mánudagur, 22. desember 2008

Persónuleg færsla í bland við pólitísk skilaboð

Ég ætla að bregða út af vananum í dag og skrifa persónulega færslu. Má til í þetta skiptið og óska dóttur minni innilega til hamingju með útskriftina og árangurinn á föstudaginn var. Hún útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Ármúla og krækti sér í verðlaun fyrir fjögur fög - stærðfræði, hagfræði, sögu og félagsfræði. Ég get ekki lýst því hvað ég er montin af henni en hún er ótrúlega dugleg stelpan og átti þetta fullkomlega skilið. Hér má sjá mynd af okkur mæðgum á útskriftardaginn...

Ég veit fátt skemmtilegra en að tala við hana dóttur mína um stjórnmál en hún hefur mun betri og meiri skilning á stöðu mála en margur annarr að mínu áliti. Hún áttar sig á samhengi hlutanna og sagði mér t.d. á föstudaginn þegar við fórum í Fjarðarkaup til að versla fyrir útskriftina að hún skildi ekki af hverju almenningur á Íslandi væri svo hollur undir afstöðu sjávarútvegsins og landbúnaðarins í afstöðu sinni gagnvart ESB og ynni þannig gegn eigin hagsmunum. Hún áttaði sig á þessu atriði sjálf og þurfti enginn að segja henni þetta.

Það þarf ekki að orðlengja að um þetta atriði erum við mæðgurnar hjartanlega sammála. Ég upplifði það beint í æð á föstudaginn þegar ég neitaði að gefa eftir og falla í það að kaupa íslenska framleiðslu í búðinni - bara af því að hún væri íslensk og ódýrari en sú erlenda sem ég er vön að kaupa og er að mínu áliti betri að gæðum en sú íslenska. Ég var öskureið í þessari ferð - það skal hér með viðurkennt. Ég varð öskureið út í það samfélag sem getur ekki boðið upp á gjaldgengan gjaldmiðil. Samfélag með ónýtan gjaldmiðil sem heimtar að ég kaupi "íslenskt" þó að íslenska varan sé að mínu áliti verri en sú erlenda. Ég harðneita að búa í slíku samfélagi til framtíðar. Ég fyrirlít þennan söng um að við eigum núna öll að kaupa "íslenskt" og við eigum öll að vera svo glöð með allt "íslenskt".

Enn og aftur ítreka ég að ég er samt úr íslenskri sveit. Ég veit alveg og skil hagsmuni íslenskra bænda og sjávarútvegs. Ég hef starfað í viðskiptaumhverfi inn- og útflutnings í tuttugu ár og skil samhengi hlutanna. Ég hreinlega ætlast til þess að fá að vera neytandi sem fæ að velja á grundvelli gæða og raunverulegrar samkeppni. Ég þoli ekki að þurfa að kaupa franska osta fyrir 7.300 kr. kílóið - bara af því að þeir eru "franskir" en ekki "íslenskir". Íslenskir bændur framleiða enga osta í líkingu við þessa frönsku sem ég kaupi og ég skil ekki af hverju ég má ekki kaupa þessa frönsku eða að það komi íslenskum bændum eitthvað við. Íslensk mjólkurframleiðsla hefur ekkert annað en gott af samkeppni alveg eins og íslenskir tómatabændur höfðu mjög gott af erlendri samkeppni. Ég hef aldrei getað keypt jafn fjölbreyttar tegundir af tómötum eða jafngóða tómata eins og síðan opnað var fyrir erlenda samkeppni með niðurfellingu man ekki hvort heldur var tolla eða vörugjalda.

Það er þetta sem ESB aðild snýst um að mínu áliti. Ég vil fá að búa í landi þar sem ríkir heilbrigð samkeppni með gjaldmiðil sem virkar. Ég vil ekki sjá að búa í landi þar sem þjóðerniskenndin ein ríkir og meira að segja mér sem neytanda er gert að kaupa "íslenskt" af því að það er "íslenskt" og ekki vegna neins annars. Ég vil búa í landi þar sem framleiðendur og seljendur búa við samkeppni og þurfa að keppa á grundvelli gæða og/eða verðs hvort heldur eða hvoru tveggja ef þeir vilja. Það er gjörsamlega óþolandi að horfa nú til þess að vera kominn í gamla umhverfið - þar sem allar innfluttar vörur verða ókaupandi vegna ónýts gjaldmiðils.

Þetta er það sem við Íslendingar þurfum að ræða.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...