Enn einu sinni kemst Þorsteinn Pálsson að kjarna málsins í leiðaraskrifum sínum í Fréttablaðið í dag. Það vekur mér mikla umhugsun þessa dagana að maður eins og hann hafi horfið úr pólitík á sínum tíma. Vilhjálmur Egilsson gerði það líka. Báðir tala þessir menn yfirleitt af skynsemi og raunsæi um það sem efst er á baugi og hafa eitthvað til málanna að leggja. Af hverju missum við slíkt fólk af vettvangi stjórnmálanna? Vissulega verðugt umhugsunarefni og gagnlegt nú á þessum tímum þegar erfitt er að finna nokkurn stjórnmálamann sem virðist hafa áhuga á að vísa okkur veginn fram á við.
Einskis þörfnumst við meir nú en skynsemi og raunsæi stjórnmálamanna. Það mun eflaust taka mörg ár ef ekki áratugi að breyta „vondum stjórnmálum" eins og Páll Skúlason orðaði það svo vel í þætti í sjónvarpinu á sunnudaginn í „góð stjórnmál". Væntingar mínar í þá veru ná ekki miklum hæðum þessa dagana. Þeim mun meiri er þörfin og óskhyggjan um að þær breytingar verði. Mig langar til að lifa tíma þar sem „upphrópanir" stjórnmálanna heyra sögunni til - hef þráð það síðan ég var á unglingsaldri.
Rannveig Rist fjallar um efni af sama meiði í viðtali sem nýkjörinn maður ársins í Frjálsri verslun. Skemmtilegt, fróðlegt og umfram allt mannbætandi viðtal við konu sem kemur manni fyrir sjónir sem skynsamur og góður stjórnandi sem leggur alúð upp úr því langtímaverkefni að reka stórt fyrirtæki. Það er næstum að mann langi að fá að vinna undir hennar stjórn þó það hafi aldrei verið draumur minn að vinna í stóru fyrirtæki.
Rannveig gerir að umtalsefni skort á málefnalegri umræðu almennt á Íslandi. Umræðu þar sem tekist er á um rök af virðingu og yfirvegun. Hún telur fyrirtækið sem hún stýrir hafa orðið fyrir barðinu á slíkum skorti á málefnalegri umræðu þegar kosið var um stækkun Alcan í Straumsvík fyrir skömmu síðan. Ég gæti ekki verið meira sammála henni. Upphlaupið og málatilbúnaðurinn allur í kringum þá kosningu var í mínum huga dæmi um stjórnmál á lágu plani. Stjórnmál þar sem stjórnmálamennirnir hlaupast undan merkjum um að taka afstöðu - sem er þó eina hlutverk þeirra - og kjósa að skýla sér á bakvið „meirihluta"vilja almennings í næsta nágrenni. Öllu lágkúrulegri geta stjórnmálin ekki orðið að mínu viti en þegar þau snúast upp í svokallað „íbúalýðræði". Mér er ómögulegt að skilja hvað slíkir gjörningar hafa með þetta mikilvæga orð „lýðræði" að gera. Miklu nær væri að kalla slíka pólitík hugleysi stjórnmálamanna til að vera stjórnmálamenn. Það að vera stjórnmálamaður þýðir að þú ætlar að taka afstöðu - þú ætlar að hafa skoðun og fylgja henni eftir - það er hlutverk þitt og ekkert annað.
Raunar sýnist mér að þetta hugleysi, kjarkleysi einkenni íslensk og kannski líka alþjóðleg (alla vega evrópsk) stjórnmál þessa dagana. Það er í tísku að því er virðist að stjórnmálaforingjarnir láti „lýðinn" leiða sig og segja sér hvert á að fara. Ég er á því að því sem mun betur farið á hinn veginn. Ég held að góð forysta sé alveg jafnmikilvæg nú og hún hefur alltaf verið.
Eins og svo oft þegar mér er mikið mál er farið um víðan völl. Ekki enn farin að minnast á það sem varð mér tilefni til skrifta - leiðara Fréttablaðsins í morgun. Þar gerir Þorsteinn Pálsson að umtalsefni þær skelfilegu afleiðingar sem galdrabrennurnar og sökudólgaleitin eru að hafa á íslenskt samfélag. Þá staðreynd að tortryggni almennings gagnvar starfsemi bankanna og bankastarfsmanna er farin að snúast gegn þessum sama almenningi . Eitthvað sem hefur verið augljóst frá upphafi að hlyti að gerast. Vantraust og tortryggni fjöldans leiðir af sér óöryggi og ákvarðanafælni þeirra sem eru að besta megni að reyna að vinna vinnuna sína. Umhverfið er að færast í þá átt sem þeir háværustu hafa kallað eftir - að gera bankana að pólitískum skömmtunarsjóðum. Hverjum dettur í hug í alvörunni að það séu heilarhagsmunir okkar að staðan sé sú? Dreymir okkur í alvörunni um bankastofnanir undir stjórn íslensku stjórnsýslunnar? Nú eða íslenskra alþingismanna? Hins algóða íslenska „ríkis" eins og umræðan hefur gefið til kynna?
Ég hef haldið því fram frá upphafi hruns að umræðan væri á stórhættulegum nótum og ég held því fram enn - ekki síst á meðan engin er forystan í aðrar áttir. Mannveran hefur alltaf á öllum tímum verið holl undir lýðskrum og ekki síst þegar erfiðleikar steðja að. Við þurfum ekki að leita lengra en til nasismans í Þýskalandi. Gleymum því ekki að sú stefna náði hylli almennings „venjulegt fólks" sem örugglega eins og við núna taldi sig mestan part sæmilega siðmenntað fólk
Stjórnmálamenn á Íslandi mættu hugsa til þess að það er ábyrgðarhluti hvað sagt er - ekki síst á tímum eins og núna. Að ala á tortryggni og sakfellingu án dóms og laga er allra síst þeirra hlutverk. Slíkt tal leiðir ekki til neins anars en frekari tortímingar samfélagsins sem þessum stjórnmálamönnum er ætlað að standa vörð um.
Nú fara áramót í hönd. Ég á enga ósk heitari fyrir nýtt ár en að okkur takist að breyta umræðunni. Að við gefum nornaveiðunum frí og snúum okkur að því sem við getum gert á þessari stundu - að búa til stefnu til framtíðar. Að byggja upp von og trú á framtíðina. Sökudólgaleitin og sakfellingin getur beðið. Fyrst þurfum við að sjá að við getum lifað af.
Gleðilegt ár!
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli