekki að fara fram á mikið að krefjast þess af opinberum aðilum að þeir í það minnsta kynni grundvallarbreytingar fyrir þá þjónustu sem þeir veita. Að þeir hagi sér ekki eins og vasar íbúanna séu þeirra tekjulind sem þeir mega ganga í eins og þeim sýnist.

miðvikudagur, 13. apríl 2011

Ég er Evrópusambandssinni

Ég vil að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Ég þarf ekki niðurstöðu aðildarviðræðna til að sannfærast.

Yfirlýsing sem kemur áreiðanlega engum á óvart en kom mér í hug í dag þegar ég hlustaði í milljónasta sinn á Sjálfstæðismann telja upp fyrir mér klisjurnar sem karlmenn í þeim flokki hafa sameinast um að nota í umræðum um þetta mikilvæga mál.

Ég hugsaði með mér - nei ég get ekki hlustað á þetta meir... ekki meir... Að hlusta á íslenska karlmenn í viðskiptalífi tala eins og kjána um Evrópusambandið. Ég þarf þess ekki og ég get það ekki.

Það er nú einu sinni svo að - þessir menn - mennirnir sem eru í forsvari fyrir atvinnulífið í landinu eru þeir menn sem eru margir hverjir í alþjóðlegum samskiptum alla daga. Þeir vita að mennirnir sem þeir eiga í viðskiptum við eru engir kjánar. Þess vegna eiga þeir ekki að tala þannig.

Þeir vita að vegna aðildar að EES er innri markaður Evrópusambandsins þeim opinn. Þeir vita að sameiginlegur innri markaður þessa sambands skiptir þá máli. Þeir vita að þegar menn sitja saman við borð - þá fer það ekki eftir því hverrar þjóðar þeir eru hvort þeir hafa áhrif eða ekki. Þeir vita að það fer eftir manneskjunni sem situr við borðið hvort hlustað er á hana eða ekki.

Ég get ekki lengur hlustað á allar þessar heimskulegu klisjur íslenskra karlmanna um að enginn geti neitt nema þeir sjálfir. Þessir sömu menn og ég hef unnið fyrir af ástríðu og heilindum allt mitt líf.

Nú er mál að linni. Nú ætla ég að strengja það staðfasta heit að ég ætla ekki að taka þátt í meðvirkni með þeim lengur. Ég þarf ekki að hlusta. Ég þarf ekki að láta málflutning minn fara eftir því sem þeir segja.

Ég hef persónulega reynslu af samskiptum og samstarfi við innlenda og erlenda aðila í viðskiptalífi í 23 ár. Ég byggi afstöðu mína á þeirri reynslu.

Ég vil að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu. Ég vil það af menningarlegum ástæðum. Ég vil það af pólitískum ástæðum. Ég vil það af efnahagslegum ástæðum. Og ég vil það fyrst og síðast af persónulegum ástæðum.

Mér þykir samt vænt um íslenska karlmenn. Í Sjálfstæðisflokknum - sem öðrum flokkum - en til að geta lifað í samfélagi með þeim - þarf áhrifa - annarra þjóða að gæta hér í meira mæli en hingað til.

fimmtudagur, 7. apríl 2011

Hvernig get ég verið svona viss?

...um að ég ætli að segja já á laugardaginn?

- Vegna þess að það er rétt.

- Vegna þess að málið sem fyrir liggur varðar grundvöllinn í samskiptum manna.

- Vegna þess að „allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra"

Þetta lögmál lærði ég í æsku og það er í mínum huga heilagt og snýst um grunninn að því að búa í samfélagi.

Íslendingar gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma og undirgengust með þeim samningi ákveðnar grundvallarreglur. Á grundvelli þess samnings um frelsi í fjármagnsflutningum á milli landa fóru Íslendingar - Íslendingar - offari í lántökum í útlöndum. Svo miklu offari að þeim tókst að búa til eitt stærsta gjaldþrot heimssögunnar.

Íslenskur almenningur lifði í vellystingum praktuglega og neyslan fór í þvílíkar hæðir að þeir sjálfir - Íslendingar trúðu því að þeir gætu allt og væru öllum öðrum mönnum æðri og klárari. Þeir fóru mikinn hvar sem til þeirra heyrðist og voru sannfærðir að þeirra væri sannleikurinn.

Í ljós kom að svo var ekki. Íslendingar voru ekkert sérstakir snillingar. Þeir voru ekki öðrum fremri nema kannski í því að búa til eitt stærsta gjaldþrot heimssögunnar - það tókst þeim betur en nokkurri annarri þjóð. Og hver veit nema okkar verði minnst fyrir það um aldir.

Kosningin á laugardaginn snýst ekki um það „að ég sé að borga skuldir einkabanka". Hún snýst ekki heldur um það að „ég sé að leggja byrðar á dóttur mína um langa framtíð".

Kosningin á laugardaginn snýst um heiður og sæmd. Hún snýst um að íslenska þjóðin sýni ábyrgð. Að íslenska þjóðin virði grundvallarlögmálið um „að það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra".

þriðjudagur, 5. apríl 2011

Valið stendur um dramb eða auðmýkt

Á laugardaginn verður gengið til kosninga á Íslandi. Niðurstaða þessara kosninga skiptir mig verulega miklu máli. Kosningarnar á laugardaginn eru fyrir mér mælikvarði á það hvers konar samfélag við ætlum gefa út að við séum. Kosningarnar snúast ekki um lögfræði og því síður um peninga.

Kosningarnar snúast um hvort við ætlum að halda áfram að vera sjálfhverf þjóð uppfull af rembu eða hvort við ætlum að snúa við blaðinu og láta eins og menn.

Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóri, nú ritstjóri áróðurspésans Morgunblaðsins, viðhafði þessi orð í Kastljósþætti kvöldið minnistæða 7. október 2008: „...að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna". Þessi setning er lifandi enn og viðhöfð af stórum hluta þeirrar þjóðar sem ég tilheyri. Ég skammast mín í hvert skipti sem ég heyri þessa setningu. Skammast mín fyrir að vera Íslendingur.

Ég er á hverjum degi að borga skuldir óreiðumanna og get ekki annað. Hversu mjög sem ég vildi komast hjá því - þá get ég það ekki. Óreiðumennirnir eru margir og þá er að finna víða. Fyrst og fremst er ég að borga fyrir brjálæði síðasta áratugar - sem ég NB vildi aldrei - með gengi krónunnar á hverjum einasta degi.

Lífskjör mín hafa verið skert stórkostlega og eignin er farin. Bráðum kemur kannski að því að bankinn hirði af mér húsnæðið í orðsins fyllstu merkinu - það á eftir að koma í ljós.

Ákvörðun um það hvort ríkissjóður Íslands gengst í ábyrgð fyrir Icesave eða ekki er ekki spurning um peninga. Það vitum við öll og þarf ekki að endurtaka. Ríkissjóður þarf að taka á sig, og hefur tekið á sig, margfaldar þær upphæðir sem hann kannski þarf að greiða vegna Icesave.

Icesave snýst um valdabaráttu. Valdabaráttu þeirra sem vilja halda áfram sjálfhverfunni og drambseminni og vilja umfram allt fá að halda völdum yfir þjóðinni og yfir okkur hinum sem viljum lifa í siðuðu samfélagi við aðrar þjóðir.

Afstaða meirihluta kjósenda á laugardaginn snýst um ábyrgð eða ábyrgðarleysi. Hvort við ætlum að halda áfram að vera sú ábyrðgarlausa, sjálfumglaða, drambsama þjóð sem við höfum verið frá upphafi aldarinnar eða hvort við ætlum segja skilið við þá hugmyndafræði og taka upp nýja siði. Nýja siði byggða á gömlum merg.

Það er ekki spurning hvert val mitt verður loksins þegar ég fæ tækifæri til að tilheyra hópi sem kýs aðra leið en þessi sjálfumglaði, hrokafulli hópur sem hefur skilið íslenskt samfélag eftir í rústum.

Ég kýs sjálfsvirðingu og ábyrgð. Ég segi já.

sunnudagur, 20. mars 2011

Í sambúð með Sjálfstæðisflokknum

Það er áhugavert að skoða fyrirsagnir greinasafns míns frá þessum áratug. Af þeim má lesa að oftar en ekki hefur karlaveldið verið mér tilefni til setjast við skriftir.

Þessi fyrsti áratugur aldarinnar á Íslandi hefur um margt verið sérstakur en umfram allt hefur hann einkennst af rembu. Rembu karlaveldisins á Íslandi sem hefur barið sér á brjóst og talið sig kunna betur að reka fyrirtæki og þjóðfélag en allir aðrir í heiminum.

Við vitum nú hversu mikil innistæða var fyrir þessari rembu. Í ljós hefur komið að íslenskir karlmenn kunna ekki betur að reka fyrirtæki en aðrir - má mikið vera ef þeir kunna það ekki síður en aðrir. Hæfileikar þeirra í að reka þjóðfélag hafa heldur ekki reynst meiri en annarra - margt sem bendir til að þeir hafi alls ekki kunnað að reka þjóðfélag. Í það minnsta er samfélagið Ísland í verulegum vanda eftir hrunadans þessa áratugar þar sem remban var í algleymingi.

Markaðurinn er stórskaddaður - svo mjög að stór hluti fyrirtækja í landinu er í fangi ríkisins beint eða óbeint. Almenningur hefur orðið fyrir stórkostlegri lífskjaraskerðingu og stór hluti hans er orðinn eignalaus, einhverjir gjaldþrota.

Þrátt fyrir fullkomið hrun þeirra stjórnmálastefnu sem rekin var á Íslandi síðasta áratuginn bólar ekkert á endurskoðun hennar hjá stærsta stjórnmálaflokki landsins Sjálfstæðisflokknum. Innan Sjálfstæðisflokksins eru langflestir karlkyns stjórnendur íslensks viðskiptalífs. Þeir eru háværir í gagnrýni sinni á núverandi stjórnvöld en ekkert bólar á sjálfsgagnrýni eða að þeir kannist við að bera einhverja ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í.

Ég velti því fyrir mér í grein árið 2003 hvort að aðild forsvarsmanna íslensks atvinnulífs að Sjálfstæðisflokknum ætti meira skylt við trúarbrögð en raunverulega pólitík. Ég hef fengið skýrt svar við þeim vangaveltum. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í engu að breyta stefnu sinni til framtíðar þrátt fyrir það sem gerst hefur þennan áratug. Hann ætlar að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist með sömu stefnu og hingað til. Forsvarsmenn íslensks atvinnulífs ætla að leyfa honum það. Ekkert hefur breyst þar frá upphafi þessa áratugar. Aðhaldið og gagnrýnin er engin á flokkinn - en ákallið hávært að enginn geti stjórnað landinu annarr en flokkurinn.

Íslenskur almenningur er í gíslingu vondra stjórnmála vegna þessa. Frjálslyndi hópurinn innan Sjálfstæðisflokksins - fólkið sem veit og skilur að Ísland þarf að vinna að því af heilindum og ábyrgð að ná góðum aðildarsamningi við ESB setur fylgispekt við flokkinn í forgang. Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins skrifar hverja greinina á fætur annarri þar sem hann gagnrýnir Jón Bjarnason og stefnu hans á sama tíma er maðurinn flokksbundinn Sjálfstæðismaður. Hver er stefna þess flokks í málefnum neytenda gagnvart bændum? Þorsteinn Pálsson fer mikinn í að gagnrýna stefnu eða öllu heldur stefnuleysi stjórnvalda. Hann er sannfærður um að aðild Íslands að ESB sé forsenda þess að við náum okkur á strik. Flokkshollusta hans skipar samt æðri sess en hagsmunir almennings í landinu til framtíðar.

Það er óskemmtilegt en augljóst að stefna Sjálfstæðisflokksins er ráðandi um stjórnmálin á Íslandi í dag sem alltaf fyrr. Flokkurinn stýrir skoðanamyndun Íslendinga í einstökum málum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þessi flokkur hefur svo lengi verið ráðandi afl í íslensku samfélagi að því verður ekki hrundið svo auðveldlega. Þetta vita forystumenn í flokknum og nýta sér óspart í óábyrgri hávaðasamri stjórnarandstöðu.

Það er ekki uppbyggileg framtíðarsýn að vera borgari í þessu landi og hafa ekkert að horfa til annars en endurtekningu á fortíðinni. En það er sú framtíðarsýn sem við blasir. Einn stjórnmálaflokkur hefur aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni og hann er í stjórn með stjórnmálaflokki sem vinnu að því öllum árum að veikja stöðu Íslendinga í aðildarviðræðunum.

Forsvarsmenn íslensks atvinnulífs gera ekkert í því að hafa áhrif á þessa stöðu - skipta sér ekki af henni eins og aðildarviðræðurnar komi þeim ekki við. Að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda aftur skiptir Samtök atvinnulífsins mun meira máli en aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hagsmunir bænda og hagsmunir útgerðarmanna er það sem stjórnmálamenn íslenskir sjá ástæðu til að tala um í sambandi við aðildarviðræður við ESB. Hagsmunir bænda í því að viðhalda háum tollum á innfluttar landbúnaðarafurðir. Stjórnmálamönnum íslenskum er mjög umhugað um það.

Hagsmuni mína sem íslensks neytanda - hagsmuni mína sem íslensks launþega, hagsmuni mína sem venjulegs íslensks borgara hugsar enginn um.

Þessi staða liggur að baki ummælum mínum að mér sé varla vært í samfélagi með forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs í Sjálfstæðisflokknum lengur. Þeir brugðust mér í upphafi þessa áratugar í að gera augljósar kröfur til síns flokks og þeir gera það enn.

fimmtudagur, 27. janúar 2011

Flokkurinn sem kann...

Að hlusta á ræðu Ólafar Nordal í ræðustól Alþingis í dag gjörsamlega ærði mig af reiði. Það eru svo sem engin ný tíðindi í því fyrir þá sem þekkja mig að slíkt gerist en það var samt sínu verra í dag en oft áður.

Að hlusta á hana - varaformann Sjálfstæðisflokksins halda því fram - blákalt - og af fullu sjálfsöryggi að núverandi ríkisstjórn sé einfær um að viðhafa óvandað verkleg var meira en hægt er þola. Það eru mörk á því hvað hægt er að bjóða manni upp á og yfirlýsingar í þessa veru lýsa fullkominni veruleikafirringu og sjálfhverfu af verstu tegund.

Það skal tekið fram áður en lengra en haldið að með þeirri fullyrðingu er ekki verið að verja framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings og ábyrgð ríkisstjórnarinnar á því máli.

En að hún - þessi ríkisstjórn - viðhafi almennt verra verklag og sé óábyrgari en þær sem fyrir voru er rakalaus þvættingu svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég hef nú í tvö ár þurft að hlusta á þennan söng. Sjálfstæðismenn hrópa hátt um óvandað verklag, um samráðsleysi um kunnáttuleysi annarra og get ég bara ekki hlustað á meira af slíku.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í Stjórnarráðinu í áratugi hefur þróast hér á landi gagnrýnis- og aðhaldslaus stjórnsýsla sem gerir oftar en ekki það sem henni sýnist. Fagmennska er sannarlega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug eftir að hafa kynnst því stjórnkerfi. Óvönduð vinnubrögð hafa viðgengist hér í stjórnarráðinu áratugum saman undir stjórn - með blessun og - á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.

Og nú verð ég að biðja þá sem eru faglegir að fyrirgefa mér - því sannarlega fyrirfinnst vandað verklag innan íslensku stjórnsýslunnar.

Að ríkisstjórn Íslands brjóti lög eru engin ný tíðindi. Það vitum við öll sem lifað höfum í íslensku samfélagi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í áratugi og ég frábið mér slíkar yfirlýsingar.

Það er fyrir löngu kominn tími til að breyta því verklagi. Það hefur umboðsmaður Alþingis bent á ótal, ótal, ótal sinnum - án árangurs. Það er augljóst að það verður ekki gert á einum degi. Tala nú ekki um þegar sami flokkur og hefur komið á þessu verklagi er orðinn algjörlega óábyrgur stjórnarandstöðuflokkur sem hugsar ekki um neitt annað en að viðhalda sjálfum sér. En sem merkilegt nokk þjóðin hlustar enn á - kann ekki annað.

Að koma í gegn lögum á Alþingi um stjórnlagaþing með Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu var ekki auðvelt verk - en það tókst. Allar götur síðan hefur sami flokkur unnið að því öllum árum að eyðileggja það.

Það var þrekvirki að koma málinu í gegn með þennan stóra stjórnarandstöðuflokk sem enn hefur svo mikið vald í huga fólksins en það tókst.

Nú hefur flokknum tekist það sem hann ætlaði sér - að ná fram vilja sínum í gegnum Hæstarétt - stjórnlagaþingskosningarnar hafa verið dæmdar ógildar vegna tæknilegra ágalla sem rekja má til þess að áhugi almennings á málinu reyndist meiri en stjórnkerfið réði við.

Og þá... hlakkar í þessum sama stjórnmálaflokki og hann ber sér á brjóst.

Sem fyrr er honum skítsama um allt annað en að viðhalda sjálfum sér. Hafið skömm fyrir!

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Hlustum ekki á hagsmunaaðila – rétta leiðin?

Hlustaði á Svandísi Svavarsdóttur í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson á RÚV í gær. Henni var ofarlega í huga aðkoma hagsmunaaðila að lagasetningu. Hún talaði um rannsóknarskýrslu Alþingis og mátti skilja hana svo að í rannsóknarskýrslunni hefði samráð við hagsmunaaðila verið talinn helsti galli íslenskrar stjórnsýslu. Fór ekki á milli mála að hennar skoðun var sú að samráð við hagsmunaaðila væri allt of mikið á Íslandi og því þyrfti að breyta.

Þessi orð ráðherrans koma mér vægt frá sagt mjög spánskt fyrir sjónir. Fátt tel ég þarfara í íslenskri stjórnsýslu en aukið samráð við hagsmunaaðila við lagagerð og reglugerðarsetningu. „Lög að ofan" voru slæm fyrir 4000 árum síðan og þau eru það enn.

Lagafrumvörp og reglugerðir sem samin eru af lögfræðingum stjórnsýslunnar án þekkingar á því starfsumhverfi sem þau eiga við eru oftar en ekki meingölluð og stórhættuleg. Með því er ekki verið að segja að hagsmunaaðilar eigi að eiga greiða leið að því að koma lagabreytingum í gegnum kerfið að sínum vilja.

Það er djúp gjá á milli þess að hagsmunaðilar eigi að vera ráðandi í að koma lagabreytingum í gegn að sínu höfði eða hvort að þeir séu hafðir með í ráðum við frumvarpsgerð sem fjallar um þeirra starfsumhverfi.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og einn höfunda rannsóknarskýrslu Alþingis talaði um í fyrirlestri í haust að stjórnkerfið ætti að sinna almannahagsmunum - að lög ættu að vera samfélagssáttmáli - ættu ekki að vera sett fyrir morgundaginn. „Samfélagssáttmáli" verður ekki til með því að frumvörp séu samin einhliða af embættismönnum með tilteknar skoðanir.

Ég held að fátt sé hollara íslenskum ráðherrum en að meðtaka orð Tryggva. Að lög eigi að vera „samfélagssáttmáli" ættu að verða leiðarljós íslenska stjórnkerfisins þá myndi margt breytast hér til hins betra.

Hrokafullt viðhorf íslenskra ráðherra sem telja að stjórnkerfinu stafi mest hætta af hagsmunaaðilum er aftur á móti ekki til þess fallið að búa til betra stjórnkerfi eða sátt í íslensku samfélagi.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

Stríð um hugmyndafræði

Hitti stúlku á dögunum sem ég hef þekkt í tæplega 25 ár. Manneskja sem ég faðma og kyssi þegar ég rekst á hana á förnum vegi og spjalla lengi en við hittumst ekki eða eigum önnur samskipti. Mér þykir óskaplega vænt um þessa stúlku. Kynntist henni sem ungum eldhuga sem fyrst og síðast þótti vænt um fólk og gaf af sér svo það lak af henni sjarminn í allar áttir. Þannig er hún enn - galopin og heillandi.

Þessi stúlka sagði mér það að hún þyldi ekki Ísland þennan áratug. Hún sagði mér líka að það væri alltaf verið að banna henni að segja þetta - hún mætti ekki vera svona neikvæð. Hún segir það samt - og segir það með ást í augum því henni þykir augljóslega enn vænt um fólk og kann ekki annað.

Hún sagði mér að hún og fjölskyldan hennar fluttist til annars Evrópulands í tvö ár og hún grét í hálft ár að þurfa að koma aftur heim.

Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í samræður okkar hér en þær voru upplifun fyrir mig. Það var upplifun að hitta manneskju sem iðaði af lífi og áhuga og ást á því - segja það upphátt ófeimin að hún þyldi ekki íslenskt samfélag í dag og var með það á hreinu af hverju það væri. Sjálfhverft „ég um mig frá mér til mín" samfélag.

Þessi stúlka hafði mörgu að miðla og mikið að gefa og ég velti fyrir mér hvort að íslenskt samfélag muni leyfa henni að halda elmóðnum og áhuganum og hvort hún muni fá þá örvun og stuðning sem hugur hennar augljóslega þarf.

Ég vil vinna að því. Ég vil vinna að því að íslenskt samfélag breyti um kúrs. Ég vil búa í víðsýnu alþjóðlegu samfélagi þar sem tækifæri til athafna eru ekki bara til handa sérvöldum hópi heldur handa okkur öllum.

Það fer ekkert á milli mála í mínum huga að á Íslandi í dag ríkir stríð um hugmyndafræði. Hver vinnur í því stríði breytir öllu um hvernig Ísland framtíðarinnar verður. Afturhaldsöflin eru gríðarlega sterk og þau eru að finna í öllum stjórnmálaflokkum. Þau ætla sér að sigra - það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga. Þau leita allra leiða til að koma sér fyrir í áhrifastöðum sem skipta máli og hingað til hefur þeim orðið ágætlega ágengt og þau eru ekki hætt...

Það andvaraleysi sem frjálslyndi hópurinn í íslensku samfélagi sýnir nú um stundir með því að ríghalda í stjórnmálaflokkinn sinn sama á hversu fráleitri leið hann er er stórhættulegur. Andvaraleysi á tímum eins og núna er stórhættulegt.

Við sem viljum að Ísland verði víðsýnt, frjálslynt opið - gott samfélag - verðum að fara að átta okkur á því að dagurinn í dag skiptir máli.

Áunnin réttindi skipta máli - þau eru aldeilis ekki sjálfsögð - við höfum fengið margar áminningar um það síðustu misseri. Það skiptir máli að taka afstöðu - að standa með sjálfri sér og sinni sýn á framtíðina. Að öðrum kosti eigum við - þessi hópur sem ég veit að er til þarna úti - á hættu að búa í allt öðru samfélagi næstu áratugi en við kærum okkur um.

Samfélagi sem byggir á hugmyndafræði feðraveldisins og þröngsýninnar.

þriðjudagur, 11. janúar 2011

Heiðarleikinn og einlægnin

Völva Baggalúts sendi á dögunum frá sér eftirfarandi spá fyrir árið 2011:

„Ekkert breytist. Ekki neitt!"

Ég hef þá trú að völva Baggalúts reynist sannspá.

Fjölmiðlarnir halda endalaust áfram að upplýsa okkur um hvað lífið kostar. Það er ennþá það eina sem skiptir máli og er þess virði að fjalla um. Listir, íþróttir, snjómokstur, sorphreinsun - hvaðeina - kostnaðurinn er aðalatriðið.

Þannig þótti það helst fréttnæmt í aðalfréttatíma RÚV hvað kostnaður við snjómokstur Akureyrarbæjar færi mikið fram úr áætlun þetta árið.

Fyrir uppsveifluna var ekki fjallað um björgun erlendra ferðamanna á hálendinu öðruvísi en að fréttamenn sæju ástæðu til að velta fyrir sér kostnaðinum sem íslenskt samfélag hefði af slíku.

Forsíður blaðanna birta enn fréttir af því að Íslendingar eigi í samskiptum við frægt fólk í útlöndum. Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun birtist mynd af Magnúsi Scheving með Colin Powell fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ein frétt af mörgum á forsíðu þess blaðs síðustu mánuði þar sem það hvarflar að manni að það hafi ekki reynst viðkomandi Íslendingi sérlega erfitt að koma sér á forsíðuna til að segja frá stórkostlegum árangri sínum í útlöndum.

Viðmælandi fréttastofu RÚV í kvöld (sem mér því miður láðist að taka eftir hver var) hafði helst áhyggjur af því að sala á heilbrigðisþjónstu til útlendinga hefði þá stórkostlegu hættu í för með sér að íslenskir ríkisspítalar þyrftu að vera samkeppnisfærir í greiðslu launa til heilbrigðisstarfsmanna. Þess vegna væri það ekki heppilegt að efla þessa starfsemi hér á landi.

Í hverju felst heiðarleikinn og einlægnin - endurheimt gildanna - sem allir eru að tala um? Felst hann í því að við förum allar að prjóna og búa til slátur?

föstudagur, 7. janúar 2011

Hvað héldu þau?

Alþingi Íslendinga samþykkti með meirihluta greiddra atkvæða 16. júlí 2009 að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ásmundur Einar Daðason þingmaður Vinstri grænna lét hafa eftir sér í Kastljósi í gær að „margir þeir sem studdu þá umsókn væru að fyllast efasemdum um að það ferli væri í þeim farvegi sem þeir vildu sjá það í upphafi".

Þessi orð Ásmundar krefjast skýringa. Hvað héldu þeir Vinstri grænir þingmenn sem fóru í samstarf við Samfylkinguna í ríkisstjórn að aðildarviðræður við ESB þýddu? Stóðu þeir í þeirri meiningu að samþykkt aðildarviðræðna við ESB væri leikaraskapur? Ábyrgðarlaus og meiningarlaus dúsa upp í samstarfsflokkinn til að fá hann til samstarfs? Ferli sem engin alvara væri á bak við?

Það er ótrúlegt að hlusta á íslenska stjórnmálamenn hvort heldur eru í Vinstri grænum eða Sjálfstæðisflokknum fjalla opinberlega um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Engin þjóð fer í aðildarviðræður við ESB nema að meina það í alvöru. Að sækja um og fara í ferli aðildarviðræðna er ekki eitthvert grín. Einhver leikaraskapur til að „tékka á því hverju hægt er að ná fram" eins og hefur verið vinsæl tugga á meðal Sjálfstæðismanna.

Þjóð sem vill láta taka sig alvarlega í alþjóðasamskiptum fer ekki út í kostnaðarsamar viðræður upp á grínið. Hún gerir það af alvöru með það að markmiði að ná sem bestum samningi - punktur.

Að leggja af stað í leiðangurinn með annað að markmiði en að ná bestu mögulegu samningum fyrir Ísland og Íslendinga er fullkomið ábyrgðarleysi og svívirða hvort heldur er við almenning á Íslandi eða samningsaðilann Evrópusambandið.

Núna eftir að samningaviðræður eru hafnar á að klára þær og það á að gera það af reisn, fagmennsku og metnaði fyrir Íslands hönd. Það er eina verkefnið sem er á dagskrá núna. Þegar samningaviðræðum er lokið kemur í ljós hvernig til hefur tekist. Þá er komið að okkur almenningi á Íslandi að segja til um hvort verkefnið hafi tekist nægilega vel eða ekki.

Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði pistil á Pressuna í gærkvöld þar sem hún reifaði vandræðagang innan ríkisstjórnarinnar. Í pistli sínum sagði hún m.a.„Víst er, að framganga Samfylkingarinnar í ESB málinu hefur haft svo alvarlegar afleiðingar á þingmenn vinstri grænna marga hverja, að sá ágreiningur sem rís í einstökum málum magnast upp og verður nánast óviðráðanlegur vegna óbilgirni forystumanna ríkisstjórnarinnar í því máli og sér í lagi Samfylkingarinnar. „

Það leynir sér ekkert á þessum orðum eða framgöngu meirihluta þingmanna Sjálfstæðismanna að þeir ætla að berjast fyrir því til síðasta blóðdropa að koma samningaviðræðum við ESB fyrir kattarnef og vinna þannig sleitulaust að því að brjóta á bak aftur lýðræðislega tekna ákvörðun Alþingis Íslands.

Ábyrgðarleysi þessara stjórnmálamanna er ólíðandi. Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru hafnar og standa yfir. Þær viðræður byggja á samþykkt Alþingis frá 16. júlí 2009 og samþykkt Leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 17. júní 2010.

Alþingi Íslendinga hefur afgreitt málið og það er nú í höndum ríkisstjórnar Íslands að leiða málið til lykta. Ríkisstjórn Íslands hefur það eina hlutverk í þessu máli núna að vinna að því öllum árum að ná besta mögulega samningi í aðildarviðræðunum. Það er verkefnið og ekkert annað.

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...