mánudagur, 5. maí 2003

Enn ein gömul grein frá 2003... frá sannfærðum

Grein af kremlarvef frá árinu 2003, endurbirt á bloggi 30. janúar 2009

Einu sinni sem oftar sat ég fund Evrópusamtakanna í hádeginu í dag og fyrirsögnin er sett fram vegna þess sem ég varð þar áheyrandi að. Áður en lengra er haldið má ég til að nefna að það er fremur skoplegt að sitja þessa fundi því við fundarmenn erum fáir og flestir þeir sömu aftur og aftur. Þannig er eins og Evrópumálefni séu orðin sértækt áhugamál fáeinna sérvitringa hér á landi. Hvaða ástæður skyldu liggja að baki því? Skiptir þróunin í Evrópu og það sem þar er að gerast okkur Íslendinga engu máli? Getur verið að viðhorf forsætisráðherra okkar til málsins hafi þarna eitthvað að segja? Eða eru þessir fundir einfaldlega illa auglýstir? Spyr sá sem ekki veit en þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þess um hversu stórt hagsmunamál er um að ræða. Eða er það kannski svo að við Íslendingar höfum bara áhuga á smáatriðum en hugsum síður um það sem skiptir máli?

Fyrirlesari var Árni Páll Árnason lögmaður og fyrrverandi starfsmaður íslensku utanríkisþjónustunnar eins og hann er titlaður hér á vefnum. Fyrirlestur hans varð kveikjan að þessari fyrirsögn, Evrópusamband = Sjálfstæðisflokkur en hvað eiga þessi tvö félög sameiginlegt? Jú það var nefnilega svo skemmtilegt að Árni Páll færði rök fyrir því að hagsmunir ríkja til að vera aðilar að Evrópusambandinu væru þeir sömu og hagsmunir einstaklinga til að standa saman að því að vera aðilar að stórum stjórnmálaflokki eins og Sjálfstæðisflokknum. Ríki gerast aðilar að Evrópusambandinu því þau telja hagsmunum sínum betur borgið með því að standa saman að málum en sundruð. Á sama hátt gerast einstaklingar aðilar að Sjálfstæðisflokknum vegna þess að þeir telja hagsmunum sínum betur borgið með því að standa saman að málum í stórum pólitískum flokki en ef þeir stæðu einir og reyndu þannig að koma málum sínum fram. Í þessu sambandi kom hann með dæmi "eða hvort haldið þið að sé vænlegra til árangurs að vera Helgi Hóeasson eða vera meðlimur í stjórnmálaflokki og reyna að ná málum sínum fram þar?" Skemmtilegt dæmi finnst ykkur ekki? Ég keyri fram hjá Helga Hóseassyni á hverjum degi þar sem hann stendur á horni Langholtsvegar og Holtavegar með mótmælaspjald með áletrunum eins og "blóð, Bush, Davi, Dori". Ímyndum okkur Íslendinga sem þjóð í þessu hlutverki! Hvernig hugnast ykkur sú mynd? Já það verður að segjast að þetta er skemmtileg samlíking og fyllilega þess verð að við veltum henni fyrir okkur.

Höldum aðeins áfram með þessa hugmynd að það sé vænlegra til árangurs - í þeim skilningi að hafa áhrif - að standa fleiri saman en að vera sundraðir eða einir. Hvaða dæmi höfum við um það hér á landi að það sé vænlegra til áhrifa að standa fleiri saman en sundruð? Hvað með pólitíska umhverfið? Hvernig gekk stjórnarandstöðunni í Reykjavík að hafa áhrif áður en að R-listinn kom til? Hvernig gengur okkur sem erum áhugamenn um breyttar áherslur í stjórnmálum á Íslandi að hafa áhrif í því sundraða pólitíska umhverfi sem við búum við? Hvaða lexíu kenndu síðustu kosningar okkur í því samhengi? Getur verið að leiðin til áhrifa sé sú að standa fleiri saman og skerpa á þeim atriðum sem raunverulega skipta máli og láta hin sem skipta minna máli liggja á milli hluta? Getur verið að Sjálfstæðismenn geri sér grein fyrir þessu og hætti þess vegna aldrei að hamra á þeim gamla góða tíma þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru til. Maður þarf ekkert að vera mjög skynsamur til að sjá hversu skíthræddir þeir eru við þetta nýja umhverfi þar sem þeir þurfa kannski einhvern tíma að horfast í augu við að missa völdin til annarra sem raunverulega geta átt möguleika á að ná sömu stærð. Í þessu ljósi - getur verið að það sé vænlegra fyrir okkur Íslendinga til að hafa áhrif í samfélagi þjóðanna að vera hluti af stærri heild en að standa einir?

Nú er árið 2003 og innan skamms verða 10 ný ríki aðilar að Evrópusambandinu. Frændur okkar Svíar og Finnar eru orðnir aðilar, en við Íslendingar teljum ekki einu sinni ástæðu til að ræða þetta mál, hvað þá að kjósa um það. Nei þá er nú betra að kjósa um skattalækkanir (sem breytast snarlega í skattahækkanir að kosningum loknum) og tæknileg útfærsluatriði sem gufa upp eins og dögg fyrir sólu um leið og kosningar eru afstaðnar. Það er stóra málið og hefur miklu meiri áhrif á líf okkar til framtíðar í þessu landi, eða hvað finnst ykkur? Hvað finnst okkur þegnum þessa lands nú að afstöðnum kosningum um þá umræðu sem átti sér stað hér á landi fyrir kosningar? Vorum við að tala um eitthvað sem skiptir máli? Umræðan um skattalækkanir - hverju hefur hún skilað? Hverju kemur hún til með að skila? Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Hvert er hlutverk kosninga? Um hvað snúast stjórnmál?

Hvað finnst ykkur?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...