Nú er kominn sunnudagur 9. nóv. 2008. Vinnuvika framundan - vika númer sex síðan Hrunið byrjaði með þjóðnýtingu Glitnis. Hvað hefur gerst síðan? Hvað eru stjórnvöld að gera til að efla trú okkar á að þetta samfélag okkar eigi sér framtíð? Það er alveg rétt að það hefur verið ástæða til hrósa Geir H. Haarde fyrir þá yfirvegum sem hann hefur sýnt síðan áfallið reið yfir en öllu má nú ofgera... er það nægilegt að sýna yfirvegun í slíkum aðstæðum viku eftir viku eftir viku?
Hvar í ósköpunum sér þess stað að einhver sé að stjórna landinu? Er einhver áætlun í gangi? Er einhver „strategía í gangi"? Er einhvern að vinna að almannatengslum fyrir Ísland einhvers staðar? Er einhver að tala við bresk, hollensk, þýsk yfirvöld til að reyna að leysa mál okkar gagnvart þeim? Er einhver að vinna í því að Ísland muni einhvern tíma eiga sér viðreisnar von í alþjóðasamskiptum aftur? Er einhver að vinna í því að sá skaði sem við höfum orðið fyrir leiði ekki til þess að við verðum brennimerkt til langrar framtíðar og dæmd til að skammast okkar fyrir þjóðernið?
Í kvöldfréttum var það ítrekað einu sinni enn að stórþjóðirnar innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vinni gegn því að sjóðurinn veiti okkur lán nema gengið verði frá Icesavereikningunum. Þetta eru hræðilegar fréttir - svo hræðilegar að ég get ekki hugsað þá hugsun til enda. Getur það í alvörunni verið að þetta sé staðan? Eru Bretar og Hollendingar að vinna gegn því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti okkur lán? Ef það er raunin geta stjórnvöld þá verið svo væn að segja mér hvernig í ósköpunum Ísland getur unnið sig út úr þessu hruni? Hvernig á krónan að geta orðið til aftur? Er gjaldeyrisskömmtun komin til að vera? Er Ísland orðið lokað land til framtíðar og er það sýnin sem við eigum að venja okkur við? Á það fyrir Íslandi að liggja að verða samfélag hliðstætt við Kúbu eða Albaníu?
Er til of mikils mælst af stjórnvöldum að þau hafi haft einhverja áætlun í höndunum þegar þau þjóðnýttu Glitni og settu neyðarlög til að halda utan um hagsmuni ÍSLENSKS hluta bankanna? Héldu þau í alvörunni að þessar ráðstafanir hefðu engar afleiðingar? Héldu íslensk stjórnvöld í alvörunni eins og seðlabankastjóri lýsti yfir í frægu Kastljósviðtali að „þetta væri ekkert mál - við Íslendingar myndum bara byggja skjaldborg utan um íslenskan hluta bankanna og klippa erlendar skuldir frá - kannski greiða svona 5 - 15% þeirra"!!! Hvers konar samfélag er það sem er enn með þennan sama seðlabankastjóra við stjórnvölinn? Hvaða trausts nýtur þessi maður eða þessi stjórnvöld hjá þeim þjóðum sem urðu fyrir þessum gjörningi? Gerðu þau enga áætlun um hvað þetta mundi leiða af sér og starfa þau ekki enn eftir neinni áætlun um hvernig unnið skuli úr þessu?
Íslenskur almenningur sýnir reiði - botnlausa reiði sem snýr að „auðmönnum", bankastjórnendum, jafnvel bankastarfsmönnum. Háværir alþingismenn taka undir þennan söng, eru með yfirlýsingar á yfirlýsingar ofan um „auðmenn" og „fallista í viðskiptalífi" og ala þar með á sundrungu þjóðarinnar á verstu krísutímum sem orðið hafa síðustu áratugi. Ekkert er lengur heilagt. Fólk sem hefur notið virðingar er gert tortryggilegt. Jafnvel reynt að þagga niður í því með þeim orðum að nú sé það orðið „Ríkis"starfsmenn og megi því ekki lengur segja hug sinn!
Gera stjórnvöld og Alþingi sér grein fyrir hvað er að gerast í íslensku samfélagi? Eru einhverjir þarna sem neita að taka þátt í þessu og opna munninn? Vita stjórnmálamenn á Íslandi ekki hvaða hlutverk þeir hafa? Hvar er ábyrgðin? Hvar er forystan?
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli