þriðjudagur, 5. apríl 2011

Valið stendur um dramb eða auðmýkt

Á laugardaginn verður gengið til kosninga á Íslandi. Niðurstaða þessara kosninga skiptir mig verulega miklu máli. Kosningarnar á laugardaginn eru fyrir mér mælikvarði á það hvers konar samfélag við ætlum gefa út að við séum. Kosningarnar snúast ekki um lögfræði og því síður um peninga.

Kosningarnar snúast um hvort við ætlum að halda áfram að vera sjálfhverf þjóð uppfull af rembu eða hvort við ætlum að snúa við blaðinu og láta eins og menn.

Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóri, nú ritstjóri áróðurspésans Morgunblaðsins, viðhafði þessi orð í Kastljósþætti kvöldið minnistæða 7. október 2008: „...að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna". Þessi setning er lifandi enn og viðhöfð af stórum hluta þeirrar þjóðar sem ég tilheyri. Ég skammast mín í hvert skipti sem ég heyri þessa setningu. Skammast mín fyrir að vera Íslendingur.

Ég er á hverjum degi að borga skuldir óreiðumanna og get ekki annað. Hversu mjög sem ég vildi komast hjá því - þá get ég það ekki. Óreiðumennirnir eru margir og þá er að finna víða. Fyrst og fremst er ég að borga fyrir brjálæði síðasta áratugar - sem ég NB vildi aldrei - með gengi krónunnar á hverjum einasta degi.

Lífskjör mín hafa verið skert stórkostlega og eignin er farin. Bráðum kemur kannski að því að bankinn hirði af mér húsnæðið í orðsins fyllstu merkinu - það á eftir að koma í ljós.

Ákvörðun um það hvort ríkissjóður Íslands gengst í ábyrgð fyrir Icesave eða ekki er ekki spurning um peninga. Það vitum við öll og þarf ekki að endurtaka. Ríkissjóður þarf að taka á sig, og hefur tekið á sig, margfaldar þær upphæðir sem hann kannski þarf að greiða vegna Icesave.

Icesave snýst um valdabaráttu. Valdabaráttu þeirra sem vilja halda áfram sjálfhverfunni og drambseminni og vilja umfram allt fá að halda völdum yfir þjóðinni og yfir okkur hinum sem viljum lifa í siðuðu samfélagi við aðrar þjóðir.

Afstaða meirihluta kjósenda á laugardaginn snýst um ábyrgð eða ábyrgðarleysi. Hvort við ætlum að halda áfram að vera sú ábyrðgarlausa, sjálfumglaða, drambsama þjóð sem við höfum verið frá upphafi aldarinnar eða hvort við ætlum segja skilið við þá hugmyndafræði og taka upp nýja siði. Nýja siði byggða á gömlum merg.

Það er ekki spurning hvert val mitt verður loksins þegar ég fæ tækifæri til að tilheyra hópi sem kýs aðra leið en þessi sjálfumglaði, hrokafulli hópur sem hefur skilið íslenskt samfélag eftir í rústum.

Ég kýs sjálfsvirðingu og ábyrgð. Ég segi já.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...