Jarðvegur íslensks samfélags í dag í miðjum marsmánuði 2009 er jarðvegur þröngsýni og smárrar hugsunar.
Síendurteknar fréttir af stórskuldugri þjóð sem á sér ekki viðreisnar von leiðir til þess eins að við verðum þjóð sem á sér ekki viðreisnar von. Með því er ekki verið að gera lítið úr skuldastöðu þjóðarinnar - hún er án efa alvarleg og áhyggjuefni - en það liggur ekki fyrir hver hún er né heldur er skuldastaðan ein og sér aðalatriði íslenskra stjórnmála nú um stundir.
Fréttaskýringarþættir fjalla um kostnað ráðuneytanna við kaup á ráðgjöf og annarri þjónustu eins og þar sé um helberan óþarfa að ræða. Tekin eru viðtöl við fólk sem býr við sjálfsþurftabúskap og allir eru einstaklega hamingjusamir og lausir við streitu hins vestræna neyslukapphlaups.
Tilgangurinn leynir sér ekkert. Allt er á sömu bókina. Að búa með öllum árum til jarðveg í samfélaginu þar sem við öll förum í það far að hugsa smátt. Íslenskt samfélag framtíðarinnar skal byggt upp á sjálfsþurftabúskap og þjóðernishyggju. Íslendingar þurfa ekkert á samstarfi við aðrar þjóðir að halda, nei við ætlum að koma okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í einir og sjálfir og óstuddir.
Þessi hugsunarháttur gegnsýrir fljótt allt samfélagið. Allir skulu hugsa smátt. Kaup á „óþarfa" þjónustu eru ekki liðin. Mikið lifandis skelfing er þetta óskemmtileg framtíðarsýn í byrjun árs 2009.
Það er ástæða til að minna á að það er ekkert nýtt fyrir íslenska þjóð að vera skuldug upp fyrir haus. Ég ólst upp í samfélagi þar sem það var ítrekað í fréttum endalaust að hver og einn einstaklingur íslensku þjóðarinnar skuldaði svo og svo mikið. Ég minnist þess ekki að þessi skuldastaða hafi haft áhrif á mitt daglega líf. Áróður af þessu tagi er þó ómetanlegt stjórntæki. Ómetanlegt stjórntæki fyrir íslenska stjórnmálamenn sem þverskallast við að breyta stefnu sinna flokka. Með því að hafa fókusinn sífellt á því hvað við erum skuldug og illa sett er tryggt að við þegjum um það sem skiptir máli.
Það vill svo til að unga kynslóðin í dag er ekki kynslóð sem ólst upp í sama umhverfi og eldri kynslóðir. Unga kynslóðin mun ekki sætta sig við það samfélag sem íslensku stjórnmálaflokkarnir virðast ætla að búa henni til framtíðar. Ung fólk mun ósköp einfaldlega flytja héðan unnvörpum ef fram fer sem horfir. Hún gerir sér eflaust ekkert grein fyrir því núna - skilur ekki samhengi þess að Ísland taki sér stöðu í samfélagi þjóðanna og þess að búa til fjölbreytni í atvinnutækifærum. Eflaust er einmitt unga kynslóðin besti jarðvegurinn fyrir þjóðernisrembinginn sem tröllríður öllu núna.
En það er samt hún sem mun verða fyrst til að fara þegar hún áttar sig á afleiðingunum. Ábyrgðarleysi þeirra sem leyfa sér að segja að „það sé ekkert að fara" því ástandið sé svo slæmt annars staðar er algjört. Það er alvarlegt ástand í heiminum öllum nú um stundir en það mun ekki verða þannig að eilífu. Heimurinn mun komast út úr þessari stöðu hversu langt sem er í að það gerist og með hvaða ráðum.
Það hvernig Ísland spilar úr þeim tækifærum sem það hefur núna skiptir öllu máli. Jarðvegur þröngsýni og smárrar hugsunar er öruggasta leiðin til að okkur takist það ekki og verðum land lítils hagvaxtar um langa framtíð. Land fárra og ekki síður fábreyttra atvinnutækifæra.
Ísland framtíðarinnar þarfnast athafnamanna og stjórnmálamanna sem hugsa stórt en skynsamlega. Það eru tækifæri í þeirri stöðu sem erum í nú. Tækifæri sem skipta sköpum um stöðu okkar til framtíðar. Stjórnmálaflokkarnir virðast enn einu sinni ætla að klúðra því að horfa raunsæjir og með opin augu á það tækifæri. Þeir ætla í kosningar einu sinni enn - eftir algjört hrun íslenska hagkerfisins - án nokkurrar stefnubreytingar sem skiptir máli.
Íslenska þjóðin er fyrst og fremst ábyrg fyrir því að ætla að leyfa þeim það.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli