þriðjudagur, 18. janúar 2011

Stríð um hugmyndafræði

Hitti stúlku á dögunum sem ég hef þekkt í tæplega 25 ár. Manneskja sem ég faðma og kyssi þegar ég rekst á hana á förnum vegi og spjalla lengi en við hittumst ekki eða eigum önnur samskipti. Mér þykir óskaplega vænt um þessa stúlku. Kynntist henni sem ungum eldhuga sem fyrst og síðast þótti vænt um fólk og gaf af sér svo það lak af henni sjarminn í allar áttir. Þannig er hún enn - galopin og heillandi.

Þessi stúlka sagði mér það að hún þyldi ekki Ísland þennan áratug. Hún sagði mér líka að það væri alltaf verið að banna henni að segja þetta - hún mætti ekki vera svona neikvæð. Hún segir það samt - og segir það með ást í augum því henni þykir augljóslega enn vænt um fólk og kann ekki annað.

Hún sagði mér að hún og fjölskyldan hennar fluttist til annars Evrópulands í tvö ár og hún grét í hálft ár að þurfa að koma aftur heim.

Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í samræður okkar hér en þær voru upplifun fyrir mig. Það var upplifun að hitta manneskju sem iðaði af lífi og áhuga og ást á því - segja það upphátt ófeimin að hún þyldi ekki íslenskt samfélag í dag og var með það á hreinu af hverju það væri. Sjálfhverft „ég um mig frá mér til mín" samfélag.

Þessi stúlka hafði mörgu að miðla og mikið að gefa og ég velti fyrir mér hvort að íslenskt samfélag muni leyfa henni að halda elmóðnum og áhuganum og hvort hún muni fá þá örvun og stuðning sem hugur hennar augljóslega þarf.

Ég vil vinna að því. Ég vil vinna að því að íslenskt samfélag breyti um kúrs. Ég vil búa í víðsýnu alþjóðlegu samfélagi þar sem tækifæri til athafna eru ekki bara til handa sérvöldum hópi heldur handa okkur öllum.

Það fer ekkert á milli mála í mínum huga að á Íslandi í dag ríkir stríð um hugmyndafræði. Hver vinnur í því stríði breytir öllu um hvernig Ísland framtíðarinnar verður. Afturhaldsöflin eru gríðarlega sterk og þau eru að finna í öllum stjórnmálaflokkum. Þau ætla sér að sigra - það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga. Þau leita allra leiða til að koma sér fyrir í áhrifastöðum sem skipta máli og hingað til hefur þeim orðið ágætlega ágengt og þau eru ekki hætt...

Það andvaraleysi sem frjálslyndi hópurinn í íslensku samfélagi sýnir nú um stundir með því að ríghalda í stjórnmálaflokkinn sinn sama á hversu fráleitri leið hann er er stórhættulegur. Andvaraleysi á tímum eins og núna er stórhættulegt.

Við sem viljum að Ísland verði víðsýnt, frjálslynt opið - gott samfélag - verðum að fara að átta okkur á því að dagurinn í dag skiptir máli.

Áunnin réttindi skipta máli - þau eru aldeilis ekki sjálfsögð - við höfum fengið margar áminningar um það síðustu misseri. Það skiptir máli að taka afstöðu - að standa með sjálfri sér og sinni sýn á framtíðina. Að öðrum kosti eigum við - þessi hópur sem ég veit að er til þarna úti - á hættu að búa í allt öðru samfélagi næstu áratugi en við kærum okkur um.

Samfélagi sem byggir á hugmyndafræði feðraveldisins og þröngsýninnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...