fimmtudagur, 27. janúar 2011

Flokkurinn sem kann...

Að hlusta á ræðu Ólafar Nordal í ræðustól Alþingis í dag gjörsamlega ærði mig af reiði. Það eru svo sem engin ný tíðindi í því fyrir þá sem þekkja mig að slíkt gerist en það var samt sínu verra í dag en oft áður.

Að hlusta á hana - varaformann Sjálfstæðisflokksins halda því fram - blákalt - og af fullu sjálfsöryggi að núverandi ríkisstjórn sé einfær um að viðhafa óvandað verkleg var meira en hægt er þola. Það eru mörk á því hvað hægt er að bjóða manni upp á og yfirlýsingar í þessa veru lýsa fullkominni veruleikafirringu og sjálfhverfu af verstu tegund.

Það skal tekið fram áður en lengra en haldið að með þeirri fullyrðingu er ekki verið að verja framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings og ábyrgð ríkisstjórnarinnar á því máli.

En að hún - þessi ríkisstjórn - viðhafi almennt verra verklag og sé óábyrgari en þær sem fyrir voru er rakalaus þvættingu svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég hef nú í tvö ár þurft að hlusta á þennan söng. Sjálfstæðismenn hrópa hátt um óvandað verklag, um samráðsleysi um kunnáttuleysi annarra og get ég bara ekki hlustað á meira af slíku.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í Stjórnarráðinu í áratugi hefur þróast hér á landi gagnrýnis- og aðhaldslaus stjórnsýsla sem gerir oftar en ekki það sem henni sýnist. Fagmennska er sannarlega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug eftir að hafa kynnst því stjórnkerfi. Óvönduð vinnubrögð hafa viðgengist hér í stjórnarráðinu áratugum saman undir stjórn - með blessun og - á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins.

Og nú verð ég að biðja þá sem eru faglegir að fyrirgefa mér - því sannarlega fyrirfinnst vandað verklag innan íslensku stjórnsýslunnar.

Að ríkisstjórn Íslands brjóti lög eru engin ný tíðindi. Það vitum við öll sem lifað höfum í íslensku samfélagi undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í áratugi og ég frábið mér slíkar yfirlýsingar.

Það er fyrir löngu kominn tími til að breyta því verklagi. Það hefur umboðsmaður Alþingis bent á ótal, ótal, ótal sinnum - án árangurs. Það er augljóst að það verður ekki gert á einum degi. Tala nú ekki um þegar sami flokkur og hefur komið á þessu verklagi er orðinn algjörlega óábyrgur stjórnarandstöðuflokkur sem hugsar ekki um neitt annað en að viðhalda sjálfum sér. En sem merkilegt nokk þjóðin hlustar enn á - kann ekki annað.

Að koma í gegn lögum á Alþingi um stjórnlagaþing með Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu var ekki auðvelt verk - en það tókst. Allar götur síðan hefur sami flokkur unnið að því öllum árum að eyðileggja það.

Það var þrekvirki að koma málinu í gegn með þennan stóra stjórnarandstöðuflokk sem enn hefur svo mikið vald í huga fólksins en það tókst.

Nú hefur flokknum tekist það sem hann ætlaði sér - að ná fram vilja sínum í gegnum Hæstarétt - stjórnlagaþingskosningarnar hafa verið dæmdar ógildar vegna tæknilegra ágalla sem rekja má til þess að áhugi almennings á málinu reyndist meiri en stjórnkerfið réði við.

Og þá... hlakkar í þessum sama stjórnmálaflokki og hann ber sér á brjóst.

Sem fyrr er honum skítsama um allt annað en að viðhalda sjálfum sér. Hafið skömm fyrir!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...