Mér kom þessi fyrirsögn í hug þegar ég las grein um launamun kynjanna í íslenskum bönkum í Morgunblaðinu í dag. Launamunur kynjanna í bönkunum var 41%. Kemur ekki á óvart - staðfestir þá tilfinningu sem maður hefur haft fyrir því samfélagi sem maður hefur búið í síðustu ár. Við ræddum þetta oft ég og systir mín sem er fimmtán árum yngri en ég. Við vorum í viðskiptaháskóla á sama tíma. Hún rétt komin yfir tvítugt, ég að nálgast fertugt. Hvergi fundum við jafnmikla þröngsýni og afturhald gagnvart jafnréttismálum kvenna en á meðal ungra karlmanna innan þessara skóla þar sem við sátum. Við skildum þess vegna ekki hvers vegna við heyrðum allt í kringum okkur í málsmetandi fólki af báðum kynjum halda því fram að jafnrétti kynjanna yrði brátt náð því allt hugsunarháttur yngri kynslóða væri allt annarr og breyttur frá því sem var. Þessi könnun virðist svo sannarlega ekki styðja þær hugmyndir, þó það sé kannski ekki rétt að kenna aumingja ungu drengunum sjálfum um það að vera svo miklu betur verðmetnir innan bankanna en hitt kynið.
Þetta er staðreynd sem við mættum gjarna hugleiða meira í samhengi við hugmyndafræði samfélagsins síðustu ár. Kannski hugmyndafræði ungra graðra karla sé ekki hugmyndafræðin sem dugar hverju samfélagi best - með fullri virðingu þó fyrir ungum gröðum körlum.
Gildi samfélagsins á Íslandi síðustu ár hafa oft orðið mér tilefni til að setjast við skriftir en fæst af því hef ég talið birtingarhæft. Læt þessa staðreynd launamun kynjanna í íslenskum bönkum síðustu ár verða tilefni til að birta nú eina þeirra... Lýsir tilfinningum manneskju sem er meira en nób boðið einhvern tíma á árinu 2004.
-----------------------------------------------------------------------
Gildi á nýrri öld. Skrifuð á árinu 2004.
Ég lifi í undarlegu samfélagi. Samfélagi þar sem karllæg gildi eru allsráðandi. Samfélagi sem hefur gert viðskiptalífið að guði sínum og karlmenn sem þar eru við stjórnvölinn eru í hlutverki guðanna. Samfélag þar sem gildi peninga er öllum öðrum gildum ofar. Samfélagi þar sem peningar eru talinn helsti hvati mannsins til góðra verka. Samfélagi sem trúir á eftirlit og skrifræði. Samfélagi sem leitar sökudólga fyrir öllu sem aflaga fer. Samfélagi sem leitast við að staðla mannlega breytni í eitt skipti fyrir öll. Samfélagi þar sem allt er leyfilegt EN samt ekki... sumt. Samfélagi þar sem sumir mega allt en aðrir ekki neitt.
Á hvaða leið er samfélagið okkar? Erum við sátt við ráðandi gildi? Eru þau í samræmi við væntingar okkar á nýrri öld?
Ég játa hér með að ég á í tilvistarkreppu í þessu samfélagi sem ég bý í. Ég skil ekki hvert það er að fara og mig langar oft til að standa upp og hrópa og spyrja hvort við ætlum virkilega að leyfa því að halda áfram á sömu braut.
Hvaðan kom þessi SANNLEIKUR sem allir í umræðunni virðast tala út frá? Hver ákvað það að viðskipti á markaði væru öllum mannlegum gjörðum æðra? Hver ákvað það að karlarnir sem stjórna fyrirtækjunum væru merkilegri en aðrir menn? Hver ákvað það að peningar væru helsti hvati mannsins? Hver ákvað það að vandamál væru helst leyst með því að benda á sökudólga og hengja þá? Hver ákvað það að sífellt meira eftirlit og skrifræði leysti allan vanda mannlegs samfélags? Hver ákvað það að hægt væri að staðla mannlega breytni? Hverjum fannst það eftirsóknarvert? Hver ákveður hvað "má" og hvað "má ekki"? Hver ákveður hver "má" og hver "má ekki"?
Hvað fær mig til að tjá mig á þessum nótum? Er ég gengin af göflunum eða hvað gengur mér til? Umræðan í samfélaginu er innblástur þessarar greinar. Umræðan - það sem fólk er að tala um, það sem fjölmiðlar eru að fjalla um, áherslurnar sem þannig má lesa út úr samfélaginu fá mig til að tjá mig á þessum nótum.
Það má vera að þetta komi spánskt fyrir sjónir margra. Það er ekki eins og umræða um peninga sem æðsta gildi mannlegs samfélags sé beinlínis ný af nálinni á þessari einstöku eyju í Atlantshafinu. Fátt annað hefur verið þess virði að ræða um árabil. Hvað veldur þá þessu hugarangri höfundar nú?
Því er til að svara að það eru væntingar höfundar til nýrrar aldar. Væntingar um að 21. öldin væri boðberi breytinga í aðra átt. Væntingar um að mannskepnan væri komin lengra í þróuninni. Væntingar um að mannskepnan hefði lært eitthvað á mistökum síðustu aldar. Væntingar um að efnahagsleg velsæld leiddi til þess að við gætum leyft okkur að þróast til betri vegar. Fyrst og síðast... væntingar um að við yrðum mannlegri...
Ég hélt ekki þegar las Svartfugl á menntaskólaárunum fyrir tuttugu árum að ég ætti eftir að upplifa samfélag hliðstætt við það sem þar er lýst. Ég var sannfærð um að samfélag framtíðarinnar hlyti að verða víðsýnna. Ég var þess fullviss að þröngsýn hreppapólitík sveitunga minna þar sem "útbæingar" hötuðust út í "innbæinga" væri deyjandi fyrirbrigði. .
Nú er ég alls ekki viss um að ég hafi haft rétt fyrir mér. Held jafnvel að ég hafi haft kolrangt fyrir mér. Hreppapólitíkin heldur gildi sínu og er sterkari í samfélaginu en nokkru sinni fyrr. "Hrepparnir" breytast bara. Í stað þess að vera raunverulegir staðbundnir "hreppar" (sem vissulega eru til enn - í Júgóslavíu - á Íslandi sem annars staðar) verða til annars konar "hreppar".
Með sífellt bættu aðgengi að upplýsingum verður samfélagið þröngsýnna og dómharðara. Heimurinn verður "svart-hvítari" en nokkru sinni fyrr.
Siðleg breytni er Bandaríkjamönnum hugleikin ef marka má umræðuna fyrir nýafstaðnar forsetakosningar. Í framhaldi af því hlýtur að vera eðlilegt að spyrja "hvað er siðlegt"?
Er sú heimsmynd sem dóttir mín horfir á í íslensku sjónvarpi á Skjá einum daglagt siðleg? Finnst okkur það Íslendingum?
Er það siðlegt að stjórnendur fyrirtækja fái mánaðarlaun á við margföld árslaun verkamanna sömu fyrirtækja? Er það siðlegt að stjórnendur fyrirtækja séu gerðir að "guðum" veraldarinnar með það eina markmið að "auka virði þeirra í þágu hluthafanna"? Er það siðlegt samfélag sem stjórnast af peningum fyrst og fremst?
Á degi hverjum á árinu 2004 lesum við Íslendingar fyrirsagnir þar sem ein stétt í samfélaginu - blaðamenn - telja sig þess umkomna að setja sig í dómarasæti yfir tilteknum einstaklingum eða hópum og við virðumst gleypa við því algjörlega umhugsunarlaust. Á hverjum degi slær DV upp fyrirsögnum þar sem einstaklingar eða hópar eru gerðir að sökudólgum og dæmdir án dóms og laga og okkur virðist vel líka. Umræðan í samfélaginu verður sífellt litaðri af dómhörkunni og fáir gera athugasemdir við það.
Er nema von að mér sé ofboðið?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli