þriðjudagur, 22. apríl 2003

Dylgjur hverra - gagnvart hverjum?

Enn og aftur verður maður orðlaus á því að fylgjast með umræðunni? Hvernig geta menn orðið svo blindir á sína eins og sjálfstæðismenn eru nú á forystumann sinn?  Er það virkilega svo að þeir hafa ekki séð eða heyrt framkomu hans æ ofan í æ undanfarin misseri? Er það svo að þegar maður er hrifin af tilteknum einstaklingi þá hreinlega loki maður augum og eyrum og sjái bara það sem maður vill sjá? 

Undanfarna viku hef ég fylgst með hverjum sjálfstæðismanninum á fætur öðrum, fara mikinn í gagnrýni sinni á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna ræðu hennar í Borgarnesi. Allir sem einn hafa þessir einstaklingar talað um órökstuddar dylgjur umtalaðs forystumanns Samfylkingarinnar. Bæði Þorgerður Katrín í Kastljósi fyrr í vikunni og Guðlaugur Þór í útvarpsþættinum Í vikulokin í morgun töluðu um þá málefnasnauðu pólitík sem Ingibjörg Sólrún stæði fyrir og bæði hneyksluðust mjög á þeim órökstuddu dylgjum sem hún hefði lagt upp með í umræðunni.  Í Morgunblaðinu í dag bætir Guðlaugur Þór um betur og líkir aðferðafræði Ingibjargar Sólrúnar við aðferðafræði Jónasar frá Hriflu fyrir 50 árum og segir m.a. “Tilgangur þessarar aðferðafræði er að ata mótherja sína pólitískum auri til að bægja augum og eyrum kjósenda frá eigin málefnafátækt og pólitísku getuleysi.  Meðalið er rógur, rangfærslur og dylgjur um andstæðinga sína.”´ 

Undarlegt er það en fleirum en Guðlaugi Þór hefur dottið Jónas frá Hriflu í hug undanfarin misseri en í öðru samhengi þó.  Þannig hefur það oft hvarflað að mér undanfarin tvö ár hvort það geti verið að Davíð nokkur Oddsson sé líkur Jónasi Jónssyni frá Hriflu.  Það leynist engum sem eitthvað hafa lesið um þann mann að hann virðist hafa átt erfitt með að þola andstæðar skoðanir. Davíð Oddsson hefur komið mér fyrir sjónir undanfarin misseri sem maður af nákvæmlega sama toga.  Maður sem ekki þolir andstæðar skoðanir og hikar ekki við að láta það í ljósi hvar og hvenær sem honum dettur í hug.  Maður sem hikar ekki við að gera lítið úr öðrum og talar af hroka og mikillæti til þeirra þegna sem ekki eru sammála honum í öllu.  Eigum við að rifja þetta aðeins upp?  

Á árinu 2001 var verðbólgan komin á fulla ferð, ég sem íslenskur þegn hafði miklar áhyggjur af því þegar afborganir vísitölutryggðra lána minna fóru sífellt hækkandi.  Mér leið illa vegna þessa, þetta ástand skapaði óöryggi og vanlíðan því ég mundi vel hvað verðbólga stóð fyrir og ég gat fátt hugsað mér verra en endurtöku slíkra tíma.  Hvað hafði forsætisráðherra Davíð Oddsson að bjóða mér sem þegn þessa lands á þessum tíma? Hvað hafði hann að segja til að skapa traust á því að það væri ekkert að óttast?  Nákvæmlega ekki neitt!  Davíð Oddsson gerði eitt á þessum tíma, hann gerði lítið úr þeim röddum sem höfðu áhyggjur af stöðu mála. Hann sýndi almenningi sem hafði raunverulegar áhyggjur af stöðu mála fullkomið skilningsleysi og hroka. Þegar Þjóðhagsstofnun spáði öðruvísi fyrir um verðbólguþróun en honum þóknaðist var stofnunin einfaldlega lögð niður!  Hverjir voru það sem tóku málið alvarlega?  Hverjir voru það sem sneru þróuninni við?  Voru það stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson sem forsætisráðherra þjóðarinnar?  Ég man ekki til þess.  Ég man ekki betur en það hafi verið atvinnurekendur og launþegasamtök sem tóku málið upp á sína arma, og sneru þróuninni við.  Hvernig var það þegar dómur féll í Öryrkjamálinu svokallaða?  Hver voru viðbrögð stjórnvalda við þeim dómi?  Voru ráðstafanir forsætisráðherra þjóðarinnar Davíðs Oddssonar þá sérstaklega til þess fallnar að skapa traust okkar þegnanna?  Var það réttlátt og til þess fallið að skapa traust að skipa stórpólitíska nefnd til að túlka dóminn?  Var það réttlátt og til þess fallið að skapa traust að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson, mann sem látið hafði í ljós efasemdir sínar um dóminn opinberlega, sem formann þeirrar nefndar?  

Hvað með ummæli forsætisráðherra til umbjóðenda Mæðrastyrksnefndar?  Hvað með ummæli forsætisráðherra um stjórnendur Baugs? Hvað með ummæli forsætisráðherra um fréttastofu Stöðvar 2?  Hvað með ummæli forsætisráðherra um tengsl Samfylkingar við Baug og Norðurljós? Hvað segja Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór um þessi ummæli hans? Falla þessi ummæli forsætisráðherra vor ekki undir dylgjur? Ef þau gera það ekki – undir hvað falla þau þá? 

Ég er ein þeirra sem má ekki til þess hugsa að Davíð Oddsson komist aftur til valda sem forsætisráðherra þjóðarinnar.  Ég fæ óbragð í munninn af tilhugsuninni einni saman.  Einmitt vegna þess hvernig ég sem íslenskur þegn hef upplifað hann.  Einmitt vegna þess virðingarleysis og hroka sem hann sýnir mér og öðrum sem ekki erum sammála honum í öllu. Ég hef sem íslenskur þegn æ ofan í æ undanfarin tvö ár fengið óbragð í munnin af einræðistilburðum Davíðs Oddssonar eins og þeir hafa komið mér fyrir sjónir. Ef Davíð Oddsson er sérstakur lýðræðissinni, ef hann er réttsýnn maður sem veitir öðrum stuðning þá tekst honum vel að leyna því gagnvart þeim þegnum sem eru honum ósammála.  Það eru þessir tilburðir sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er að tala um í ræðu sinni í Borgarnesi og annars staðar. Það eru ekki dylgjur, rangfærslur eða órökstuddur rógur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er einfaldlega að tala opinskátt um mörg þau ummæli sem forsætisráðherra þjóðarinnar hefur látið hafa eftir sér á liðnu kjörtímabili, ummæli sem hafa ofboðið mörgum íslenskum þegnum, þar á meðal mörgum sjálfstæðismönnum.  Hún á heiður skilinn fyrir, því það þarf kjark til.  Það er ekki vandalaust að hreyfa við slíku og má mikið vera ef það snýst ekki upp í andhverfu sína, en það er þarft verk og nauðsynlegt í litlu ríki eins og Íslandi sem margir vilja meina að sé sérstök fyrirmynd annarra lýðræðisríkja en á að mínu mati oft meira skylt við einræðisríki eins og því hefur verið stjórnað síðustu misserin.  

Það mál er að mínu viti kosningamál, raunar mál málanna.  Lýðræði er ekki orð til að skreyta sig með á tyllidögum heldur hugtak sem er mikilvægast allra í heimi nútímans.  Það skiptir máli að forsætisráðherra þjóðarinnar virði lýðræðið í orði og á borði.  Að hann sýni áhuga á því að þjóðin ræði málefni sem ástæða er til að ræða um en sýni ekki tilburði í þá átt að þagga niður í umræðunni þegar hún hentar honum ekki. Að hann virði sjálfstæði Hæstaréttar hvort sem honum líkar niðurstöður hans eða ekki.  Að hann sýni löggjafanum virðingu en líti ekki á hana sem leiðinda fyrirstöðu til að koma málum sínum í gegn. Síðast en ekki síst á forsætisráðherra þjóðarinnar að sýna þegnum sínum þá virðingu að leyfa þeim að vera ósammála honum í hverju því máli sem uppi er á hverjum tíma.  Það er í raun grundvöllur lýðræðisins og það sem öllu máli skiptir – nú og um alla framtíð.   

Signý Sigurðardóttir

Höfundur hefur talið ástæðu til að skrifa greinar í kjölfar ýmissa orða og gjörða forsætisráðherra undanfarin misseri.  Sumar þeirra má finna hér á vefnum, aðrar hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir áður en eiga kannski erindi við okkur  nú, þegar menn virðast alveg búnir að gleyma því hvað Davíð Oddsson hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu.  

                                                                                Birt á pallborði www.kreml.is 22.apr. 2003


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...