miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Afglöp finnast engin...

Afglöp finnast engin né nokkurskonar brot í störfum bankastjórnar." Nokkru síðar segir „Okkur starfsmönnum Seðlabankans hefur sviðið umræðan að undanförnu og erum þó ýmsu vön gegnum tíðina. Gegndarlaus áróður og sleggjudómar eru þvílíkir að helst minnir á aðferðir skipulagðra öfgahópa. Fréttaflutningur hefur verið á einn veg. Eineltið beinist fyrst og fremst gagnvart formanni bankastjórnar, Davíð Oddssyni." Bein tilvitnun í grein Hallgríms Ólafssonar starfsmanns Seðlabankans og formann starfsmannafélagsins úr Morgunblaðinu í dag.

Ja hérna „sínum augum lítur hver á silfrið" kom upp í hug undirritaðrar. „Afglöp finnast engin né nokkurskonar brot í störfum bankastjórnar." Athyglisverð fullyrðing svo ekki sé meira sagt.

Hvar í hinum svokölluðu „siðuðu samfélögum" í kringum okkur myndi seðlabankastjóri viðhafa þvílík orð í sjónvarpsþætti eins og Davíð Oddsson gerði í Kastljósþætti þriðjudagskvöldið minnisstæða 7. október síðastliðinn? Voru það ekki „afglöp" í starfi? Að viðhafa orð eins og „óreiðumenn" um stjórnendur eða eigendur íslensku bankanna á svo viðkvæmu augnabliki? Hvað með yfirlýsingu Seðlabankans um „Rússalánið" að morgni sama dags? Hvað með tilraunir Seðlabankans til að halda uppi gengi á íslensku krónunni sem varð að bakka með síðar sama dag eða daginn eftir? Hvað með orðstí Íslands í alþjóðlegu samhengi þessa daga í október? Heldur formaður starfsmannafélags Seðlabankans að störf Seðlabankastjórnar þessa örlagaríku daga hafi aukið hróður Íslands í alþjóðasamfélaginu eða hjálpað okkur sem þjóð sem tæki alþjóðlegar skuldbindingar sínar alvarlega? Eða bæri yfirhöfuð ábyrgð á að „standa vörð um gjaldmiðilinn og virkt og öruggt bankakerfi"?

Það skal viðurkennast að mér verður allri lokið þegar ég heyri það nefnt að Davíð Oddsson sé „lagður í einelti" eða að það megi ekki „persónugera" hlutina með því að kenna honum um allt sem aflaga fer. Þvílík rökleysa og endemis vitleysa - svo gegndarlaus að tekur ekki nokkru tali.

Davíð Oddsson er maður sem getur alveg staðið undir öllum þeim ávirðingum sem á hann eru bornar. Maður sem hefur viðhaft þvílíkar yfirlýsingar og hann hefur sjálfur gert um einstök fyrirtæki, menn og málefni hljóta að geta staðið undir því að fá það sama framan í sig sjálfir. Davíð Oddsson hefur í mörg ár misskilið hlutverk sitt hrapalega, svo hrapalega að það mun taka íslensku þjóðina mörg, mörg ár, ef ekki áratugi að jafna sig á því. Svo herfilega tókst honum til í stól forsætisráðherra að hann skildi þjóð sína eftir sundraða í illindum sem enn sér ekki fyrir endann á og er eflaust langt í að sjái fyrir endann á - a.m.k. ef marka má umræðuna sem er meira og minna eins og töluð út úr munni hans. Jónas Jónsson frá Hriflu bliknar í samanburðinum.

Það er ekki hlutverk forsætisráðherra nokkurrar þjóðar að draga fyrirtæki og einstaklinga í dilka. Eða bera þá sökum opinberlega. Það gerði Davíð Oddsson grímulaust í mörg ár með þeim hætti að enginn er samur eftir. Það er ómögulegt að mynda sér skoðun á óvildarmönnum og óvildarfyrirtækjum Davíðs Oddssonar öðruvísi en vera þar með búinn að setja sig í flokk sem maður kærir sig ekkert um að vera í.

Það vekur sérstaka athygli mína að formaður starfsmannafélagsins talar um að „starfsmönnum Seðlabankans svíði umræðan". Ja hérna. Hefur einhvern tíma hvarflað að sama manni hvernig hundruðum starfsmanna í eigu fyrirtækja Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hefur liðið síðustu ár? Hefur hvarflað að honum hverskonar staða það er að starfa af heilindum í fyrirtæki sem þú metur mikils og sitja undir stöðugum ávirðingum um að vera í „Baugsliðinu" og þar með gerður ótrúverðugur - alveg sama hvað eða hvernig þú vinnur störf þín af hendi? Hefur hvarflað að honum hvernig það er að starfa í fyrirtæki sem er yfirlýstur „óvinur" forsætisráðherra þjóðarinnar og tilheyrir „vonda liðinu"?

Ég varð vitni að því á námskeiði fyrir mörgum árum síðan. Hvernig maður sem starfaði í einu fyrirtækja Baugs og hafði starfað þar löngu áður en það komst í þeirra eigu hafði fengið byr undir hugmyndir sínar með tilkomu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í stjórn. Hann fékk tækifæri og upplifði að það var hlustað á hugmyndir hans. Ekki nóg með það heldur varð hann stjórnandi fyrirtækisins á grundvelli hugmyndar sinnar. Hann kreppti hnefana þegar hann í tilfinningaþrunginni ræðu lýsti því hvernig það væri að starfa í fyrirtæki sem hann hefði trú á og vildi allt til vinna að gengi vel en sem væri á sama tíma yfirlýstur óvinur forsætisráðherra þjóðarinnar. Það var sárt og það var svo vont að það hafði mikil áhrif á persónulegt líf viðkomandi manns. Ég veit að þessi maður er ekki sá eini. Ég veit að blaðamönnum Fréttablaðsins, sumum hverjum, hefur ekki alltaf liðið vel undir ávirðingum um að starfa hjá „Baugsmiðlinum". Það sama má áreiðanlega segja um þúsundir einstaklinga sem hafa starfað af fullum heilindum hjá fyrirtækjum í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Það hefur áreiðanlega ekki alltaf verið auðvelt og alveg áreiðanlega hefur viðkomandi oft „sviðið" umræðan sem haldið var uppi af forsætisráðherra þeirrar sömu þjóðar. En hvað hafa þeir hinir sömu getað gert sér til varnar? Í samfélagi þar sem slíkt leyfist og þykir meira að segja í svo góðu lagi að sagt er að forsætisráðherrann títtnefndur sé „lagður í einelti" þegar það er gagnrýnt!

Í ljósi þess hvað hér er sagt verður að láta þær upplýsingar koma fram að ég er ekki félagi í Samfylkingunni og því algjörlega óþarft að lesa þetta í gegnum þau flokkspólitísku gleraugu. Ég sagði mig úr henni á haustmánuðum og hef enda aldrei litið svo á að ég þyrfti að spyrja flokkinn um leyfi til að hafa skoðanir.

Ég veit ekki hvort að Jón Ásgeir Jóhannesson er glæpamaður eða ekki. Ég lagðist ekki í lestur dómsniðurstaðna Baugsmálsins né heldur hef ég kynnt mér viðskipti hans og eignatengsl ofan í kjölinn. Ég kýs að treysta stjórnkerfi landsins þegar kemur að sýknu eða sakfellingu hans eða annarra í þessu landi. Ég get haft og hef mínar persónulegu skoðanir á þeim athafnamönnum sem hér hafa starfað þau ár sem ég hef fylgst með íslensku viðskiptalífi og Jón Ásgeir Jóhannesson er svo sannarlega einn af þeim. Hann er maður sem mig hefur alltaf langað og langar enn til að vita hvort er í raun og veru klár athafnamaður eða hvort hann er eins og Davíð Oddsson og co. hafa látið að liggja árum saman „ótíndur glæpamaður". Ég get ekki annað en vonað að það upplýsist áður en ég verð öll.

Það sem ég veit er það að það er algjörlega óþolandi að búa í samfélagi þar sem æðstu ráðamenn vita ekki valdmörk sín. Þar er Davíð Oddsson og hefur verið fremstur í flokki áratugum saman. Það er ekki hlutverk seðlabankastjóra að vera með órökstuddar yfirlýsingar um „óreiðumenn" eða yfirhöfuð aðrar pólitískar yfirlýsingar. Það er ekki hlutverk seðlabankastjóra að halda langar pólitískar varnarræður fyrir sjálfa sig eins og Davíð Oddsson hefur gert. Það er hlutverk seðlabankastjóra að standa vörð um gjaldmiðil þjóðarinnar eða eins og segir orðrétt á heimasíðu bankans:

„Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Að auki skal Seðlabanki Íslands sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd."

Það þarf vart að hafa fleiri orð um réttlætanlegan brottrekstur seðlabankastjóra úr embætti, er það?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...