Alþingi Íslendinga samþykkti með meirihluta greiddra atkvæða 16. júlí 2009 að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ásmundur Einar Daðason þingmaður Vinstri grænna lét hafa eftir sér í Kastljósi í gær að „margir þeir sem studdu þá umsókn væru að fyllast efasemdum um að það ferli væri í þeim farvegi sem þeir vildu sjá það í upphafi".
Þessi orð Ásmundar krefjast skýringa. Hvað héldu þeir Vinstri grænir þingmenn sem fóru í samstarf við Samfylkinguna í ríkisstjórn að aðildarviðræður við ESB þýddu? Stóðu þeir í þeirri meiningu að samþykkt aðildarviðræðna við ESB væri leikaraskapur? Ábyrgðarlaus og meiningarlaus dúsa upp í samstarfsflokkinn til að fá hann til samstarfs? Ferli sem engin alvara væri á bak við?
Það er ótrúlegt að hlusta á íslenska stjórnmálamenn hvort heldur eru í Vinstri grænum eða Sjálfstæðisflokknum fjalla opinberlega um aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Engin þjóð fer í aðildarviðræður við ESB nema að meina það í alvöru. Að sækja um og fara í ferli aðildarviðræðna er ekki eitthvert grín. Einhver leikaraskapur til að „tékka á því hverju hægt er að ná fram" eins og hefur verið vinsæl tugga á meðal Sjálfstæðismanna.
Þjóð sem vill láta taka sig alvarlega í alþjóðasamskiptum fer ekki út í kostnaðarsamar viðræður upp á grínið. Hún gerir það af alvöru með það að markmiði að ná sem bestum samningi - punktur.
Að leggja af stað í leiðangurinn með annað að markmiði en að ná bestu mögulegu samningum fyrir Ísland og Íslendinga er fullkomið ábyrgðarleysi og svívirða hvort heldur er við almenning á Íslandi eða samningsaðilann Evrópusambandið.
Núna eftir að samningaviðræður eru hafnar á að klára þær og það á að gera það af reisn, fagmennsku og metnaði fyrir Íslands hönd. Það er eina verkefnið sem er á dagskrá núna. Þegar samningaviðræðum er lokið kemur í ljós hvernig til hefur tekist. Þá er komið að okkur almenningi á Íslandi að segja til um hvort verkefnið hafi tekist nægilega vel eða ekki.
Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði pistil á Pressuna í gærkvöld þar sem hún reifaði vandræðagang innan ríkisstjórnarinnar. Í pistli sínum sagði hún m.a.„Víst er, að framganga Samfylkingarinnar í ESB málinu hefur haft svo alvarlegar afleiðingar á þingmenn vinstri grænna marga hverja, að sá ágreiningur sem rís í einstökum málum magnast upp og verður nánast óviðráðanlegur vegna óbilgirni forystumanna ríkisstjórnarinnar í því máli og sér í lagi Samfylkingarinnar. „
Það leynir sér ekkert á þessum orðum eða framgöngu meirihluta þingmanna Sjálfstæðismanna að þeir ætla að berjast fyrir því til síðasta blóðdropa að koma samningaviðræðum við ESB fyrir kattarnef og vinna þannig sleitulaust að því að brjóta á bak aftur lýðræðislega tekna ákvörðun Alþingis Íslands.
Ábyrgðarleysi þessara stjórnmálamanna er ólíðandi. Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru hafnar og standa yfir. Þær viðræður byggja á samþykkt Alþingis frá 16. júlí 2009 og samþykkt Leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 17. júní 2010.
Alþingi Íslendinga hefur afgreitt málið og það er nú í höndum ríkisstjórnar Íslands að leiða málið til lykta. Ríkisstjórn Íslands hefur það eina hlutverk í þessu máli núna að vinna að því öllum árum að ná besta mögulega samningi í aðildarviðræðunum. Það er verkefnið og ekkert annað.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
föstudagur, 7. janúar 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli