fimmtudagur, 10. apríl 2003

Íslenska þjóðin og og þjóðmálaumræðan

Grein birtist í "Viðskiptaviti" blaði háskólanema Háskólans í Reykjavík vorið 2003

Stendur þjóðernisstefna framþróun á Íslandi fyrir þrifum? Þessi spurning hefur oftar en ekki orðið mér tilefni til hugleiðinga. Þjóðerniskennd virðist okkur flestum í blóð borin og við erum afskaplega stolt af því að vera Íslendingar, sjálfstæð þjóð í þessu litla landi. Getur það verið að þessi sama þjóðerniskennd þvælist fyrir okkur í pólitíkri umræðu? Getur verið að við séum svo blinduð af því að vera sjálfstæð þjóð að við getum ekki tekið afstöðu til mála eingöngu þess vegna? Hér verður ekki fullyrt neitt um það en hér á eftir fara hugleiðingar mínar um þetta atriði.

Eins og ég hef upplifað þjóðmálaumræðuna um langa hríð þá hefur öruggasta leiðin til að þagga niður alla vitræna umræðu um málefni verið að setja viðkomandi mál í samhengi við orðið "þjóð" og íslenska þjóðin gengur af göflunum! Hver kannast ekki við umræðuna um EES samninginn á sínum tíma? Umræðan á meðal landans var fyrst og fremst á þeim nótum að með aðild að samningnum værum við að missa sjálfstæði okkar. Ég man ekki til þess að við almenningur, kjósendur í þessu landi höfum nokkurn tíma komist í tæri við vitræna umræðu á þeim tíma, hvað aðild að EES samningnum raunverulega þýddi. Umræðan var meira og minna í slagorðaformi um að með undirskrift værum við að ofurselja okkur valdhöfum í Brussel. Hvað hefur síðan komið á daginn? Í dag virðast flestir sammála um að EES-samningurinn hafi ekki fært okkur neitt annað en gott. Þannig hafa menn nú miklar áhyggjur af því ef ekki tekst að endurnýja samninginn vegna stækkunar Evrópusambandsins. Hræsluáróðurinn á sínum tíma um að íslenska þjóðin missti sjálfstæði sitt við það að gerast aðili að samningnum virðist því ekki hafa átt við rök að styðjast. Af hverju höfum við ekkert lært af þessu. Af hverju erum við enn með hræðsluáróður um að með aðild að Evrópusambandinu værum við að missa sjálfstæðið? Af hverju erum við sem höfum verið sjálfstæð þjóð í næstum 50 ár (eða öllu heldur í 85 ár frá 1918) enn svona óskaplega hrædd við að missa sjálfstæðið? Hvað með Eystrasaltslöndin eða nýstofnuð lýðveldi A-Evróppu, af hverju keppast allar þessar þjóðir við að gerast aðilar að Evrópusambandinu, af hverju er þessi hræðsla ekki fyrir hendi hjá þeim?

Á sínum tíma þegar við gerðumst aðilar að EES-samningnum voru um leið sett lög hér á landi sem kveða á um bann við erlendum fjárfestingum í íslenskum sjávarútvegi. EES-samningurinn kvað á um hið fræga fjórfrelsi þ.e. frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á milli landanna. Ísland fékk undanþágu frá meginreglunni hvað varðaði frjálst flæði fjármagns. Talið var nauðsynlegt að loka fyrir þann möguleika að útlendingar gætu keypt sig inn sjávarútveginn hér. Það er athyglisvert að lesa umræðuna á þessum tíma. Ekkert þarf að velkjast í vafa um að rökin fyrir lögunum voru fyrst og fremst hræðsla, hræðsla við að hleypa útlendingum að. Hefur þessi stefna örugglega skilað okkur árangri. Er það örugglega rétt stefna að láta stjórnast af hræðslu í þessu máli? Við sem fylgst höfum með umræðunni allar götur síðan höfum rekið okkur á að ekki má ljá máls á breytingum á þessu atriði, þá fer alltaf sami söngurinn af stað. Nefnilega sá að með því að opna fyrir beinar erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi séum við svo gott sem að selja landið! Þegar við horfum á þetta í samhengi, hvernig stendur þá á því að okkur finnst sjálfsagt að Íslendingar megi fjárfesta hvar í heiminum sem þeim sýnist og á það er litið sem hið besta mál. Engum virðist detta í hug að gagnrýna það. Hvernig má það vera að þetta geti verið bara á einn veginn? Er það bara besta mál að Íslendingar fái að fjárfesta hvar í heiminum sem þeim sýnist í hvaða atvinnuvegi sem þeim dettur í hug en á sama tíma er það nánast landráð að útlendingar fái að fjárfesta hér? Er þetta vegna þess að við erum svo góðir? Erum við svo miklu betur af guði gerðir Íslendingar að það er allt í lagi að við gerum það sem okkur sýnist en við verðum á sama tíma að hafa hömlur á öðrum sem gætu verið í sömu hugleiðingum og við? Hvernig stendur á því að um leið og hreyft er við því að opna fyrir beinar erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi er um leið sett af stað umræðan um að við það munum við Íslendingar missa sjálfstæði okkar? Getur það verið að ástæðan sé að með því er örugglega búið að koma umræðunni fyrir kattarnef og tryggja það að við málinu verði ekki hreyft meir.

Heldur hefur rofað til hvað varðar umræðu Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu, þó enn sé langt í land að allir séu sammála um að þetta málefni megi ræða opinskátt. Enn er það fyrst og fremst hræðsluáróður sem á að koma í veg fyrir að við ræðum þetta mál. Hræðsluáróður á þeim nótum að með aðild séum við að ofurselja sjálfstæði okkar útlendingum.


Eitt umdeildasta málefni síðari tíma hér á landi er kvótakerfið en meira að segja í því máli má greina eitthvað sem fallið getur undir þjóðerniskennd eða ást Íslandinga á þessu orði "þjóð", eða hver kannast ekki við orðfærið "sameign íslensku þjóðarinnar"? Hvað þýðir þetta hugtak "sameign íslensku þjóðarinnar"? Vissulega fallegt hugtak og hátíðlegt en hversu mörg okkar áttum okkur á því hvað þetta hugtak raunverulega þýðir? Hvað þýðir það að ég og þú og allir hinir Íslendingarnir 280.000 þúsund manns, eigum eigum einhverja tiltekna eign saman? Alþingi okkar Íslendinga er búið að skilgreina það, það gerðu þeir með setningu laga nr. 58 um þjóðlendur árið 1998. Með þeim lögum verður orðið "þjóðlenda" til og það skilgreint í 1. mgr. 2. gr. er skilgreint hver sé eigandi þjóðlendna en það íslenska ríkið. Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga segir ennfremur hver það er sem fer með málefni þjóðlendna en það er forsætisráðherra eða framkvæmdavaldið. Við setningu þessara laga varð því ljóst að þetta orðfæri "sameign íslensku þjóðarinnar" þýðir eftir allt saman ekkert annað en eign íslenska ríkisins! Hvernig hljómar það í eyrum okkar landsmanna? Þegar við höfum hlustað á endalausa umræðu um "sameign íslensku þjóðarinnar" höfum við haft í huga að þetta hugtak þýðir ekkert annað en "ríkiseign"? Getur verið að andstæðingar kvótans hafi verið þvílíkir áróðursmeistarar að þeir hafi uppgötvað mátt þessa hugtaks "sameign íslensku þjóðarinnar" og hafi með notkun þess fengið alla landsmenn meira og minna á sitt band án þess að þurfa nokkurn tíma að gera sömu þjóð ljóst hvað hugtakið í raun og veru þýðir? Eða hvað segið þið landsmenn? Hafið þið öll gert ykkur grein fyrir því að "sameign íslensku þjóðarinnar" þýðir ekkert annað en hið vel þekkta orð "ríkiseign"? Það verður að teljast merkilegt að þessi umræða hefur náð svo langt að nú er komin fram tillaga á Alþingi um að setja þetta hugtak í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins! Það er sem sagt komin fram tillaga um það að í íslensku stjórnarskrána komi sérstakt ákvæði um "þjóðareignarrétt". Því er verið að blanda orðinu þjóð inn í þetta samhengi? Af hverju gangast menn ekki við því hvað þeir eru að gera og tala um orðið "ríki" í stað þess að tala um orðið "þjóð"? Getur það verið að ástæðan sé sú að verið er að slá ryki í augu kjósenda? Eða hver getur ástæðan verið önnur? Það er hverjum og einum lögfræðingi ljóst að með þessu er verið að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um að íslenska ríkið slái eign sinni á allt sem sem ekki er skilgreint í einkaeignarrétti í nú þegar. Hvers vegna er þá verið að nota orðið þjóð - í stað þess að tala um orðið ríki? Ríki og þjóð eru ekki það sama, íslenska þjóðin er ekki það sama og íslenska ríkið - er það? Eins og þetta er sett upp af alþingismönnum og eins og umræðan er, mætti halda að svo væri en þegar að skilgreiningu kemur, er ljóst að svo er ekki. Íslenska þjóðin sem slík getur ekki átt eitt eða neitt saman án þess að það sé íslenska ríkið sem er skilgreindur eignaraðili að þeirri eign.


Hér hefur verið vaðið úr einu í annað en allt sem tekið er fyrir hér að ofan á það sameiginlegt að það snýst um þetta hugtak "íslensku þjóðina". Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé langt í land með að pólitísk umræða hér á landi sé þess eðlis að við kjósendur getum verið fær um að mynda okkur skoðanir á grundvallarmálefnum, einmitt vegna þess að þessi sömu grundvallarmálefni eru sett í eitthvað óskilgreint samhengi við orðið "þjóð" sem aftur verður til þess að samhengi hlutanna verður óskýrt. Mikið hefur verið talað um þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu málefni síðustu misserin. Í ljósi þess sem hér er til umræðu, hvernig í ósköpunum á þjóðin að vera þess bær að greiða atkvæði um hin ýmsu málefni? Grundvallarforsenda þess að það geti nokkurn tíma orðið hlýtur að vera að hlutirnir séu settir í rétt samhengi. Hvað varðar aðild að Evrópusambandinu, hvað varðar opnun á erlendar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi og/eða orkufyrirtækjum, hvað varðar kvótakerfið og svo mætti lengi áfram telja. Grundvallarforsenda þess að við séum til þess bær að mynda okkur skoðanir á þessum málum hlýtur að vera að umræðan sé skýr um hvað það er sem skiptir máli.

Í framhaldi af því sem sett er fram hér að ofan er eðlilegt að spyrja eru erlend áhrif endilega af hinu vonda fyrir okkur Íslendinga ef grannt er skoðað? Hvar voru Íslendingar staddir fyrir síðari heimsstyrjöldina? Hvernig stendur á því að þeir sem þar voru uppi tala um "blessað stríðið". Hvað var það öðru fremur sem breytti lífskjörum okkar Íslendinga á síðustu öld annað en erlent fjármagn? Marshall aðstoð og erlendir peningar þeirra hermanna sem hér voru á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar? Er ekki kominn tími til að við horfumst í augu við að einmitt vegna erlends fjármagns erum við í þeirri stöðu sem við erum í dag?

Þá er ekki síður ástæða til að taka fyrir áhrif alþjóðasáttmála sem Íslendingar hafa undirritað á lagalegt umhverfi hér undanfarinn áratug. Eða hvað með mál Jóns Kristinssonar fyrir Mannréttindadómstólnum gegn íslenska ríkinu? Um það mál má með sanni segja að "lítil þúfa hafi velt þungu hlassi" því í kjölfarið á því máli kom til aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði 1992. Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir það að fyrir erlend áhrif voru Íslendingar nauðbeygðir til þess að skilja að annars vegar þá sem stóðu að rannsókn sakamála í héraði og þeirra sem dæmdu í sömu málum! Eitthvað sem manni finnst raunar svo morgunljóst að hljóti að vera eðlilegt, en einhverra hluta vegna þótti það nú samt ekki í þessu fagra landi okkar. Okkur fannst það eðlilegt allar götur fram á síðastliðinn áratug að það væru sömu menn sem rannsökuðu mál og sem síðan dæmdu í þeim. Í raun er allt of langt mál að fara ofan í það hér hversu gríðarlega mikil erlend áhrif hafa haft á íslenskt réttarfar síðastliðinn áratug, það er efni í sérstaka grein. Í mínum huga sem þegn þessa lands er ekki nokkur vafi á erlend áhrif hafa í langflestum ef ekki öllum tilfellum orðið til að bæta íslenskt réttarfar, bæta réttarstöðu okkar þegnanna gagnvart ríkisvaldinu.

Að öllu þessu sögðu má ljóst vera hver skoðun höfundar er á erlendum áhrifum. Ég tel erlend áhrif í öllum tilfellum vera okkur íslenskri þjóð til heilla. Ég er orðin langþreytt á stjórnmálamönnum sem hver um annan þveran keppast við að kaffæra öll stórmál sem ég vil taka afstöðu til með að setja þau í samhengi við ÍSLENSKA ÞJÓÐ með stórum stöfum og telja sig þar með fría sig því að þurfa að taka afstöðu til mála. Ég hef um langa hríð starfað í alþjóðlegu umhverfi og hef haft aðstöðu til að mynda mér skoðanir á samhengi hlutanna. Ég hef í starfi mínu ekki séð að ég hafi sérstaka ástæðu til að sjá Íslendinga sem fyrirmynd allra annarra þjóða nema síður sé. Ég er orðin hundleið á þjóðerniskennd landans og langar mikið að segja henni stríð á hendur! Ég get ekki séð að hún séð í henni nokkra skynsemi eða nokkra röksemdafærslu. Einhver áhugaverðasta lesning sem ég hef komist í undanfarin misseri snýst einmitt um þetta málefni sem ég tek hér til umræðu en hún heitir "Íslenska þjóðríkið" eftir Guðmund Hálfdánarson og kom út fyrir jólin 2001. Þessi bók færir rök fyrir þeim skoðunum sem hér eru ábyrgðarlaust settar fram og mæli ég með því að hver sem áhuga hefur á málefninu lesi hana og myndi sér skoðanir á því sem þar er sett fram.

Að síðustu áskorun til landa minna; Viljum við stjórnast af hræðslu næstu áratugi? Viljum við halda áfram á þeirri braut að pólitísk umræða snúist fyrst og fremst um eitthvað sem við getum ekki fest hönd á? Viljum við að umræðan sé föst í sama fari og við komumst aldrei lönd né strönd í neinu því máli sem raunverulega skiptir okkur máli? Viljum við halda áfram að vera hrædd við að missa sjálstæðið út í það óendanlega og þar með fría okkur ábyrgð á því að ræða mikilvæg mál? Ég get augljóslega ekki svarað þessum spurningum hér og nú, en ég get svo sannarlega velt þeim út í umræðuna og beðið um viðbrögð og það ætla ég að gera...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...