miðvikudagur, 14. janúar 2009

Önnur lítil dæmisaga frá íslensku heimili í byrjun árs 2009

Verslaði í Nóatúni í gær, keypti vöru sem um langa hríð hefur verið hluti af eðlilegri innkaupakörfu heimilsins: Queens hvítlauksbrauð (notabene, 1 brauð, ekki 2 í pakka) 328 kr (kaupi þessa tegund umfram íslenskar því mér finnst hún mun betri og alltaf söm að gæðum - kemur „crunchy" út úr ofninum eins og ég vil hafa það), Filippo Berio Special selection 994 kr (kaupi hana líka því mér finnst hún góð), Pik-Nik kartöflustrá 575 kr, 0,575 kg blá vínber 569 kr... Það er ljóst að áframhaldandi innkaup af þessu tagi munu ekki verða til að lækka yfirdráttinn sem um nokkurt skeið hefur staðið í 500 þúsundum á hinum dásamlegu séríslensku vöxtum u.þ.b. 20%.

Og sjálfstæðismaður - góður vinur - sem ég talaði við í vikunni hafði miklar efasemdir um að við ættum að stefna á Evrópusambandsaðild. Hann hafði allt á hornum sér og málflutningur hans var eins og bergmál af orðræðu fyrrum forsætisráðherra vor: „Getur verið að „hrunið" sé EES samningnum að kenna? Að ekki sé talað um hlut „útrásarvíkinganna". Já, fjölmiðlalögin hefðu betur náð í gegn. Íslenska krónan já - við verðum líklega að taka upp annan gjaldmiðil - en hver segir að það þurfi að vera evra?"

Ég féll í þunglyndi eftir þetta samtal. Þurfti ekki meira. Getur það virkilega verið að Sjálfstæðismenn eigi ekki eftir að taka stefnuna á Evrópusambandsaðild á landsfundinum? Hvað á þá að verða til þess að gefa manni framtíðarsýn á að þetta ástand eigi einhvern tíma í nánustu framtíð eftir að breytast? Hver hefur trú á að íslenskt hagkerfi rétti úr kútnum með því einu að skipta um gjaldmiðil (því jú öllum nema kannski Davíð og co. virðist ljóst að annan gjaldmiðil verðum við að fá). Hver hefur trú á íslenskum atvinnurekendum eða atvinnulífi? Hver á eftir að geta hugsað sér að fjárfesta hér eftir allt það sem á undan er gengið? Í samfélagi þar sem allir atvinnurekendur virðast meira og minna bölv... skúrkar? (Ályktun dregin af fyrirsögnum fjölmiðlanna og umræðunni þessa dagana). Hver hefur trú á íslensku stjórnkerfi? Íslenskum stjórnmálum? Íslensku samfélagi? Og á hvaða markaði eiga íslensku fyrirtækin að starfa? Hvar eiga þau að eygja möguleika á verða samkeppnisfær?

Það er fráleitt að aðild að ESB muni leysa allan okkar vanda til skemmri tíma en guð minn góður hvar í ósköpunum er framtíðarsýnin án þess að stefnan sé tekin á aðild? Hvaðan á trúverðugleikinn að koma? Hvernig á ég að trúa því að þetta bilaða verðlag muni (sem þó er engan veginn komið komið í þær hæðir sem það á eflaust eftir að fara) muni einhvern tíma lagast aftur? Hvernig á íslenska krónan sem nú er varin af 18% stýrivöxtum OG gjaldeyrishöftum (! en veikist samt) að rétta sig af til skemmri tíma án þess að stefnan sé tekin á breytingar til framtíðar?

Hvernig á ég að segja dóttur minni að trúa á framtíðina við óbreytta stefnu? Hvaða framtíðarsýn hafa Davíð og co? Er það gamli góði túngarðurinn? Aftur til baka til þess tíma þegar ég var að alast upp? Aftur til þess tíma þegar pólitískar skoðanir ráða því hvar þú verslar? Aftur til þess tíma þegar „venjulegt fólk" lætur sig ekki dreyma um að fara til útlanda - nema kannski einu sinni á ævinni (já það þótti nú óþarfa bruðl með gjaldeyrir í minni sveit að vera að þvælast þetta til útlanda alltaf).

Ég spurði þennan sama vin minn - hvort hann hefði lesið umfjöllun Morgunblaðsins um ESB. Nei, það hafði hann ekki gert - þetta er svo mikil lesning! Tek það fram hef spurt marga fleiri - fæstir lesa, (nema jú ég sem er algjörlega sannfærð um að Ísland eigi að gerast aðili að ESB og þarf því ekki að lesa hana).

Hvaða framtíðarsýn hafa þeir sem hæst láta í umræðunni? Hvert eigum við að fara?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...