Fyrir mér lýsir Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins frá í dag forgangsatriði íslenskra stjórnmála - stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna til framtíðar. Það er það sem skiptir öllu máli og það er sú stefna sem mun ráða því hvaða flokk ég kýs í kosningunum í vor. Framsóknarflokkurinn var ekki sannfærandi með yfirlýsingum formanns í kjölfar landsfundar. Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að gefa út hvaða stefnu hann tekur á landsfundi. Samfylkingin er enn eini flokkurinn sem hefur ESB aðild á dagskrá. Það skiptir máli hvernig flokkurinn heldur á því máli fram að kosningum - hversu mikla áherslu hann mun leggja á það stefnumál.
Jens Stoltenberg á heiður skilinn fyrir að segja svo afdráttarlaust að aðild Íslendinga að mynsamstarfi um norsku krónuna kæmi ekki til greina. Það voru vonandi nægilega skýr skilaboð til að þagga niður í þeirri fánýtu umræðu. Íslendingar þurfa aðstoð forystumanna annarra þjóða til að komast út úr sjálfsblekkingunni. Árátta þjóðarinnar í að leita lausna á gjaldmiðilsvandanum annarra en þeirra að sækja um aðild að ESB er þreytandi og í því samhengi var þetta framlag norska forsætisráðherrans okkur til hjálpar vel þegið.
Ég sat í gær fund undir yfirskriftinni „The Way Ahead: Challenges and opportunities for Iceland". Um nákvæmlega þetta snýst sannfæring mín um aðild Íslands að ESB. Íslendingar standa á tímamótum. Við þörfnumst tækifæra, þörfnumst þess að búa hér til aðstæður sem opna möguleika á raunverulegri fjölbreytni í atvinnulífi. Aðild að ESB er slíkt tækifæri. Það snýst um aðild að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins fyrst og síðast og stefnu á upptöku evru til framtíðar.
Það þarf ekki flóknari upplýsingar til að taka afstöðu með aðild. Íslendingar þurfa ekki að gerast sérfræðingar í ESB til að taka ákvörðun um hvað þeir vilja. Þeir þurfa ekki að leggjast í lestur fræðigreina um sambandið til að taka afstöðu eins og oft er látið að liggja í umræðunni. Það er og verður ekki til eitt rétt eða rangt svar um hvaða afleiðingar aðild að ESB mun hafa.
Það sem þarf er að átta sig á þeirri stöðu sem Ísland hefur í dag og hversu mikil áhrif þessi eina ákvörðun getur haft á þá stöðu. Það þarf ekki annað en hugsa um hvaða áhrif það hefur á íslenskt atvinnulíf að í stað þess að Ísland sé "heimamarkaðurinn" verður Evrópusambandið allt "heimamarkaðurinn". Það er ekki flókið að sjá fyrir sér hversu mikil breyting fælist í þeirri breytingu einni saman. Tala nú ekki um fyrir rekstur hvaða fyrirtækja sem er að hafa tekjur og kostnað að stærstum hluta í sama gjaldmiðli til framtíðar litið en langstærsti hluti Íslendinga við útlönd er við lönd Evrópusambandsins.
Fyrir okkur einstaklingana í íslensku samfélagi skiptir þessu ákvörðun sköpum um framtíðina. Aðild að ESB þýðir fjölbreyttari atvinnutækifæri til framtíðar litið, meiri möguleika á raunverulegri samkeppni fyrirtækja á innanlandsmarkaði, meiri möguleika á fjölbreytni í erlendum fjárfestingum hér og svo mætti lengi áfram telja. Aðild að ESB styrkir sjálfstæði þjóðarinnar hvernig sem á málið er litið. Aðild að EES má með réttu kalla fullveldisafsal, aðild að ESB yrði skref í átt til endurheimtar fullveldisins.
Það er augljóst að staðan í íslenskum stjórnmálum er þannig núna að allt getur gerst. Hvaða stefnu flokkarnir taka hvað varðar stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna skiptir öllu máli. Röðun fólks á lista flokkanna skiptir líka öllu máli. Þetta tvennt mun fyrst og fremst ráða því hvaða val verður um að ræða í kosningunum í vor. Ég á þá ósk heitasta að íslenska þjóðin muni hafa þá skynsemi til að bera að kjósa sterka lista í komandi prófkjörum til að auðvelda okkur eftirleikinn í kosningunum í vor.
Afstaða flokkanna og fólksins sem verður þar í forystu í kosningunum í vor skiptir öllu máli um framtíðarmöguleika okkar Íslendinga til framtíðar.. Mun meira máli en allar fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar og breytingar á stjórnskipulagi til samans. Það er ekki til patentlausn á íslenskum stjórnarfarsvanda en það er til lausn sem leiðir okkur á rétta braut hraðar en okkur órar fyrir.
Gerum aðild að ESB að sameiginlegri forgangskröfu okkar um breytingar til framtíðar!
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli