Góði hlutinn við Ísland síðustu ár var að hafa þá tilfinningu að maður byggi í landi sem væri hægt að komast í burtu frá án mikillar umhugsunar eða óyfirstíganlegra fjárútláta. Iceland Express breytti því fyrir „venjulegt fólk" að búa á Íslandi því þeir buðu upp á farmiðaverð yfir hafið sem hafði ekki sést áður. Buðu upp á samkeppni sem var ótrúlega kærkomin og maður leyfði sér að hugsa til að væri komin til að vera. Önnur lággjaldaflugfélög virtust ætla að fylgja í kjölfarið og opna nýjar víddir og möguleika fyrir „venjulegan mann" á Íslandi sem öldum saman hefur búið við áttahagafjötra.
Nú hefur ónýtur gjaldmiðill breytt þessu. Ferðir til útlanda í dag eru lúxus sem ekki hver sem er getur látið eftir sér. Ferð yfir hafið fram og til baka er ekki hversdagsleg ákvörðun heldur krefst hún umtalsverðra fjárútláta. Að ekki sé nú talað um kostnaðinn við það að dvelja í öðru landi og nota annan gjaldmiðil en borga fyrir hann með íslenskum krónum.
Já gamli góði „túngarðurinn" sem félagarnir Guðni, Bjarni Harðar, Davíð Oddsson og Steingrímur J. Sigfússon börðust sem hatrammast fyrir er kominn aftur í öllu sínu veldi. Og ekki bara það heldur virðist þessum mönnum og skoðanabræðrum þeirra og systrum hafa tekist að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um að svona skuli þetta vera. Stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna þarf ekki að breyta eða endurskoða. Nei þá er nú betra að leita dauðaleit að öðrum gjaldmiðli sem þjóðin getur tekið upp til þess að þurfa ekki að missa „sjálfstæðið".
Hvaða „sjálfstæði" skildi þetta vera sem umræddur hópur leggur svona mikla áherslu á að halda í? „Sjálfstæði" til að erlendir aðilar komi áreiðanlega ekki hingað í samkeppni við innlenda aðila hvort heldur er um vöru eða þjónustu? „Sjálfstæði" til að flytja athugasemdalaust inn löggjöf erlendis frá sem engin áhrif er hægt að hafa á til eða frá? (Sem NB nýtist alþingismönnum ágætlega til að fela sig á bak við). „Sjálfstæði" til að halda vöxtum háum og tryggja viðhald hagsveiflna af stærðargráðu sem tryggir að engir möguleikar opnast til uppbyggingar nýrra atvinnugreina? „Sjálfstæði" til að halda völdum? Hverra hagsmuna er verið að gæta með því?
Það er ákaflega erfitt að sjá að slíkt „sjálfstæði" séu hagsmunir íslensks almennings. Það eru nefnilega hagsmunir venjulegs fólks á Íslandi að opna fyrir erlenda samkeppni . Það verður ekki gert með því einu að skipta út gjaldmiðlinum. Það verður einungis gert með fullri aðild að ESB. Eini möguleikinn til þess að hér skapist aðstæður til aö örva samkeppni er að Ísland taki stefnuna á aðild. Það mun ekki einungis skapa aðstæður fyrir erlenda aðila að koma hingað og bjóða verslun og þjónustu í samkeppni við innlenda aðila. Aðild mun einnig opna aðstæður fyrir innlenda aðila að hefja atvinnurekstur í samkeppni við aðila á evrópska markaðnum í atvinnugreinum sem við höfum ekki einu sinni hugmyndaflug til að hugsa um núna.
Aðild að ESB mun með öðrum orðum verða til þess að örva Íslenskt atvinnulíf fyrst og síðast. Sem eru ótvírætt hagsmunir alls almennings á Íslandi. Örvunin verður ekki bara vegna annars gjaldmiðils heldur vegna þeirra markaðsaðstæðna sem aðild opnar fyrir. Það er þetta sem þörf er á að breyta. Það er þetta sem við íslenskur almenningur þurfum að sameinast um að gera kröfu um að stefnan verði tekin á.
Til að tryggja gefa nú ekki andstæðingum ESB færi á að kveða þessi orð í kútinn verður að geta þess að höfundur er þess vel meðvitaður að efnahagskreppan er ekki staðbundin við Ísland. ESB á í sömu og vandræðum og meira og minna allir markaðir heimsins. Það breytir ekki því að eini möguleikinn fyrir Íslendinga að koma sér hratt út úr þeim aðstæðum sem þeir eru í er að skapa íslensku atvinnulífi stað í samskiptum við aðrar þjóðir. Það er ekkert neyðarbrauð það er tækifæri sem er brýnt og þarft að taka ákvörðun um fyrir okkur öll til langrar framtíðar.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli