miðvikudagur, 7. janúar 2009

Dæmisaga síðustu ára

Átti umræður um pólitík og umræðuna í íslensku samfélagi þessa dagana við dóttur mína í kvöld. Og eins og ég hef komið inn á áður veit ég fátt skemmtilegra. Þroski hennar og sýn á samfélagið er mun meiri en flestra þeirra radda sem háværastar eru þessa dagana. Henni tekst að vekja með mér bjartsýni og trú á framtíðina betur en margur annarr.

Eitt af því sem við ræddum voru ummæli bróður míns en hann hafði heyrt hluta af útvarpsþætti Bubba Morthens í fyrradag. Ef rétt er eftir haft hringdi þar inn maður sem kvartaði sáran yfir því að hafa ekki fengið frystingu í bankanum sínum á lán sem hann tók fyrir hjólhýsi á sínum tíma. Mér fannst þetta skemmtileg og góð dæmisaga um þá þjóð sem ég tilheyri. Þennan eiginleika þjóðarinnar þekki ég og kannast betur við en margt annað og er mér tilefni til hugleiðinga.

Sem starfsmaður í flutningum stærstan part lífs míns er óhjákvæmilegt annað en ég hafi kynnst mjög vel dæmalausri neysluhyggju landans. Neysluhyggju sem á sér engan sinn líka og er áreiðanlega einn stærsti hluti þess hversu hratt okkur hefur tekist að búa til allsnægasamfélag eftir að hafa búið við sára fátækt og allsleysi í aldir. Neyslubrjálæði sem aldrei hefur náð þvílíkum hæðum og á síðustu árum - þökk sé íslenskum bönkum m.a.

Ég hef þjónustað landann við að flytja inn „herbalife" og „nu skin" í tonnavís með flugi. Svo mikið var magnið að einn æðsti stjórnandi Nu skin keðjunnar sem kom hingað frá Belgíu hafði aldrei nokkurn tíma komist í kynni við annað eins. Á sama tíma og dreifingarmiðstöðin sem var í Brussel dreifði kannski einu eða tveimur brettum til Svíþjóðar fóru 12 til Íslands. Já þetta var sko „gullæði" í lagi. Íslendingar „venjulegt fólk" með dollaramerki í augum. Allir sem einn ætluðu þeir að verða ríkir og eflaust tókst þeim það sumum.

Ég þjónustaði líka landann við að flytja inn heilu farmana af fellihýsum með flugi vorið 2003. Þessa vörutegund höfðu kollegar mínir hinum megin hafsins aldrei heyrt af að væri flutt með flugi - hvorki fyrr né síðar. En Íslendingar létu ekki að sér hæða, það voru ekki eitt og ekki tvö - heilu flugvélarnar komu þetta vorið full af fellihýsum handa landanum fyrir sumarfríin. Á meðan biðu jepparnir í röðum á kajanum... en þeir voru líka fluttir í tugatali með flugi. Hafa eflaust náð einhverjum hundruðum síðan ef ekki þúsundum.

Þetta er bara ein lítil mynd af íslensku samfélagi síðustu ár. Samfélagi neysluhyggju í hærri hæðum en áður hefur þekkst. Samfélagi sem einkenndist fyrst og fremst af „gullæði" - eltingaleik í kringum gullkálfinn sem meirihluti alls almennings tók fullan þátt í.

Meira að segja ég „miðaldra einstæð móðirin" (sem þá var) gerðist svo áhættusækin að breyta húsnæðisláninu í erlent lán og búa með þeim hætti til aukaeyrir til neyslu. Já ég gerði það algjörlega upp á eigin spýtur og algjörlega án þess að bankinn minn sem ég hef haft viðskipti við í 25 ár hafi gert eina einustu tilraun til að hvetja mig til þess nema síður væri. Já ég var algjörlega einfær um þennan gjörning og get ómögulega hversu mjög sem ég reyni gert bankann minn ábyrgan fyrir því. Bankinn minn gerði enga tilraun til að hvetja mig til eins eða neins í þessa veru. Svei mér ef það var ekki reynt með kurteisum hætti að telja mér hughvarf. En mér var ekki þokað. Þetta gat ekki verið svo mikil áhætta. Átti að vera með eign í höndunum sem allt í einu var orðin hátt í 30 milljóna virði (var keypt 2004 fyrir tæplega 14 milljónir) og erlenda lánið sem tekið var ekki upp á nema 12. Gengisvísitalan 125 - meðaltal síðustu áratug var einhvers staðar þar um bil. Já þetta var þetta átti að vera nokkuð „öruggt". Gat ekki farið svo mjög illa, ef gengið veiktist og verðbólgan færi af stað myndi íslenska lánið mitt hækka svo og svo mikið hvort eð er.

Já hvernig skyldi nú staða mín vera í dag? 12 milljóna skuldin hoppar þetta á milli 23 - 25 milljóna flesta daga. Veit ekki hvers virði eignin er - sennilega einskis virði í dag - enda markaðurinn í kyrrstöðu.

Ef ég hefði eitthvert peningavit (sem ég telst sennilega seint sek um) hefði ég auðvitað breytt aftur yfir í íslenskt lán á þeim tíma þegar höfuðstóllinn stóð í 9 milljónum en æ það þýddi lántökukostnað og vextir á íslenskum húsnæðislánum voru hærri en þeir höfðu verið lengi. Samt vissi ég alveg eins og meirihluti íslensku þjóðarinnar að eitthvað skelfilegt vofði yfir. Það hefur legið ljóst fyrir í langan tíma eða allar götur frá síðustu kosningum að það var langt frá því allt í lagi í íslensku efnahagslífi EN samt...

Já þetta er nú umhverfið sem „venjulegt fólk" eins og ég meira að segja hef látið leiða mig út í. Mér er alveg gjörsamlega ómögulegt að skilja af hverju ég á að gera „íslenska auðmenn" að sökudólgum fyrir þessari stöðu. Eða íslenskum bönkum. Mér er líka gjörsamlega ómögulegt að skilja hvernig hægt er að halda því fram að „þetta hefði allt saman gerst samt - þrátt fyrir að við hefðum verið með evru". Hvernig er hægt að halda því fram? Hvar annars staðar en hér á landi þar sem fer saman neyslubrjáluð þjóð, pínulítill veikur gjaldmiðill og galopið alþjóðlegt viðskiptaumhverfi getur slíkt gerst? Hvernig hefðum við öll „venjulegt fólk" getað leikið okkur svona með gengisáhættu nema vegna gjaldmiðilsins sem gerði okkur það kleift? Með evru hefði íslenska þjóðin ekki getað farið á neyslufyllirí út á gengismun, en það er nákvæmlega það sem hún gerði og það ekki bara örfáir einstaklingar - heldur fjölmargir einstaklingar.

Það getur vel verið að einhverjir „íslenskra auðmanna" hafi farið offari í fjárfestingum og reyndar meira en líklegt. Það getur líka vel verið að einhverjir þeirra hafi farið gáleysislega og jafnvel glæpsamlega að ráði sínu. Það kemur í ljós einhvern tíma en það liggur alls ekki ljóst fyrir núna og því síður liggur það ljóst fyrir að „íslenskir auðmenn" séu allir sem einn „sakamenn" sem hengja má í hæsta gálga.

Ofurlaunin og skammtímahugsun í fyrirtækjarekstri eru alþjóðlegt fyrirbrigði sem íslenskir athafnamenn hafa tekið fullan þátt í. Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að réttlæta slíkt háttalag en það er viðurkennt háttalag og hefur verið í viðskiptaheiminum í áratugi, því miður. (Hér á landi kannski síðustu 15 ár en ef ég man rétt var það Guðjón B. Ólafsson heitinn fyrrum forstjóri Sambandsins sem reið á vaðið með að taka sér „ofurlaun" að fyrirmynd Bandaríkjamanna.) Kannski á eftir að koma á daginn að beinlínis þessi hugmyndafræði sé ástæðan fyrir alheimskreppunni nú. Stjórnun fyrirtækja sem gengur út á þann fókus að búa til peninga til skamms tíma er viðurkennd í öllum viðskiptafræðum heimsins og beinlínis hvatt til þess að viðhafa þessa tegund stjórnunar. Því getur ekki verið sanngjarnt að hengja íslenska athafnamenn eina fyrir það. Það er mein sem heimurinn þarf vonandi að takast á við í kjölfar kreppunnar en það verður ekki auðvelt eða sársaukalaust svo mikil áhrif hefur þessu hugsun haft inn í samfélagsgerðina alla að hún verður ekki leiðrétt „si svona".

Það er beinlínis grátlegt að horfa upp á íslenska þjóð firra sig allri ábyrgð á því sem gerst hefur síðustu ár. Forsendan fyrir því að eitthvað breytist hér til batnaðar er að við öll lítum í eigin barm og horfum á það sem gerst hefur í samhengi. Að við könnumst við ábyrgð okkar á því að svo fór sem fór - því ábyrgð okkar er mikil. Ábyrgð okkar er sú að kjósa yfir okkur valdhafa sem neituðu staðfastlega að takast á við þau vandamál sem blöstu við - árum saman - já árum saman. Við kusum þá meira að segja þegar þeir lofuðu okkur meira í budduna á árinu 2003 þegar allar aðstæður í samfélaginu kölluðu á virkt aðhald í peningamálum. Nei það hugnaðist okkur ekki - við vildum meira... og það fengum við... um tíma.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...