Aldrei datt mér í hug að ég ætti eftir að upplifa þvílíka tíma eins og síðustu vikur. Ég hélt satt að segja að þvílíkir hlutir gætu ekki gerst í nútímanum en það er kannski besta merkið um hvað maður er takmarkaður. Sagan endurtekur sig sífellt og maður ætti að vera nægilega upplýstur til að vita það.
Bankakerfið okkar er hrunið - sannarlega - en því miður sýnist mér að sem þjóðin sé gengin af göflunum líka og það þykir mér öllu verra. Einstaklingar eru dæmdir til sektar án dóms og laga og maður heyrir af því að þeir og fjölskyldur þeirra sitji undir líflátshótunum. Hvar er siðferði okkar nú? Erum við þegar allt kemur til alls ekkert öðruvísi fólk en á tímum galdrabrennanna? Erum við í alvörunni - fólk á Íslandi árið 2008 - tilbúin að falla í sama farið og fólk á Íslandi á 17. öld? Sem betur fer hefur ekki enn verið framið ofbeldisverk á grunni þessa hruns - en ég spyr mig hversu langt er í að það gerist?
Ísland hefur sannarlega verið undarlegt samfélag síðustu árin. Samfélag endalausrar græðgi og umræðu um peninga - en er það svo einfalt að við öll "hinn alsaklausi almenningur" getum leyft okkur að hengja nokkra einstaklinga fyrir það sem gerst hefur? Það þykir mér ódýr lausn hjá heilli þjóð sem hefur sem einn maður verið í eltingaleik í kringum gullkálfinn um árabil. Við þurfum ekki annað en líta út á götu til að sjá dæmi um það.
Bankakerfið er hrunið - sannarlega og mörg fyrirtæki eiga væntanlega eftir að fylgja í kjölfarið. En er það svo einfalt að hægt sé að segja að hrun bankakerfisins sé um að kenna einhverjum örfáum einstaklingum sem við getum bent á núna? Eru "þessir menn - útrásarvíkingarnir" þeir seku um allt sem gerst hefur í íslensku samfélagi síðustu ár? Ég held ekki og ég sé ástæðu til að mótmæla þeirri óhugnanlegu umræðu sem nú tröllríður íslensku samfélagi.
Ég veit ekki í dag frekar en nokkur annarr hvort að það sem gerst hefur þurfti að gerast. Ég veit ekki hvort að íslensku bankanir voru í raun og veru gjaldþrota eða hvort þeir voru í raun og veru vel reknir bankar. Ég hef heyrt fín rök fyrir hvoru tveggja og ég get keypt báðar röksemdafærslurnar. Sumt fæ ég að vita seinna - þegar sagan hefur varpað ljósi á það sem gerst hefur en sumt fæ ég aldrei að vita.
Eitt veit ég og finnst ástæða til að halda upp á það - en það er að íslenska krónan hefur gert það mögulegt byggja hér upp risastór fjármálafyrirtæki á örfáum árum, í rekstrarumhverfi sem gerði nánast allri annarri útflutningsstarfsemi mjög erfitt fyrir. Það var augljóst í byrjun aldarinnar að bankanir voru í einstakri aðstöðu að því leyti að þeir gátu leikið sér með þennan veika gjaldmiðil og það nýttu þeir sér og hafa gert allar götur síðan. (Það gerðum við - almenningur líka). Það hefði væntanlega ekki verið eins auðvelt að ná svo miklum árangri með innlánsreikninga sem dæmi nema vegna þess gríðarlega háa vaxtastigs sem hér hefur verið. Þá sögu alla verða hag- og sagnfræðingar að segja okkur einhvern tíma en það verður ekki gert nú - í miðri brennu.
Það sem við þurfum að muna er að vandamálið hvað varðar íslensku krónuna - veikan gjaldmiðil í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi hefur blasað við okkur öllum árum saman. Þeir sem hafa átt að taka á því vandamáli hafa neitað því að gera það - stjórnmálamennirnir okkar. Við höfum kosið þessa stjórnmálamenn yfir okkur - þess vegna berum við ábyrgð á því sem gerst hefur og enginn annar. Það er alveg sama hversu mjög við viljum hvítþvo okkur af því og dæma aðra hægri vinstri - við berum ábyrgð á því að kjósa okkur aðila við stjórnvölinn hverju sinni og við horfumst nú í augu við afleiðingarnar af því.
Við berum líka ábyrgð á okkar fjárhagslegu gjörningum. Við vitum það og höfum alltaf vitað það - að við berum ábyrgð á því hvaða ákvarðanir við tökum. Það hafa alltaf verið til óheiðarlegir sölumenn, það hafa alltaf verið til fyrirtæki og einstaklingar sem hafa reynt að pranga einhverju inn á okkur og selja okkur gull og græna skóga. Við vitum að við berum ábyrgð á því hvort við tökum mark á þeim eða ekki. Við getum ekki búið í samfélagi þar sem við gerum aðra ábyrga fyrir okkar gjörðum. Við - íslenska þjóðin - töpuðum okkur í þessu gullaldaræði og við verðum sjálf að bera afleiðingarnar af því. Ef í ljós kemur að einstaklingar hafa gerst sekir um glæpi síðar þá kemur það í ljós síðar og þá verða þeir menn dæmdir fyrir það. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem "dómstóll götunnar" er við völd og ég leyfi mér svo sannarlega að vona að þannig sé það með okkur flest.
Það að hlusta nú á stjórnmálamenn slá sér til riddara fyrir að vera sérstakir boðberar réttlætisins - sömu stjórnmálamenn og skömmtuðu sér eftirlaun með hraðafgreiðslu laga í gegnum Alþingi á síðustu þremur dögum þings um áramótin 2003 - 2004 veldur mér satt að segja ógleði. Það veldur mér líka ógleði að heyra að almenningur á Íslandi virðist þeirrar skoðunar að "ríkið" sé einfært um að sýna sanngirni og réttlæti. Nú á að þjóðnýta allt og það á að tryggja hér réttlátt þjóðfélag til framtíðar. Heyr á endemi! Ríkið greiddi forstjórum sínum 140 milljónir fyrir það eitt að hætta störfum á árinu 2003. Ójá ríkið kunni alveg að taka þátt í þessum ofurlaunaleik eins og aðrir. Ég tel ástæðu til að minna á þessa sögu. Í þeim tilgangi fyrst og fremst ætla ég að dunda mér við það næstu daga að setja gamlar greinar, skrifaðar á árunum 2001 - 2004 hér inn á vefinn.
Ofurlaunin eru sérstakt mál og verður þess vegna tekið fyrir sérstaklega. Það er áreiðanlega rétt að „útrásarvíkingarnir" margir hverjir hafi verið í fararbroddi í þeirri vitleysu allri saman en þeir eru sannarlega ekki einir um það og þeir eru heldur ekki ábyrgir fyrir þeirri hugmyndafræði. Þeirra kollegar um heim allan hafa verið á kafi í sömu vitleysunnu og þeir byggja þá gjörninga á hugmyndafræði sem kennd er í öllum okkar viðskiptaháskólum og heitir „árangurstengd laun". Það verður vonandi afleiðing þessarar kreppu sem nú gengur yfir heiminn að rannsóknarniðurstöður og gagnrýni á þessar hugmyndir komi upp á yfirborðið og nái athygli og ekki síður áhuga þeirra sem sitja í stjórnum fyrirtækja. Auðvitað á rekstur fyrirtækja að ganga út á langtímahugsun en ekki skammtímagróða. Við öll sæmilega skynsamt fólk vitum og höfum alltaf vitað að það er algjörlega út í hött að einn maður geti verið margra tuga milljóna virði á mánuði. En það mál er sérstakt mál og þýðir ekkert fyrir okkur núna að ætla að hengja menn fyrir það án dóms og laga.
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli