laugardagur, 7. febrúar 2009

Frá Mammon til Marx – er það leiðin?

Þegar ég hóf nám á Bifröst haustið 1999 var ég þess fullviss að Ísland gæti ekki ekki gengið öllu lengra í umræðu um peninga. Það hlyti að vera komið að þeim tímapunkti að upp myndi rísa hreyfing sem leiddi til breytinga á samfélaginu - lengra yrði ekki gengið í peningadýrkun samfélagsins. Það hvarflaði ekki að mér að í raun var íslenskt samfélag rétt að byrja dansinn í kringum gullkálfinn. Dans sem átti eftir að taka sig svo yfirgengilega mynd að maður hafði ekki hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að slíkt gæti nokkurn tíma gerst. Getum við Íslendingar í alvörunni látið eins og þróun þessa samfélags sé einhverjum tilteknum litlum hópi manna um að kenna? Er slíkur skilningur á eðli þess sem gerst hefur líklegur til að leiða okkur á rétta braut til framtíðar?

Ég held ekki. Er reyndar sannfærð um að svo er ekki. Það verður engin breyting á íslensku samfélagi fyrr en við öll viðurkennum og horfumst í aug við að við eigum okkar hlut í því sem gerst hefur.

Pólitíkin spilar hér heilmikla rullu og ef við Íslendingar gerum okkur ekki grein fyrir því munu litlar breytingar verða. Við kusum yfir okkur stjórnvöld á árinu 2003 sem lofuðu okkur meiri peningum í budduna með skattalækkunum. Það gerðum við þrátt fyrir að það væri augljóst hverjum manni að slík ráðstöfun væri glapræði í því þensluástandi sem þá blasti við. Við leyfðum flokkakerfinu að hugsa um það eitt að viðhalda sjálfu sér í stað þess að gera skilyrðislausa kröfu um breytingar. Breytingar sem leiddu til þess að raunverulega yrði tekist á um Evrópusambandsaðild - pólitíska spurningu sem augljóslega þurfti þá þegar að takast á við. Afleiðingar þess að það var ekki gert hefur reynst afdrifaríkari en nokkurt okkar óraði fyrir.

Ég er þess fullviss að þegar sagnfræðingar framtíðarinnar eiga eftir að fjalla um þennan fyrsta áratug 21. aldar á Íslandi muni kosningaúrslitin 2003 og ákvarðanir stjórnvalda í framhaldi af þeim talin með stærstu pólitísku mistök um íslenskrar stjórnmálasögu. Stjórnmálamönnunum verður ekki einum kennt um þau mistök - íslenska þjóðin ber þar mikla ábyrgð. Við fáum yfir okkur þau stjórnvöld sem við eigum skilið hverju sinni og það á jafnt við í fortíð og framtíð. Við munum fá yfir okkur þau stjórnvöld í kosningunum í vor sem við eigum skilið. Ef svo heldur áfram sem horfir hef ég enga trú á að það verði stjórnvöld sem leiði til breytinga sem skipta máli til framtíðar. Mér sýnist því miður allt stefna í að hér verði populisminn allsráðandi sem fyrr.

Sigurður Líndal orðar þetta ágætlega í grein í Fréttablaðinu í dag þegar hann segir „En fátt stendur lýðræðinu meira fyrir þrifum en ofurvald afþreyingariðnaðarins. Áhrif hans birtast ekki sízt í firringu þannig að menn losna úr tengslum við umhverfi sitt og berast inn í sýndarveruleika. Nýjustu birtingarmyndir hennar eru pottlokaglamur undir stjórn rokkara og rappara, sem við leyst hefur rökræðuna af hólmi og þá er stut tí að bareflin taki við sleifunum. Með þessu er forsendum lýðræðisstjórnarhátta hafnað. Við þessu má bregðast með almennri upplýsingu sem stuðlað geti að gagnrýnni hugsun. En það er langtíma viðfangsefni í samkeppni við afþreyinguna..."

Langtíma viðfangsefni . Það er töfraorðið. Íslenskt samfélag mun ekki breytast til hins betra í einu vetfangi. Stjórnarskránni má alls ekki breyta með hraði - þess þörfnumst við allra síst núna. Við þörfnumst skynsemi, rökræðu, gagnrýninnar hugsunar.

Því miður verður að segjast eins og er að engi merki sjást um að við ætlum að veðja á þá leið. Nei þá hentar okkur nú betur að halda áfram í sama leik og verið hefur. Það eina sem breytst hefur er að í stað þess að dýrka Mammon þá skal honum nú hrundið með látum. Ekki er alveg skýrt hver á að koma í hans stað en þó verður ekki annað sagt en það glitti í hugmyndafræði Karls Marx, Lenín og þeirra félaga af ræðum, greinaskrifum og því sem hæst ber í umræðunni.

Höldum við íslenskur almenningur í alvörunni að „bylting" með þessum hætti muni leiða okkur til góðrar framtíðar? Þeirrar framtíðar sem við þráum?

Þurfum við sem samfélag ekki á neinni naflaskoðun að halda? Berum við enga ábyrgð á því hvernig samfélag okkar þróaðist síðustu ár? Og ætlum við ekki að bera neina ábyrgð á framtíð samfélagsins okkar heldur? Höldum við að með því að reka burt allt „vonda liðið" og koma því „góða" að muni allt falla í ljúfa löð og allir lifa hamingjusamir eftir það?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...