mánudagur, 23. febrúar 2009

Hvað er „flokksræði“?

Í ljósi umræðu dagsins og, áherslna í fréttaflutningi og síðast en ekki síst hversu oft ég nota þetta orð í skrifum mínum er kannski ekki úr vegi að takast á við hvað það þýðir. Það getur vel verið að hægt sé að finna skilgreiningu á þessu hugtaki í einhverjum fræðibókum - trúlega er það hægt en ég ætla ekki að leita þær uppi heldur leitast við að skilgreina hugtakið fyrir sjálfa mig. Leitast við að finna hvað þetta orð þýðir fyrir mér.

Fyrir mér þýðir orðið „flokksræði" það að flokkarnir sem slíkir - stofnanirnar sem slíkar ráða skoðunum einstaklinga innan þeirra. Flokkarnir sem byggðir voru á hugmyndafræði í upphafi 20. aldar hafa staðnað og ekki þróast í takt við samfélagið sem þeir eru til í. Einstaklingarnir sem ganga til liðs við flokkana samlagast „skoðunum flokkanna" í stað þess að láta flokkana þróast í samræmi við breytt samfélag.

Hér hafa með öðrum orðum viðgengist stjórnmál sem byggjast á trúarbrögðum. Það hvaða skoðanir þú hefur í hverju máli fer eftir því hvaða skoðun er viðurkennd innan flokksins en ekki því hvaða skoðun þú hefur persónulega.

Íslensku flokkarnir sem stofnanir hafa brugðist í að endurskoða afstöðu sína til grundvallaratriða sem þarft hefur verið að taka afstöðu til... einstaklingarnir innan þeirra hafa brugðist í því að gera kröfu á mótun afstöðu til grundvallarspurninga innan þessara stofnana sem þeir hafa kosið að tilheyra.

Þetta er það sem ég kalla „flokksræði". Stöðnuð stjórnmál sem ganga út á aðlaga skoðanir sínar að skoðunum „flokksins" sem í mörgum tilfellum er mjög mótsagnakennd og byggir á hugmyndum úr allt öðru samfélagi en við búum í í dag. Umræðan verður svar-hvít og í formi upphrópana en ekki innihalds eða rökræðu.

Ég held enn eins og ég hélt fram í aðdraganda kosninganna 2003 að þetta umhverfi breytist ekki fyrr en við leiðréttum mistök Jónasar frá Hriflu og sameinum Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn. Þá fyrst geta línur orðið nokkuð skýrar. Þá geta Framsóknarmennirnir í Sjálstæðisflokknum gengið til liðs við sameinaðan jafnaðarmannaflokk og einstaklingar sem það vilja úr Samfylkingu gengið til liðs við Sjálfstæðisflokk. Það vita það allir sem vilja vita að í meginatriðum eru Framsóknarmenn og Samfylkingarfólk sammála. Deilur þeirra og níðskrif hver um annan eru fyrir mér eins og fjölskylduerjur, hatur og illindi verða aldrei dýpri og ljótari en innan fjölskyldna.

Til hliðar við þessa flokka Sjálfstæðisflokk og sameinaðan Framsóknarflokk og Samfylkingu mega svo verða til hvaða flokkar aðrir sem fólk vill. Það getur vel verið að það sé grundvöllur fyrir „Bændaflokk" eða hvað annað - þess vegna „landsbyggðarflokk". Það er allt í lagi með það og ekkert við það að athuga. En meginlínurnar þurfa að vera skýrar. Það eru þær ekki á meðan flokkarnir eru til á grundvelli úreltrar hugmyndafræði sem ómögulegt er fyrir kjósandann að átta sig á hvernig muni birtast eftir kosningar. Eða hver vill taka að sér að greina á milli stefnu Samfylkingar, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks? Þá meina ég í reynd síðustu ár. Hvaða grundvallarmunur er á stefnumálum þessara flokka sem við kjósendur getum treyst og gengið út frá?

Flokkakerfið íslenska eins og það birtist kjósendum í reynd er úrelt vegna þess að það byggir á mjög óskýrum hugmyndum liðinnar aldar. Það er „flokksræði" eins og ég skynja það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...