Forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hélt fína ræðu á Viðskiptaþingi í vikunni. Ræðu á jákvæðum nótum þar sem hún reyndi að höfða til skynsemi og ábyrgðar stjórnenda atvinnulífsins. Það sem fyrst og fremst hreif mig í ræðu hennar var að hún talaði um það sem gerst hafði á almennum nótum. Hún benti ekki á einhverja tiltekna aðila sem sökudólga fyrir því að svo fór sem fór.
Eitt fór hún þó rangt með í ræðu sinni að mínu mati og það er erindi mitt hér. Það er hversu lítið er gert úr hlut stjórnmálamanna í því sem gerðist. Stjórnmálamenn á Íslandi bera fyrst og fremst ábyrgð á því sem hér gerðist - miklu og mun meiri ábyrgð en allir aðrir.
Það voru stjórnmálamennirnir sem bjuggu hér til það umhverfi sem viðskiptalífið hefur starfað í. Það voru stjórnmálamennirnir sem þverskölluðust við að taka afstöðu í grundvallarviðfangsefni íslenskra stjórnmála. Stjórnmálamenn hafa það hlutverk að sjá um umgjörðina í samfélaginu, það eru þeir sem eiga að skynja hvað þarf að gera og taka afstöðu til á hverjum tíma til að tryggja öryggi okkar borgaranna. Þegar þeir þverskallast við þeirri ábyrgð fer illa. Það ættum við Íslendingar að hafa lært af því sem gerst hefur og ekkert annað.
Með einhverjum óskiljanlegum hætti tókst Davíð Oddssyni og félögum að stýra alfarið afstöðu íslensku þjóðarinnar til þess sem gerðist í haust. Honum tókst að gera sjálfa sig og flokkinn sinn að fórnarlambi illra afla í viðskiptalífi og því trúir að því er virðist þjóðin öll sem nýju neti. Fáir sjá ástæðu til að tala um aðalástæðu þess að svo fór sem fór. Nei þá er miklu betra að benda á einstaka menn sem sökudólga. Þetta er slæm niðurstaða og leiðir okkur ekkert áfram.
Íslensku bankarnir hefðu ekki náð að vaxa svo óskaplega sem raunin varð nema vegna þess að þeir voru staðsettir á Íslendi með íslenska krónu - ofursterkan gjaldmiðil vegna erlendra fjárfestinga hér af algjörlega nýrri stærðargráðu vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar og í framhaldi fjárfestingum í krónunni sem gjaldmiðli. Beinlínis vegna stöðu krónunnar bólgnuðu efnahagsreikningar íslensku bankanna út og það vissu stjórnmálamennirnir - þ.e. þeir sem höfðu vit til. Hinir sem vilja dansa ábyrðgarlausir gerðu það sem aldrei fyrr og lofuðu Íslendingum gulli og grænum skógum sem aldrei fyrr.
Það er ótrúlegt að enginn fjölmiðill skuli tala um af hverju Landsbankinn náði þeim árangri sem hann náði með innlánsreikninga ICESAVE. Af hverju náði bankinn þessum ótrulega árangri á skömmum tíma? Auðvitað var það vegna þess gríðarlega háa vaxtastigs sem hér var umfram vaxtastig annarra þjóða. Af hverju var vaxtastig hér svo hátt? Vegna fáránlegrar stöðu íslensku krónunnar auðvitað í umhverfi þar sem peningar virtust á hverju strái og íslenska hagkerfið í þvílíkum dansi sem allir héldu að mundi endast að eilífu.
Ábyrgðarleysi stjórnmálaflokkanna nú að tala ekkert um nákvæmlega þetta er algjörlega óþolandi. Það er líka óþolandi að íslenskur almenningur skuli ekki gera kröfu á stjórnmálamenn að tala um nákvæmlega þetta.
Það sem hér gerðist allar götur frá 2003 er eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn hefðu þeir staðið vaktina hefðu mjög einfaldlega getað komið í veg fyrir. Þeir hefðu getað gert sér grein fyrir því að íslenska krónan á floti í alþjóðlegum fjármálaheimi gekk ekki upp. Íslenskir stjórnmálamenn áttu að gera sér grein fyrir því að það tvöfalda gjaldmiðilsumhverfi sem hér var komið upp gekk ekki upp. Þeir áttu að átta sig á því þegar íslenskur almenningur var farin að taka erlend lán í stórum stíl og njóta þannig vaxtakjara utan íslensks fjármálakerfis gekk ekki upp.
Meðvitundarleysi íslensks almennings núna að gera sér grein fyrir að það sem gerðist hefði ekki þurft að gerast er alvarlegasta ógn íslensks samfélags nú um stundir. Það er jarðvegur sem gerir íslenskum stjórnmálamönnum kleift að halda áfram stefnuleysi og ábyrgðarleysi til framtíðar. Stefnuleysi og ábyrgðarleysi árum saman sem hefur leitt okkur í þær ógöngur sem við erum nú í. Það er ófyrirgefanlegt að þetta skuli vera staðan sem íslenskur almenningur kýs framtíðarkynslóðum þjóðarinnar.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli