mánudagur, 22. desember 2003

Eru kjósendur heimskir?

Oft hefur það oft hvarflað að mér að það sá álit margra þeirra sem á Alþingi sitja, a.m.k. ef marka má hvernig þeir koma fram við kjósendur sína. Kannski er það alveg rétt hjá þeim. Kannski erum við kjósendur upp til hópa einfaldlega heimsk og einföld og ekki þess verð að tekið sé tillit til okkar nema í mesta lagi í nokkra daga fyrir kosningar.

Þeir sem hafa haft áhuga á að fylgjast með því hafa ekki farið í grafgötur með að álit mitt á stjórnmálum á Íslandi er ekki mikið. Ég skil ekki og hef ekki skilið lengi um hvað stjórnmál á Íslandi snúast og ekki er það skýrara fyrir mér nú eftir síðustu kosningar eða í kjölfar þeirra.

Eins og við öll fylgdumst með sem á annað borð reynum enn að sýna áhuga á stjórnmálum þá fjallaði kosningabarátta flokkanna fyrir síðustu kosningar fyrst og fremst um skattalækkanir. Við allur almenningur í þessu landi höfðum það nú svo ósköp gott að það eina sem gat höfðað til okkar var þetta atriði. Meiri peningar í budduna fyrir okkur hvert og eitt. Það þarf ekki að orðlengja það að flokkarnir reyndust hafa rétt fyrir sér. Kjósendur leyfðu þeim að gera skattalækkanir að máli málanna. Það var það sem hæst bar í umræðunni - fyrir jú utan enn eina fyrirferðarmikla umræðu um kvótakerfið sem ekkert hefur skilið eftir sig annað en fjóra þingmenn Frjálslynda flokksins á þingi. Hvort að þeir þingmenn eiga eftir að skilja eftir sig eitthvað sem skiptir okkur öll máli getur tíminn einn leitt í ljós.

Hvað gerðist í kosningunum? Við almenningur fengum yfir okkur þá stjórn sem við báðum um - áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Reyndar má segja ef maður er fullkomlega raunsær þá var líklega enginn annar kostur í spilunum. Sorgleg staða en sönn.

Þegar ég horfði á fréttirnar í fyrrakvöld þá datt mér fyrst í hug að ég væri orðin þátttakandi í skáldsögu George Orwell Animal farm - ég er viss um að svo hefur verið með marga. Þetta getur ekki verið að gerast hugsaði ég - eru mennirnir endanlega gengnir af göflunum? Hvernig í ósköpunum getur það verið að mönnunum detti þetta í hug - á þessum tímapunkti af öllum? Eru stjórnmálamenn á Íslandi svo gjörsamlega á skjön við allan raunveruleika að þeir hafi enga tilfinningu fyrir því hvað er að gerast í kringum þá? Hvernig geta þeir leyft sér og það án þess að blikna að koma fram með frumvarp um breytingar á eigin launakjörum tveimur dögum fyrir frestun þings? Og það í kjölfarið á þeirri háværu umræðu að nauðsynlegt sé að almenningur taki á sig allar byrðarnar við aðhaldið í ríkisfjármálum? Hvernig getur það gerst að þingmenn úr öllum- ég endurtek - öllum stjórnmálaflokkum geta orðið sammála um að leggja slíkt frumvarp fram á slíkum tímapunkti? Láir mér það einhver að mér hafi dottið í hug Animal farm eftir George Orwell?

Í ljósi þeirra tilfinninga sem þarna helltust yfir mig skil ég viðbrögð verkalýðsforingjanna fullkomlega. Þeir hafa á undanförnum vikum og mánuðum lagt sig fram um að vera ábyrgir í umræðunni. Þeir hafa talað á varfærnum nótum og lagt sig í líma við að sýna okkur almenningi að þeir væru traustsins verðir. Þeir hefðu hug á að læra af mistökum fyrri tíma og halda áfram á þeirri braut sem þeir hafa markað á undanförnum árum. Að leita eftir samningum til lengri tíma með hóflegum launahækkunum. Það gekk meira að segja svo langt að það var nánast eins og það að setjast að samningaborðið væri óþarft. Þannig heyrði ég ekki betur en Ari Edwald framkvæmdastjóri viðsemjenda þeirra léti hafa eftir sér að honum litist vel á kröfugerðina eða alla vega ekki illa.

Þessi ábyrga umræða verkalýðsforingjanna og viðsemjenda þeirra hefur skipt okkur öll máli. Umræða á slíkum nótum vekur nefnilega traust okkar almennings. Við almenningur á Íslandi sem mörg hver höfum upplifað tíma óðaverðbólgu og mestan part ófrið á vinnumarkaði vitum hvers virði stöðugleikinn er. Við vitum líka hvers virði friðurinn er. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða (að sjálfsögðu af fullkomnu ábyrgðarleysi) að meirihluti þjóðarinnar vill ekki ófrið eða óvissu á vinnumarkaði. Á tímum eins og undanfarna mánuði þegar stjórnvöld hafa hent hverri sprengjunni á fætur annarri í andlit launafólks þá hafa það verið fyrst og fremst verið hagsmunasamtök vinnumarkaðarins sem hafa alið með okkur traust á framtíðinni. Einmitt þess vegna er svo gjörsamlega ómögulegt að skilja þessa gjörð stjórnmálamannanna. Það eru jú einu sinni þeir sem eiga að vekja með okkur traust og öryggi. Þeir hafa ekki það hlutverk að kasta sprengjum inn í þjóðlífið en hvað hafa þeir gert annað á undanförnum mánuðum? Hvaða samfélagslegu ábyrgð hafa þeir sýnt okkur almenningi á undanförnum mánuðum og vikum? Hvaða hugmyndir hafa stjórnvöld haft í frammi til að hemja ríkisútgjöld á næstu misserum? Hverjar hafa efndirnar verið á kosningaloforðunum?

Hækkun bensíngjalds
Lækkun vaxtabóta
Niðurfelling greiðslu bóta fyrir 3 fyrstu daga atvinnuleysis
Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu
Samningsrof við öryrkja

Í gær heyrði ég í fréttum að verðbólga síðustu þriggja mánaða hefði mælst 4% miðað við heilt ár. Ástæðan fyrst og fremst hækkun bensíngjaldsins. Ekki í fyrsta skipti á undanförnum misserum sem ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa áhrif til hækkunar vísitölunnar eða hvað með hækkun þeirra á áfengi og tóbaki um mitt ár 2001 þegar verðbólgan var farin úr böndum og allur almenningur hafði miklar áhyggjur af. Ríkisstjórnin hlustaði ekki á þær áhyggjur þjóðar sinnar þá og gerir það ekki fremur nú.

Lækkun vaxtabóta er bein skerðing tekna til framfærlslu. Ríkið ætlar að greiða tilteknum hópi minna til baka af því leiðir bein skattahækkun.

Ríkisstjórnin ætlaði sér allt þar til í gær að skerða greiðslur til atvinnulausra með því að hætta að greiða fyrir 3 fyrstu dagana í atvinnuleysi. Hún bakkaði með þá ákvörðun á síðustu stundu eftir miklar yfirlýsingar um hið gagnstæða. Ég sem kjósandi hef enn ekki heyrt rökin að baki þessari áætlun. Ég hef ekki heyrt af því að atvinnulausir ríði feitum hesti hér á landi og raunar eru atvinnuleysisbætur svo fáránlega lágar að mér er gjörsamlega hulið hvernig það fólk fer eiginlega að því að lifa í þessu samfélagi. En atvinnulausir eru eins og aðrir sem minna mega sín í þessu fyrirmyndarþjóðfélagi okkar "óhreinu börnin hennar Evu" sem enginn vill vita af.

Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Gerð var úttekt á því að samruni stóru sjúkrahúsanna Landsspítalans og Borgarspítalans hefði kostað milljarð. Þar að auki kom í ljós að samruninn hafði engu skilað til lækkunar á kostnaði sem þó var meginmarkmiðið. Ríkisstjórnin gerði ekki ráð fyrir neinum kostnaði vegna samruna þessara stofnana á fjárlögum! Af því leiðir milljarður sá sem sameiningin kostaði var greiddur með fjármunum sem ætlaðir voru til reksturs heilbrigðiskerfisins. Hvar kemur niðurskurðurinn niður? Á almenningi. Almenningur skal sem fyrr fá að taka á sig vitlausa ákvarðanatöku stjórnvalda. Þeir sjá enga ástæðu til að horfast í augu við afleiðingar eigin ákvarðana og bera ábyrgð á þeim.

Það skal tekið fram að til lengri tíma getur vel verið að samruni spítalanna leiði til góðs. Ég ætla mér ekki sem leikmanni að hafa hundsvit á því. Ég ætlast aftur á móti til þess og finnst það raunar svo sjálfsagt að það þarf vart að ræða - að stjórnvöld geri ráð fyrir að slíkar stórákvarðanir sem hér um ræðir kosti peninga. Það getur ekki verið rétt að stjórnvöld geti leitt slíkar breytingar án þess að kosta til þess nokkrum fjármunum - það hreinlega gengur ekki upp.

Og þá er það framkoman við öryrkjana. Það er mál sem ég sem þegn í þessu landi skammast mín fyrir að eiga óbeint aðild að. Ég get ekki skilið hvernig stjórnvöld geta talið það sérstakt hlutverk sitt að vera í stríði við þá sem erfiðast eiga í samfélaginu. Hvorki fyrri eða seinni öryrkjadómurinn hefði átt að verða að dómsmáli hvað þá að það sé okkur samboðið að þriðja öryrkjamálið sé á leiðinni fyrir dóm. Þetta mál er stjórnvöldum til svo háborinnar skammar að það tekur ekki nokkru tali. Á sama tíma og þrír forstjórar ríkisfyrirtækja hafa gengið út með 140 milljónir fyrir það eitt að hafa hætt störfum sínum telja stjórnvöld sér það samboðið að standa í illvígum deilum við alla öryrkja á þessu landi út af 500 milljónum? Hvar er samhengi hlutanna hér? Um hvað fjallar þessi deila annað en karlmenn sem ekki þola að tapa?

Hver getur verið hissa á reiði og tilfinningahita verkalýðsforingja og almennings í landinu þegar í kjölfarið á slíkri umræðu taka þingmenn allra stjórnmálaflokka landsins sig saman um að lagfæra eigin kjör? (Mér er alveg sama þó sú lagfæring eigi einungis við hluta þeirra). Og það án þess að slíkt mál eigi að fá nokkra umræðu á þingi? Án þess að nokkrir útreikningar liggi að baki, ... si svona? Það sem skiptir máli er tímasetningin og hrokinn sem í þessari hugmynd felst. Þess vegna eru viðbrögðin svona sterk og þau eiga svo sannarlega fullan rétt á sér. Þessi hugmynd lyktar ekki af neinu öðru en því að þeir stjórnmálamenn sem eiga í hlut trúa því og treysta sem fram kemur í fyrirsögninni hér að ofan að ... kjósendur séu heimskir ... Þeir leggja þetta fram án nokkurrar kynningar eða umræðu til samþykktar ... si svona - í trausti þess að kjósendur verði jú hneykslaðir í skamma stund en verði svo fljótir að gleyma. Þannig hefur það jú alltaf verið ...

mánudagur, 15. desember 2003

Kvenna… eitthvað…

Grein upphaflega birt á www.kreml.is fyrir jólin 2003 - endurbirt á bloggi 7. nóvember 2009

Það er hræðilegt að eignast tengdætur en það er yndislegt að eignast tengdasyni. Þetta sagði kona sem ég gekk fram hjá í Kringlunni áðan. Viðhorf sem margir kannast við úr eigin lífi eða hvað?

Biblíusögurnar túlkuðu guðspjöllin sem skrifuð voru af Jóhannesi, Lúkasi, Mattheusi, Pétri, Páli o.fl. Íslandssaga Jónar frá Hriflu sagði okkur frá Garðari Svavarssyni, Hrafna-Flóka, Ingólfi Arnarsyni, Hjörleifi o.fl. "hetjum" fyrri tíma. Allt sem var þess virði að vita allar götur frá því ég hóf skólagöngu var túlkað af körlum um karla.

Uppáhaldssaga mín "Veröld sem var" eftir Stefan Zweig fjallar um karla, minnist vart á konur. Fjölmiðlar alla daga allt mitt líf fjalla um sjónarmið og túlkanir karla á því sem er. Við förum í leikhús, horfum á bíómyndir, lesum bækur og blöð þar sem fjallað er um samfélagið frá sjónarhóli karla. Viðhorf karla til lífsins og samfélagsins er viðhorfið. Það sem er samþykkt, það sem við öll göngumst við.

Um jólin komu út margar bækur sem fjalla um karlmenn. Ævisögur, skáldsögur, fræðirit og eflaust fleiri tegundir bóka. Halldór, Valtýr Stefánsson, Jón Sigurðsson, Þráinn Bertelsson - bækur um og eftir þessa menn komu allar út um þessi jól skrifaðar af körlum um karla.

Í Kastljósi í gærkvöldi talaði Svanhildur kynsystir mín og umsjónarmaður þáttarins um þrjár bækur sem komu út núna fyrir jólin og allar áttu það sameiginlegt að hafa fjallað um konur. Þetta voru bækurnar Ambáttin, Dætur Kína, þriðju bókina nafngreindi hún ekki en það mátti skilja það svo að þar talaði hún um Lindu. Hún spurði viðmælanda sinn Auði Haralds um hvað hún héldi að orsakaði að svo margar bækur kæmu út af þessu tagi.

Falla þessar þrjár bækur undir sama hatt af því einu að þær fjalla um konur? Er það eitt nægilegt að aðalpersónur bóka séu konur til að fjallað sé um þær sem sérstakan flokk bóka? Hefur einhver ykkar heyrt talað um bækurnar um Halldór, Valtý Stefánsson, Jón Sigurðsson Þráin Bertelsson og fleiri góða menn sem karlabækur? Hvað gefur þetta orðkvenna... eitthvað til kynna? Felast ákveðin skilaboð í þessu formerki kvenna...?

Ég elska jólin ekki síst vegna þess að um jól leggst ég í bækur. Á jólunum fyllist ég þessum yndislega innri friði og fæ útrás fyrir þetta gamla áhugamál mitt að lifa mig inn í líf annarra persóna á þennan hátt. Ekkert jafnast á við það að lesa góðar bækur. Á unga aldri lærði ég þessa aðferð til að komast úr sveitinni, firðinum, landinu og inn í annan heim langt í burtu. Þessi stóri heimur var ótrúlega spennandi og á tímum vildi ég helst ekkert annað gera. Að lesa um Kötlu Ragnheiðar Jónsdóttur, Casanova, Tove Ditlevsen, Heim skurðlæknanna, Undir gunnfána, ástir, örlög, líf, dauða, kynhvatir, græðgi, grimmd, hatur, örbirgð, ríkidæmi, allt milli himins og jarðar gaf mér breiðari sýn á heiminn en ég hefði annars.

Ég var ung að árum farin að rífast við pabba minn um jafnrétti allra til sama lífs hvernig sem þeir væru á litinn, af hvaða kyni sem þeir væru eða hvaða kynhneigð þeir hefðu. Ég gat ekki skilið það að inn í þennan heim væru einhverjir fæddir óæðri en aðrir. Fyrir mér var allt þetta fólk sem ég las um, mannfólk. Mjög ung varð ég öskureið þegar ég heyrði talað um "konur og menn"! Ég skildi þetta aldrei og var þá þegar farin að halda heilu fyrirlestrana um að konur væru menn! Ef þær væru ekki menn hvað væru þær þá - dýr?

Ég er enn þessarar sömu skoðunar að konur séu menn. Í því að vera maður felst m.a. það að vera ófullkominn og síbreytilegur. Menn hafa tilfinningar, skynjanir, hvatir, hver og einn á sinn persónulega hátt. Ekki er hægt að ganga að neinu vísu, einum og sama manninum finnst eitt í dag og annað á morgun, hann er óútreiknanlegur. Einmitt sú staðreynd gerir hann svo áhugaverðan.

Umhverfið mótar manninn, það hvort að maðurinn er kona eða karl, svartur eða hvítur, fæddur á Indlandi eða á Íslandi mótar hann. Það hvernig við erum á litinn eða af hvaða kyni við erum hefur líka áhrif á möguleika okkar, þannig hefur það alltaf verið og þannig er það enn.

Ég er ekki vel að mér í sögu mannkynsins en ég veit þó eins og við vitum flest að í gegnum veraldarsöguna hafa ákveðnir hópar manna á jörðinni talað sig æðri öðrum hópum. Hvítir menn vesturlanda hafa síðustu árhundruðin talið sig öllum öðrum æðri og gera enn. Menn sem voru öðruvísi á litinn voru þrælar þeirra, gengu kaupum og sölum og áttu engan rétt í heimi hinna hvítu. Það er ekki langt síðan þrælahald af þessum toga var afnumið með lögum í flestum ríkjum heims.

Fyrir okkur sem fæddumst á Íslandi upp úr miðri síðustu öld er þrælahald fjarlægt vandamál fyrri kynslóða fyrri alda - kemur okkur ekki við. Viðfangsefni okkar eru önnur. Okkar umhugsunarefni eru hvort við eigum að kaupa hlutabréf í De Code í dag eða Eimskip á morgun, hvort við eigum að kaupa stærri íbúð eða bíl eða hvort við eigum að fara í líkamsrækt ..... Þetta er veröldin okkar. Í eyrum okkar daglangt glymja fréttir af hungursneyð, stríði, hryðjuverkum og glæpum annars fólks annars staðar í veröldinni. Við kippum okkur ekki upp við þessar fréttir - erum fyrir löngu, löngu síðan orðin samdauna þeim og skynfæri okkar algjörlega dauð fyrir því að það sé verið að fjalla um fólk, manneskjur eins og mig og þig með langanir, þarfir, hvatir, tilfinningar. Í öllu þessu flóði frétta sem fyrir löngu eru hættar að vera fréttir í þeim skilningi að þær komi við okkur koma enn út ...

bækur - Guði sé lof og dýrð fyrir það. Bækur sem víkka út sjóndeildarhringinn. Bækur sem gefa okkur innsýn inn í veröld annarra manna annars staðar í veröldinni.

Bækur eins og Guð hins smáa sem fjallar um hina ósnertanlegu á Indlandi. Menn sem fæðast inn í þennan heim sem óæðri verur en dýr, menn sem eiga sér ekki viðreisnar von í samfélagi sínu frá fæðingu. Bækur eins og Eyðimerkurblómið og Eyðimerkurdögun sem fjallar um líf konu sem fæðist inn í hirðingjafjölskyldu í Sómalíu og flýr þaðan 13 ára gömul þegar á að fara að gifta hana. Stúlku sem er misþyrmt með umskurði eins og öðrum stúlkum af sama kynþætti á barnsaldri á þann hátt að maður verður ekki samur eftir að hafa lesið um það. Bækur eins og Ambáttin sem fjallar um líf ungrar stúlku í Súdan sem er tekin er til fanga og hneppt í þrælahald í nútímanum. Þrælahaldið á sér ekki einungis stað í fjarlægu landi heldur færist það í næsta nágrenni við okkur og heldur áfram þar. Bækur eins og Dætur Kína þar sem fjallað er um ofbeldi og kúgun kvenna í Kína sem byggir á árþúsundagamalli hefð. Kúgun sem vekur manni viðbjóð, reiði og ólýsanlega réttlætiskennd.

Guði sé lof að enn koma út slíkar bækur. Bækur sem fjalla um neyð og kúgun manna á öðrum mönnum. Kúgun sem kemur okkur öllum við og við skyldum aldrei gerast svo hrokafull að afneita - jafnvel þó um sé að ræða konur.

Er til of mikils mælst að við sýnum þessum bókmenntum virðingu - jafnvel þó að aðalsöguhetjurnar séu konur? Eða eigum við að fara langt inn í tuttugustu og fyrstu öldina með þann farangur að allt kvenna... eitthvað sé kjaftæði?

"Fimm þúsund ára heimsstjórn karlmannsins er vörðuð styrjöldum og misrétti... ...Sjónarmið kvenna hafa oftar en ekki verið sett til hliðar og afgreidd sem "kerlingakjaftæði". ...Guðrún gengur inn í hin helgu vé karlmanna; skoðar mýtuna, goðsöguna frá nýjum sjónarhól; - bein í baki. Niðurstaða hennar er skýr; goðsögur á öllum tímum eru skrifaðar af karlmönnum, fyrir karlmenn til þess að viðhalda veldi karlmanna... ...Kjarninn í fornum sögum er að karlmenn séu herrar jarðarinnar, sem hefji sig upp til guðs í hæstu hæðum; - himinguðir, máttugir og alvitrir... ...Hann er guð, herra jarðar, herra konunnar. Þarna liggja dýpstu rætur misréttis. Þetta sér og skilur Guðrún; - hin nýja kona sem lætur ekki skipa sér til sætis. Hún tekur sér sæti."

Úr inngangi Halls Hallssonar
Gunnar Dal. Í dag varð ég kona. Bókaútgáfan Vöxtur 1997. Bls. 7 -9.

fimmtudagur, 16. október 2003

“Ég er algjörlega ópólitísk – ég kýs bara Sjálfstæðisflokkinn!”

Þessi grein birtist á vefnum www.kreml.is 16. október 2003

Þessi orð koma mér í hug í kjölfar uppákomu dagsins. Ég veit ekki eftir hverjum þau eru höfð eða hvort einhver hefur látið þessa setningu orðrétta út úr sér. Hvað um það meiningin í þessum orðum er það sem skiptir máli hér. "Ég er algjörlega ópólitísk - ég kýs bara Sjálfstæðisflokkinn!" Í þessa veruna virðist manni að ákveðnum mönnum þessa lands virðist eðlilegt að við hugsum. Á Íslandi er lýðræði í hávegum haft - það er okkur sagt og því eigum við að trúa. Hvort svo er þegar grannt er skoðað skiptir ekki máli, okkur er sagt að þannig sé það og þá er það þannig.

Eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins er að þegnarnir hafa rétt til að láta í ljós skoðun sína... það stendur hvergi skráð svo ég viti að sú skoðun þurfi að vera rétt. Í lýðræðisríkinu Íslandi virðist það nú samt skipta öllu máli. Þú hefur ekki heimild til að láta í ljós eða viðra aðrar skoðanir en þær sem þóknast valdhöfunum. Það sem meira er þú hefur ekki leyfi til að gagnrýna málefni nema að þú gagnrýnir þau rétt.

Í nokkurn tíma hefur mér orðið tíðrétt um þann frábæra fréttaskýringarþátt Spegilinn sem er á dagskrá Rásar 2 að loknum fréttum síðdegis. Ég hef ekki átt orð til að lýsa ánægju minni yfir þessum þætti sem að mínu áliti hefur einkennst af gagnrýni og sjálfstæðum vinnubrögðum fréttamanna. Umsjónarmenn Spegilsins hafa skorið sig úr í annars mjög einsleitri umræðu. Þeir hafa spurt sig spurninga og leitað svara - hafa ekki gengið aðeinu svari gefnu.

Spegillinn er eini þátturinn þar sem fréttamenn kjósa ekki að taka það málefni sem hæst ber í umræðunni sömu tökum og allir hinir - heldur láta frumleikann ráða för. Þeir hafa verið duglegir að velta upp fleiri hliðum í umræðunni - fá okkur áheyrendur til að hugsa hlutina ekki bara á einn veg. Það er nefnilega svo skrítið að flestir hlutir eru ekki bara svartir eða hvítir, þeir eru líka brúnir, gulir og rauðir og jafnvel bleikir. Það eru ekki bara ein eða tvær hliðar á málum eins og manni virðist oft í umræðunni heldur eru þær miklu, miklu fleiri. Og Guði sé lof - það hefur verið til einn fréttaskýringarþáttur í þessu landi þar sem umsjónarmenn hafa áttað sig á þessu, einn! Ég hef a.m.k. ekki tekið eftir að þeir séu mikið fleiri. Af uppákomu dagsins að dæma þá er það einum of mikið. Við þegnar þessa lands eigum ekki fá nema eitt rétt sjónarhorn. Sú gagnrýni og það viðhorf sem heyrist í Speglinum er nefnilega "vinstri slagsíða" og slík viðhorf eru engum holl og skulu ekki líðast.

"Vinstri slagsíða" - hvað skyldi samhengi þessara orða þýða? Geta Björn Bjarnason eða Markús Örn Antonsson verið svo vinsamlegir að upplýsa okkur óupplýstann lýðinn um það? Er "vinstri slagsíða" einfaldlega það að velta upp öðrum hliðum í einsleitri umræðunni? Hvernig skilja þessir menn lýðræði?

Í sumar las ég viðtal við hjón í Morgunblaðinu, ef ég man rétt frá Slóveníu sem hafa búið hér á landi um nokkurt skeið. Ég hjó sérstaklega eftir einu sem konan (sem ég því miður man ekki hvað heitir) hafði á orði í þessu viðtali en það var hversu mjög hún saknaði pólitískrar umræðu hér á landi. Að hennar mati var algjör skortur á því hér að farið væri ofan í pólitíkina og hún rædd frá mörgum hliðum. Að hennar mati (og ég verð að deila þeirri skoðun með henni) er allt meira og minna pólitískt í umhverfinu.

Pólitík er að hafa skoðanir og taka afstöðu. En því er ekki þannig farið á Íslandi. Pólitík er eitthvað vont - það að hafa pólitískar skoðanir er eitthvað sem þú átt að skammast þín fyrir og helst að fela nema aðeins að þú sért sammála þeim flokki sem hér hefur leikið aðalhlutverkið alla öldina - Sjálfstæðisflokknum. Ef þú fylgir honum er í lagi að þú hafir skoðanir og þú mátt láta þær uppi opinberlega eins oft og lengi og þú vilt. Það eru réttar skoðanir og til þess eins fallnar að hjálpa þér að komast áfram í lífinu.

Hversu oft rekum við okkur ekki á þetta viðhorf?

Það þykir t.d. sjálfsagt hér á landi að fulltrúar ráðningaþjónusta komi fram opinberlega með fyrirlestra og láti þess getið að pólitískar skoðanir og áhugi umsækjenda í pólitík sé litinn hornauga. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég verið áheyrandi að því frá starfsfólki þessara fyrirtækja að það sé neikvætt fyrir umsækjendur að láta í ljós pólitískan áhuga! Þessir annars ágætu einstaklingar hafa þó aldrei gengið svo langt að segja að það að hafa aðrar skoðanir en þær sem eru þóknanlegar Sjálfstæðisflokknum séu neikvæðar. Þess hefur heldur ekki þurft það vitum við öll sem búum í þessu landi. Það þvælist ekki beinlínis fyrir ungum karlmönnum í Sjálfstæðisflokknum að komast í góðar stöður, þeim eru beinlínis boðnar þær. Það að vera trúr og dyggur Sjálfstæðisflokknum er eitthvað það besta veganesti sem þú getur haft í gegnum lífið.

Eða hvað? Hvað áttu áttu á hættu ef þú vogar þér að hafa sjálfstæðar skoðanir? Hvað með Egil Helgason? Hvað með Þorfinn Ómarsson? Hvað með Eirík Tómasson?

Vertu algjörlega ópólitískur og kjóstu Sjálfstæðisflokkinn - og þér mun vel farnast!

Munum það gott fólk og umfram allt - munum að halda kjafti um allt sem fallið getur undir "vinstri slagsíðu" og NOTA BENE það innifelur allt sem heitir gagnrýni á réttviðhorf - gleymum því ekki!

Signý Sigurðardóttir

Áhugamaður um stjórnmálaumræðuna

...og stuðningsmaður allra þeirra sem taka áhættuna á því að leyfa sér að gagnrýna það sem er ... hvort heldur það er Ólafur Teitur Guðnason, Hannes Hólmsteinn Gissurarson eða Guðmundur Steingrímsson.

mánudagur, 30. júní 2003

Gerendur eða þolendur?

Gunnar Smári Egilsson ristjóri Fréttablaðsins skrifar óvenju athyglisverða leiðara þrjá daga í röð í síðustu viku um jafnréttismál.  Ég verð að játa að það er langt síðan ég hef séð jafn skemmtilega umfjöllun um þessi mál - hafi höfundur sérstakar þakkir fyrir.  Það sem ekki síst vakti athygli mína og áhuga er að þessir leiðarar eru skrifaðir af virðingu fyrir málefninu.  Þetta eru ekki skrif lituð af hroka og lítilsvirðingu við konur heldur miklu fremur innlegg í baráttu þeirra – ábendingar til okkar kvenna um að líta í eigin barm.  Það getur ekki talist glæpur – ætti miklu fremur að vera okkur konum gleðiefni að ritstjóri dagblaðs með mikla dreifinu telji ástæðu til að skrifa um jafnréttismál þrjá daga í röð!  Er ekki ástæða til að fagna því einu og sér? 

Sá athyglisverðasti af þessum þremur verður að teljast sá síðasti skrifaður 27. júní undir fyrirsögninni “Jafnrétti eftir jafnréttið”.  Þar vitnar höfundur á sannfærandi hátt til Halldórs Laxness og áhrifa hans á sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar á 20. öldinni.  Það er ekki hægt að misskilja Gunnar Smára – hann ráðleggur okkur konum að breyta áherslum okkar í jafnréttisbaráttunni – í leit að fyrirmynd þurfum við ekki að líta lengra en til þeirra gríðarlegu breytinga sem orðið hafa á sjálfsmynd þeirrar þjóðar sem við tilheyrum á tiltölulega stuttum tíma.  Að mínu mati er þessi hugmynd Gunnars Smára allrar athygli verð og ástæða til að skoða hana nánar.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að “fórnarlambshlutverkið” hafi ekki verið okkur konum til framdráttar í jafnréttisbaráttunni og raunar er ég sannfærð um hið gagnstæða.  Ég t.d. velti því fyrir mér hvort að áherslur nýstofnaðs Feminstafélags Íslands séu örugglega hinni “venjulegu” konu til framdráttar eða til þess fallnar að hjálpa henni í baráttunni við að öðlast jafnan rétt.  Ég er ekki svo viss um sú sé raunin.  Á sama tíma og ég gleðst mjög yfir stofnun þessa félags og því að jafnréttismál eru þar með komin aftur á dagskrá – það var svo sannarlega kominn tími til – þá hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með árherslur þeirra.  Það að leggja svo mikla áherslu á “aumingjahlutverkið” –  konur sem fórnarlömb er ekki sérstaklega til þess fallið að efla okkur og styrkja í baráttunni.  

Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr nauðsyn þess að berjast gegn misrétti og ofbeldi í heiminum – sú barátta er gríðarlega mikilvæg og kannski aldrei fremur en nú þegar mansal virðist í miklum blóma.  En á þessi barátta endilega samleið með jafnréttisbaráttu hinnar “venjulegu” konu sem berst fyrir tilvist sinni jafnfætis körlum í veröldinni?  Eða svo við smækkum myndina aðeins – hér á Íslandi?  Ég er ekki svo viss um það.  Ég er þess raunar fullviss að þessi “aumingjastimpill” sem konur höldum svo óskaplega mikið upp á vinni beinlínis gegn okkur ekki með okkur.  

Ég held að barátta mín fyrir því að sitja við sama borð og karlar þegar kemur að launum eða því að eiga sömu möguleika til starfs við hæfi eigi ekki mikið skylt við réttleysi kvenna sem ganga kaupum og sölum á kynlífsmarkaði dagsins í dag.  Ég held að hér séu tveir ólíkir hlutir á ferðinni sem ber mikla nauðsyn til að aðskilja.  Hvor um sig á rétt á sér – en það á ekki að blanda þessu tvennu saman.  Ég hef ekki nokkra trú á barátta okkar gegn þrælahaldi kynlífsmarkaðarins komi nokkurn tíma til með að hafa áhrif í þá veru að ég eða konan í næsta húsi fáum betri laun eða betri stöður.  Hér er grundvallarmisskilningur á ferðinni sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir.    

Þegar “sjálfstæðar konur” urðu til horfði ég til þeirra með velþóknun, fyrir það fyrsta fannst mér yfirbragðið – nafnið eitt sérlega áhugavert.  Það er að vera “sjálfstæður” er svo miklu eftirsóknarverðara og uppbyggilegra en að vera “fórnarlamb” – eða hvað finnst ykkur? Því miður varð þessi hrifning mín skammvinn því málflutningur þessara kynsystra minna allar götur síðan hefur miklu fremur verið í þá átt að vinna gegn jafnrétti en að stuðla að því.  Þannig hafa þær talið það sérstakt hlutverk sitt að berjast með öllum ráðum gegn konum sem ekki aðhyllast sömu pólitísku skoðanir og þær sjálfar og gengið svo langt að tala til þeirra með niðrandi hætti, allt að því fyrirlitningu æ ofan í æ eins og gleggst má sjá kosningabaráttunni sem nú nýlega er afstaðin. Það er að sjálfsögðu til of mikils mælst að við konur séum allaf sammála sem hópur.  Það erum við og verðum einfaldlega aldrei vegna þess að við erum eins ólíkar og við erum margar.  Væri samt ekki eftirsóknarvert að við lærðum að bera virðingu hver fyrir annarri og að við gerðum það að sérstöku markmiði að standa saman í baráttunni fyrir raunverulegu jafnrétti hvar svo sem við erum staddar í hinu pólitíska litrófi?  

Hugmyndin um “sjálfstæðar konur” – án þess að staðsetja þær í hinu flokkspólitíska litrófi er þó enn athyglisverð og full ástæða til að halda henni á lofti.  Ég skil skrif Gunnars Smára Egilssonar á þann hátt að hann sé að efla okkur konur til dáða.  Örva okkur til þess að vera hnarreystar og kröfuharðar – gerendur – í eigin lífi í stað þess að vera - þiggjendur.  Ég gæti ekki verið meira sammála honum hvað það varðar, það er svo sannarlega fyrir löngu síðan komin ástæða til að við konur förum í naflaskoðun og lítum markvisst á það hver ábyrgð okkar er í jafnréttisbaráttunni.  Þar er heilmikið starf óunnið.  Það er jafnan svo að það er sjaldnast öðrum að kenna þegar tveir deila það sama á við í baráttu kvenna fyrir jafnrétti.  Málið er flóknara en svo að við leysum það með því að benda á eitthvað eitt eða segja að ástandið sé körlum að kenna, enda held ég að flestir hafi nú þegar gert sér grein fyrir því.  Aftur á móti er ég ekki svo viss um að meirihluti kvenna sé þess meðvitaður hversu mikla ábyrgð við berum sjálfar á því að við náum meiri árangri.  Það er svo miklu auðveldara í þessu máli – sem og öllum öðrum að benda á sökudólga en að líta í eigin barm.  

Nú efa ég ekki að margur lesandinn bregðist hvumsa við – hvað varð um jafnréttissinnann Signýju Sigurðardóttur sem nú nýverið skrifaði grein hér á vefinn í tilefni af 19. júní – er hún ekki komin hér í algjöra mótsögn við sjálfa sig?  Það held ég ekki.  Þær skoðanir sem hér eru settar fram hafa lengi verið mér sérstakt áhugamál.  Það að vera “jafnréttissinni” er ekki endilega það sama og sættast á að vera “fórnarlamb” þar er langur vegur á milli.  Með þeim orðum gengst ég ekki við því að ábyrgðin á ójafnréttinu sé eingöngu okkar kvenna, engan veginn.  Við eigum hlut í því að ná fram leiðréttingu en ábyrgðin er margra – raunar allra sem búa í samfélaginu.  Krafan um breytingar hlýtur að koma frá okkur – það er okkar að koma umræðunni um jafnréttismál á það plan að sem flestir hlýði á okkur.  Það er okkar að benda á og koma með rök fyrir ójafnréttinu á málefnalegan hátt.  Við eigum beinlínis að gera miklar kröfur – til atvinnulífsins, stjórnmálaflokka, fjölmiðla og annarra sem málið varðar en við eigum ekki síður að gera kröfur til okkar sjálfra.  

Að síðustu ætla að ég að kasta fram þeirri ósk að umræddir leiðarar Fréttablaðsins verði til þess að koma af stað öflugri umræðu um jafnréttismál.  Hvaða atriði eru það sem eru efst á baugi í dag?  Hvaða málefni eru það sem ég og þú og konan í næsta húsi eigum fyrst og fremst við að stríða í dag?  Getur verið að það séu önnur atriði mikilvægari en barátta okkar gegn notkun kvenlíkamans í auglýsingum?  Getur verið að það sé kominn tími til að breyta áherslum í stað þess að hjakka alltaf í sama farinu?  Getur verið við séum á kolrangri braut?  Getur verið að okkur líki vel að vera  fórnarlömb?  Getur verið að það sé okkar að koma umræðunni á annað plan?  Ég ætla að varpa fram þeirri áskorun til kynsystra minna – verum ekki hræddar við gagnrýni á okkar þátt í ójafnréttinu – heldur tökumst á við það á málefnalegan hátt!

                                                                        Birt á pallborði www.kreml.is 30.06.2003


þriðjudagur, 3. júní 2003

Samfélagið okkar

Einhver skyldi ætla að eftir allt offorsið fyrir kosningarnar hlyti mér að vera mál að fjalla um úrslitin og það sem gerst hefur í kjölfar þeirra en svo er ekki. Mér er annað málefni meira hugleikið þessa dagana. Atburðir þeir sem komið hafa upp í viðskiptalífi landans undanfarnar vikur eru mér ofar í huga og eru tilefni þeirra hugleiðinga sem hér fara á eftir.

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvar við Íslendingar almennt erum staddir í siðferðilegu tilliti í samanburði við aðrar þjóðir, í viðskiptalífi sem annars staðar. Viðskiptalífið er ekkert annað en ein mynd af samfélaginu sem við búum í og ég held að íslenskt viðskiptalíf endurspegli ekkert annað en okkur sjálf. Getur það verið að siðferði Íslendinga sé á fremur lágu plani? Hvað er siðferði og í framhaldi af því - hvað er viðskiptasiðferði?

Það verður ekki leitast við að skilgreina það í þessari stuttu grein. Flest okkar höfum ákveðnar hugmyndir um það hvað telst "siðlegt" og hvað ekki. Þáttur eins og heiðarleiki í orði og á borði er væntanlega þar ofarlega á blaði. Vitað er að menning þjóða er mikill áhrifavaldur hvað varðar afstöðu til siðferðis, það sem telst siðlegt og sjálfsagt í einu landi telst langt frá því siðlegt í öðru. Rannsóknir á þessu sviði eru allrar athygli verðar og það er vissulega ástæða til fyrir okkur Íslendinga að velta því fyrir okkur hvað við teljum "siðlegt" og hvað ekki. Hvers konar samfélag hvers konar þegna við viljum skapa. Hvers konar siðferði viljum sem þjóð endurspegla?

Sumt sem að mínu mati er algjörlega ósiðlegt þykir orðið svo sjálfsagður hlutur hér á landi að meira að segja prestar taka málið upp á sína arma og tala um það sem "vandamál". Til hvers er ég að vísa hér? Ég er vísa til þess hversu sjálfsagt það þykir hér á landi að ræða það opinberlega að það borgi sig ekki að skrá sig í sambúð eða gifta sig því maður tapar svo mikið á því peningalega! Umræða af þessu tagi hefur lengi verið viðloðandi í umræðunni og enginn gerir neinar athugasemdir við það. En hvað er verið að fara með yfirlýsingum eins og þessum? Það er verið að vísa til þess að það sé sjálfsagt að pör í sambúð nýti sér lagaramma sem settur var til stuðnings einstæðum foreldrum og var eingöngu hugsaður til þess að gera þeim lífið bærilegra. Hugsunin með lögunum var aldrei sú að það væri sjálfsagt að svindla á þeim. Er það sjálfsagt og eðlilegt að við fjöllum um þau á þann hátt? Hér tek ég einungis eitt borðliggjandi dæmi en dæmin eru mörg ef grannt er skoðað og flest okkar þekkjum þau vel. Þykir okkur ekki sjálfsagt að svíkja undan skatti, ef við mögulega komumst upp með það?

Í Viðskiptaháskólanum á Bifröst lagði einn kennarinn fyrir okkur nemendur litla könnun þar sem við áttum að svara því hvernig við myndum bregðast við eftirfarandi;

"Þú ert farþegi í bíl náins vinar. Hann keyrir á gangandi vegfaranda. Þú veist að hann keyrði á a.m.k. 60 km hraða í hverfi þar sem er 30 km hámarkshraði. Það eru engin vitni að atburðinum. Lögfræðingur vinar þíns segir að ef þú berð eiðsvarið vitni um það að hann hafi verið á 30 km hraða þá gæti það bjargað honum frá alvarlegum afleiðingum.

Hvaða rétt hefur vinur þinn á því að þú verndir hann?

1a) Vinur minn á fullan rétt á því að búast við því að ég sem vinur hans beri vitni fyrir hann um lægri hraðann.
1b) Hann á nokkurn rétt á því sem vinur minn að búast við því að ég beri vitni fyrir hann um lægri hraðann.
1c) Hann á engan rétt á því að ég sem vinur hans beri vitni um lægri hraðann.

Hvað heldur þú að þú myndir gera í þessu tilfelli?

1d) Bera vitni um að hann hafi keyrt á 30 km hraða.
1e) Segja sannleikann.

Niðurstaða þessarar litlu könnunar sem lögð var fyrir í tíma og engan veginn getur fallið undir vísindalega rannsókn var sú að 61% okkar nemenda Viðskiptaháskólans á Bifröst völdum 1b eða 1c og 1e. Þessi niðurstaða flokkaði okkur með þjóðum eins og Grikkjum (61%), Indónesum (57%) og Mexíkóum (64%). Aðrar þjóðir sem við viljum oftast meina að við eigum meira sameiginlegt með eins og Þjóðverjar, Hollendingar, Bretar og Bandaríkjamenn sýndu mun meiri svörun við þessa liði eða frá 87 upp í 93%. (Það skal tekið fram að spurningarnar sem lagðar voru fyrir voru að fyrirmynd alþjóðlegrar könnunar sem sýndi ofangreindar niðurstöður.)

Það hvort að þessi litla könnun sem lögð var fyrir á Bifröst endurspegli Íslendinga sem þjóð skal ósagt látið eða eins og kennarinn sem lagði fyrir okkur verkefni í kjölfarið sagði "Hvað segir þetta okkur um Íslendinga, segir þetta okkur kannski meira um nemendur Viðskiptaháskólans á Bifröst?" Þeirri spurningu er augljóslega ósvarað hér og nú en er ekki full ástæða til að við veltum fyrir okkur spurningum eins og þessum? Er ekki full ástæða til að við Íslendingar tökum upp umræðu um hluti sem þessa? Að við veltum því upp af og til hvað er rétt og hvað er rangt? Í viðskiptalífi okkar sem annars staðar?

Fyrir hvaða gildi viljum við standa? Hvaða þættir eru það sem við leggjum áherslu á í uppeldi barnanna okkar? Hvaða þættir eru það sem við teljum að skipti mestu máli í samfélagi okkar manna hér á jörð? Um hvað fjalla fjölmiðlar okkar Íslendinga? Hvað má lesa út úr umræðunni að sé okkar helsta og heitasta áhugamál? Er það í lagi og hið besta mál að jafnvel umræða um mannslíf snúist upp í umræðu um peninga? (Eins og gerst hefur æ ofan í æ þegar hjálparsveitir leitast við að bjarga mannslífum á fjöllum.) Getur verið að það sé eitthvað að í íslenskri þjóðarsál sem við ættum að leitast við að laga? Eða erum við kannski sannfærð um að við séum æðisleg og frábær og miklar fyrirmyndir annarra að við þurfum ekkert að ræða annað?

Getur verið að eltingarleikur við gullkálfinn sé ekki besta uppeldisaðferðin? Getur verið að það sé eitthvað að "fyrirmyndunum"?

Spyr sá sem ekki veit... en svarið brennur!

Sjá; Trompenaars, F. et. Al.. Riding the Waves of Culture. McGraw/Hill, 1998, bls. 35.

                                                                                Birt á pallborði www.kreml.is 3. júní 2003

fimmtudagur, 15. maí 2003

Peningar sem hvati - óumdeild aðferð?

Þessi "grein" eða öllu samantekt var birt á kremlarvefnum sáluga einhvern tíma á þessum árum 2003-2004.

Í ljósi atburða síðustu daga er ástæða til að setja nokkrar línur á blað. Í sjálfu sér hefur ekkert nýtt gerst. Stjórnendur Kaupþings-Búnaðarbanka nýttu sér kaupréttarákvæði samnings sem þeir höfðu gert við stjórn fyrirtækisins fyrr á árinu. Upphæðirnar voru jú hærri en við höfum dæmi um áður í íslensku samfélagi en gjörðin var í sjálfu sér ekkert frábrugðin því sem við höfum oft orðið vitni að á undanförnum misserum. Í mínum huga er enginn grundvallarmunur á þessari gjörð stjórnenda Kaupþings-Búnaðarbanka og starfslokasamningum forstjóra ríkisstofnana sem upplýstir hafa verið að undanförnu. Í mínum huga er það kjarninn sem þarna liggur að baki sem þarfnast umræðu. Af hverju og hvers vegna eru óhóflegar peningagreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og stofnana tilkomnar? Hver er tilgangurinn?

Einu rökin sem ég hef heyrt fyrir þessum gjörningum eru þau að við séum hluti af alþjóðlegu viðskiptaumhverfi - að við verðum að taka mið af því sem er gerast annars staðar í heiminum í kringum okkur. Eru þetta nægileg rök? Eru það rök að vegna þess að óhóflega háar launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækja viðgangast annars staðar í heiminum þá þurfum við að gera það líka? Eru þetta rök gagnrýninnar hugsunar háskólamanna 21. aldar?

Ef þetta eru gild rök - hvert mun þessi hugsunarháttur leiða okkur í framtíðinni? Erum við 21. aldar fólk sátt við að vegna þess að þetta eða hitt er viðhaft einhvers staðar í hinum vestræna heimi þá setjum við ekki spurningamerki við gjörðina "per se"? Er það þannig heimur sem við viljum lifa í?

Að baki öllum þeim útfærslum sem uppi eru um óhóflegar greiðslur mönnum til handa í því starfi sem þeir sinna er hugmyndin að peningar virki sem hvati á menn til að gera betur. Það er kjarninn sem þessar hugmyndir hvíla á og má rekja til kennismiðsins Frederick Winslow Taylor upphafsmann svokallaðrar vísindalegrar stjórnunar sem gekk út á það m.a. að greiða mönnum eftir afköstum en ekki fyrir það eitt að vinna sitt verk. "Taylor´s system of managing ... consists in paying men and not positions..." Sú hugmynd hans að greiða einstaklingum laun eftir frammistöðu verði til þess að auka hagsæld einstaklinganna sem aftur hafi áhrif til meiri hagsældar fyrirtækjanna er enn í fullu gildi.

Ætla mætti af umræðunni í dag að hugmyndir þessa manns og aðrar sem þróast hafa í kjölfarið að frammistöðu- og árangurstengd launakerfi séu óumdeild. Fjölmiðlar sem og aðrir sem um málefnið fjalla opinberlega gera ekki mikið af því að setja spurningamerki við aðferðina "per se" þ.e. að það sé gagnrýnivert að verðlauna vel unnið starf með sífellt auknum peningagreiðslum. Af mótmælum forsætisráðherra vor í fyrradag þar sem hann tók út 400.000 krónur af reikningi sínum hjá Kaupþingi- Búnaðarbanka og lokaði reikningnum í kjölfarið mátti skilja að honum ofbauð upphæðirnar sem þarna var um að ræða. Af tali hans mátti skilja að þeir tveir menn sem þarna voru að verki Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson væru siðlausir menn í botnlausri græðgi sinni. Erum við íbúar samfélagsins Íslands sammála þeirri túlkun forsætisráðherra vor? Horfum við fyrst og fremst á upphæðirnar sem þarna er um ræða? Hver eru þá mörkin og hverjar eru leikreglurnar fyrir viðskiptalífið að fara eftir?

Hér finnst mér vert að stalda við og líta undir yfirborðið. Hér sem aldrei fyrr er þörf á gagnrýnni hugsun - þess að spyrja sig spurninga og leita svara við þeim. Það kann vart góðri lukku að stýra að vaða áfram í þeirri vissu að við séum með endanlegan sannleika í höndunum er það? Er botnlaus peningahyggja - dýrkun Mammons það umhverfi sem við viljum búa komandi kynslóðum? Hvert mun það leiða mannkynið?

Í þessu sambandi er vert að benda fólki á rökstuddar gagnrýnisraddir manna á þessa hugmyndafræði í heild sinni að peningar séu fyrst og fremst til þess fallnir að hvetja menn til að gera betur. Einn þeirra manna sem mjög hefur gagnrýnt þessar hugmyndir er Alfie Kohn. Ég læt fara hér á eftir úrdrátt úr verkefni sem ég vann í Viðskiptaháskólanum á Bifröst um það fyrirbrigði sem hér er fjallað um "frammistöðutengd launakerfi". Kaupréttarákvæði stjórnenda Kaupþings-Búnaðarbanka, starfslokasamningar forstjóra ríkisfyrirtækja, bónusgreiðslur til starfsmanna sem ná fyrirfram tilteknum markmiðum, allt þetta og miklu meira má fella undir þá hugmyndafræði sem Alfie Kohn gagnrýnir svo mjög hér á eftir, þ.e. að verðlauna starfsmenn, hvort sem það eru stjórnendur eða aðrir fyrir tiltekna frammistöðu. Hann vill meina að það eitt að einblína á frammistöðu sem slíka sé röng nálgun og verði til þess eins að afvegaleiða okkur til lengri tíma. Ég set þetta fram hér vegna þess að mín sannfæring er sú að við mannsins börn á Íslandi og annars staðar í hinum vestræna heimi þurfum á því að halda. Við þurfum að vita að það eru til hugmyndir manna sem gagnrýna þennan sannleika sem veður uppi í umræðunni.

Hér á eftir fer úrdráttur úr ritgerð undirritaðrar sem unnin var á Bifröst 18. mars 2002;

"one best way of organizing"

-frammistöðutengd launakerfi?

Alfie Kohn vill meina að þessi nálgun að verðlauna frammistöðu með ytri þáttum (svo sem peningagreiðslum) miðað við einhver fyrirfram tiltekin markmið sé röng í sjálfu sér því athygli einstaklinganna færist frá því að vinna vel yfir í það að sækjast eftir umbun með því að einblína á verðlaunin sem slík. "Excellence pulls in one direction; rewards pull in another. Tell people that their income will depend on their prouductivity and performance rating, and they will focus on the numbers". Kohn hefur áhyggjur af því hvert þessi stefna muni leiða bandarísk fyrirtæki þar sem meirihluti þeirra noti einhverja útfærslu af þessu kerfi sem allar rannsóknir bendi til að skili engum árangri nema síður sé. Kohn setur allar tegundir frammistöðutengdra launakerfa undir sama hatt, það sé sama hvort verið sé að tala um bónuskerfi verkamanna, hlutabréfafríðindi stjórnenda, sérstaka umbun fyrir starfsmenn mánaðarins eða umboðslaun til sölumanna "Indeed, the livelihood of innumerable consultants has long based on devising fresh formulas for computing bonuses to wave in front of employees." Hann gengur svo langt að líkja þessu fyrirbæri við mútur, mútur hafi ekkert breyst en það geti verið að viðhorf okkar til hvers þær séu nýtanlegar hafi breyst. Í fyrsta lagi þá kennir hann atferlissinnum um hvernig komið er. "Behaviorist theory derived from work with laboratory animals, is indirectly responsible for..." Það merkilega við kenningu hans er m.a. að hann bendir réttilega á að gagnrýni á þessa aðferð við að ná fram því besta í fólki sé ekki ný - Herzberg hafi gert grein fyrir þessu fyrir nærri 40 árum síðan og ekkert hafi breyst síðan. Ytri þættir hafi aldrei verið til þess fallnir að breyta viðhorfi okkar sem sé undirstaða þess hvernig við hegðum okkur, þeir verði ekki til þess að örva hollustu við tiltekið gildismat eða breytni. Öllu heldur verði þeir til þess að við breytum hegðun okkar - tímabundið. "As for productivity, at least two dozen studies over the last three decades have conclusively shown that people who expect to receive a reward for completing a task or for doing that task successfully simply do not perform as well as those who expect no reward at all." Það sem meira er því vitsmunalegri og opnari huga sem krafist hafi verið þeim mun verr hafi starfsmenn staðið sig sem unnið hafi undir frammistöðutengdu launakerfi. Niðurstöður sem hafi komið rannsóknaraðilum mjög á óvart þar sem þeir hafi gert ráð fyrir að frammistaða fólks batnaði vegna umbunarinnar. Hann bendir á að rannsóknir á frammistöðutengdum launakerfum hafi meira snúist umhvaða útfærsla væri rétt fremur en því hvort að hugmyndin í sjálfu sér væri rétt eða röng. Menn séu með öðrum orðum orðnir svo blindaðir af því að frammistöðutengd launakerfi séu hið eina rétta að þeim detti ekki í hug að setja spurningamerki við aðferðina "per se".

Það er athyglisvert í þessu sambandi að Kohn nefnir rannsókn aðila hjá hinu virta fyrirtæki McKinsey & Company í Bandaríkjunum, (fyrirtæki sem er nefnt í nánast öllum kennslubókum í viðskiptafræðum - sama hvert fagið er). Þeir komust að því 1982 með viðtölum og skoðanakönnum hjá 90 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna að afkastahvetjandi launakerfi toppstjórnenda fyrirtækjanna hafði ekkert að segja um niðurstöðutölur viðkomandi fyrirtækja! Ef marka má það sem fram kemur í grein Kohn þá fannst enginn munur á afkomutölum fyrirtækja hvort notuð voru afkastahvetjandi launakerfi fyrir toppstjórnendur eða ekki "...they examined compensation programs at 90 major U.S. companies to determine whether return to shareholders was better for corporations that had incentive plans for top exectives than it was for those companies that had no such plans. They were unable to find any difference." (Í ljósi þessa hvernig stendur þá á því að allar kennslubækur og flestir kennarar halda áfram að kenna að þeim mun árangurstengdari laun til stjórnenda því betri árangurs að vænta af rekstri fyrirtækisins?!)

Hverju er um að kenna, hvað er rangt við frammistöðutengd launakerfi að hans mati? Í fyrsta lagi segir hann að verðlaun verði til þess að laga "ástandið" tímabundið sem verður til þess að "vandamálið virðist leyst", en það sé öllu erfiðara að gera sér grein fyrir afleiðingunum til lengri tíma. "Do this and you´ll get that" sé einfaldlega lífsstíll Bandaríkjamanna og þar að auki sé mun einfaldara að trúa því að tiltekin hegðun sé tilkomin vegna launakerfis og að það sé hægt að laga það með betur útfærðu kerfi heldur en að líta til sálfræðilegra kenninga að baki hvatningu starfsmanna. Með því séu stjórnendur að fría sig þeirri ábyrgð að horfa á flókið samhengi hlutanna þar sem það sé miklu auðveldara að líta á ákveðna orsök og hafa þá tæki í höndunum til að "laga skemmdina"! Að síðustu setur Kohn kenningu sína upp á skipulagðan hátt og segir einfaldlega...

Laun eru ekki hvatning til að gera betur. Peningar fái fólk til að kaupa hluti sem það þarf og vantar, þeim mun meiri vöntun sem er á peningum þeim mun meiri líkur eru á að fólki sé verulega umhugað um þá peninga sem það fær, en það sé ekki það sama og að þeir séu hvatning. Þá nefnir hann að rannsóknir hafi sýnt að þegar starfsfólk er spurt hvað það haldi að sé mikilvægasta atriðið fyrir samstarfsmenn og/eða yfirmenn í starfi þá hafi svarið "laun" verið efst á lista. Aftur á móti þegar sömu stafsmenn eru spurðir beint "hvað skiptir ÞIG mestu máli" þá hafi laun yfirleitt lent í fimmta eða sjötta sæti. Hann fullyrðir að það séu engar rannsóknir sem styðji það að peningar virki hvetjandi á störf manna.

"There is no firm basis for the assumption that paying people more will courage them to do better work or even, in the long run, more work. As Frederick Herzberg Disinguished Professor of Management at the Univeristy of Utah´s Graduate School of Management, has argued, just because too little money can irritate and demotivate does not mean that more and more money will bring about increased satisfaction, much less increased motivation. It is plausible to assume that if someone´s take-home pay was cut in half, his or her morale would suffer enough to undermine performance. But it doesn´t necessarily follow that doubling that person´s pay would result in better work."

Þá er ekki síður athyglisverð sú afstaða hans að "hegning og umbun" séu í raun bara tvær hliðar á sama teningi. Margir stjórnendur dagsins í dag hafi misst trú á gildi hegningar sem var talin svo mikilvæg fyrir áratugum síðan en málið sé að umbun í formi ytri þátta sé ekkert annað en önnur útfærsla á sama hlut, ..."kick in the pants" geti orsakað breytta hegðun - en aldrei verið hvatning, það sé ekkert öðruvísi hvað varðar frammistöðutengd launakerfi. " "Do this and you´ll get that is not really very differnet from "do this or here´s what will happen to you. Sem rök fyrir þessu nefnir hann að þegar starfsfólk einblínir á tiltekna umbun fyrir störf sín en fær hana ekki þá virkar það eins og refsing og því meir sem umbunin er þráð því meiri verður refsingin þegar viðkomandi fær hana ekki. Þetta ástand sé ekkert öðruvísi en þegar fólki er hótað með refsingu fyrir slæma frammistöðu - það sé "gripið" og komist ekki burt. Sem þýðir að í stað þess að eins og allar stjórnunarkenningar segja í dag að það eigi að örva fólk til þekkingar og framfara þá sé því "stjórnað" á gamla mátann.

"The new school, which exhorts us to catch people doing something right and reward them for it, is not very different from the old school, which advised us to catch people doing something wrong and threaten to punish them if they ever do it againl. What is essentially taking place in both approaches is that a lot of people are getting caught. Managers are creating a workplace in which people feel controlled, not an environmental conducive to exploration, learning and progress."

Þá bendir Kohn á að frammistöðutengd laun leiði til samkeppni og minnki möguleika fyrirtækja á samstöðu starfsmanna sem aftur leiði til verri frammistöðu fyrirtækisins í heild. Þetta séu algjör grundvallarmistök þar sem frammistaða eins starfsmanns sem er verðlaunaður umfram frammistöðu hópsins geti leitt til þess að útkoma hópsins verði lélegri eða alla vega ekki betri en ella, vegna abrýðisemi eða annarra tilfinninga sem upp geta komið beinlínis vegna umbunarinnar sem viðkomandi starfsmaður fær. "No one is improving the system for collective gain. The system will inevitably crash." Without teamwork, in other words, there can be no quality".

Að mati Kohn er samband orsaka og afleiðinga stórt atriði. Við vitum öll að upp koma vandamál í fyrirtækjum - nánast á hverjum degi. Með frammistöðutengdum launakerfum vill hann meina að stjórnendur fríi sig ábyrgð - þeir líti ekki á það hvað orsaki vandamálið heldur kjósi miklu fremur að fara auðveldu leiðina og horfa bara á að starfsmaðurinn hafi ekki staðið sig nægilega vel - og að ástæðuna sé að finna í kerfinu sem slíku. Það taki alltof langan tíma að leita að raunverulegum orsökum fyrir vandamálinu - hinn kosturinn sé miklu auðveldari og betri! Þar að auki þá noti stjórnendur þetta kerfi sem afsökun fyrir því hverju starfsmenn þurfi á að halda vel unnin störf. Það að fara vel með starfsmenn og að gefa verðmæta endurgjöf sé kjarni góðrar stjórnunar aftur á móti krefjist það miklu minni hæfileika að veifa bara ákveðnum bónus framan í starfsmenn og lofa þeim honum að uppfylltum ákveðnum árangri. Með öðrum orðum þetta sé "ideal" aðferð fyrir stjórnendur til að þurfa ekki að hafa of miklar áhyggjur af starfsmönnum sínum.

Að síðustu verður eitt atriði Kohn nefnt hér í viðbót en það er að frammistöðutengd launakerfi leiði til minni áhuga starfsmanna á því sem þeir eru að gera. Hann segir að ef markmiðin með starfsemi fyrirtækisins og markmiðin sem starfsmaðurinn fær séu"frábær" þá geti ekkert afkastatengt kerfi bætt það upp. Vegna þess einfaldlega að það sé innri hvatning sem skipti okkur mannfólkið mestu máli hvað sem hver segir. Við séum öll að leita að hamingju og innri "fullnægju", við vitum manna best hvað sé vænlegast til þess að örva okkur og það séu sannarlega aldrei laun heldur miklu fremur ánægjan af því að vinna gott starf. Frammistöðutengd laun geti í einungis verið til þess fallin að skemma þá ánægju fyrir okkur. "The more we experience being controlled, the more we will tend to lose in interest in what we are doing. If we go to work thinking about the possibility of getting a bonus, we come to feel that our work is not self-directed. Rather it is the reward that drives our behaviour." Að lokum... "Whatever the reason for the effect, however, any incentive or pay-for-performance system tends to make people less enthuastic about their work and therefore less likely to approach it with a commitment to excellence."

Frammistöðutengd launakerfi eru ekkert einfalt mál, þau eru ekki heldur hinn eini sanni sannleikur sem við öll eigum og verðum að lúta. Frammistöðutengd launakerfi eru mannanna verk og þarfnast sem slík gagnrýni við eins og allt annað sem undir það getur fallið. Þessar hugmyndir um nauðsyn þess að greiða stjórnendum fyrirtækja eða öðru hæfileikafólki himinhá laun er tilkomin vegna þess að heimurinn trúir því að peningar virki sem hvatning til að gera betur! Það er kjarni málsins. Höfum það hugfast í umræðunni og höldum áfram í leit að því hvort sú aðferð "per se" sé rétt.
Murrel, Hywell. (1976). Motivation at work . Bls. 21

Armstrong, Michael & Murlis, Helen. Reward Management. Bls. 281.

Steer, Richard M., Porter, Lyman W., Bigley, Gregory A.. Motivation and leadedship at work. 6th ed. 1996. The McGraw-Hill Companies, Inc. - Kohn, Alfie. Why Icentive Plans Cannot Work.

Steer, Richard M., Porter, Lyman W., Bigley, Gregory A. (1996). Motivation and leadedship at work. Kohn, Alfie. Why Icentive Plans Cannot Work.

Steer, Richard M., Porter, Lyman W., Bigley, Gregory A. (1996). Motivation and leadedship at work. Kohn, Alfie. Why Icentive Plans Cannot Work.

Steer, Richard M., Porter, Lyman W., Bigley, Gregory A. (1996). Motivation and leadedship at work. - Kohn, Alfie. Why Icentive Plans Cannot Work.

Steer, Richard M., Porter, Lyman W., Bigley, Gregory A. (1996). Motivation and leadedship at work. Kohn, Alfie. Why Icentive Plans Cannot Work.

laugardagur, 10. maí 2003

Ég á mér draum…

Grein birt á www.kreml.is á kosningadaginn vorið 2003

... að einhvern tíma renni upp sá dagur að ég sem kjósandi muni í raun og sann hafa valkost með atkvæði mínu. Ég hélt allt þar til um síðustu áramót að svo gæti farið að þessi draumur minn gæti orðið að veruleika. Allar götur síðan hefur draumurinn dofnað sífellt meir eftir því sem nær dregur... En viti menn nú þegar einungis einn dagur og tvær nætur eru til kosninga kviknar von... Hver veit nema að kraftaverkið geti gerst...

Hver er hann þessi draumur? Hvað hefur orðið til þess að vekja með mér von um hann geti ræst?

Þessi draumur snýst um samruna tveggja flokka sem stofnaðir voru af sama einstaklingi Jónasi Jónssyni frá Hriflu á fyrstu áratugum síðustu aldar, Alþýðuflokks (nú Samfylkingar) - og Framsóknarflokks. Það er óralangt síðan þessi draumur minn fæddist og hann á sér rætur í því samfélagi sem ég hef alist upp í.

Allar götur frá því ég man eftir mér hefur mér verið kennt að hatast út í Alþýðuflokkinn - kratana. Ég ólst upp við það að kratarnir væru allra manna verstir, Viðreisnarstjórnin væri sú alversta ríkisstjórn sem nokkru sinni hefði verið við völd. Fyrstu uppvaxtarárin setti ég ekkert spurningamerki við þessa fullyrðingu, ég trúði því að hún væri rétt. Eftir því sem ég komst til vits og ára fór ég þó að efast um að þessi fullyrðing væri alls kostar rétt þó ég þyrði ekki að hreyfa við því upphátt á meðal minna nánustu. Það sem olli mér fyrst og fremst heilabrotum var sú staðreynd að horfa upp á foreldra mína og kollega þeirra - sauðfjárbændur strita allt sitt líf og bera sífellt minna úr bítum. Á sama tíma var ekkert að gerast á meðal heimamanna, það var engin atvinnuuppbygging á öðrum sviðum, það var engin framtíðarsýn um breytingar. Það eina sem stjórnmálamennirnir sem foreldrar mínir og margir aðrir á landsbyggðinni kusu höfðu að bjóða þeim var "bið eftir björgunaraðgerðum að ofan".

Hverju hefur þessi stefna skilað - þeim og okkur landsmönnum öllum? Svari nú hver fyrir sig - í mínum huga liggur svarið ljóst fyrir. Það kann ekki góðri lukku að stýra að stinga höfðinu í sandinn og halda að tíminn standi í stað. Það er ekki gott fyrir neinn, ekki fyrir einstaklinginn, ekki fyrir fyrirtækin, ekki fyrir atvinnugreinarnar ekki fyrir þjóðfélagið í heild að horfa ekki til framtíðar. Tímarnir breytast og mennirnir með. Það er öllum nauðsynlegt að horfa til þess. Það er öllum hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki, atvinnugreinar eða þjóðfélög að horfa til framtíðar. Að rýna í stöðuna og gera sér grein fyrir í hverju breytingarnar muni liggja. Að velta fyrir sér stöðunni, líklegri þróun og í framhaldi af því möguleikum og tækifærum sem í breytingunum kunna að felast.

Kosningabaráttan nú sem senn er að baki verður að teljast ólíkleg til að komast á spjöld sögunnar vegna innihaldsins eða þess að hún hafi brotið blað í nokkru því sem skiptir máli til framtíðar. Ég hef ekki enn gefið mér tíma til að sjá sýningu þá sem nú er í gangi þar sem líta má á kosningabaráttu fyrri áratuga. Svo langt sem ég man hafa þær þó flestar verið hver annarri líkar að einni undanskilinni, kosningabaráttunni 1994 þegar R-listinn komst til valda. Það var kosningabarátta gleðinnar, breytinganna, vonarinnar og að lokum fullnægjunnar! Loksins tókst það! Það tókst að setja saman kosningabandalag nokkurra flokka gegn Sjálfstæðisflokknum, sem einn flokka hafði átt Reykjavíkurborg fram að því. Úrslit þessara kosninga skiptu máli, þau höfðu áhrif, þau leiddu til breytinga, þau brutu blað. Atkvæði mitt í kosningum 1994 bar árangur sem ég sem borgarbúi bý enn að og það verður aldrei aftur snúið. Það getur vel verið að það komi að Sjálfstæðisflokknum aftur við stjórnvölinn í borginni og það er allt í lagi með það. Hann á ekki borgina lengur og það er það sem skiptir öllu máli, það er til annarr valkostur.

Valkostur - það er kjarni málsins og það sem kosningar eiga að snúast um í mínum huga. Það er kjarni lýðræðisins að geta valið. Eins og stjórnmálaumhverfið hefur verið hér á landi allar götur síðan ég man eftir mér hefur þessi staða ekki verið uppi í kjöri til landstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn að ekki sé nú talað um Framsóknarflokkurinn hafa verið ráðandi öfl. Sjálfstæðisflokkurinn í krafti stærðar sinnar, Framsóknarflokkurinn í krafti stöðu sinnar. Þessi staða er enn við lýði en þó hefur margt breyst. Það er tilkominn nýr flokkur - sem þó getur aldrei orðið raunverulegur valkostur fyrr en sú breyting sem vikið var að í upphafi verður að veruleika. Það er samruni, sameining Samfylkingar og Framsóknarflokks verður að veruleika.

Ég efast ekkert um að margir halda mig endanlega gengna af göflunum, hvað í ósköpunum gengur mér til að halda þessu fram. Þessir tveir mestu "hatursflokkar" sögunnar! Það er einmitt kjarni málsins. Það sem skilur að þessa tvo flokka eru ekki málefni, heldur fjötrar fortíðarinnar - sögunnar. Gamlir og grónir framsóknarmenn eins og faðir minn ganga af göflunum þegar þeir heyra hugmyndir í þessu veru, það sama má segja um gamalgróna krata, þeir fá hroll við það eitt að maður nefni Framsóknarflokkinn á nafn. Hvað liggur að baki þessu áliti þeirra - er það málefnalegur ágreiningur í stórum málum? Dettur einhverjum í hug að Halldór Ásgrímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir séu andstæðingar í pólitík? Nei, það er miklu fremur "trúin", það að hafa trúað á ákveðinn "flokk" sem ræður þessari afstöðu og það er mál að linni. Þessir tveir flokkar hafa margt að færa hvor öðrum, þeir geta bætt hvorn annan upp. Sameinaðir gætu þeir orðið það "alvöru" afl jafnaðarmanna sem við þörfnumst svo mjög í upphafi nýrrar aldar.

Það sem hefur orðið til að vekja með mér von um að þessi draumur geti einhvern tíma orðið að veruleika eru tvær greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu í þessari viku. Raunar vekur það sérstaka furðu að ekki sjáist nein merki um að leiðarahöfundar Morgunblaðsins eða aðrir fjölmiðlamenn telji ástæðu til að vekja athygli á þeim sögulega viðburði sem hér er vikið að. Það hlýtur að teljast sögulegur viðburður að Bryndís Schram eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, holdgervings hins illa í huga margra gamalgróinna framsóknarmanna og sonur þeirra Glúmur Baldvinsson skrifi greinar þar sem þau segja tæpitungulaust að þeirra óskastjórn sé stjórn þessara tveggja flokka - Framsóknar og Samfylkingar. Ég leyfi mér að segja "húrra fyrir þeim"! Loksins koma alvöru hugsjónamenn fram á ritvöllinn - hugsjónamenn sem eru tilbúnir að leggja til hliðar minni hagsmuni fyrir meiri, hugsjónamenn sem eru tilbúnir að kyngja gömlum viðhorfum og "flokksfjötrum". Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að tengslafólk Jóns Baldvins Hannibalssonar liti til Framsóknarflokksins með framtíðarsýn sína en það segir kannski mest um að "tímarnir breytast og mennirnir með"! Er ekki tími til kominn að það sama gerist í röðum Framsóknarmanna?

Að síðustu þetta. Ég hef tvisvar komið fram með þá yfirlýsingu að ég hygðist skila auðum kjörseðli í vor þar sem ég gæti ekki samþykkt stefnu neins flokks. Í sannleika sagt hef ég íhugað það alla kosningabaráttuna að kannski væri það hið eina rétta. Ég er í sjálfu sér enn þeirrar skoðunar, en... ég get það ekki. Með því væri ég að stuðla að óbreyttu ástandi, með því væri ég með öðrum orðum að stuðla að áframhaldandi veru Davíðs Oddssonar við stjórnvölinn og það get ég ekki. Það ríður baggamuninn. Sú staðreynd krefst þess að ég setji kross á kosningaseðilinn á laugardaginn. Það verður mér þó ekki auðvelt. Kostirnir í mínum huga eru tveir. Annars vegar Framsóknarflokkurinn - stefna Halldórs Ásgrímssonar sem ég hef hrifist mjög af allt fram til síðustu áramóta, stefna framtíðarinnar, stefna alþjóðahyggju, þess að horfa til breytinga og þess að það sé íslenskri þjóð farsælast að vera þáttakandi í þeim breytingum í stað þess "bíða eftir því hvað gerist". Hinn kosturinn er Samfylkingin, nýr flokkur á gömlum merg sem þó er enn að fóta sig, er enn að finna sér stað. Flokkur sem ég er í grundvallaratriðum ósammála hvað varðar sjávarútvegsstefnuna.

Hvað get ég gert í þessari stöðu? Hvað ræður endanlegri afstöðu minni - hvert verður valið? Ég á engra kosta völ. Ég hlýt að veðja á Samfylkinguna. Með því að styðja Framsóknarflokkinn væri ég að taka þá áhættu að ég væri að framlengja lífdaga ríkisstjórnarinnar undir forystu Davíðs Oddssonar. Það get ég ekki. Það skiptir mig öllu máli að stuðla að því að koma núverandi ríkisstjórn frá, þó að með því sé ég á sama tíma að ganga gegn sannfæringu minni í einu máli. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er að taka áhættu með þessu. Það getur vel verið að ég sitji uppi með ríkisstjórn sem ég kæri mig ekkert um eins og ríkisstjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra en svona er þetta stjórnmálaumhverfi sem ég bý við. Svona er þetta stjórnmálaumhverfi sem Jónas Jónsson frá Hriflu teiknaði í upphafi síðustu aldar og enn hefur ekki tekist að leiðrétta. Vonandi verður staðan önnur að fjórum árum liðnum... vonandi verða úrslit kosninganna á laugardaginn til þess að leggja lóð á þá vogarskál.

Gleðilegan kosningadag!

mánudagur, 5. maí 2003

Enn ein gömul grein frá 2003... frá sannfærðum

Grein af kremlarvef frá árinu 2003, endurbirt á bloggi 30. janúar 2009

Einu sinni sem oftar sat ég fund Evrópusamtakanna í hádeginu í dag og fyrirsögnin er sett fram vegna þess sem ég varð þar áheyrandi að. Áður en lengra er haldið má ég til að nefna að það er fremur skoplegt að sitja þessa fundi því við fundarmenn erum fáir og flestir þeir sömu aftur og aftur. Þannig er eins og Evrópumálefni séu orðin sértækt áhugamál fáeinna sérvitringa hér á landi. Hvaða ástæður skyldu liggja að baki því? Skiptir þróunin í Evrópu og það sem þar er að gerast okkur Íslendinga engu máli? Getur verið að viðhorf forsætisráðherra okkar til málsins hafi þarna eitthvað að segja? Eða eru þessir fundir einfaldlega illa auglýstir? Spyr sá sem ekki veit en þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þess um hversu stórt hagsmunamál er um að ræða. Eða er það kannski svo að við Íslendingar höfum bara áhuga á smáatriðum en hugsum síður um það sem skiptir máli?

Fyrirlesari var Árni Páll Árnason lögmaður og fyrrverandi starfsmaður íslensku utanríkisþjónustunnar eins og hann er titlaður hér á vefnum. Fyrirlestur hans varð kveikjan að þessari fyrirsögn, Evrópusamband = Sjálfstæðisflokkur en hvað eiga þessi tvö félög sameiginlegt? Jú það var nefnilega svo skemmtilegt að Árni Páll færði rök fyrir því að hagsmunir ríkja til að vera aðilar að Evrópusambandinu væru þeir sömu og hagsmunir einstaklinga til að standa saman að því að vera aðilar að stórum stjórnmálaflokki eins og Sjálfstæðisflokknum. Ríki gerast aðilar að Evrópusambandinu því þau telja hagsmunum sínum betur borgið með því að standa saman að málum en sundruð. Á sama hátt gerast einstaklingar aðilar að Sjálfstæðisflokknum vegna þess að þeir telja hagsmunum sínum betur borgið með því að standa saman að málum í stórum pólitískum flokki en ef þeir stæðu einir og reyndu þannig að koma málum sínum fram. Í þessu sambandi kom hann með dæmi "eða hvort haldið þið að sé vænlegra til árangurs að vera Helgi Hóeasson eða vera meðlimur í stjórnmálaflokki og reyna að ná málum sínum fram þar?" Skemmtilegt dæmi finnst ykkur ekki? Ég keyri fram hjá Helga Hóseassyni á hverjum degi þar sem hann stendur á horni Langholtsvegar og Holtavegar með mótmælaspjald með áletrunum eins og "blóð, Bush, Davi, Dori". Ímyndum okkur Íslendinga sem þjóð í þessu hlutverki! Hvernig hugnast ykkur sú mynd? Já það verður að segjast að þetta er skemmtileg samlíking og fyllilega þess verð að við veltum henni fyrir okkur.

Höldum aðeins áfram með þessa hugmynd að það sé vænlegra til árangurs - í þeim skilningi að hafa áhrif - að standa fleiri saman en að vera sundraðir eða einir. Hvaða dæmi höfum við um það hér á landi að það sé vænlegra til áhrifa að standa fleiri saman en sundruð? Hvað með pólitíska umhverfið? Hvernig gekk stjórnarandstöðunni í Reykjavík að hafa áhrif áður en að R-listinn kom til? Hvernig gengur okkur sem erum áhugamenn um breyttar áherslur í stjórnmálum á Íslandi að hafa áhrif í því sundraða pólitíska umhverfi sem við búum við? Hvaða lexíu kenndu síðustu kosningar okkur í því samhengi? Getur verið að leiðin til áhrifa sé sú að standa fleiri saman og skerpa á þeim atriðum sem raunverulega skipta máli og láta hin sem skipta minna máli liggja á milli hluta? Getur verið að Sjálfstæðismenn geri sér grein fyrir þessu og hætti þess vegna aldrei að hamra á þeim gamla góða tíma þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru til. Maður þarf ekkert að vera mjög skynsamur til að sjá hversu skíthræddir þeir eru við þetta nýja umhverfi þar sem þeir þurfa kannski einhvern tíma að horfast í augu við að missa völdin til annarra sem raunverulega geta átt möguleika á að ná sömu stærð. Í þessu ljósi - getur verið að það sé vænlegra fyrir okkur Íslendinga til að hafa áhrif í samfélagi þjóðanna að vera hluti af stærri heild en að standa einir?

Nú er árið 2003 og innan skamms verða 10 ný ríki aðilar að Evrópusambandinu. Frændur okkar Svíar og Finnar eru orðnir aðilar, en við Íslendingar teljum ekki einu sinni ástæðu til að ræða þetta mál, hvað þá að kjósa um það. Nei þá er nú betra að kjósa um skattalækkanir (sem breytast snarlega í skattahækkanir að kosningum loknum) og tæknileg útfærsluatriði sem gufa upp eins og dögg fyrir sólu um leið og kosningar eru afstaðnar. Það er stóra málið og hefur miklu meiri áhrif á líf okkar til framtíðar í þessu landi, eða hvað finnst ykkur? Hvað finnst okkur þegnum þessa lands nú að afstöðnum kosningum um þá umræðu sem átti sér stað hér á landi fyrir kosningar? Vorum við að tala um eitthvað sem skiptir máli? Umræðan um skattalækkanir - hverju hefur hún skilað? Hverju kemur hún til með að skila? Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Hvert er hlutverk kosninga? Um hvað snúast stjórnmál?

Hvað finnst ykkur?

Flokkspólitík = trúarbrögð?

Grein áður birt á www.kreml.is á vormánuðum 2003

Í leiðara Morgunblaðsins 26. apríl síðastliðinn segir orðrétt m.a.;

"Málflutningur Halldórs Ásgrímssonar varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB á síðasta ári vakti upp spurningar um það hvort hann teldi sig geta náð til einhverra kjósenda Sjálfstæðisflokksins með þeim umræðum og þá ekki sízt í viðskiptalífinu. Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar. Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls."

Veltum aðeins fyrir okkur samhengi þessara orða.

Fimmtudaginn 3ja apríl síðastliðinn birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu þar sem ég talaði um "andlegan dauða pólitíkur á Íslandi". Tilefni þeirra greinaskrifa var það að ég kallaði eftir skýrum línum í pólitíkinni á Íslandi. Ég kallaði eftir því að fá að taka afstöðu til stóru pólitísku málanna eins og aðildar að Evrópusambandinu. Fyrir mér sem hef tekið þátt í hringiðu íslensks viðskiptalífs í bráðum tuttugu ár blasir það einhvern veginn við að aðild að Evrópusambandinu sé eitt þeirra mála sem íslenskir kjósendur þurfa að ræða. Um daginn tók ég þátt í fundi Evrópusamtakanna þar sem skorað var á forsvarsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins í pallborðsumræður um Evrópumál. Fyrir mér var það algjört grundvallaratriði að mæta á þennan fund þar sem ég hafði lengi beðið eftir nákvæmlega þessu - að fá tækifæri til að hlusta á forsvarsmenn LÍU og Samtaka bænda koma fram opinberlega með afstöðu sína til þessara mála og hlusta á rök þeirra sömu fyrir þeirra afstöðu. Ég fékk oftar en einu sinni gæsahúð á þessum fundi, ekki vegna þess að hann væri í sjálfu sér svo stórkostlegur heldur miklu fremur vegna þess að það var svo gaman. Umræðan kom blóðinu á hreyfingu og hjartað tók að slá hraðar þar sem ég var loksins að upplifa það að menn þurftu að færa rök fyrir máli sínu opinberlega. Forsvarsmenn LÍU þurftu þarna að leggja á borðið sín ómálefnalegu rök um að með aðild myndum við Íslendingar "missa sjálfstæðið". Það er ótrúlegt hvað þessi stóru og sterku hagsmunasamtök ætla lengi að berjast eins og rjúpa við staurinn við að þagga niður umræðu um framþróun Íslands í samfélagi þjóðanna. Þessi fundur færði mér heim sanninn um það enn og aftur að frumkvæði að skemmtilegum, gagnlegum og nauðsynlegum umræðum í pólitík kemur ekki frá stjórnmálaflokkunum heldur einhverjum öðrum. Hvers vegna skyldi það vera?

Þá kem ég að því sem tekið er úr Morgunblaðinu í upphafi þessarar greinar. Það hlýtur að vera okkur öllum - kjósendum í þessu landi sérstakt umhugsunarefni það sem þarna stendur. "Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar. Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls." Um daginn fór ég með föður mínum á kosningahátíð hjá Framsóknarflokknum. Þar sagði Björn Ingi Hrafnsson frambjóðandi flokksins mér það sama. Hann vitnaði til þess að Styrmir Gunnarsson hefði sagt við Jón Baldvin á sínum tíma, að sá síðarnefndi skyldi ekki láta sig dreyma um að hann fengi stuðning atvinnulífsins við hugmyndir sínar þegar kæmi að kosningum þó þeir tækju undir með honum annars, það væri einfaldlega þannig að forystumenn atvinnulífsins kysu Sjálfstæðisflokkinn, hefðu gert það og myndu gera það!!! (Það skal sérstaklega tekið fram hér að ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er rétt haft eftir eða hvort vitnað er í rétta einstaklinga, enda ekki aðalatriði málsins).

Ég hlýt að spyrja - er þetta eðlilegt ástand á tuttugustu og fyrstu öldinni? Er það eðlilegt að menn eins og t.d. Steinn Logi Björnsson forsvarsmaður í ferðaþjónustunni komi fram og gagnrýni harðlega það umhverfi sem ferðaþjónustan býr við, og á þar við gengi íslensku krónunnar, en á sama tíma vilji hann ekki segja það beint til hvers hann ætlast af stjórnvöldum? Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hann vildi hreyfa við umræðu um upptöku evrunnar hér á landi en að hann neitaði alfarið að segja það beint að hann vildi að við ræddum aðild að Evrópusambandinu. Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins var á fyrrgreindum fundi Evrópusamtakanna og lýsti þar þeirri eindregnu skoðun samtakanna að Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Rök hans voru ósköp einfaldlega íslenska krónan. Til að íslensku fyrirtækin geti staðið jafnfætis í samkeppni á alþjóðlegum markaði þurfa þau einfaldlega á meiri stöðugleika að halda, íslenska krónan hefur ekki verið stöðug síðustu misserin eða hvað? Hann tók sem dæmi rök Dana fyrir aðild að Efnahagsbandalaginu á sínum tíma. Þau hafi einfaldlega verið þau að danskir svínabændur hafi séð hag sínum best borgið með því að gerast aðilar. Málið var ekkert flóknara fyrir Dani í upphafi.

Í framhaldi af þessu fer ekki hjá því að ég spyrji sjálfa mig - hvaða flokk skyldi Sveinn Hannesson og skoðanabræður hans hjá Samtökum iðnaðarins styðja? Styðja þeir flestir Sjálfstæðisflokkinn? Þann flokk sem staðfastlega hefur neitað því á liðnu kjörtímabili að aðild að Evrópusambandinu sé eitthvað sem þarf að ræða? Nú getur vel verið að ég sé hér að upplýsa fávisku mína, að það sé opinbert og flestir viti hvaða flokk Sveinn Hannesson og kollegar hans í Samtökum iðnaðarins styðja en ég er óhrædd að opinbera þá fávisku mína. Svarið er augljóslega mjög áhugavert fyrir mig sem kjósanda sem skilur ekki hvernig í ósköpunum íslensk pólitík er alltaf svona vitlaus eins og hún er. Ég get ekki skilið hvernig það má vera að sterkir og annars skynsamir stjórnendur fyrirtækja hér á landi í alþjóðlegri samkeppni geta bara kosið Sjálfstæðisflokkinn yfir sig kjörtímabil eftir kjörtímabil án þess nokkurn tíma að gera virkilegar kröfur til þess flokks að ræða þau stóru hagsmunamál sem brenna á þeim á hverjum einasta degi í þeirra rekstri! Getið þið svarað mér því einhverjir ykkar? Hvað gengur mönnum til að styðja flokk sem er í grundvallaratriðum helsta hindrunin fyrir því að Íslendingar nái einhverjum árangri að ræða þetta mál af einhverju viti? Hversu mikil áhrif ætli gengi íslensku krónunnar hafi haft á endanlega afkomu þeirra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands síðustu 3 árin? Hefur gengi krónunnar ekki haft miklu meira að segja um hagnað og tap margra skráðra fyrirtækja hér á landi heldur en nokkurn tíma raunveruleg rekstrarafkoma þeirra? Hvernig stendur á því að þið atvinnurekendur þessa lands sem hafið hagsmuni að því að Ísland taki upp evru standið ykkur ekki betur í því að ýta því máli af stað? Getur það verið að það að þið kjósið flestir Sjálfstæðisflokkinn eigi meira skylt við trúarbrögð en raunverulega pólitík?

Ég hlýt að leita eftir svari og skil þessar spurningar eftir opnar. Ég leyfi mér að vona að einhverjir stjórnendur villist hér inn á kreml.is og sjái þessa grein því áhugi minn á því að fá svar, þó ekki væri nema frá einum brennur á mér og ég bíð spennt... !

þriðjudagur, 29. apríl 2003

Pólitík = trúarbrögð?

Í leiðara Morgunblaðsins 26. apríl síðastliðinn segir orðrétt m.a.;

“Málflutningur Halldórs Ásgrímssonar varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB á síðasta ári vakti upp spurningar um það hvort hann teldi sig geta náð til einhverra kjósenda Sjálfstæðisflokksins með þeim umræðum og þá ekki sízt í viðskiptalífinu.  Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar.  Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls.”  

Veltum aðeins fyrir okkur samhengi þessara orða.  

Fimmtudaginn 3ja apríl síðastliðinn birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu þar sem ég talaði um “andlegan dauða pólitíkur á Íslandi”.  Tilefni þeirra greinaskrifa var það að ég kallaði eftir skýrum línum í pólitíkinni á Íslandi.  Ég kallaði eftir því að fá að taka afstöðu til stóru pólitísku málanna eins og aðildar að Evrópusambandinu.  Fyrir mér sem hef tekið þátt í hringiðu íslensks viðskiptalífs í bráðum tuttugu ár blasir það einhvern veginn við að aðild að Evrópusambandinu sé eitt þeirra mála sem íslenskir kjósendur þurfa að ræða.  Um daginn tók ég þátt í fundi Evrópusamtakanna þar sem skorað var á forsvarsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins í pallborðsumræður um Evrópumál.  Fyrir mér var það algjört grundvallaratriði að mæta á þennan fund þar sem ég hafði lengi beðið eftir nákvæmlega þessu – að fá tækifæri til að hlusta á forsvarsmenn LÍU og Samtaka bænda koma fram opinberlega með afstöðu sína til þessara mála og hlusta á rök þeirra sömu fyrir þeirra afstöðu.  Ég fékk oftar en einu sinni gæsahúð á þessum fundi, ekki vegna þess að hann væri í sjálfu sér svo stórkostlegur heldur miklu fremur vegna þess að það var svo gaman.  Umræðan kom blóðinu á hreyfingu og hjartað tók að slá hraðar þar sem ég var loksins að upplifa það að menn þurftu að færa rök fyrir máli sínu opinberlega.  Forsvarsmenn LÍU þurftu þarna að leggja á borðið sín ómálefnalegu rök um að með aðild myndum við Íslendingar “missa sjálfstæðið”.  Það er ótrúlegt hvað þessi stóru og sterku hagsmunasamtök ætla lengi að berjast eins og rjúpa við staurinn við að þagga niður umræðu um framþróun Íslands í samfélagi þjóðanna.  Þessi fundur færði mér heim sanninn um það enn og aftur að frumkvæði að skemmtilegum, gagnlegum og nauðsynlegum umræðum í pólitík  kemur ekki frá stjórnmálaflokkunum heldur einhverjum öðrum.  Hvers vegna skyldi það vera?  

Þá kem ég að því sem tekið er úr Morgunblaðinu í upphafi þessarar greinar.  Það hlýtur að vera okkur öllum – kjósendum í þessu landi sérstakt umhugsunarefni það sem þarna stendur.  “Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar.  Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls.”  Um daginn fór ég með föður mínum á kosningahátíð hjá Framsóknarflokknum.  Þar sagði Björn Ingi Hrafnsson frambjóðandi flokksins mér það sama.  Hann vitnaði til þess að Styrmir Gunnarsson hefði sagt við Jón Baldvin á sínum tíma, að sá síðarnefndi skyldi ekki láta sig dreyma um að hann fengi stuðning atvinnulífsins við hugmyndir sínar þegar kæmi að kosningum þó þeir tækju undir með honum annars, það væri einfaldlega þannig að forystumenn atvinnulífsins kysu Sjálfstæðisflokkinn, hefðu gert það og myndu gera það!!!  (Það skal sérstaklega tekið fram hér að ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er rétt haft eftir eða hvort vitnað er í rétta einstaklinga, enda ekki aðalatriði málsins).  

Ég hlýt að spyrja - er þetta eðlilegt ástand á tuttugustu og fyrstu öldinni?  Er það eðlilegt að menn eins og t.d. Steinn Logi Björnsson forsvarsmaður í ferðaþjónustunni komi fram og gagnrýni harðlega það umhverfi sem ferðaþjónustan býr við, og á þar við gengi íslensku krónunnar, en á sama tíma vilji hann ekki segja það beint til hvers hann ætlast af stjórnvöldum?  Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hann vildi hreyfa við umræðu um upptöku evrunnar hér á landi en að hann neitaði alfarið að segja það beint að hann vildi að við ræddum aðild að Evrópusambandinu.  Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins var á fyrrgreindum fundi Evrópusamtakanna og lýsti þar þeirri eindregnu skoðun samtakanna að Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu.  Rök hans voru ósköp einfaldlega íslenska krónan.  Til að íslensku fyrirtækin geti staðið jafnfætis í samkeppni á alþjóðlegum markaði þurfa þau einfaldlega á meiri stöðugleika að halda, íslenska krónan hefur ekki verið stöðug síðustu misserin eða hvað?  Hann tók sem dæmi rök Dana fyrir aðild að Efnahagsbandalaginu á sínum tíma.  Þau hafi einfaldlega verið þau að danskir svínabændur hafi séð hag sínum best borgið með því að gerast aðilar.  Málið var ekkert flóknara fyrir Dani í upphafi.  

Í framhaldi af þessu fer ekki hjá því að ég spyrji sjálfa mig – hvaða flokk skyldi Sveinn Hannesson og skoðanabræður hans hjá Samtökum iðnaðarins styðja?  Styðja þeir flestir Sjálfstæðisflokkinn?  Þann flokk sem staðfastlega hefur neitað því á liðnu kjörtímabili að aðild að Evrópusambandinu sé eitthvað sem þarf að ræða?  Nú getur vel verið að ég sé hér að upplýsa fávisku mína, að það sé opinbert og flestir viti hvaða flokk Sveinn Hannesson og kollegar hans í Samtökum iðnaðarins styðja en ég er óhrædd að opinbera þá fávisku mína.  Svarið er augljóslega mjög áhugavert fyrir mig sem kjósanda sem skilur ekki hvernig í ósköpunum íslensk pólitík er alltaf svona vitlaus eins og hún er.  Ég get ekki skilið hvernig það má vera að sterkir og annars skynsamir stjórnendur fyrirtækja hér á landi í alþjóðlegri samkeppni geta bara kosið Sjálfstæðisflokkinn yfir sig kjörtímabil eftir kjörtímabil án þess nokkurn tíma að gera virkilegar kröfur til þess flokks að ræða þau stóru hagsmunamál sem brenna á þeim á hverjum einasta degi í þeirra rekstri!  Getið þið svarað mér því einhverjir ykkar?  Hvað gengur mönnum til að styðja flokk sem er í grundvallaratriðum helsta hindrunin fyrir því að Íslendingar nái einhverjum árangri að ræða þetta mál af einhverju viti?  Hversu mikil áhrif ætli gengi íslensku krónunnar hafi haft á endanlega afkomu þeirra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands síðustu 3 árin?  Hefur gengi krónunnar ekki haft miklu meira að segja um hagnað og tap margra skráðra fyrirtækja hér á landi  heldur en nokkurn tíma raunveruleg rekstrarafkoma þeirra?  Hvernig stendur á því að þið atvinnurekendur þessa lands sem hafið hagsmuni að því að Ísland taki upp evru standið ykkur ekki betur í því að ýta því máli af stað?  Getur það verið að það að þið kjósið flestir Sjálfstæðisflokkinn eigi meira skylt við trúarbrögð en raunverulega pólitík?

Ég hlýt að leita eftir svari og skil þessar spurningar eftir opnar.  Ég leyfi mér að vona að einhverjir stjórnendur villist hér inn á kreml.is og sjái þessa grein því áhugi minn á því að fá svar, þó ekki væri nema frá einum brennur á mér og ég bíð spennt… !

Signý Sigurðardóttir
Áhugamaður um að pólitísk umræða landans fari að taka mið af nýrri öld.

                                                                        Birt á pallborði www.kreml.is 


miðvikudagur, 23. apríl 2003

Konur gegn konum?

Það verður ekki á kyn mitt logið, þegar á hólminn skulu konur ekki standa saman og styðja hver aðra, nei þá er nú betra að rífa augun hver úr annarri augun og hlífa engu.  Aldrei eru þær grimmari en einmitt þá þegar þær telja ástæðu til að ráðast á kynsystur sínar.  Mikið lifandis skelfing væri nú gaman að lifa ef þessar sömu konur gætu sýnt viðlíka ákafa í annarri pólitík!  Mikið lifandis skelfing væri nú gaman að lifa ef stuðningskonur Sjálfstæðisflokksins væru eins kraftmiklar að berjast fyrir frama síns kyns innan eigin flokks! 

Í Morgunblaðinu í dag er að finna ótrúlega lesningu svo ekki sé meira sagt.  Í tveimur opnum með aðsendum greinum eru 4 greinar þar sem konur ráðast sérstaklega að auglýsingum og málflutningi Samfylkingarinnar þar sem Ingibjörg Sólrún er höfð í forsæti.  Hver láir Samfylkingunni það að hún tefli fram þessum hæfileikaríka fulltrúa sínum?  Hvað er óeðlilegt við það að Samfylkingin ýti undir þær tilfinningar í brjósti kjósenda að þeir noti tækifærið sem nú gefst til breytinga með því að kjósa hæfileikaríka konu – Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur?  Hefur Samfylkingin haldið því fram að kjósendur styðji hana einungis vegna þess að hún er kona?  Hver heldur því fram að kjósa skuli Ingibjörgu Sólrúnu einungis vegna þess að hún er kona?  Er það ekki miklu fremur svo að Samfylkingin er að benda kjósendum á að þeir hafi nú tækifæri til að brjóta blað í sögunni?  Þeir hafa tækifæri til að kjósa hæfileikaríka, sterka, konu sem forsætisráðherra.  Er ekki fyllsta ástæða til að benda kjósendum á það og er það ekki freistandi tækifæri?

Ég satt að segja skil ekki, hef aldrei getað skilið og mun aldrei geta skilið hvernig konur geta haldið því fram að þær séu jafnréttissinnar og kjósi Sjálfstæðisflokkinn.  Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert til að ýta undir jafnrétti ef litið er á söguna?  Hvar halda konur sem styðja þennan flokk að við konur værum almennt staddar í samfélaginu í dag ef við hefðum treyst þeim flokki fyrir jafnréttisþróuninni?  Ég spyr þessar konur allar saman;  Þorbjörgu Vigfúsdóttur, Björgu Einarsdóttur, Jónínu Bjartmarz og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur – hvar haldið þið að við værum staddar í dag ef ekki hefði verið til “Kvennaframboð” og síðar “Kvennalisti”?  Haldið þið að sú staða sem við erum í dag hafi náðst fram baráttulaust?  Haldið þið að nú séum við komin á þann stað í sögunni að “jafnréttisbaráttunni” sem slíkri sé lokið?  Að ekki sé þörf fyrir hana meir?  Haldið þið virkilega og nú spyr ég með sérstökum eldmóð -  haldið þið virkilega að konur standi jafnfætis körlum þegar kemur að því að “hæfni” þeirra í stöður sé metin?  Haldið þið að nú séum við komin á þann stað í sögunni þar sem konur og karlar standa jafnfætis yfirleitt?  

Allar sem ein tala þessar konur um að það sé “sérstök móðgun og lítilsvirðing” við kjósendur að höfða til þess að kjósa skuli Ingibjörgu Sólrúnu vegna þess að hún er kona.  Hvað segja þessar konur um alla þá karla sem teknir hafa verið fram yfir konur við ráðningar í gegnum tíðina vegna þess að þeir hafa verið karlar, hefur slík hegðun ekki verið “móðgun og lítilsvirðing” við okkur mannfólkið yfirleitt?  Eða er það svo að þegar karlar eru teknir fram yfir konur þá er það sökum “meiri hæfni” en þegar konur eru settar á stall sem foringjar vegna þess að þær eru frambærilegar og sterkar konur, þá er það einungis vegna þess að þær eru konur?

Já ég skal alveg játa það, ég er reið, ég er öskureið yfir þeirri lítilsvirðingu sem kynsystur mínar sýna mjög svo hæfileikaríkri konu og frambærilegum foringja, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er.  Það kemur svo sem ekki á óvart að þessi málflutningur skuli koma úr röðum kvenna.  Konur hafa jafnan átt í erfiðleikum með að styðja aðrar konur til forystu.  “Konur eru konum verstar” stendur einhvers staðar og verður því miður að viðurkennast að mikið er til í.  

Ég get svo sannarlega tekið undir að það er tími til kominn að breyta jafnréttisbaráttunni.  Það er tími til kominn að virkja karla til liðs við okkur og enginn yrði glaðari en ég ef að konur hentu “fórnarlambaumræðunni” á haugana.  Það er kominn tími til að efla og virkja jafnréttisumræðuna á nýjum og breyttum forsendum.  Það er allt annað mál en sitja undir því og þar með samþykkja það að konur rífi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sérstaklega í sig vegna þess að hún er kona.  Það er nákvæmlega þannig sem ég horfi á þessi greinaskrif í Morgunblaðsinu í dag.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er kona og hún er hæfileikaríkur og sterkur foringi sem á allt annað skilið af kynsystrum sínum en að á hana sér ráðist eingöngu vegna þess að hún er af sama kyni og þær.    

                                                                    Birt á pallborði www.kreml.is 23. apr. 2003


þriðjudagur, 22. apríl 2003

Dylgjur hverra - gagnvart hverjum?

Enn og aftur verður maður orðlaus á því að fylgjast með umræðunni? Hvernig geta menn orðið svo blindir á sína eins og sjálfstæðismenn eru nú á forystumann sinn?  Er það virkilega svo að þeir hafa ekki séð eða heyrt framkomu hans æ ofan í æ undanfarin misseri? Er það svo að þegar maður er hrifin af tilteknum einstaklingi þá hreinlega loki maður augum og eyrum og sjái bara það sem maður vill sjá? 

Undanfarna viku hef ég fylgst með hverjum sjálfstæðismanninum á fætur öðrum, fara mikinn í gagnrýni sinni á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna ræðu hennar í Borgarnesi. Allir sem einn hafa þessir einstaklingar talað um órökstuddar dylgjur umtalaðs forystumanns Samfylkingarinnar. Bæði Þorgerður Katrín í Kastljósi fyrr í vikunni og Guðlaugur Þór í útvarpsþættinum Í vikulokin í morgun töluðu um þá málefnasnauðu pólitík sem Ingibjörg Sólrún stæði fyrir og bæði hneyksluðust mjög á þeim órökstuddu dylgjum sem hún hefði lagt upp með í umræðunni.  Í Morgunblaðinu í dag bætir Guðlaugur Þór um betur og líkir aðferðafræði Ingibjargar Sólrúnar við aðferðafræði Jónasar frá Hriflu fyrir 50 árum og segir m.a. “Tilgangur þessarar aðferðafræði er að ata mótherja sína pólitískum auri til að bægja augum og eyrum kjósenda frá eigin málefnafátækt og pólitísku getuleysi.  Meðalið er rógur, rangfærslur og dylgjur um andstæðinga sína.”´ 

Undarlegt er það en fleirum en Guðlaugi Þór hefur dottið Jónas frá Hriflu í hug undanfarin misseri en í öðru samhengi þó.  Þannig hefur það oft hvarflað að mér undanfarin tvö ár hvort það geti verið að Davíð nokkur Oddsson sé líkur Jónasi Jónssyni frá Hriflu.  Það leynist engum sem eitthvað hafa lesið um þann mann að hann virðist hafa átt erfitt með að þola andstæðar skoðanir. Davíð Oddsson hefur komið mér fyrir sjónir undanfarin misseri sem maður af nákvæmlega sama toga.  Maður sem ekki þolir andstæðar skoðanir og hikar ekki við að láta það í ljósi hvar og hvenær sem honum dettur í hug.  Maður sem hikar ekki við að gera lítið úr öðrum og talar af hroka og mikillæti til þeirra þegna sem ekki eru sammála honum í öllu.  Eigum við að rifja þetta aðeins upp?  

Á árinu 2001 var verðbólgan komin á fulla ferð, ég sem íslenskur þegn hafði miklar áhyggjur af því þegar afborganir vísitölutryggðra lána minna fóru sífellt hækkandi.  Mér leið illa vegna þessa, þetta ástand skapaði óöryggi og vanlíðan því ég mundi vel hvað verðbólga stóð fyrir og ég gat fátt hugsað mér verra en endurtöku slíkra tíma.  Hvað hafði forsætisráðherra Davíð Oddsson að bjóða mér sem þegn þessa lands á þessum tíma? Hvað hafði hann að segja til að skapa traust á því að það væri ekkert að óttast?  Nákvæmlega ekki neitt!  Davíð Oddsson gerði eitt á þessum tíma, hann gerði lítið úr þeim röddum sem höfðu áhyggjur af stöðu mála. Hann sýndi almenningi sem hafði raunverulegar áhyggjur af stöðu mála fullkomið skilningsleysi og hroka. Þegar Þjóðhagsstofnun spáði öðruvísi fyrir um verðbólguþróun en honum þóknaðist var stofnunin einfaldlega lögð niður!  Hverjir voru það sem tóku málið alvarlega?  Hverjir voru það sem sneru þróuninni við?  Voru það stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson sem forsætisráðherra þjóðarinnar?  Ég man ekki til þess.  Ég man ekki betur en það hafi verið atvinnurekendur og launþegasamtök sem tóku málið upp á sína arma, og sneru þróuninni við.  Hvernig var það þegar dómur féll í Öryrkjamálinu svokallaða?  Hver voru viðbrögð stjórnvalda við þeim dómi?  Voru ráðstafanir forsætisráðherra þjóðarinnar Davíðs Oddssonar þá sérstaklega til þess fallnar að skapa traust okkar þegnanna?  Var það réttlátt og til þess fallið að skapa traust að skipa stórpólitíska nefnd til að túlka dóminn?  Var það réttlátt og til þess fallið að skapa traust að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson, mann sem látið hafði í ljós efasemdir sínar um dóminn opinberlega, sem formann þeirrar nefndar?  

Hvað með ummæli forsætisráðherra til umbjóðenda Mæðrastyrksnefndar?  Hvað með ummæli forsætisráðherra um stjórnendur Baugs? Hvað með ummæli forsætisráðherra um fréttastofu Stöðvar 2?  Hvað með ummæli forsætisráðherra um tengsl Samfylkingar við Baug og Norðurljós? Hvað segja Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór um þessi ummæli hans? Falla þessi ummæli forsætisráðherra vor ekki undir dylgjur? Ef þau gera það ekki – undir hvað falla þau þá? 

Ég er ein þeirra sem má ekki til þess hugsa að Davíð Oddsson komist aftur til valda sem forsætisráðherra þjóðarinnar.  Ég fæ óbragð í munninn af tilhugsuninni einni saman.  Einmitt vegna þess hvernig ég sem íslenskur þegn hef upplifað hann.  Einmitt vegna þess virðingarleysis og hroka sem hann sýnir mér og öðrum sem ekki erum sammála honum í öllu. Ég hef sem íslenskur þegn æ ofan í æ undanfarin tvö ár fengið óbragð í munnin af einræðistilburðum Davíðs Oddssonar eins og þeir hafa komið mér fyrir sjónir. Ef Davíð Oddsson er sérstakur lýðræðissinni, ef hann er réttsýnn maður sem veitir öðrum stuðning þá tekst honum vel að leyna því gagnvart þeim þegnum sem eru honum ósammála.  Það eru þessir tilburðir sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að tala um í ræðu sinni í Borgarnesi og annars staðar. Það eru ekki dylgjur, rangfærslur eða órökstuddur rógur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er einfaldlega að tala opinskátt um mörg þau ummæli sem forsætisráðherra þjóðarinnar hefur látið hafa eftir sér á liðnu kjörtímabili, ummæli sem hafa ofboðið mörgum íslenskum þegnum, þar á meðal mörgum sjálfstæðismönnum.  Hún á heiður skilinn fyrir, því það þarf kjark til.  Það er ekki vandalaust að hreyfa við slíku og má mikið vera ef það snýst ekki upp í andhverfu sína, en það er þarft verk og nauðsynlegt í litlu ríki eins og Íslandi sem margir vilja meina að sé sérstök fyrirmynd annarra lýðræðisríkja en á að mínu mati oft meira skylt við einræðisríki eins og því hefur verið stjórnað síðustu misserin.  

Það mál er að mínu viti kosningamál, raunar mál málanna.  Lýðræði er ekki orð til að skreyta sig með á tyllidögum heldur hugtak sem er mikilvægast allra í heimi nútímans.  Það skiptir máli að forsætisráðherra þjóðarinnar virði lýðræðið í orði og á borði.  Að hann sýni áhuga á því að þjóðin ræði málefni sem ástæða er til að ræða um en sýni ekki tilburði í þá átt að þagga niður í umræðunni þegar hún hentar honum ekki. Að hann virði sjálfstæði Hæstaréttar hvort sem honum líkar niðurstöður hans eða ekki.  Að hann sýni löggjafanum virðingu en líti ekki á hana sem leiðinda fyrirstöðu til að koma málum sínum í gegn. Síðast en ekki síst á forsætisráðherra þjóðarinnar að sýna þegnum sínum þá virðingu að leyfa þeim að vera ósammála honum í hverju því máli sem uppi er á hverjum tíma.  Það er í raun grundvöllur lýðræðisins og það sem öllu máli skiptir – nú og um alla framtíð.   

Signý Sigurðardóttir

Höfundur hefur talið ástæðu til að skrifa greinar í kjölfar ýmissa orða og gjörða forsætisráðherra undanfarin misseri.  Sumar þeirra má finna hér á vefnum, aðrar hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir áður en eiga kannski erindi við okkur  nú, þegar menn virðast alveg búnir að gleyma því hvað Davíð Oddsson hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu.  

                                                                                Birt á pallborði www.kreml.is 22.apr. 2003


Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...