laugardagur, 10. maí 2003

Ég á mér draum…

Grein birt á www.kreml.is á kosningadaginn vorið 2003

... að einhvern tíma renni upp sá dagur að ég sem kjósandi muni í raun og sann hafa valkost með atkvæði mínu. Ég hélt allt þar til um síðustu áramót að svo gæti farið að þessi draumur minn gæti orðið að veruleika. Allar götur síðan hefur draumurinn dofnað sífellt meir eftir því sem nær dregur... En viti menn nú þegar einungis einn dagur og tvær nætur eru til kosninga kviknar von... Hver veit nema að kraftaverkið geti gerst...

Hver er hann þessi draumur? Hvað hefur orðið til þess að vekja með mér von um hann geti ræst?

Þessi draumur snýst um samruna tveggja flokka sem stofnaðir voru af sama einstaklingi Jónasi Jónssyni frá Hriflu á fyrstu áratugum síðustu aldar, Alþýðuflokks (nú Samfylkingar) - og Framsóknarflokks. Það er óralangt síðan þessi draumur minn fæddist og hann á sér rætur í því samfélagi sem ég hef alist upp í.

Allar götur frá því ég man eftir mér hefur mér verið kennt að hatast út í Alþýðuflokkinn - kratana. Ég ólst upp við það að kratarnir væru allra manna verstir, Viðreisnarstjórnin væri sú alversta ríkisstjórn sem nokkru sinni hefði verið við völd. Fyrstu uppvaxtarárin setti ég ekkert spurningamerki við þessa fullyrðingu, ég trúði því að hún væri rétt. Eftir því sem ég komst til vits og ára fór ég þó að efast um að þessi fullyrðing væri alls kostar rétt þó ég þyrði ekki að hreyfa við því upphátt á meðal minna nánustu. Það sem olli mér fyrst og fremst heilabrotum var sú staðreynd að horfa upp á foreldra mína og kollega þeirra - sauðfjárbændur strita allt sitt líf og bera sífellt minna úr bítum. Á sama tíma var ekkert að gerast á meðal heimamanna, það var engin atvinnuuppbygging á öðrum sviðum, það var engin framtíðarsýn um breytingar. Það eina sem stjórnmálamennirnir sem foreldrar mínir og margir aðrir á landsbyggðinni kusu höfðu að bjóða þeim var "bið eftir björgunaraðgerðum að ofan".

Hverju hefur þessi stefna skilað - þeim og okkur landsmönnum öllum? Svari nú hver fyrir sig - í mínum huga liggur svarið ljóst fyrir. Það kann ekki góðri lukku að stýra að stinga höfðinu í sandinn og halda að tíminn standi í stað. Það er ekki gott fyrir neinn, ekki fyrir einstaklinginn, ekki fyrir fyrirtækin, ekki fyrir atvinnugreinarnar ekki fyrir þjóðfélagið í heild að horfa ekki til framtíðar. Tímarnir breytast og mennirnir með. Það er öllum nauðsynlegt að horfa til þess. Það er öllum hvort sem um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki, atvinnugreinar eða þjóðfélög að horfa til framtíðar. Að rýna í stöðuna og gera sér grein fyrir í hverju breytingarnar muni liggja. Að velta fyrir sér stöðunni, líklegri þróun og í framhaldi af því möguleikum og tækifærum sem í breytingunum kunna að felast.

Kosningabaráttan nú sem senn er að baki verður að teljast ólíkleg til að komast á spjöld sögunnar vegna innihaldsins eða þess að hún hafi brotið blað í nokkru því sem skiptir máli til framtíðar. Ég hef ekki enn gefið mér tíma til að sjá sýningu þá sem nú er í gangi þar sem líta má á kosningabaráttu fyrri áratuga. Svo langt sem ég man hafa þær þó flestar verið hver annarri líkar að einni undanskilinni, kosningabaráttunni 1994 þegar R-listinn komst til valda. Það var kosningabarátta gleðinnar, breytinganna, vonarinnar og að lokum fullnægjunnar! Loksins tókst það! Það tókst að setja saman kosningabandalag nokkurra flokka gegn Sjálfstæðisflokknum, sem einn flokka hafði átt Reykjavíkurborg fram að því. Úrslit þessara kosninga skiptu máli, þau höfðu áhrif, þau leiddu til breytinga, þau brutu blað. Atkvæði mitt í kosningum 1994 bar árangur sem ég sem borgarbúi bý enn að og það verður aldrei aftur snúið. Það getur vel verið að það komi að Sjálfstæðisflokknum aftur við stjórnvölinn í borginni og það er allt í lagi með það. Hann á ekki borgina lengur og það er það sem skiptir öllu máli, það er til annarr valkostur.

Valkostur - það er kjarni málsins og það sem kosningar eiga að snúast um í mínum huga. Það er kjarni lýðræðisins að geta valið. Eins og stjórnmálaumhverfið hefur verið hér á landi allar götur síðan ég man eftir mér hefur þessi staða ekki verið uppi í kjöri til landstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn að ekki sé nú talað um Framsóknarflokkurinn hafa verið ráðandi öfl. Sjálfstæðisflokkurinn í krafti stærðar sinnar, Framsóknarflokkurinn í krafti stöðu sinnar. Þessi staða er enn við lýði en þó hefur margt breyst. Það er tilkominn nýr flokkur - sem þó getur aldrei orðið raunverulegur valkostur fyrr en sú breyting sem vikið var að í upphafi verður að veruleika. Það er samruni, sameining Samfylkingar og Framsóknarflokks verður að veruleika.

Ég efast ekkert um að margir halda mig endanlega gengna af göflunum, hvað í ósköpunum gengur mér til að halda þessu fram. Þessir tveir mestu "hatursflokkar" sögunnar! Það er einmitt kjarni málsins. Það sem skilur að þessa tvo flokka eru ekki málefni, heldur fjötrar fortíðarinnar - sögunnar. Gamlir og grónir framsóknarmenn eins og faðir minn ganga af göflunum þegar þeir heyra hugmyndir í þessu veru, það sama má segja um gamalgróna krata, þeir fá hroll við það eitt að maður nefni Framsóknarflokkinn á nafn. Hvað liggur að baki þessu áliti þeirra - er það málefnalegur ágreiningur í stórum málum? Dettur einhverjum í hug að Halldór Ásgrímsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir séu andstæðingar í pólitík? Nei, það er miklu fremur "trúin", það að hafa trúað á ákveðinn "flokk" sem ræður þessari afstöðu og það er mál að linni. Þessir tveir flokkar hafa margt að færa hvor öðrum, þeir geta bætt hvorn annan upp. Sameinaðir gætu þeir orðið það "alvöru" afl jafnaðarmanna sem við þörfnumst svo mjög í upphafi nýrrar aldar.

Það sem hefur orðið til að vekja með mér von um að þessi draumur geti einhvern tíma orðið að veruleika eru tvær greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu í þessari viku. Raunar vekur það sérstaka furðu að ekki sjáist nein merki um að leiðarahöfundar Morgunblaðsins eða aðrir fjölmiðlamenn telji ástæðu til að vekja athygli á þeim sögulega viðburði sem hér er vikið að. Það hlýtur að teljast sögulegur viðburður að Bryndís Schram eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, holdgervings hins illa í huga margra gamalgróinna framsóknarmanna og sonur þeirra Glúmur Baldvinsson skrifi greinar þar sem þau segja tæpitungulaust að þeirra óskastjórn sé stjórn þessara tveggja flokka - Framsóknar og Samfylkingar. Ég leyfi mér að segja "húrra fyrir þeim"! Loksins koma alvöru hugsjónamenn fram á ritvöllinn - hugsjónamenn sem eru tilbúnir að leggja til hliðar minni hagsmuni fyrir meiri, hugsjónamenn sem eru tilbúnir að kyngja gömlum viðhorfum og "flokksfjötrum". Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að tengslafólk Jóns Baldvins Hannibalssonar liti til Framsóknarflokksins með framtíðarsýn sína en það segir kannski mest um að "tímarnir breytast og mennirnir með"! Er ekki tími til kominn að það sama gerist í röðum Framsóknarmanna?

Að síðustu þetta. Ég hef tvisvar komið fram með þá yfirlýsingu að ég hygðist skila auðum kjörseðli í vor þar sem ég gæti ekki samþykkt stefnu neins flokks. Í sannleika sagt hef ég íhugað það alla kosningabaráttuna að kannski væri það hið eina rétta. Ég er í sjálfu sér enn þeirrar skoðunar, en... ég get það ekki. Með því væri ég að stuðla að óbreyttu ástandi, með því væri ég með öðrum orðum að stuðla að áframhaldandi veru Davíðs Oddssonar við stjórnvölinn og það get ég ekki. Það ríður baggamuninn. Sú staðreynd krefst þess að ég setji kross á kosningaseðilinn á laugardaginn. Það verður mér þó ekki auðvelt. Kostirnir í mínum huga eru tveir. Annars vegar Framsóknarflokkurinn - stefna Halldórs Ásgrímssonar sem ég hef hrifist mjög af allt fram til síðustu áramóta, stefna framtíðarinnar, stefna alþjóðahyggju, þess að horfa til breytinga og þess að það sé íslenskri þjóð farsælast að vera þáttakandi í þeim breytingum í stað þess "bíða eftir því hvað gerist". Hinn kosturinn er Samfylkingin, nýr flokkur á gömlum merg sem þó er enn að fóta sig, er enn að finna sér stað. Flokkur sem ég er í grundvallaratriðum ósammála hvað varðar sjávarútvegsstefnuna.

Hvað get ég gert í þessari stöðu? Hvað ræður endanlegri afstöðu minni - hvert verður valið? Ég á engra kosta völ. Ég hlýt að veðja á Samfylkinguna. Með því að styðja Framsóknarflokkinn væri ég að taka þá áhættu að ég væri að framlengja lífdaga ríkisstjórnarinnar undir forystu Davíðs Oddssonar. Það get ég ekki. Það skiptir mig öllu máli að stuðla að því að koma núverandi ríkisstjórn frá, þó að með því sé ég á sama tíma að ganga gegn sannfæringu minni í einu máli. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég er að taka áhættu með þessu. Það getur vel verið að ég sitji uppi með ríkisstjórn sem ég kæri mig ekkert um eins og ríkisstjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra en svona er þetta stjórnmálaumhverfi sem ég bý við. Svona er þetta stjórnmálaumhverfi sem Jónas Jónsson frá Hriflu teiknaði í upphafi síðustu aldar og enn hefur ekki tekist að leiðrétta. Vonandi verður staðan önnur að fjórum árum liðnum... vonandi verða úrslit kosninganna á laugardaginn til þess að leggja lóð á þá vogarskál.

Gleðilegan kosningadag!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...