Hjá mér verður ekki eftirsjá að árinu 2010. Hlakka raunar til að sjá það ártal hverfa af sjónvarpsskjánum og ártalið 2011 taka við. Leyfi mér að vona að á því ári takist okkur að komast upp úr hjólförunum og horfa til framtíðar.
Skal játa að mér rann í skap þegar ég las lítlar greinar í Fréttatímanum í morgun þar sem upplýst var um álit þingmanna flokkanna á aðild Íslands að ESB og til gjaldmiðlilsins. Snöggreiddist yfir því hversu ómögulegt það virðist vera fyrir stjórnmálamenn þessa lands að átta sig á að heimurinn hefur breyst.
Til að allrar sanngirni sé gætt er þó ljós í myrkrinu að stjórnmálamenn Samfylkingarinnar skuli átta sig á þessu aðalatriði og þess vegna mun ég halda áfram að styðja þann flokk.
Ísland þarf að taka sér stöðu í samfélagi þjóðanna. Það er heillavænlegt fyrir okkur hvernig sem á málið er litið - hvort sem er frá öryggissjónarmiði eða viðskiptasjónarmiði. Evrópusambandið hefur stækkað ört síðusta áratuginn og það er hagur að því fyrir heiminn allan.
Umræðan hér á landi um ESB er á þvílíku fornaldarstigi það er óskiljanlegt. Aldrei er talað um aðild okkar að EES - hvað hún leiðir af sér og hvers konar fyrirbæri það er í heimi þar sem allt annað breytist. Þingmenn okkar tala eins og EES sé ákjósanleg staða fyrir sjálfstæða þjóð til framtíðar.
EES samningurinn er kyrrstaða. Kyrrstaða og stöðnun á meðan sameiginlegur markaður 27 ESB landa þróast og tekur stöðugum breytingum. Við stöndum fyrir utan alla umræðu þar sem stefnumótandi ákvarðanir um framtíð sambandsins eru teknar.
Bara til að taka eitt nærtækt dæmi þá á sér núna stað heilmikil vinna innan Evrópusambandsins um þróun tollakerfisins „Modernised Customs Code". Við stöndum fyrir utan þessa umræðu og ákvarðanir sem þar eru teknar. Okkar hagsmunir í viðskiptum við aðrar þjóðir verða ekki uppi á borðinu í þessari þróunarvinnu frekar en annarri. Það sama á við um þróunarvinnu sambandsins í samgöngumálum. Við erum ekki aðilar að þeirri stefnumótun.
Það vill svo til að utanríkisviðskipti Íslendinga eru að langmestu leyti við aðildarríki Evrópusambandsins. Þannig hafa allar breytingar á þessum markaði bein áhrif á viðskiptaumhverfi okkar. Að láta eins og okkur komi það ekki við er dæmi um að okkur sé ófært að hugsa um eigin hagsmuni.
Við kjósum frekar að láta Evrópusambandsþjóðirnar einar um stefnumótun og þróun í okkar hagsmunamálum og treystum svo embættismannakerfinu til að túlka og innleiða regluverkið að sínu höfði inn í íslenskan rétt. Stjórnmálamennirnir fría sig allri ábyrgð og eru ekki þátttakendur í þessu ferli. Stjórnmálamennirnir - þeir sem við kjósum til að fara með okkar mál.
Að búa við þetta fyrirkomulag til langrar framtíðar er óþolandi staða. Að hlusta á stjórnmálamennina tala eins og þetta sé ákjósanleg framtíð fyrir okkur í þessu landi er óþolandi. Algjörlega óþolandi.
Evrópusambandið er fyrst og síðast stór markaður þar sem aðildarþjóðirnar vinna að því til lengri framtíðar að samræma reglur á milli landanna til að auðvelda viðskipti. Við Íslendingar þurfum að átta okkur á því að með því að standa fyrir utan missum við af lestinni.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
föstudagur, 31. desember 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli