Grein birt í Mbl. 27. okt. 2008
Aldrei hefur það birst mér jafnskýrt og nú hversu miklu máli pólitíkin skiptir. Aldrei hefur það verið mér jafnljóst og nú hversu mikilvægt það er að á Alþingi sitji fólk sem ég treysti. Aldrei hefur það verið mér jafnljóst og nú hversu mikil ábyrgð felst í því að kjósa. Við erum komin á þann stað þar sem pólitískar ákvarðanir skipta öllu máli.
Það hefur vægt frá sagt vakið mér ótta að heyra margt það sem stjórnmálamennirnir á Alþingi hafa talið mikilvægast síðustu tvær vikurnar. Vikur þar sem hjól atvinnulífsins hafa stöðvast og verðmætasköpunin þar með. Drambsemi og þjóðernishyggja á slíkum krísutímum er óhugnanleg svo ekki sé meira sagt. Að hlusta nú á fullyrðingar stjórnmálamanna í þá veru að við getum komist í gegnum þetta allt ein og sjálf án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er með ólíkindum. Það er full ástæða til að vekja athygli á orðum Uffe Ellemann Jensen sem vitnað var til á forsíðu Fréttablaðsins í vikunni en þar varaði hann okkur Íslendinga við því að láta ekki stolt okkar verða til þess að við enduðum í sömu stöðu og Bjartur í Sumarhúsum. Þessi orð Uffe Ellemann hafa verið þau gagnlegustu sem ég hef séð koma frá stjórnmálamönnum síðustu tvær vikur.
Að hafa á tilfinningunni núna á slíkum krísutímum að flokkshagsmunir séu hafðir ofar öllu öðru – jafnvel ofar heildarhagsmunum þjóðarinnar er með öllu óþolandi. Ef að ákvarðanir sem teknar eru núna þýða að stjórnmálaflokkar munu klofna – þá mega þeir klofna og það þó fyrr hefði verið. Um árabil höfum við búið við stjórnmálakerfi þar sem hagsmunir flokkanna hafa verið settir ofar hagsmunum landsmanna. Ekkert er fánýtara fyrir okkur nú en gamlar klisjur og stjórnmálamenn sem eru fastir í úreltum hugmyndum.
Um árabil hefur það verið augljóst að Íslendingar þyrftu að takast á við þau vandamál sem lítill gjaldmiðill hefur skapað okkur í alþjóðlegum heimi nútímans. Um árabil hafa stjórnmálamennirnir okkar hver um annan þveran reynt að finna leiðir til að þurfa ekki að takast á við þetta vandamál. Leit íslenskra stjórnmálamanna allt síðasta ár að “hjáleið” í gjaldmiðilsmálum er vægast sagt hjákátlegt nú. Við sjáum nú hvert slík pólitík leiðir okkur. Það hefur aldrei reynst gott veganesti til framtíðar að stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við raunveruleikann. Það sem við upplifum nú er bein afleiðing slíkrar stefnu.
Íslenska krónan er ekki saklaust fórnarlamb í umróti síðustu ára eða hruni bankakerfisins síðustu vikur. Íslenska krónan hefur haft lykilhlutverki að gegna í öllu því sem gerst hefur í íslensku hagkerfi síðustu ár – að halda öðru fram er í besta falli óraunsæji af verstu gerð.
Það er ekki valkostur að bjóða okkur upp á að búa við slíkar sveiflur sem einkennt hafa íslenskt hagkerfi um langa framtíð. Einangrunarstefna er ekki valkostur. Evrópusambandsaðild og upptaka evru er augljós krafa okkar sem viljum áfram búa í umhverfi alþjóðlegra viðskipta. Aðild að Evrópusambandinu er ekki trúarlegt atriði, það mun ekki leysa allan okkar vanda – langt því frá – en það er eini möguleikinn til að geta sem Íslendingur horft bjartsýnn til framtíðar. Nú ríður á að við sem viljum sjá stjórnmálamennina okkar takast á við raunveruleikann sjáum til þess að það muni þeir gera.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli