föstudagur, 30. janúar 2009

Bjartur og íslenska þjóðin

„Enn einu sinni höfðu þau brotið bæ fyrir einyrkjanum, þau eru söm við sig öld frammaf öld, og það er vegna þess, að einyrkinn heldur áfram að vera samur við sig öld frammaf öld. Stríð í útlöndum getur stælt í honum bakfiskinn ár og ár, en það er aðeins sýndarhjálp; blekkíng; einyrkinn kemst ekki úr kreppunni um allar aldir, hann heldur áfram að vera til í hörmúng, eins leingi og maðurinn er ekki mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins. Líf einyrkjans, líf hins sjálfstæða manns, er í eðli sínu flótti undan öðrum mönnum sem ætla að drepa hann. Úr einum næturstað í annan verri... Sagan af Bjarti í Sumarhúsum er saga mannsins, sem sáði í akur óvinar síns alt sitt líf, dag og nótt. Slík er saga sjálfstæðasta mannsins í landinu..."

Ég elska þessa sögu. „Sjálfstætt" fólk Halldórs Laxness er skáldsaga sem hefur snert mig meir en flestar aðrar sögur. Ég sem alin er upp í íslenskri sveit hef alla ævi þráð svo mjög að komast út úr þrönsýni íslenskrar sveitar að ég leitaði alltaf í þýðingar, annan heim umfram allt annað. Það var ekki fyrr en ég kynntist Halldóri Laxness sem ég lærði að meta íslenskan skáldskap. Fyrst var það Íslandsklukkan leikverk Þjóðleikhússins sem ég hlustaði á aftur og aftur og aftur þannig að ég kunni það næstum orðrétt og kann næstum enn. Síðar Sjálfstætt fólk en sú bók hefur meiri þýðingu í mínum huga en allar aðrar bækur sem ég hef lesið.

Ég man enn eftir upplifuninni vorið 1984. Ég í Kvennaskólanum í Reykjavík og var að fara að taka stúdentspróf. Hafði verið í verkefnum úr „Sjálfstæðu fólki" alla önnina án þess nokkurn tíma að hafa lesið hana og var að fara í vorpróf. Hafði tekist að fá fínar einkunnir út úr öllum verkefnum án þess en neyddist til að lesa bókina - annað gekk ekki fyrir lokaprófið. Fyrstu 40 blaðsíðurnar fannst mér ótrúlega leiðinlegar - var alveg við það að gefast upp... en þá... þá kom upplifunin. Þessi dásamlega saga sem lýsti þjóð minni og samfélagi betur en ég hafði nokkurn tíma komist í kynni við. Þvílíkur skilningur, þvílík næmni á íslensku samfélagi en um leið þvílíkar tilfinningar yfir og allt um kring. Það er skemmst frá því að segja að ég kolféll. Ég varð ástfangin af þessari sögu og hef verið allar götur síðan. Bjartur í Sumarhúsum er þvílíkur snilldarfulltrúi íslenskrar þjóðar að ég mun gráta það alla ævi að fá ekki að hitta Halldór Laxness til að segja honum það.

Engin önnur bók á þann stað í huga mínum sem þessi bók. Bjartur í Sumarhúsum er Jón á Melum bróðir föður míns og margir aðrir Íslendingar allt um kring. Hann er „sjálfstæður" maður umfram allt. Alveg sama þó að „sjálfstæðið" leiði hann til glötunar - „sjálfstæður" skal hann vera.

Ég hef þörf fyrir að tala um þetta í dag og gerist þannig persónulegri en ég á vanda til hér á þessu „bloggi" (sem enginn les). Ég er svo hrædd, svo miður mín, svo svartsýn á að Íslendingar muni nokkurn tíma á minni lífsævi komast út úr Bjarti. Landar mínir vilja svo gjarna vera hann og það virðist algjörlega óyfirstíganlegt að hafa áhrif á það.

Það sem fyrir mér liggur virðist án undankomu vera að bjóða 19 ára dóttur minni upp á framtíð Bjarts í Sumarhúsum til langrar framtíðar. Framtíð „sjálfstæðrar" þjóðar umfram allt annað. Jafnvel hrun íslensks samfélags sem rekja má til „sjálfstæðis" áráttu þjóðarinnar fær hana ekki til að skipta um skoðun. „Sjálfstæð" skal íslenska þjóðin vera umfram allt.

Þjóðernisrembingur og sjálfsblekking eru ríkari þættir í íslenskri þjóð en nokkuri annarri þjóð sem ég hef kynnst. Þrátt fyrir ástríðufullan vilja sem ekki verður með orðum lýst virðist vonlaust að ætla sér að hafa áhrif á þessa þætti í þjóðarsálinni.

Eina leiðin fyrir dóttur mína og hennar líka er að afneita ættjörðinni og flýja annað. Það er morgunljóst að íslensku þjóðinni er ekki við bjargandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...