mánudagur, 5. maí 2003

Flokkspólitík = trúarbrögð?

Grein áður birt á www.kreml.is á vormánuðum 2003

Í leiðara Morgunblaðsins 26. apríl síðastliðinn segir orðrétt m.a.;

"Málflutningur Halldórs Ásgrímssonar varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB á síðasta ári vakti upp spurningar um það hvort hann teldi sig geta náð til einhverra kjósenda Sjálfstæðisflokksins með þeim umræðum og þá ekki sízt í viðskiptalífinu. Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar. Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls."

Veltum aðeins fyrir okkur samhengi þessara orða.

Fimmtudaginn 3ja apríl síðastliðinn birtist eftir mig grein í Morgunblaðinu þar sem ég talaði um "andlegan dauða pólitíkur á Íslandi". Tilefni þeirra greinaskrifa var það að ég kallaði eftir skýrum línum í pólitíkinni á Íslandi. Ég kallaði eftir því að fá að taka afstöðu til stóru pólitísku málanna eins og aðildar að Evrópusambandinu. Fyrir mér sem hef tekið þátt í hringiðu íslensks viðskiptalífs í bráðum tuttugu ár blasir það einhvern veginn við að aðild að Evrópusambandinu sé eitt þeirra mála sem íslenskir kjósendur þurfa að ræða. Um daginn tók ég þátt í fundi Evrópusamtakanna þar sem skorað var á forsvarsmenn hagsmunasamtaka atvinnulífsins í pallborðsumræður um Evrópumál. Fyrir mér var það algjört grundvallaratriði að mæta á þennan fund þar sem ég hafði lengi beðið eftir nákvæmlega þessu - að fá tækifæri til að hlusta á forsvarsmenn LÍU og Samtaka bænda koma fram opinberlega með afstöðu sína til þessara mála og hlusta á rök þeirra sömu fyrir þeirra afstöðu. Ég fékk oftar en einu sinni gæsahúð á þessum fundi, ekki vegna þess að hann væri í sjálfu sér svo stórkostlegur heldur miklu fremur vegna þess að það var svo gaman. Umræðan kom blóðinu á hreyfingu og hjartað tók að slá hraðar þar sem ég var loksins að upplifa það að menn þurftu að færa rök fyrir máli sínu opinberlega. Forsvarsmenn LÍU þurftu þarna að leggja á borðið sín ómálefnalegu rök um að með aðild myndum við Íslendingar "missa sjálfstæðið". Það er ótrúlegt hvað þessi stóru og sterku hagsmunasamtök ætla lengi að berjast eins og rjúpa við staurinn við að þagga niður umræðu um framþróun Íslands í samfélagi þjóðanna. Þessi fundur færði mér heim sanninn um það enn og aftur að frumkvæði að skemmtilegum, gagnlegum og nauðsynlegum umræðum í pólitík kemur ekki frá stjórnmálaflokkunum heldur einhverjum öðrum. Hvers vegna skyldi það vera?

Þá kem ég að því sem tekið er úr Morgunblaðinu í upphafi þessarar greinar. Það hlýtur að vera okkur öllum - kjósendum í þessu landi sérstakt umhugsunarefni það sem þarna stendur. "Staðreyndin er hins vegar sú að fylgi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptalífinu er svo traust að því verður ekki haggað þótt þar megi finna stuðningsmenn ESB-aðildar. Þeir hverfa ekki frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn vegna þessa máls." Um daginn fór ég með föður mínum á kosningahátíð hjá Framsóknarflokknum. Þar sagði Björn Ingi Hrafnsson frambjóðandi flokksins mér það sama. Hann vitnaði til þess að Styrmir Gunnarsson hefði sagt við Jón Baldvin á sínum tíma, að sá síðarnefndi skyldi ekki láta sig dreyma um að hann fengi stuðning atvinnulífsins við hugmyndir sínar þegar kæmi að kosningum þó þeir tækju undir með honum annars, það væri einfaldlega þannig að forystumenn atvinnulífsins kysu Sjálfstæðisflokkinn, hefðu gert það og myndu gera það!!! (Það skal sérstaklega tekið fram hér að ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er rétt haft eftir eða hvort vitnað er í rétta einstaklinga, enda ekki aðalatriði málsins).

Ég hlýt að spyrja - er þetta eðlilegt ástand á tuttugustu og fyrstu öldinni? Er það eðlilegt að menn eins og t.d. Steinn Logi Björnsson forsvarsmaður í ferðaþjónustunni komi fram og gagnrýni harðlega það umhverfi sem ferðaþjónustan býr við, og á þar við gengi íslensku krónunnar, en á sama tíma vilji hann ekki segja það beint til hvers hann ætlast af stjórnvöldum? Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en að hann vildi hreyfa við umræðu um upptöku evrunnar hér á landi en að hann neitaði alfarið að segja það beint að hann vildi að við ræddum aðild að Evrópusambandinu. Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins var á fyrrgreindum fundi Evrópusamtakanna og lýsti þar þeirri eindregnu skoðun samtakanna að Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Rök hans voru ósköp einfaldlega íslenska krónan. Til að íslensku fyrirtækin geti staðið jafnfætis í samkeppni á alþjóðlegum markaði þurfa þau einfaldlega á meiri stöðugleika að halda, íslenska krónan hefur ekki verið stöðug síðustu misserin eða hvað? Hann tók sem dæmi rök Dana fyrir aðild að Efnahagsbandalaginu á sínum tíma. Þau hafi einfaldlega verið þau að danskir svínabændur hafi séð hag sínum best borgið með því að gerast aðilar. Málið var ekkert flóknara fyrir Dani í upphafi.

Í framhaldi af þessu fer ekki hjá því að ég spyrji sjálfa mig - hvaða flokk skyldi Sveinn Hannesson og skoðanabræður hans hjá Samtökum iðnaðarins styðja? Styðja þeir flestir Sjálfstæðisflokkinn? Þann flokk sem staðfastlega hefur neitað því á liðnu kjörtímabili að aðild að Evrópusambandinu sé eitthvað sem þarf að ræða? Nú getur vel verið að ég sé hér að upplýsa fávisku mína, að það sé opinbert og flestir viti hvaða flokk Sveinn Hannesson og kollegar hans í Samtökum iðnaðarins styðja en ég er óhrædd að opinbera þá fávisku mína. Svarið er augljóslega mjög áhugavert fyrir mig sem kjósanda sem skilur ekki hvernig í ósköpunum íslensk pólitík er alltaf svona vitlaus eins og hún er. Ég get ekki skilið hvernig það má vera að sterkir og annars skynsamir stjórnendur fyrirtækja hér á landi í alþjóðlegri samkeppni geta bara kosið Sjálfstæðisflokkinn yfir sig kjörtímabil eftir kjörtímabil án þess nokkurn tíma að gera virkilegar kröfur til þess flokks að ræða þau stóru hagsmunamál sem brenna á þeim á hverjum einasta degi í þeirra rekstri! Getið þið svarað mér því einhverjir ykkar? Hvað gengur mönnum til að styðja flokk sem er í grundvallaratriðum helsta hindrunin fyrir því að Íslendingar nái einhverjum árangri að ræða þetta mál af einhverju viti? Hversu mikil áhrif ætli gengi íslensku krónunnar hafi haft á endanlega afkomu þeirra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöll Íslands síðustu 3 árin? Hefur gengi krónunnar ekki haft miklu meira að segja um hagnað og tap margra skráðra fyrirtækja hér á landi heldur en nokkurn tíma raunveruleg rekstrarafkoma þeirra? Hvernig stendur á því að þið atvinnurekendur þessa lands sem hafið hagsmuni að því að Ísland taki upp evru standið ykkur ekki betur í því að ýta því máli af stað? Getur það verið að það að þið kjósið flestir Sjálfstæðisflokkinn eigi meira skylt við trúarbrögð en raunverulega pólitík?

Ég hlýt að leita eftir svari og skil þessar spurningar eftir opnar. Ég leyfi mér að vona að einhverjir stjórnendur villist hér inn á kreml.is og sjái þessa grein því áhugi minn á því að fá svar, þó ekki væri nema frá einum brennur á mér og ég bíð spennt... !

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...