miðvikudagur, 23. apríl 2003

Konur gegn konum?

Það verður ekki á kyn mitt logið, þegar á hólminn skulu konur ekki standa saman og styðja hver aðra, nei þá er nú betra að rífa augun hver úr annarri augun og hlífa engu.  Aldrei eru þær grimmari en einmitt þá þegar þær telja ástæðu til að ráðast á kynsystur sínar.  Mikið lifandis skelfing væri nú gaman að lifa ef þessar sömu konur gætu sýnt viðlíka ákafa í annarri pólitík!  Mikið lifandis skelfing væri nú gaman að lifa ef stuðningskonur Sjálfstæðisflokksins væru eins kraftmiklar að berjast fyrir frama síns kyns innan eigin flokks! 

Í Morgunblaðinu í dag er að finna ótrúlega lesningu svo ekki sé meira sagt.  Í tveimur opnum með aðsendum greinum eru 4 greinar þar sem konur ráðast sérstaklega að auglýsingum og málflutningi Samfylkingarinnar þar sem Ingibjörg Sólrún er höfð í forsæti.  Hver láir Samfylkingunni það að hún tefli fram þessum hæfileikaríka fulltrúa sínum?  Hvað er óeðlilegt við það að Samfylkingin ýti undir þær tilfinningar í brjósti kjósenda að þeir noti tækifærið sem nú gefst til breytinga með því að kjósa hæfileikaríka konu – Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur?  Hefur Samfylkingin haldið því fram að kjósendur styðji hana einungis vegna þess að hún er kona?  Hver heldur því fram að kjósa skuli Ingibjörgu Sólrúnu einungis vegna þess að hún er kona?  Er það ekki miklu fremur svo að Samfylkingin er að benda kjósendum á að þeir hafi nú tækifæri til að brjóta blað í sögunni?  Þeir hafa tækifæri til að kjósa hæfileikaríka, sterka, konu sem forsætisráðherra.  Er ekki fyllsta ástæða til að benda kjósendum á það og er það ekki freistandi tækifæri?

Ég satt að segja skil ekki, hef aldrei getað skilið og mun aldrei geta skilið hvernig konur geta haldið því fram að þær séu jafnréttissinnar og kjósi Sjálfstæðisflokkinn.  Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert til að ýta undir jafnrétti ef litið er á söguna?  Hvar halda konur sem styðja þennan flokk að við konur værum almennt staddar í samfélaginu í dag ef við hefðum treyst þeim flokki fyrir jafnréttisþróuninni?  Ég spyr þessar konur allar saman;  Þorbjörgu Vigfúsdóttur, Björgu Einarsdóttur, Jónínu Bjartmarz og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur – hvar haldið þið að við værum staddar í dag ef ekki hefði verið til “Kvennaframboð” og síðar “Kvennalisti”?  Haldið þið að sú staða sem við erum í dag hafi náðst fram baráttulaust?  Haldið þið að nú séum við komin á þann stað í sögunni að “jafnréttisbaráttunni” sem slíkri sé lokið?  Að ekki sé þörf fyrir hana meir?  Haldið þið virkilega og nú spyr ég með sérstökum eldmóð -  haldið þið virkilega að konur standi jafnfætis körlum þegar kemur að því að “hæfni” þeirra í stöður sé metin?  Haldið þið að nú séum við komin á þann stað í sögunni þar sem konur og karlar standa jafnfætis yfirleitt?  

Allar sem ein tala þessar konur um að það sé “sérstök móðgun og lítilsvirðing” við kjósendur að höfða til þess að kjósa skuli Ingibjörgu Sólrúnu vegna þess að hún er kona.  Hvað segja þessar konur um alla þá karla sem teknir hafa verið fram yfir konur við ráðningar í gegnum tíðina vegna þess að þeir hafa verið karlar, hefur slík hegðun ekki verið “móðgun og lítilsvirðing” við okkur mannfólkið yfirleitt?  Eða er það svo að þegar karlar eru teknir fram yfir konur þá er það sökum “meiri hæfni” en þegar konur eru settar á stall sem foringjar vegna þess að þær eru frambærilegar og sterkar konur, þá er það einungis vegna þess að þær eru konur?

Já ég skal alveg játa það, ég er reið, ég er öskureið yfir þeirri lítilsvirðingu sem kynsystur mínar sýna mjög svo hæfileikaríkri konu og frambærilegum foringja, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er.  Það kemur svo sem ekki á óvart að þessi málflutningur skuli koma úr röðum kvenna.  Konur hafa jafnan átt í erfiðleikum með að styðja aðrar konur til forystu.  “Konur eru konum verstar” stendur einhvers staðar og verður því miður að viðurkennast að mikið er til í.  

Ég get svo sannarlega tekið undir að það er tími til kominn að breyta jafnréttisbaráttunni.  Það er tími til kominn að virkja karla til liðs við okkur og enginn yrði glaðari en ég ef að konur hentu “fórnarlambaumræðunni” á haugana.  Það er kominn tími til að efla og virkja jafnréttisumræðuna á nýjum og breyttum forsendum.  Það er allt annað mál en sitja undir því og þar með samþykkja það að konur rífi Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sérstaklega í sig vegna þess að hún er kona.  Það er nákvæmlega þannig sem ég horfi á þessi greinaskrif í Morgunblaðsinu í dag.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er kona og hún er hæfileikaríkur og sterkur foringi sem á allt annað skilið af kynsystrum sínum en að á hana sér ráðist eingöngu vegna þess að hún er af sama kyni og þær.    

                                                                    Birt á pallborði www.kreml.is 23. apr. 2003


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...