Hvað varð til þess að stjórnmálaumræðan er komin niður á það plan sem hún virðist komin? Hver ber ábyrgðina á því skítkasti og þeim hræðilegu dylgjum sem við landsmenn allir höfum orðið vitni að í dag? Getur það verið að Ingibjörg Sólrún beri ábyrgð á þessum málflutningi, er það hún sem hefur komið þessu öllu af stað? Er nú svo komið að Ingibjörg Sólrún beri ábyrgð á orðum Davíðs Oddssonar? Helst hefur mátt skilja það á umræðunni. Þannig lét Guðni Ágústsson varaformaður Framsóknarflokksins hafa það eftir sér í viðtali í Útvarpinu í dag að Ingibjörg Sólrún hafi komið þessari umræðu af stað. Undir það tók Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna, orðrétt sagði hann að allt frá því að Ingibjörg Sólrún fór með hálfkveðnar vísur í ræðu sinni í Borgarnesi hafi umræðan þróast á einn veg…! Ég spyr – er þetta sanngjarn og réttlátur málflutningur? Er hægt að túlka ræðu Ingibjargar Sólrúnar á þennan veg? Er hægt að ætla Ingibjörgu Sólrúnu að hafa komið þessari orðræðu allri af stað? Ég skora á ykkur öll að mynda ykkur skoðun á því sjálf með því að lesa ræðu Ingibjargar Sólrúnar í Borgarnesi í heild sinni. Hana má finna á síðu Samfylkingarinnar hér á vefnum. Ég verð að játa að ég las hana í fyrsta skipti í heild sinni í kvöld og verð að segja að hún olli mér ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Ræðan er góð og blæs manni í brjóst framtíðarsýn og trú á því að þar fari manneskja með hugsjónir sem hún hefur áhuga á að fylgja eftir. Ræðan er með öðrum orðum algjörlega í samræmi við þann málflutning sem Ingibjörg Sólrún hefur alltaf staðið fyrir. Að vera fyrst og fremst trú sinni sannfæringu. Að halda á lofti nýjum tíma, nýjum umræðugrundvelli, nýrri hugsun í pólitík á Íslandi. Ingibjörg Sólrún er og hefur alltaf verið boðberi breytinga. Einmitt þess vegna er ég hrifin af henni, einmitt þess vegna styð ég hana heils hugar og einmitt þess vegna finn ég mig knúna til að taka upp merki hennar með þessum skrifum. Ég bið ykkur öll sem fylgst hafið með umræðunni undanfarna daga, lesið greinina í heild sinni og dæmið sjálf hvort í þessari ræðu hafi Ingibjörg Sólrún riðið á vaðið með dylgjur og hálfkveðnar vísur.
Ég veit ekki með ykkur en ég hef nú um nokkurt skeið verið orðlaus yfir því hvernig umfjöllun í fjölmiðlum hefur þróast í kringum Ingibjörgu Sólrúnu upp á síðkastið. Það fór ekki fram hjá neinum að framganga Ingibjargar Sólrúnar í landsmálin olli titringi á meðal margra stjórnmálamanna. En aldrei hvarflaði það að mér að framganga hennar ætti eftir að hafa þau áhrif sem hún hefur haft. Í hverjum þættinum á fætur öðrum hef ég hlustað á karlmenn gefa í skyn að Ingibjörg Sólrún hafi ekki afrekað neitt í borgarstjórastóli. Þannig hlustaði ég á Hannes Hólmstein Gissurarson í viðtalsþætti við Kristján Þorvaldsson á rás 2 á sunnudaginn fyrir viku senda áskorun til hlustenda að senda sér tölvupóst ef það vissi hvað Ingibjörg Sólrún hefði skilið eftir sig í starfi borgarstjóra! Ásgeir nokkur, ritstjóri erlendra frétta í Morgunblaðinu lét hafa eftir sér í útvarpsþættinum Í vikulokin nokkru áður að Ingibjörg Sólrún hafi ekki afrekað neitt í starfi borgarstjóra. Við bæði þessi ummæli var mér brugðið, svo mjög að ég hef ekki haft mig í það að andmæla. Ég spyr sjálfa mig að þeirrar spurningar, hvernig er þetta hægt? Hvernig stendur á því að þessir menn virðast ætla að komast upp með svona fullyrðingar? Skyldi það geta verið að það skipti máli að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er kona. Kona sem er fylgin sér og hefur fyrst og fremst fylgt eftir málefnum en ekki hugsað um það að reisa sér minnsmerki.
Í starfi borgarstjóra hefur Ingibjörgu Sólrúnu tekist hvorki meira né minna en kollvarpa því umhverfi sem við lifum í og þá á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við aðstæður kvenna. Ingibjörg Sólrún og samstarfsmenn hennar í R-listanum* hafa algjörlega gjörbylt aðstæðum fjölskyldna í þessari borg á valdatíma sínum. Eigum við að rifja það aðeins upp. Árið 1992 skrifaði ég mína fyrstu grein í Morgunblaðið þar sem réttlætiskennd minni var gjörsamlega misboðið. Þá voru aðstæður þannig að biðlistar að dagvistarheimilum (sem þá voru kölluð) þessarar borgar lokaðir öðrum en forgangshópum, þ.e. einstæðum foreldrum og fleiri minnihlutahópum. Hvað þýddi þessi staðreynd? Hún þýddi það að konur í þessari borg höfðu ekki val um líf sitt og starf. Það er nú einu sinni þannig að það eru konur sem ganga með börnin, því eru það konur sem standa frammi fyrir spurningunni um hvað eigi að verða um barnið þegar og ef þær ætla sér að vinna úti. Grundvallarforsenda þess að konur hafi val, að þær geti leyft sér að vinna að starfsframa, að þær geti leyft sér þau sjálfsögðu mannréttindi að – hugsa um sig sjálfar eru leikskólar fyrir börnin. Svo einfalt er það, um þetta atriði þarf ekkert að deila. Af fenginni reynslu efast ég ekkert um að þessi skoðun mín verður til þess að ýta undir reiði þeirra sem eru á annarri skoðun. Það er nefnilega þannig ennþá á árinu 2003 að þetta má ekki segja berum orðum. Kona má ekki viðurkenna það hún hafi vilja til að setja barnið frá sér til að hún geti sinnt eigin þörfum. Það er ennþá “tabú” og konur eru enn að gefa misvísandi skilaboð um þetta atriði. En þetta er raunar efni í sérstaka grein og verður ekki tekið frekar fyrir hér. Svona var umhverfið hér í borginni fyrir ekki lengri tíma síðan en 9 árum. Í dag eru enn langir biðlistar að leikskólaplássum í þessari borg, en forsendurnar og kröfurnar eru allt aðrar. Í dag þykir sjálfsagt að sótt sé um leikskólapláss allan daginn fyrir öll börn, hver svo sem eiga þau, hvort sem það eru giftir foreldrar, í sambúð, skólafólk eða einstæðir foreldrar. Í raun hefur átt sér stað algjör bylting í þessum málum í valdatíð R-listans. Ég hef ekki tölur á takteinum hér og nú, en ég skal svo sannarlega bæta úr því hið fyrsta.
Þá er það næsta stig en það eru skólamálin. Þar hefur R-listinn einnig gjörbreytt aðstæðum fjölskyldna í þessari borg, þó enn sé mörgu ólokið. Það tekur nefnilega langan tíma að breyta þeim hræðilegu aðstæðum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði skapað í þessum málaflokki sem og mörgum öðrum sem snúa að því sem skiptir máli, nefnilega því að lifa sem manneskja í þessari borg. R-listanum hefur tekist að einsetja alla skóla í borginni. Hvað þýðir það? Það þýðir það að svigrúm gefst til að skipuleggja aðra starfsemi innan skólanna. Það þýðir það að kannski mun koma sá dagur að börnin okkar geti gengið í skóla og stundað sínar tómstundir í sama skóla og að stundaskrá þeirra sé samfelld. Það er svo skrítið að hingað til hefur ekki verið litið á þetta atriði sem sjálfsagðan hlut. Fyrir mér er það skrítið því ég er alin upp úti á landi og gekk í sveitaskóla þar sem alla tíð þótti sjálfsagt að ég mætti í skólann á morgnana og kæmi heim að honum loknum klukkan fimm. Ég fékk mína máltíð í skólanum og ég stundaði mínar tómstundir í skólanum. Það vorkenndi mér enginn, enda ekki nokkur ástæða til. Aðstæður í skólanum voru þær bestu sem á verður kosið og ég hugsa alltaf með sérstökum hlýhug til þessa tíma. Vegna þessa hef ég aldrei getað skilið þetta viðhorf hér í Reykjavík að börnunum sé vorkunn að ganga í skóla allan daginn. Viðhorf sem ég tengi mjög þeirri pólitík sem hér hefur verið rekin af Sjálfstæðisflokknum, hversu mjög sem þeir hafa reynt að afneita þeirri stefnu upp á síðkastið. Málflutningur þessa flokks sem sérstaks boðbera fjölskylduvænnar pólitíkur er vægast sagt ekki trúverðugur enda hafa þeir ekki uppskorið fylgi út á hann. Þriðja málið má nefna hér sem hefur gjörbreyst í valdatíð R-listans en það er umhverfi gangandi vegfarenda hér í borg. Í dag get ég farið í margra klukkutíma göngutúr eftir göngustígum meðfram strandlengjunni og notið fegurðar umhverfisins. Það er ótrúleg bylting, Davíð Oddsson og fyrirrennarar hans höfðu aldrei áhuga á gangandi vegfarendum eða mannlífi. Þeirra pólitík gekk út á steinsteypu og bíla, svo einfalt var það.
Það þarf ekkert að fara í grafgötur með að R-listinn með Ingibjörgu Sólrúnu í broddi fylkingar hefur gjörbylt umhverfinu í þessari borg til hins betra. Því frábið ég mér allar staðhæfingar um það að Ingibjörg Sólrún hafi ekki gert neitt í valdatíð sinni. Það er rétt að hún hefur ekki byggt Perlu eða Ráðhús til minningar um sjálfa sig. Hún hefur gert svo miklu, miklu meira og mikilvægara. Hún hefur unnið staðfastlega að því að breyta því samfélagi sem við lifum í og ég er þess fullviss að hún mun halda því áfram þegar og ef hún kemst til valda í landsmálunum.
Látum því ekki karlaveldið sem við lifum í segja okkur eitthvað annað! Látum ekki forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna gera lítið úr Ingibjörgu Sólrúnu með því að leyfa þeim og fjölmiðlum að mistúlka orð hennar og leggja út frá þeim á versta veg. Sjáum við þeim og kynnum okkur hvað hún hefur sagt og hvað hún hefur gert. Munum að það erum við – kjósendur sem höfum síðasta orðið.
- (sem notabene komust til valda vegna þess að kjósendur komu því í kring. Það voru ekki Framsóknarmenn og Vinstri grænir sem komu R-listanum til valda, heldur kjósendur í þessari borg sem gáfu mjög skýr skilaboð um að eini möguleikinn fyrir flokkana til að komast til valda væru að þeir stæðu sameinaðir að framboði. Ef það hefði ekki gengið eftir hefði R-listinn aldrei orðið að veruleika. Það er nauðsynlegt að koma þessu að hér þar sem það fer um mig þegar ég hlusta á Framsóknarmenn halda því fram aftur og aftur að ÞEIR hafi stutt Ingibjörgu Sólrúnu í þá stöðu sem hún hefur á meðal kjósenda. Framsóknarmenn ásamt öðrum minnhlutaflokkum í borgarstjórn á þessum tíma svöruðu kröfu kjósenda um að standa saman að framboði á sínum tíma. Það voru kjósendur sem komu þeim í valdastóla og það voru kjósendur sem komu Ingibjörgu Sólrúnu þangað sem hún er. Það voru ekki Framsóknarmenn, Alþýðuflokksmenn eða Alþýðubandalagsmenn. Ef þeir hefðu ekki svarað þessu kalli kjósenda hefðu þeir aldrei komist að og þá hefðu þeir ekki heldur náð þeim málum fram sem þeir hafa náð í valdatíð sinni.)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli