Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson skrifa áhugaverða grein í Fréttablaðið í dag. Hafi þeir bestu þakkir fyrir. Greinin er skrifuð af skynsemi og er ótrúlega mikilvægt innlegg í umræðuna nú og ekki síst í ljósi þess hverjir skrifa hana.
Opnun á Evrópusambandsaðild í stöðu Íslands nú er svo sjálfsögð að það er fullkomið ábyrgðarleysi ef stjórnmálaflokkar opna ekki fyrir þá umræðu. Með þessu skrefi eru mikilvægir forystumenn í Sjálfstæðisflokknum að lopna fyrir þennan möguleika og það er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir því. Það skyldi þó aldrei eftir að enda með því að ég ætti eftir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn? Meira að segja það er ekki útilokað í stöðunni í dag.
Ég hef aldrei áttað mig jafnvel á því og síðustu daga hversu mikilvægt það er að skrifa greinar um þá stöðu sem Ísland er raunverulega í dag sem aðili að EES og utan Evrópusambandsins. Þær greinar ætla ég mér að ganga í að skrifa næstu vikur. Aðventan er annasamur tími - jafnvel annasamari nú en oft áður þar sem höfundur er að útskrifa einkadóttur sína á föstudaginn og stendur á sama tíma í framkvæmdum heima fyrir. Því gefst ekki tími til að ganga í þetta verk af viti fyrr en á nýju ári. En það skal gert. Þörfin fyrir umræðu um þá stöðu sem Ísland er raunverulega í er himinhrópandi þegar andstæðingar Ev´ropusambandsaðildar hafa enn og aftur náð undirtökunum í umræðunni. Mikilvægustu kostir þess að vera innan Evrópusambandsins í stað þess að vera aukaaðilar eins og við í raun erum sem EES ríki koma aldrei upp á yfirborðið. Ísland hefur sem EES ríki tekið upp stóran hluta ESB reglugerða og tilskipana með mun meira íþyngjandi hætti en Evrópusambandsríkin sjálf. Hér hefur verið rekin stefna þar sem gagnrýnis- og aðhaldsleysi stjórnmálamanna á innleiðingu og framkvæmd ESB reglugerða og tilskipana hefur verið algjört. Í slíku umhverfi er það íslenska stjórnsýslan sem fær algjört sjálfdæmi um löggjöf og reglugerðarsetningu og stjórnmálamennirnir fela sig á bak við „að svona þurfi þetta vera vegna þess að þessi lög og reglur komi frá ESB". Þetta atriði þarf að koma upp á yfirborðið og ræða. Það gengur ekki fyrir ríki eins og Ísland að lifa í fullkominni sjálfsblekkingu til langrar framtíðar.
Þá er annað mikilvægt atriði sem aldrei er til umræðu en það eru kostir þess að vera hluti af innri markaði ESB. Það atriði er auðvitað mikilvægast af öllu nú fyrir Ísland með hrunið hagkerfi. Möguleikarnir sem landamæraleysi innri markaðarins skapar eru tvímælalaust það atriði sem getur gefið þá innspýtingu sem íslenskt atvinnulíf þarfnast nú. Mikið hefur verið talað um nýsköpun og sprotafyrirtæki síðustu ár. Minna hefur farið fyrir umræðu um það hvað það þýðir fyrir Ísland að verða landamæralaust land á innri markaði Evrópusambandsins og hvað slíkt þýðir fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Auðvitað er það lykilatriði í þessu sambandi og opnar nýjar víddir. Ég starfaði í þjónustu við inn- og útflytjendur á þeim tíma þegar innri markaðurinn og hrun tollalandamæra tók gildi innan Evrópusambandsins. Ég hef alltaf öfundað Evrópusambandsríkin af þessu atriði og þetta er enn í mínum huga meginkostur þess að vera aðili að sambandinu. Það er lykilatriði í því að hingað komi erlendir aðilar og veiti innlendum aðilum það aðhald sem þeir þurfa og okkur neytendum þá raunverulegu samkeppni sem við þráum svo mjög. Í mínum huga snýst því aðild að Evrópusambandinu um það að Ísland verði land þar sem ríkir raunveruleg samkeppni í framboði og eftirspurn á vöru og þjónustu á markaði.
Á sama tíma gagnrýni ég mjög margt innan Evrópusambandsins. Ég held að um margt sé sambandið á skelfilegri leið og á það ekki síst við um sérfræðingaveldið og ferkantaðar reglur um alla mögulega hluti. Þann hluta erum við sem þjóð sem aðilar að EES að fá yfir okkur hvort eð er og því miður í mjög mörgum tilfellum með meira íþyngjandi hætti en nokkurt aðildarríkjanna. Því er fullkomlega ábyrgðarlaust hjal að tala um að „Ísland megi ekki ganga í Evrópusambandið því með því fáum við yfir okkur svo mikið reglugerðarfargan". Við erum að fá reglugerðarfarganið en við erum ekki að fá helstu kosti þess að vera aðilar. Þetta er sá raunveruleiki sem fyrir löngu síðan er kominn tími til að horfast í augu við.
Enn og aftur - Bjarni og Illugi - TAKK!
Meira um málið síðar...
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
laugardagur, 13. desember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli