Fyrir mér er þessi leit okkar margra aftur til fortíðar til að finna gömlum skoðunum stað slæm árátta og ekki líkleg til að vera til nokkurs gagns. Það var ekki síst niðurstaða mín eftir að hafa unnið verkefnið um bresku samvinnuhreyfinguna. Stjórnmál eiga að fjalla um samfélagsleg málefni dagsins í dag og framtíðina. Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur sögu fortíðar og læra af henni en við megum ekki verða svo föst í gömlum hugmyndum að við gerum þær að aðalatriði. Það er fráleitt að Framsóknarflokkurinn í dag geti byggt sérstöðu sína til framtíðar á gömlu „samvinnuhugsjóninni" - það er að mínu mati mjög mikilvægt fyrir flokkinn að gera sér grein fyrir því. Samvinnufélögin voru börn síns tíma og gerðu margt gott og ég efast ekkert um að þau skiptu sköpum um uppbyggingu margra samfélaga út um land á sínum tíma. En þau eiga ekkert erindi í dag annað en að þau eru til sem félagaform sem getur vel verið að sé nýtilegt til einhvers rekstrar þar sem tilgangi viðkomandi félags, stofnunar eða rekstrar er betur náð fram með samvinnufélagsforminu en öðru rekstrarformi. Þessi árátta að fjalla alltaf um stjórnmál eins og þau eigi að snúast um að „eitt" rekstrarform sé hið eina sanna og að heilu stjórnmálaflokkarnir séu til á grundvelli þess að eitt rekstrarform sé öðru betra leiðir okkur ekki þangað sem við þurfum að stefna nú í upphafi 21. aldar. Það eru einfaldlega allt aðrir tímar núna en voru á sínum tíma þegar Jónas frá Hriflu teiknaði umhverfi íslenskra stjórnmálaflokka og það er beinlínis þarfara en nokkuð annað að þeir sem gefa sig að íslenskums stjórnmálum átti sig á því.
Ég ólst upp í umhverfi þar sem verslað var við „kaupfélögin" og það er algjörlega fráleitt að ég sjái eitthvað sérstaklega lýðræðislegt eða „sætt" við það félagaform umfram önnur nema síður sé. Fyrir mér er umræða á þeim nótum að eitt rekstrarform umfram annað sé eitthvað sérlega „mjúkt" eða „gott" og annað „hart" og „vont" hreinlega röng umræða. Það er ekki þannig í raunveruleikanum og verður aldrei. Þar sem menn koma saman í félagi hvort heldur það er í „hlutafélagi" eða „samvinnufélagi" þar eru mannlegir eiginleikar upp á borðum og mannlegir eiginleikar eru alltaf alla vega. Eiginlega kristallast mín skoðun best í greinaskrifum mínum um þetta skelfilega hugtak „sameign þjóðarinnar". Það er umræða sem ég skelfist meir en margt annað í íslensku samfélagi því með þeirri umræðu hefur íslenska ríkið slegið eign sinni á land sem er í viðurkenndri eigu einstaklinga og það algjörlega fyrir opnum tjöldum án þess að blygðast sín einu sinni. Ríkið á Íslandi hefur semsagt þjóðnýtt landið og miðin á Íslandi á síðustu árum og það meira að segja án þess að sú gjörð hafi nokkurn tíma komið til umræðu. Lögin voru sett 1998 algjörlega án umræðu og framkvæmd ríkisins síðan á grundvelli þeirra er með hreinum ólíkindum. Þetta hefur ríkið gert á grundvelli þess að það sé eitthvað sérlega „rómantískt" og gott við þetta hugtak „sameign þjóðarinnar" þó það þýði þegar upp er staðið ekkert annað en hið ágæta hugtak sem við öll skiljum „ríkiseign". Grundvöllurinn á bak við þetta allt saman er einhver óskilgreind ósk okkar allra um að til sé eitthvað voðalega sætt og gott hugtak utan um „eignarrétt" sem er þó grjóthart fyrirbrigði og fer best á að sé algjörlega skýrt kveðið á um. Við Íslendingar áttum og eigum að ræða slík grundvallaratriði eins og hvað við viljum að íslenska ríkið eigi og hvað ekki. Við eigum ekki láta blekkja okkur með einhverjum óskilgreindum hugtökum sem höfða til okkar af því að þau eru svo „sæt" og góð í eðli sínu eins og virðist vera með þetta „sameignarhugtak".
Alveg sama á við um hugtakið um „samvinnufélög". Þó að íslenskt hagkerfi hafi hrunið á haustmánuðum þá er kolröng niðurstaða að álykta sem svo að með því sé hlutafélagaformið dautt og eitthvað annað taki við. Samfélag dagsins í dag snýst einfaldlega ekki um eitt rekstrarform öðru fremur og stjórnmálaflokkarnir á Íslandi verða að átta sig á því. „Kapítalisminn" er ekki hruninn - að halda því fram er algjörlega fráleitt. Kapítalismi án ábyrgðar, skynsemi og raunsæis er aftur á móti örugglega hruninn en hvort að heimurinn eigi eftir að átta sig á því er annað mál. Það er algjörlega skýrt og hefur auðvitað alltaf verið ef grannt er skoðað að þetta ofurlaunakapphlaup og skammtímahugsun í rekstri er óheilbrigt umhverfi og getur ekki gengið upp til lengri tíma. En hvort að takist að vinda ofan af því er annað mál og það er algjörlega ljóst að það mun taka langan tíma. T.d. á eftir að koma á daginn að hér landi hafa ofurlaunin smitað út frá sér út um allt. Ég er viss um að meira og minna allir framkvæmdastjórar - samtaka jafnt sem stærri og minni fyrirtækja eru meira og minna komnir með laun sem lítil skynsemi er í ef tekið er mið að heildinni. Slíkt mun taka langan tíma að leiðrétta - ef það tekst einhvern tímann. Það er gaman að því að rifja það upp að forsprakki þessara ofurlauna hér á landi var Guðjón B. Ólafsson (fer vonandi rétt með nafnið) forstjóri Sambandsins á sínum tíma eins og þú kannski manst. „Samvinnufélagaformið" var semsagt engin forsenda fyrir því að tryggja þar meira réttlæti en annars staðar.
Mín skoðun er sú að eina sérstaðan sem Framsóknarflokkurinn getur byggt á til framtíðar sé pólitík raunsæis og skynsemi. Það er gallinn við Samfylkinguna og veikleiki sem Framsóknarflokkurinn getur aðgreint sig frá. Annað hvort það eða sameinast Samfylkingunni og gefið henni þannig þá jarðtengingu sem hún þarf svo mjög á að halda! Sem væri reyndar óskandi að yrði tekið til skoðunar af alvöru!
Trúðu mér - fyrir Framsóknarflokkinn í leit að sérstöðu til framtíðar - er algjörlega út úr korti að horfa til Samvinnuhreyfingarinnar - samvinnuhreyfingin tilheyrir fortíðinni og á ekkert erindi sem aðalatriði við pólitík framtíðar!
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli