mánudagur, 5. janúar 2009

Enn af umræðunni

Var að enda við að lesa opið bréf Víglundar Þorsteins til Þorsteins Pálssonar og í kjölfarið ræðu Einars Más Guðmundssonar frá mótmælafundi á laugardaginn.

Af ræðu Einars Más skil ég það eitt að hann sé orðinn byltingarforingi að hætti þeirra í Rússlandi 1917. Það vekur mér ugg að þetta sé það sem fjöldi fólks mætir til að hlusta á Íslandi í upphafi árs 2009. Höldum við að kommúnismi sé svarið við uppbyggingu samfélagsins til framtíðar? Hvað annað má skilja af þessum málflutningi? Hvert leiðir svona málflutningur okkur svo sem? Til þess að kjósa Vinstri græna í næstu kosningum? Hvert mun það svo leiða íslenskt samfélag til framtíðar? Ég get ekki að því gert að ég fæ hroll af tilhugsuninni einni saman.

Það er með ólíkindum hvað Davíð Oddsson er klár spunameistari. Orðræðan öll í íslensku samfélagi er að hans óskum. Hrunið - allt saman - er „óreiðumönnum" um að kenna. Já og núverandi stjórnvöldum. Ég sé ekki að stjórnvöld síðustu áratuga amk ekki Davíð Oddsson beri nokkra einustu ábyrgð á því sem gerst hefur. Um það talar amk enginn.

Hvernig í ósköpunum má það vera? Hvernig getur það verið að hægt sá að heilasvo heila þjóð á örskömmum tíma að hún verði algjörlega blinduð á það sem gerst hefur og trúi því sem einn maður að hrun íslenska bankakerfisins megi rekja til einnar ástæðu - „vondra útrásarmanna"? Að íslenskir athafnamenn síðustu ára séu allir sem einn „vondir menn" sem þurfi að passa upp á að fái hvergi að koma nálægt neinu í íslensku samfélagi nútímans eða framtíðarinnar. Hverjum ætlum við að treysta til að stjórna fjármálastofnunum og fyrirtækjum framtíðarinnar? Hverjir munu fá „hreint sakavottorð" frá þeim rannsóknarrétti sem ríður nú yfir? Og það sem meira er - hverjir eru þess umkomnir að vera í „rannsóknarréttinum"? Eru það Agnes Bragadóttir og Egill Helgason sem við eigum að treysta til að segja til um hverjir mega koma nálægt fyrirtækjarekstri á Íslandi framtíðarinnar?

Og þá að Víglundi Þorsteinssyni og bréfaskriftum hans við Þorstein Pálsson. Bréfritaranum hugnast illa þetta daður Þorsteins við Evrópusambandið - talar um „kjánalegu Evrópu og evruumræðu" . Það er ekki að sjá á málflutningi Víglunar að íslenska krónan hafi haft nokkuð með það að gera sem gerst hefur. Hvað þá að það skipti nokkru máli fyrir íslenska þjóð til framtíðar að stjórnmálamennirnir ákveði að læra af því sem gerst hefur og gefi út nýja stefnu - breytta stefnu - gefi okkur þjóðfélagsþegnunum eitthvað til að trúa á. Nei - ónei - óbreytt stefna - Íslandi allt -íslenska krónan áfram sem gjaldmiðill til framtíðar og engu breytt (nema jú stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja eiga að sýna ráðdeild héðan í frá). Það er framtíðarsýnin. Framtíðarsýn 19 ára gamallar dóttur minnar (sem rétt í þessu kom inn og tilkynnti um kaup á tannbursta í 10-11 sem kostaði 800 krónur) og hennar kynslóðar. Sjálfstætt Ísland að hætti Bjarts í Sumarhúsum - það er framtíðarsýn komandi kynslóða.

Hvenær er þess að vænta að menn fari að tala opinskátt um hvaða hlutverk íslenska krónan hafði í þessu hruni og aðdraganda þess? Á árunum 2002 - 2004 og ekki síst í aðdraganda kosninganna 2003 sótti ég alla fundi sem ég komst yfir um íslensku krónuna. Ég minnist þess að þá þegar höfðu menn áhyggjur af því hvaða áhrif staða krónunnar gagnvart öðrum myntum hefði á efnahagsreikninga bankanna. Á fundi undir yfirskriftinni „Stenst íslenska krónan samkeppnina" hélt Vilhjálmur Egilsson erindi þar sem hann velti því upp "hvort að Seðlabankinn ætti að smíða sérstök hagstjórnartæki í kringum hinn öfluga íslenska gjaldmiðil verðtryggðu krónuna? Hvort það ætti að breyta uppgjörsreglum eða eiginfjárkröfum banka þannig að gengissveiflur mögnuðu ekki hagsveifluna. Ég man enn hvað það vöknuðu margar spurningar í kolli mér í kjölfar þessa erindis - spurningar sem ég fór með heim og fékk engin svör við en hef svo sem oft hugsað til núna eftir að hrun bankakerfisins er komið á daginn.

Þá þegar höfðu menn í innsta hring á hægri væng stjórnmálanna áhyggjur af því hvernig staða krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum magnaði upp hagsveifluna. Samt sáu þeir aldrei nokkurn tíma ástæðu til að tala af alvöru um þá stöðu og takast á við hana. Ef þeir sjá það ekki heldur nú - þegar bankakerfið er hrunið og við stöndum frammi fyrir þeim raunveruleika að meirihluti fyrirtækja og heimila er "tæknilega gjaldþrota" - þá er þeim ekki við bjargandi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...