Birti þessa grein á bloggi mínu fyrst 31.10. 2008 en hún var skrifuð á sínum tíma þegar Davíð hafði í hótunum við Þjóðhagstofnun - áður en hann lagði stofnunina niður.
Það er undarlegt ábyrgðarleysi sem forsætisráðherra okkar leyfir sér að hafa í frammi þessa dagana svo ekki sé meira sagt. Ég er hrædd um að hver venjulegur launamaður í fyrirtækjum þessa lands sem leyfði sér að taka á vandamálum á sama hátt og hann gerir nú - yrði fljótt látinn fjúka. Það að neita að horfast í augu við vandann sem við er að etja og og benda þess í stað á sendiboða skilaboðanna og gera úr honum sökudólg er ekki góð aðferð við lausn vandamála og vægast sagt ekki til þess fallin að vekja traust. Í hvaða landi öðru mundi svona framkoma líðast - ég bara spyr?
Ég lýsi hér með eftir stefnu og markmiðum forsætisráðherra út úr því ástandi sem nú ríkir og það strax. Hann leyfði sér að viðhafa þau orð að spá Þjóðhagsstofnunar væru nú engin raunvísindi og taldi sennilega að það væru einhver ný tíðindi. Ég er viss um að ekki nokkur maður heldur því fram að hagfræðin yfir höfuð sé raunvísindi en engu að síður ætla ég að vona að flest okkar séu á þeirri skoðun að mark sé á henni takandi. Það hefur löngum verið vitað að efnahagsmál þjóða í opnu hagkerfi, þar sem flestir þættir lúta lögmálum markaðarins, geta breyst við orðróm um að eitthvað sé í aðsigi. Það þarf jafnvel ekki meira til en ábyrgðarlaus orð þeirra sem eru við stjórnvölinn. Ég man ekki betur en að Davíð Oddsson sjálfur hafi nánast komið hagkerfi Íslands á kaldan klaka með bölsýni sinni í upphafi stjórnarferils síns. Ég minnist orða Ólafs Jóhanns Ólafssonar er voru á þá leið, að við lestur Morgunblaðsins í flugvél á leið frá Bandaríkjunum til Íslands hefði hann hugsað - hvernig það væri, hvort það væri ennþá byggt ból á Íslandi. Svo dökk var umræðan um ástandið í landinu á þeim tíma. Það er ekki að efa að hluta þeirrar niðursveiflu mátti rekja til þess hvernig talað var á þeim tíma. Svartsýni og bölmóður getur leitt til niðursveiflu á sama hátt bjartsýni getur leitt til uppsveiflu. Fyrir einhverjum árum þegar miklar sveiflur voru viðvarandi á gengi dollars var talað um að forseti Bandaríkjanna mætti ekki fá kvef öðruvísi en það hefði áhrif á gengi dollarans!
Einmitt vegna þessa skiptir miklu máli hvað forsætisráðherra þjóðar lætur hafa eftir sér, það skiptir máli að hann sé ábyrgur í orði og athöfnum og til þess líklegur að skapa traust. Í slíku ástandi eins og nú þegar fjölmiðlar eru uppfullir af tíðindum um aukna verðbólgu skapar það óöryggi. Sú kynslóð sem ég tilheyri man mjög vel hvað verðbólga þýðir og ég er þess fullviss að flest okkar viljum allt annað en upplifa slíka tíma aftur. Þó ekki sé útlit fyrir að við séum á leið inn í sama ástand nú - þá skiptir miklu máli að skapa trú okkar á að svo sé ekki. Aðstæðurnar nú minna um margt á fyrra ástand, umtalsverð lækkun hefur orðið á gengi krónunnar - þó ástæðurnar fyrir því nú séu af völdum markaðarins en ekki vegna aðgerða stjórnvalda þá eru afleiðingarnar þær sömu og áður. Innflutningur verður dýrari, við neytendur kaupum innflutta vöru hærra verði. Það að verðlag hækkar verður til þess að vísitölutryggð lán okkar hækka einnig (og höfðu þau þó hækkað nóg vegna gífurlegra vaxtahækkana). Hvoru tveggja þýðir að kaupmáttur okkar þverr. Fyrir einhverjum dögum síðan voru tilkynntar hækkanir á áfengi og tóbaki - sem hafa áhrif til hækkunar framfærsluvísitölu (annars merkileg ráðstöfun hjá ríkinu að ganga á undan með opinberar verðhækkanir á svo viðkvæmum tímum). Þetta minnir hvoru tveggja óumræðilega á gamla tíma. Einmitt þess vegna er þörfin mikil að fá að heyra til hvaða ráðstafana skuli gripið. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt til þess að vita að forsætisráðherra landsins sé þess meðvitaður að það er ekki allt í lukkunar velstandi og eitthvað þarf að gera. Ég er ekki að biðja um svartsýni og bölmóð á sömu nótum og fyrir rúmum áratug. Ég bið um viðurkenningu á því að við ákveðið vandamál sé að etja sem leita þurfi lausna á. Ég bið um stefnu, markmið og leiðir til að skapa áframhaldandi stöðugleika. Það er gjörsamlega óviðunandi ástand að á slíkum óvissutímum sé við stjórnvölinn maður sem kýs að stinga höfðinu í sandinn og afneita vandamálinu - það er líklegasta leiðin til að allt fari á versta veg.
Þessi grein hefur ekki birst opinberlega áður en hún var send Mbl. á sínum tíma þegar Davíð hafði í hótunum við Þjóðhagstofnun - áður en hann lagði stofnunina niður.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli