Ég var nemandi í Viðskiptaháskólanum á Bifröst í lok nóvember 2001 þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson kom þangað með fyrirlestur og kynnti fyrir okkur nemendur hvernig Ísland gæti orðið ríkasta land í heimi svipað Luxemburg og Sviss. Mér kom þessi fyrirlestur mjög undarlega fyrir sjónir þar sem bannað var að fjárfesta í þeim eina atvinnuvegi sem ég gat ímyndað mér að útlendingar hefðu áhuga að fjárfesta í - íslenskum sjávarútvegi. Á þessum sama tíma höfðu lífeyrissjóðirnir fengið heimild til að fjárfesta í útlöndum og afleiðingar þess voru að blessuð krónan veiktist mjög sem aftur leiddi af sér verðbólgu sem olli mér ótta. Fátt gat ég hugsað mér verra en að fara aftur til þess tíma þegar ég var að alast upp og það eitt skiipti máli að losa við peninga jafnharðan og þeirra var aflað.
Ég þekkti vel hvaða áhrif sterk bankakerfi höfðu á þessi tvö lönd sem Hannes Hólmsteinn talaði svo fjálglega um í fyrirlestri sínum. Ég þekkti það að í Luxemburg voru launakjör almennt mun hærri en í nágrannalöndunum og að þar voru erfitt að fá gott verkafólk til starfa. Í Sviss var verðlag á þeirri þjónustu sem ég seldi miklum mun hærra en í öðrum löndum meginlandsins. Þessi tvö lönd skáru sig úr öðrum löndum meginlandsins sem ég seldi þjónustu frá fyrir þá staðreynd að bankastarfsemi var þeirra aðalatvinnuvegur sem augljóslega hafði mikil áhrif á viðkomandi samfélög. Atvinnulíf þeirra og velmegun almennings í þessum löndum.
Ég trúði ekki Hannesi Hólmsteini á þessum tíma. Mér fannst fráleitt að Ísland gæti orðið „ríkasta land í heimi" vegna bankastarfsemi.
Ég var reið stjórnmálamönnum á þessum tíma fyrir að tala fjálglega um að þeir hefðu leyst vandann hvað varðaði erlendar fjárfestingar á Íslandi án þess nokkurn tíma að tala um aðild að Evrópusambandinu.
Við þekkjum öll hvað gerst hefur síðan. Ísland varð „ríkasta land í heimi" eða þar um bil. Og bankastarfsemi varð stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar... um tíma.
Krónan styrktist sem aldrei fyrr. Í byrjun vegna framkvæmdad við Kárahnjúkavirkjun sem var erlend fjárfesting af stærðargráðu sem við höfðum aldrei komist í kynni við áður. Efnahagsreikningar íslensku bankanna sem nýlega höfðu verið einkavæddir bólgnuðu út vegna styrkingar krónunnar. Þá gátu íslensku bankarnir nýtt sér alla helstu kosti þess að vera með pínulítinn örgjaldmiðil í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi þar sem allt var á floti í peningum.
Aðrir atvinnuvegir áttu í vök að verjast. Þeir voru ekki samkeppnishæfir í neinu tilliti. Íslenskur sjávarútvegur hrökklaðist meira og minna út úr íslenskri kauphöll með árunum því enginn hafði áhuga á að fjárfesta í atvinnuvegi sem skilaði svona litlu af sér. Þá var nú meira vit í að fjárfesta í bönkunum sem skilaði arði upp á tugi prósenta ár eftir ár að ekki sé nú talað um hækkun á gengi hlutabréfa þeirra.
Íslendingar voru flottastir, snjallastir og bestir. Þeir kunnu allt betur en allir aðrir. Fyrirtæki á markaði hækkuðu öll meira og minna í verði um marga tugi prósenta á ári. Ég veit ekki hvort að einhverjum datt í hug að íslensk fyrirtæki væru svona miklu betur rekin en önnur fyrirtæki - alla vega ekki mér - en þetta var nú staðreyndin. Dansinn í kringum gullkálfinn virtist engan endi ætla að taka. Oflæti landans á þessum fyrsta áratug nýrrar aldar fór út yfir öll mörk.
Við vitum öll hvað síðan gerðist. Við vitum öll hvaða afleiðingar þessi dans í kringum gullkálfinn, þessi ofvöxtur í krónunni og í verðmyndun fyrirtækja á markaði hafði á okkur öll . Það varð hrun - algjört hrun efnahags fyrirtækja og heimila í landinu. Gjaldmiðilinn er nú bæði varinn af okurvöxtum og gjaldeyrishöftum.
Í öll þessi ár var Sjálfstæðisflokkurinn við stjórnvölinn. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem sá aldrei neina ástæðu til að einu sinni ræða aðild að Evrópusambandinu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem talaði fyrir því að „Ísland yrði ríkasta land í heimi" með því að byggja hér upp stórt og öflugt bankakerfi. Það var og er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur í öll þessi ár neitað staðfastlega að Ísland þyrfti kannski á því að halda að vera með annan gjaldmiðil.
Það vantar eitthvað inn í þessa mynd. Nú spyr ég Sjálfstæðismenn að því 17. mars 2009 og ég bið þá um að svara mér:
- Hver haldið þið að sé raunveruleg ástæða þess að íslensku bankarnir náðu þeim vexti sem þeir náðu á þessum fyrstu árum 21. aldar á Íslandi?
- Hafði stefna ykkar þar ekkert að segja?
- Hafði íslenska krónan á floti í alþjóðlegum fjármálaheimi þar ekkert að segja?
- Höfðu háir vextir hér á landi þar ekkert að segja?
- Var það bara „vondum mönnum í íslensku viðskiptalífi" um að kenna?
- Hvernig ætlið þið að koma í veg fyrir að „vondir menn" fái starfað í íslensku viðskiptalífi?
- Hvernig ætlið þið að sjá til þess að það sama gerist ekki aftur?
- Hvernig ætlið þið að tryggja dóttur minni lífvænlegt umhverfi hér á landi til framtíðar?
- Hvernig ætlið þið að tryggja henni fjölbreytt atvinnutækifæri hér á landi?
- Hvernig ætlið þið að sjá til þess að við sem búum hér á landi getum búið við stöðugan gjaldmiðil?
- Skiptir stöðugur gjaldmiðill engu máli?
- Eru hagsveiflur eins og lýst er hér að ofan eftirsóknarverðar til framtíðar að ykkar áliti?
- Ætlið þið í kosningar með óbreytta stefnu?
- Þarf ekkert að ofangreindu neinnar endurskoðunar við?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli