sunnudagur, 16. nóvember 2008

Vonleysi

Það er vont að eygja ekki von en þannig er ástatt með mig núna. Það er áreiðanlega best að hætta þessu rausi hér á vefinn og snúa sér að því að reyna að lifa þetta af. Búa sér til þröngan heim sem gengur út á að hætta að fylgjast með, fara í vinnuna, sinna starfinu og fara heim og sinna sínum nánustu. Svartnætti það sem ég upplifi í þessu samfélagi í augnablikinu á ekkert erindi við aðra en sjálfa mig.

Ég hélt um stund á fimmtudaginn eftir að hafa lesið ræður Þórs Sigfússonar og Vilhjálms Egilssonar frá fundi Samtaka atvinnulífsins að eitthvað verulega jákvætt væri að gerast. Sú von sem þessar ræður þeirra kveiktu slökknaði snarlega aftur eftir hádegi á föstudaginn þegar ljóst var að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér að stofna enn eina nefndina um Evrópumál og flýta landsfundi flokksins fram í janúar til að taka þar afstöðu til Evrópusambandsaðildar. Skilaboðin sem ég hafði lesið í leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu á miðvikudaginn og foyrstumanna Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn um að gefa þyrfti út afdráttarlausa stefnu tafarlaust urðu með þessari niðurstöðu að engu. Ég hef væntanlega misskilið herfilega þessi skilaboð.

Það er alveg ljóst að flokkakerfið okkar gerir það að verkum að engar ákvarðanir eru teknar si svona sem brjóta í bága við útgefna stefnu flokkanna. Svo sem auðvitað ekki við því að búast en mikið er það vond staða fyrir þjóð í alvarlegri krísu að þurfa að horfast í augu við að hagsmunir stjórnmálaflokka ganga ofar heildarhagsmunum þjóðar. Stjórnmálaflokkar sem hafa reynst algjörlega ófærir um að takast á við stefnu sem blasað hefur við að þyrfti að taka á árum saman. Jafnvel þegar þetta getuleysi þeirra hefur beðið algjört skipbrot og leitt þjóðina í alvarlegri stöðu en nokkur gat ímyndað sér að gæti gerst - jafnvel þá eru flokkarnir enn í veginum.

Ég geri mér grein fyrir því að nú er ekki eins og öll þjóðin sé sammála mér um að gefa eigi út að stefnt skuli að Evrópusambandsaðild. Það er samt svo að alveg síðan ég horfði á yfirlýsingar Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í Kastljósi kvöldið minnistæða í október hefur það verið algjörlega skýrt fyrir mér að þessi yfirlýsing stjórnvalda væri eina leiðin til að eygja von um komast út úr krísinu ekki síður eina leiðin til að geta verið bjartsýnn til framtíðar.

Mér er alveg gjörsamlega ómögulegt að sjá hvernig hægt er að vera bjartsýnn og rólegur á meðan eldarnir eru slökktir ef engin er framtíðarsýnin. Hvernig á íslenskt hagkerfi með sinn ótrúverðuga gjaldmiðil að ná sér á strik ef sýnin um breytingar til lengri tíma er engin? Hvernig er hægt að bíða rólegur fram í janúar í þessari stöðu?

Mér þykir það verulega leitt en yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá á föstudag um aðgerðir til að hjálpa heimilinum vöktu mér enga von. Yfirlýsingar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um flýtingu flokksfunda fram í janúar gerðu það ekki heldur. Ég er hætt að tjá mig um íslenskt samfélag í bili og ætla að snúa mér að því að reyna að lifa þetta af.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...