Var heiti á misserisverkefni sem ég ásamt hópi nemenda á Bifröst vann að haustið 2001. Verkefnið rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég hlustaði á fréttir af gallaðri endurskoðun Glitnis og Landsbankans árin fyrir hrun bankanna.
Þess ber að geta að ég tel mig þess ekki umkomna að segja eitt eða neitt um hvort ávirðingar á viðkomandi endurskoðendafyrirtæki eiga rétt á sér eða ekki. Í mínum huga er augljóst að hjarðhegðun okkar síðasta áratug - gagnrýnisleysi á það sem var að gerast náði yfir samfélagið allt og endurskoðunarfyrirtæki voru augljóslega sama marki brennd og allir hinir.
Ef við ætlum að hafa gagn af því sem hér gerðist til framtíðar eigum við fyrst og síðast að læra að gagnrýnisleysi er beinlínis stórhættulegt. Að mínu viti miklu gagnlegri lærdómur en allar nornaveiðar og ábendingar á einstaka sökudólga til samans.
Verkefnið snerist um meðferð gengismunar í ársreikningum íslenskra fyrirtækja en þá þegar árið 2001 voru menn byrjaðir að hafa áhyggjur af frjálslegri meðferð alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi á reikningsskilareglum og áhrifum þess að fyrirtæki völdu aðferðir til að nota í reikningsskilum sínum. Það gátu þau gert í ljósi þess að lagaumgjörðin var alls ekki skýr og hafði í raun alls ekki fylgt eftir þeim gríðarlegu breytingum sem orðið höfðu á skömmum tíma á fjármagnshreyfingum til og frá landinu
Verkefnið var mjög lærdómsríkt. Ekki síst fyrir þær sakir að fá nasaþef af því hvernig þróun þessa málaflokks var háttað á Íslandi. Verkefnið leiddi í ljós að eins og í mörgum öðrum málaflokkum settu Íslendingar ekki lög um ársreikninga fyrr en þeir voru knúnir til þess árið 1994 vegna inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið. Við vorum að slíta barnsskónum á þessu íhaldsama sviði á sama tíma og fyrirtækin okkar voru á fullri ferð í útrásinni sem átti eftir að hafa svo afdrifaríkar afleiðingar
Gerð voru afdrifarík mistök í þýðingu regluverks Evrópusambandsins sem þrátt fyrir ábendingar sérfróðra manna um efnið voru hundsuð og mistökin fóru óleiðrétt inn í íslenskan rétt.
Það þurfti ekki að leita lengi til að finna dæmi þess að það sem Íslendingar voru að glíma við á þessum tíma var ekki séríslenskt fyrirbæri heldur sambærilegt við það sem önnur ríki höfðu gengið í gegnum áður og því virtist augljóst að við gætum leitað í smiðju þeirra eftir þekkingu á þessu sviði.
Íslendingar þurftu þess ekki - voru einfærir um að búa til sín lagafrumvörp innan stjórnsýslunnar án samráðs við þá sem best þekktu til.
Stefán Svarsson nú prófessor við Háskólann á Bifröst þáverandi dósent við viðskiptadeild H.Í. löggiltur endurskoðandi og sérfræðingur um reikningsskil lét sér þessi mál mjög varða og var óþreytandi að benda stjórnvöldum á nauðsyn þess að taka upp alþjóðlega staðla um reikningsskil í stað þess að setja lög sem voru byggð á misskilningi í grunninn. Hann átaldi mjög samráðsleysi stjórnvalda við sérfræðinga um reikningsskil við breytingar á lögunum og til að leggja áherslu á gagnrýni sína sagði hann af sér sem formaður reikningsskilaráðs í byrjun árs 2003 en frétt um það má finna hér á vef Morgunblaðsins: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=716684.
Forystumenn íslenskra stjórnmála létu þessa gagnrýni sem vind um eyrun þjóta og létu í ljósi það álit að gagnrýnin væri ómakleg: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=716989
Því er þessu velt upp hér að við erum enn að smíða lagafrumvörp og afgreiða þau með þessum hætti eins og gert var 2001 og áreiðanlega mörg ár þar á undan.
Þetta verklag á að vera það sem við eigum að kappkosta með öllum ráðum að breyta. Það mun ekki gerast með háværri stjórnarandstöðu eins og nú sem gengst ekki við neinni ábyrgð á verklagi sínu í fortíðinni og heldur heilu ræðurnar um að verklag núverandi stjórnvalda sé miklu verra en verklag fyrri stjórna.
Skortur á fagmennsku við smíði lagafrumvarpa og meðferð þeirra þar til þau verða að lögum er ekki flokkspólitískt mál. Það breytir nákvæmlega engu hvaða stjórnmálaflokkar eru við stjórnvölinn í þessu kerfi eins og það er.
Það sem þarf að breyta er kerfið sjálft.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli