fimmtudagur, 16. desember 2010

Veggjöld af því bara

Aldrei þessu vant kveiktu fréttir RÚV í mér líf. Umræða um veggjöld var ein þeirra sem hafði þessi áhrif á mig. Stenst ekki mátið að fjalla um þetta efni nú þegar ég hef fullt frelsi til þess að hafa þær skoðanir sem mér sýnist.

Ég er stuðningsmaður veggjalda. Ég vil sjá stórhuga framkvæmir í samgöngumálum á Íslandi. Verulega bættar samgöngur á milli landshluta eru fyrir mér hin eina sanna byggðastefna. Vil ganga svo langt að ég vil sjá byltingu á þessu sviði hér á landi. Sú bylting mun aldrei verða án þess að taka upp veggjöld.

Ég er stuðningsmaður veggjalda á faglegum forsendum. Ég er ekki stuðningsmaður þeirra vinnubragða sem íslensk stjórnvöld viðhafa í þessum málaflokki þar sem engar kröfur eru gerðar um forsendur, samanburð eða yfirhöfuð nokkurn hlut sem við fáum að vita af.

Ákvörðunin er tekin af því að ráðherranum finnst það rétt að fara í framkvæmdina og kröfur um forsendur eru engar. Slík vinnubrögð eiga ekki að líðast - hvorki í þessum málaflokki eða öðrum. (Það skal sérstaklega tekið fram að það á ekki einungis við um núverandi stjórnvöld. Verklagið sem viðhaft hefur verið í þessum málaflokki hefur ekkert með flokkspólitík að gera frekar en svo margt annað sem þarfnast gagnrýni við.)

Veggjöld eru þekkt aðferð til að fara í dýrar samgönguframkvæmdir sem annars yrði ekki farið í. Norðmenn hafa notað veggjöld til að fjármagna dýrar samgönguframkvæmdir í áratugi. Þar er aðferðin þekkt og þar er það alls ekki forsenda að önnur leið þurfi að vera möguleg fyrir vegfarandann. Mig grunar án þess að vita það fyrir víst að sú hugmynd sé alfarið íslensk og eigi sér enga hliðstæðu annars staðar en það er öllum frjálst að upplýsa dæmi um annað.

Við Íslendingar þekkjum veggjöld lítið enda verður seint sagt að íslensk stjórnvöld hafi fram til þessa verið stórhuga um verulegar úrbætur í samgöngumálum landsins

Við höfum þó kynnst einni stórframkvæmd þar sem veggjöld voru forsenda þess að farið var út í þá framkvæmd. Hvalfjarðargöng voru byggð með veggjöldum.

Hvalfjarðargöng voru bylting. Stórkostleg samgöngubylting. Þau voru bylting fyrir líf í landinu. Ekki bara fyrir almenna vegfarendur heldur fyrir byggðirnar og atvinnulíf á svæðunum í kring að minnsta kosti og kannski fyrir byggðirnar og atvinnulíf í landinu öllu. Í þessa framkvæmd hefði aldrei verið farið án þess að taka upp veggjöld.

Það eru framkvæmdir í þessa veru sem ég vil sjá farið í með veggjöldum. Framkvæmdir sem skipta mjög miklu máli og hafa verulega samfélagslega þýðingu.

Framkvæmdir sem breyta því að búa í þessu dreifbýla landi. Uppbygging heilsársvegar yfir Kjöl er dæmi um slíka hugmynd. Hef sjaldan verið jafn spennt yfir hugmynd og sjaldan jafn sorgmædd að sjá hugmynd drepna í fæðingu eins og raunin varð.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB gagnrýndi harðlega í Speglinum í kvöld þá ákvörðun stjórnvalda og Alþingis að hér yrði farið út í dýrar samgönguframkvæmdir eins og tvöföldun Suðurlandsvegar og Vaðlaheiðargöng á forsendum þess að tekin yrðu upp veggjöld til að fjármagna framkvæmdirnar án þess að umræða um það mál hafi nokkurn tíma átt sér stað hjá almenningi í landinu.

Undir þessa gagnrýni Runólfs tek ég heils hugar. Hvaða skoðanir sem ég hef á viðkomandi framkvæmdum er verklag málsins allt stórkostlega gagnrýnivert og full ástæða til að vekja athygli á því.

Þetta mál allt er dæmi um verklag á Íslandi sem við verðum að breyta. Það á ekki að taka byltingarkenndar ákvarðanir í lokuðu rúmi Stjórnarráðsins og láta svo Alþingi stimpla þá ákvörðun. Við verðum að læra að hluti eins og þessa þarf almenningur í landinu að fá andrými til að ræða og hafa skoðun á áður en þeir eru gerðir að lögum.

Það á ekki að taka upp veggjöld af því bara...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...