föstudagur, 6. mars 2009

Innköllum kvótann...

...var fyrirsögn á grein eftir Björgvin G. Sigurðsson sem ég las á Pressuvefnum í dag. Minnti mig óþyrmilega á af hverju ég sagði mig úr Samfylkingunni á haustmánuðum. Hvernig dettur stjórnmálamönnum sem vilja láta taka sig alvarlega í hug að segja svona lagað í dag? Í dag þegar fyrirtækin í landinu eru meira og minna komin í ríkiseigu og einu raunverulegu verðmætin eru kannski sjávarútvegsfyrirtækin sem til eru? Mér verður hreinlega allri lokið þegar ég heyri svona hugmyndir.

Í greininni er talað um þetta hróplega „óréttlæti" sem átti sér stað þegar kvótanum var úthlutað á sínum tíma.

Stjórnmálamenn sem tala í þessa veru mættu gjarna gera sér grein fyrir því að hugmyndir Evrópusambandsins í dag um að fella flugfélögin undir mengunarkvóta ESB eru byggðar á nákvæmlega sömu hugmyndafræði og kvótakerfið íslenska. Nákvæmlega sama „óréttlætið" er þar uppi á teningnum. Það eina sem skilur þessar tvær hugmyndir að er að í hugmyndum ESB á verðið fyrir kvótann að falla til ríkisins - ríksins þar sem loftfarið er skráð sem kaupir kvótann.

Það verð ég að segja og segi það algjörlega tæpitungulaust að mér finnst þó skárra að verðið fyrir kvótann sé inni í atvinnugreininni og fari á milli manna þar heldur en að það falli í ríkissjóð. Það er þó betra að þeir peningar sem með þessum hætti eru búnir til haldist innan greinarinnar sjálfrar heldur en að þeir falli í hendur ríkissjóðs sem síðan eyðir þeim í auglýsingar um að við eigum öll að bursta tennurnar eða þaðan af fánýtari hluti.

Það er kominn tími til að menn geri sér grein fyrir því að takmörkun á auðlind þýðir „óréttlæti". Hjá því verður ekki komist. Orðið „takmörkun" eitt og sér ber í sér merkingu sem engum hugnast sérstaklega vel. Það á sannarlega við um mengunarkvóta ESB og fáir ættu að gera sér betur grein fyrir því en Íslendingar. Með kvótasentingu sem meiningin er að miðist við árin 2004 - 2006 er verið að setja flugfélögunum sem við notum til að komast til og frá landinu veruleg takmörk. Það er verið að bút til kerfi utan um starfsemi flugfélaga eins og hún var á þessum árum 2004 - 2006. Hvaða „réttlæti" er það? Hvaða réttlæti er fólgið í því að þau flugfélög sem voru sterk á þessum árum njóti einhverra forréttinda umfram önnur flugfélög sem voru sterk á árum áður eða hafa orðið sterk síðan? Svarið er - ekkert „réttlæti". Það er yfirhöfuð ekkert kerfi til sem tryggir „réttlæti" í takmörkun af þessu tagi.

Ég tek það fram að ég er ekki sérfræðingur um kvótakerfið íslenska. Efast ekki um það eitt augnablik að það má lagfæra og bæta. En þegar því er haldið fram að okkur öllum Íslendingum sé best borgið með því að koma þessum atvinnuvegi líka í hendur ríkisins segi ég - NEI með stórum stöfum. Það að ríkið fái verðmætin af sölu á kvóta tryggir ekkert réttlæti í mínum huga og ég neita slíkum hugmyndum alfarið.

Hugmyndir Samfylkingarinnar um „sameign þjóðarinnar" eru ástæðan fyrir því að ég hef aldrei verið sannfærð í flokknum sem er aftur ástæðan fyrir því að ég sagði mig úr honum á haustmánuðum.

Þessar gælur flokksins við kommúnisma í formi óræðrar umræðu um grunvallaratriði þoli ég ekki. Gallinn er að allir hinir flokkarnir láta eins og þeir séu sammála þessu. Þannig að skjólið er ekkert. Það er ekki til valkostur þegar kemur að því að vera ósammála þessari arfavitlausu umræðu landans um „sameign þjóðarinnar". Þess vegna er best að standa utan flokka og leyfa sér að hafa sjálfstæðar skoðanir á því sem frá þeim kemur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...