Ég á rætur mínar í Framsóknarflokknum, er félagi í Samfylkingunni , hef lengst af starfað fyrir fólk sem aðhyllist Sjálfstæðisflokkinn. Ég trúi ekki á flokka. Ég trúi á blöndu hugmynda, raunsæis og skynsemi í afstöðu til stjórnmála.
Ég hef lengst af starfað í viðskiptalífinu - í þjónustu við fyrirtæki í landinu. Ég trúi af heilum hug að frelsi í viðskiptum sé besta leiðin til farsældar hverju samfélagi. Því frelsi þarf þó að fylgja skynsemi og raunsæi sem eru eiginleikar sem maðurinn má aldrei sleppa höndinni af.
Ég trúi ekki að eitt form á eignarhaldi sé endilega öðru fremra eða yfirhöfuð að „trú á eignarform" eigi að vera leiðarljós okkar í stjórnmálum dagsins í dag. Ég trúi að tilgangur fyrirtækja og stofnana sé meginmarkmiðið og að eignarhaldið eigi að ráðast því hvað hentar þeim tilgangi best.
Ég upplifði breytinguna við upptöku Evrunnar og hrun „landamæra" innan Evrópu.Ég upplifði þann lúxus að geta borið saman flutningskostnað frá öllum löndum Evrópu í stað þess að umreikna svissneska, belgíska, franska franka, hollensk gyllini, ítalskar lírur, spænska peseta, þýsk mörk... yfir í íslenskar krónur. Allt í einu varð það mögulegt að gera kröfur á að sama þjónusta væri seld sama verði í öllum þessum löndum. Það varð mér strax ljóst að helstu kostir Evrunnar kæmu fram á löngum tíma.
Ég hef lengi verð sannfærður Evrópusambandssinni. Ekki vegna þess að ég „trúi á" Evrópusambandið - ekki frekar en ég „trúi á" Alþingi Íslendinga. Ég er sannfærð um að Evrópusambandið hefur skipt sköpum um þróun Evrópu. Viðskiptaleg tengsl - ekki síst vegna sameiginlegs gjaldmiðils skipta sköpum. Á sama tíma held ég að Evrópusambandið sé á skelfilegri leið um margt. Eina leiðin til að hafa áhrif á leiðina er að verða fullur þátttakandi .
Ég hef síðustu ár upplifað upptöku Evróputilskipana og reglugerða í íslenskan rétt. Ég hef upplifað gagnrýnisleysi og einhliða upptöku þessara laga og reglna sem alþingismenn og stjórnsýsla þvo hendur sínar af og segja að þeir geti ekkert gert við „þetta komi frá Evrópusamabandinu".
Ég hef nú í tvö ár verið í starfi þar sem megnið af vinnunni fer í að gagnrýna Evróputilskipanir og reglugerðir sem greininni sem ég starfa fyrir er gert að taka upp hvað sem tautar og raular. Þessi atvinnugrein starfar undir löggjafarvaldi í Evrópu - löggjafarvaldi sem íslenski löggjafinn þrástagast við að hafa nokkuð með að gera. Meirihluti alþingismanna á Íslandi heldur því statt og stöðugt fram að við getum ekki gerst aðilar að Evrópusambandinu vegna þess að „því fylgi svo mikið reglugerðarfargan"!
Ég verð að játa að ég skil þetta ekki. Hvernig í ósköpunum er hægt að heyja margra ára baráttu sem byggir á því að þurfa ekki að taka upp eitthvað sem þegar er verið að taka upp? Hvernig stendur á því að Íslendingar mega bara fá gallana af Evrópusambandsaðild en þeim er algjörlega meinað að fá að upplifa kostina? Landamæraleysið og „innanlandsviðskipti" við lönd Evrópusambandsins og upptöku evru? Hvaða skynsemi er í stjórnmálum af þessu tagi?
Íslenska hagkerfið er hrunið. Gjaldmiðill okkar er búinn að vera og er raunverulega ekki til sem stendur. Ég sé ekki að ég muni sakna hans* enda af verðbólgukynslóðinni og hef aldrei skilið af hverju mér ætti að vera eitthvað sérstaka hlýtt til íslensku krónunnar. Íslenska krónan hefur gert mér lífið leitt alla mína ævi og fátt myndi gleðja mig meir í daglegu lífi en að þurfa ekki hugsa stöðugt um „gengismál".
Að þessu sögðu er áskorun mín til þingmanna eftirfarandi!
Í guðs bænum hristið af ykkur „flokks"fjötrana! Gefið okkur framtíðarsýn! Leyfið okkur að eygja von um að Ísland verði áfram í samfélagi þjóðanna! Takið afstöðu til þess sem taka þarf afstöðu til og það strax! Við getum ekki beðið! Þið eruð fulltrúarnir sem við kusum til að stjórna þessu samfélagi. Þetta samfélag er nú í verri krísu en við höfum nokkurn tíma horfst í augu við. Þið berið ábyrgð gagnvart okkur sem kusum ykkur - meiri og mikilvægari ábyrgð en gagnvart flokkunum sem þið tilheyrið! Flokkar eru mannanna verk og þeir mega breytast og þróast eins og önnur mannanna verk! Í guðs bænum... talið við okkur og gefið okkur sýn!
• Þó ég játi að hann má alveg lifna við til skamms tíma til að við eigum möguleika á að losna við hann endanlega og getum jarðað hann með reisn, án þess að hann geri okkur öll gjaldþrota.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli