sunnudagur, 30. nóvember 2008

Sjálfgefið réttlæti ríkisins

Hávær umræða fjöldans síðustu vikur hefur markast af fyrirsögninni hér að ofan - eða þannig hef ég upplifað hana. Að vald íslenska ríkisins tryggi að mest réttlæti sé viðhaft í hverju því sem verið er að takast á við. Umræða af þessum toga veldur mér meiri skelfingu og ótta en ég get með orðum lýst. Ég hef aldrei séð íslenskt ríkisvald viðhafa meira réttlæti en aðrir nema síður sé og raunar hefur íslenskt ríkisvald jafnan komið mér fyrir sjónir sem vont vald. Af þessum sökum hef ég ekki tekið þátt í einni mótmælauppákomu þetta haustið. Ég get ekki hugsað mér að sitja undir málflutningi fólks sem talar fyrir þjóðnýtingu eða að með sem mestu eignarhaldi og afskiptum ríkisins sé réttlæti best tryggt. Tala nú ekki um þann málflutning að það sé sjálfgefið að þannig sé það.

Ég skil ekki umræðu sem markast af því að þar sem „ríkið" eigi nú bankana þá „eigi" ég þá og eigi þar af leiðandi að hafa mikið með það að segja hvernig hlutum þar er ráðstafað. Ég skil yfirhöfuð ekki og hef aldrei skilið þann málflutning að um leið og íslenska ríkið eigi eitthvað „eigi ég" það þar með. Það að vera íslenskur þjóðfélagsþegn er eitt, það að vera fjárfestir eða „eigandi" að einhverju er annað.

Ég man mjög vel þegar Steingrímur J. Sigfússon mætti á aðalfund Símans forðum og talaði þar eins og hann væri sem íslenskur þjóðfélagsþegn þar með „fjárfestir" í íslenska símanum. Steingrímur talaði á þessum fundi eins og hann væri hluthafi í hlutafélagi sem íslenskur ríkisborgari og þar af leiðandi einn „eigenda" Símans sem var í eigu ríkisins. Ég get ekki betur séð en að umræðan þessa dagana markist af þessu sama viðhorfi. Við öll íslenska þjóðin erum „eigendur" að bönkunum og guð má vita hvaða fyrirtækjum öðrum í gegnum þá.

Ríkið er auðvitað ekkert annað en vald okkar þjóðfélagsþegnanna en það er kerfislægt vald - vald sem við ég og þú og allir hinir einstaklingarnir höfum yfirleitt afskaplega lítið með að gera hvernig farið er með. Ríkisvaldið er ekki lýðræðislega kjörið vald eða vald sem verður til vegna þess að þeir sem þar sitja séu best til þess fallnir að sitja þar. Ég sem íslenskur þjóðfélagsþegn hef nákvæmlega ekkert með það að gera hverjir sitja í forsvari fyrir ríkisvaldið á hverjum stað á hverjum tíma. Ég kem ekki að þeirri ákvarðatöku eða hvernig þeir fara með valdið.

Verstu dæmin um vont vald íslenska ríkisins eru að mínu mati kröfur þeirra síðustu ár um eignaupptöku lands á grundvelli laga um „þjóð"lendur. Á grundvelli þeirra laga hefur íslenska ríkið farið offari í valdníðslu gagnvart einstaklingum og það án þess einu sinni að reyna að fela það. Ég hef ekki séð að ég sem íslenskur ríkisborgari hafi getað haft mikil áhrif á þessa skelfilegu gjörninga. Ríkisvaldið hefur í þessu máli vaðið áfram í fullkomlega ósanngjörnum kröfum sínum og notað til þess allan mögulegan og ómögulegan rökstuðning. Ekkert hefur verið ríkisvaldinu heilagt í þessari eignaupptöku. Í þessum gjörningi hefur ríkisvaldið sýnt sitt rétta andlit - fullkomlega miskunnarlaust og ranglátt vald til að gera nákvæmlega það sem því sýnist án aðhalds eða réttsýni af nokkru tagi.

Annað skýrt dæmi sem sýnir fáránleikann sem upp getur komið þegar ríkisvaldið á að tryggja mest réttlæti og sanngirni er dæmið um útgáfuréttinn ástkærum rithöfundi vorrar þjóðar Halldóri Kiljan Laxness. Ríkisvaldið ákvað að taka útgáfuréttinn af þeim aðila sem hafði hann, það gerði ríkið á þeim forsendum að með því væri það að tryggja mest réttlæti. Ríkisvaldið gerði það án þess að hafa nokkrar forsendur fyrir því að aðrir væru í stakk búnir til að taka þennan útgáfurétt yfir. Nú er staðan sú að enginn er með útgáfuréttinn að Halldóri Kiljan Laxness og sú staða getur komið upp að bækur hans verði ekki fáanlegar innan skamms tíma. Getur verið að þeir menn sem þarna tóku ákvarðanir hafi ekki haft neinar forsendur til að taka þær ákvarðanir? Getur verið að þarna hafi einhverjir menn fengið allt of mikið vald - vald sem þeir fóru illa með og veldur okkur öllum mun meiri skaða en ef þeir hefðu látið vera að hafa afskipti af?

Í upphafi hrunsins í október hafði ég á orði að ég vildi ekki „túngarð" Davíðs Oddssonar, Steingríms J. Sigfússonar, Guðna Ágústssonar og þeirra félaga. Ég vildi ekki horfa til þess að íslenskt samfélag yrði eins og samfélagið sem ég ólst upp í. Samfélag pólitískrar spillingar þar sem viðskipti voru viðhöfð á grundvelli þess hvar menn skipuðu sér í flokk en ekki á grundvelli heilbrigðrar samkeppni. Ég get ekki betur séð en ég sé komin í þennan túngarð og guð einn veit hvort, hvenær og hvernig verður aftur snúið. Vonin um að fram á völlin kæmu raddir heilbrigðrar skynsemi dofnar sífellt meir og er að engu orðin. Íslenskt samfélag hefur hrapað aftur á bak um a.m.k. 50 ár og einu raddirnar sem ég heyri opinberlega af fundum eru raddir þjóðnýtingar og afskipta ríkisvalds á öllum sviðum og að það muni tryggja okkur gott, sanngjarnt og réttlátt samfélag til framtíðar. Hvaða röksemdafærsla er að baki þessum upphrópunum? Síðan hvenær tryggja sem mest afskipti íslenska ríkisins mest réttlæti? Getur einhver upplýst mig um það?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...