sunnudagur, 2. nóvember 2008

Skynsemisraddirnar...

Nú sem aldrei fyrr þrái ég að fá að heyra skynsemisraddir . Skynsemisraddir um hvar við erum, hvað þarf að gera í þeirri stöðu og síðast en ekki síst framtíðarsýn. Ég held reyndar að skortur á framtíðarsýn stjórnvalda núna sé stórhættulegt til skemmri tíma og ætla að færa rök fyrir því hér.

Í tvígang í síðustu viku hef ég lent í þeim aðstæðum að orð mín hafa orðið til þess að vekja þvílíka reiði áheyrenda að ég hef fengið skýra aðvörun um það hversu eldfimt ástandið í samfélaginu er nú um stundir. Í flugvél á leið frá Akureyri á sunnudaginn var las ég stuttan kafla úr viðtali við Björgúlf í Morgunblaðinu upphátt fyrir ferðafélaga minn. Það leyndi sér eflaust ekki að ég var sammála því sem fjallað var um. Orð mín urðu til þess að kona ein í næstu sætaröð stóð upp og bað mig lengstra orða „að halda þessum skoðunum fyrir mig". Ég fékk semsagt skýr skilaboð um það að „þessar skoðanir" mínar voru ekki leyfilegar . Í seinna skiptið sat ég á kaffihúsi ásamt fleirum þegar ein okkar byrjaði að tala um það „að einkavæðingunni væri um að kenna þetta ástand". Ég brást ákveðin við og sagði „að svona mættum við einmitt ekki hugsa". Þessi orð mín urðu til þess að viðkomandi fuðraði upp í reiði og sagði að svona væri einmitt íslenskt samfélag og hefði alltaf verið „maður mætti ekki hafa skoðanir" og þar með stóð hún upp og var rokin. Það skipti engu þó ég bæðist margfaldlega afsökunar og reyndi að leiðre´tta orð mín sem höfðu hugsunarlaust hrokkið af vörum mér. Þetta eru einungis tvö lítil dæmi um það hvernig ástandið í íslensku samfélagi er núna í vetrarbyrjun 2008. Fólk er að springa úr reiði, ótta og hræðslu og óbreyttir borgarar - venjulegt fólk er að springa. Óvissan - óöryggið er algjört.

Þetta ástand er eitthvað sem stjórnmálamennirnir og við öll verðum að taka alvarlega. Við getum ekki haldið út í margar vikur með enga stefnu til framtíðar - aðra en þá að slökkva elda. Við verðum öll að eygja einhverja von um breytingar í nánustu framtíð. Ég segi fyrir mig að mig hefur langað mikið til að taka þátt í opnum fundum um ástandið síðustu vikur en ég hef ekki treyst mér til þess vegna þess að það skiptir mig öllu máli hvernig þar er haldið á málum. Það skiptir mig öllu máli hverjir eru frummælendur á slíkum fundum - ég vil t.d. ekki sitja undir hugmyndafræði sem gengur út á að „einkavæðing" sé slæm og „ríkisvæðing" sé góð. Ég vil ekki sitja á fundi sem gengur út á að lausn vandans sem við er að glíma felist í að hengja „auðmennina". Ég vil hlusta á leiðtoga sem tala af skynsemi . Leiðtoga sem horfa fram á við og segja mér að samfélagið Ísland verði áfram alþjóðlegt samfélag. Opið og betra samfélag þar sem við öll höfum leyfi til að hafa pólitískar skoðanir.

Það getur vel verið að í þessu felist mótsagnir. Að ég segi í einu orðinu að ég vilji ekki hlusta á tilteknar skoðanir og í hinu að einungis ákveðnar skoðanir séu leyfilegar. Það verður að hafa það. Ég stend við það. Ég þrái heilbrigt samfélag. Samfélag sem ræðst ekki af flokkadráttum heldur heilbrigðri skynsemi. Ég hef síðustu vikur drukkið í mig skynsemisraddir. Ég les leiðara Þorsteins Pálssonar og Jóns Kaldal í Fréttablaðinu af áfergju. Ég hlusta á Eddu Rós Karlsdóttur hvar sem færi gefst. Ég les bloggið hans Björns Inga á vefnum daglega. Ég heyrði augnablik í Jóni Ormi Halldórssyni í útvarpinu um daginn og leið eins og þar færi gamall vinur. Ég les og hlusta á það sem þetta fólk hefur að segja vegna þess að mér finnst það skynsamlegt. Ég horfi ekki á það sem þetta fólk segir og skrifar í gegnum „flokkspólitísk" gleraugu heldur sem fólk sem höfðar til mín.

„Skynsemisraddirnar" verða að gefa færi á sér. Við sem ekki viljum aðhyllast skoðanir Bjarna Harðarsonar, Jóns Magnússonar, Ögmundar Jónassonar, Steingríms J. Sigfússonar, Einars Más Guðmundssonar, Guðna Ágústssonar... við verðum einhvers staðar að eiga aðgang að öðrum röddum.

Því er áskorun mín til fólks sem vill ekki að Ísland verði einangrað land í samfélagi þjóðanna: Leggjum „flokkslínur" til hliðar um stund! Höldum stóran fund opinn fund - þvert á flokka - þar sem frummælendur eru fylgismenn þess að Ísland verði áfram í samfélagi þjóðanna! Veitum stjórnvöldum það aðhald sem þeir þurfa nú sem aldrei fyrr! Sendum þeim skýr skilaboð um hvernig við viljum sjá Ísland framtíðarinnar!

Ég býð mig fram sem sjálfboðaliða í skipulagningu slíks fundar!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...