fimmtudagur, 3. apríl 2003

Andlegur dauði pólitíkur á Íslandi

Grein birt í Morgunblaðinu 3. apríl 2003 í aðdraganda þingkosninga það ár. Var í kjölfar hennar kölluð í Silfur Egils þar sem efni hennar var m.a. til umræðu.

Ekki risti hún djúpt hugsjónin. Um leið og smá hindrun varð á leiðinni var henni hent á haugana. Ég er í sorg. Ég áhugamanneskja um pólitík um langa hríð horfi nú fram á að skila auðum kjörseðli í vor, því valið er ekkert! Fyrstur til að valda mér vonbrigðum og snúa baki við þeirri stefnu sem ég taldi mér fært að styðja er utanríkisráðherrann okkar Halldór Ásgrímsson. Í raun er óskiljanlegt hvað gerðist hjá formanni Framsóknarflokksins því allt í einu sneri hann baki við öllu því sem hann hefur staðið fyrir á kjörtímabilinu, hvað gerðist? Hvað veldur því að menn með hugsjónir sem þeir virðast tilbúnir að berjast fyrir koðna niður og verða að engu eins og hendi sé veifað? Næst var það Samfylkingin, þannig telur Össur Skarphéðinsson ekki að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu sé kosningamál lengur! Hvað gengur mönnum til, hvað ætlið þið okkur að kjósa um? Pólitískt þref - með eða á móti - hverju?

Í fyrrakvöld horfði ég á Kastljós einu sinni sem oftar. Þar sátu fyrir svörum Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde, báðir einstaklingar sem ég virði mikils, báðir einstaklingar sem hafa átt það sameiginlegt að bera virðingu fyrir andstæðum skoðunum, nokkuð sem seint verður sagt um forsætisráðherra vorn. Hvað voru þau að ræða? Þau voru að ræða skattamál, en á hvaða nótum? Þarna sátu þau og ræddu skattamál á nákvæmlega sama plani og pólitísk umræða á Íslandi lendir oftast - þau körpuðu um útfærsluatriði, þau körpuðu um orðfæri, þau sneru út úr og þóttust ekki skilja málfæri hvors annars. Guð minn góður hvað ég er orðin leið á umræðu á þessu plani, guð minn góður hvað ég þrái meiri virðingu ykkar sem leitið eftir atkvæði mínu - hvað í ósköpunum gerir það að verkum að þið leyfið ykkur að koma fram við okkur kjósendur eins og við séum heimsk? Það er hárrétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að þessi skattapólitík er óréttlát, það er hárrétt að þessi tekjutenging allra mögulegra og ómögulegra bóta er fáránlega óréttlát, það er líka rétt hjá Geir H. Haarde að þessi staða er á ábyrgð Alþýðuflokksmanna. Það var Jón Baldvin, sjálfur guðfaðir Kremlar sem barðist öllum árum fyrir þeim fáránlegu tekjutengingum sem nú er að finna alls staðar í velferðarkerfinu. Það var í hans tíð sem fjármálaráðherra sem þessari tekjutengingu var komið á. Það er atriði sem Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna og þið öll verðið að gjöra svo vel að kannast við. Þið getið ekki afneitað því sem þið eruð arfleidd að, þið verðið að bera ábyrgð á því og leiða fram breytingar með það í huga. Það er vægast sagt ömurlegt að horfa á ykkur, leiðtoga nýrra tíma, fara í nákvæmlega sömu sporin og allir aðrir pólitíkusar hafa gert á undan ykkur, að tala af ábyrgðarleysi, að tala eins og þið hafið aldrei komið nálægt því að vera við stjórnvölinn, það er sorglegra en nokkrum tárum tekur.

Hvað vil ég sjá ykkur gera öðruvísi, er ég að fara fram á hið ómögulega? Ég held ekki. Ég held að ef þið hefðuð undirbúið ykkur betur, hefði útkoman orðið öðruvísi, ég held að þið séuð komin á kaf í kosningabaráttu án þess að hafa fast land undir fótum. Þið kjósið að sveiflast eftir vindi og ég get lofað ykkur því að það er ekki gott veganesti til lengri tíma, það gefur ykkur ekkert annað en kannski stundarfylgi í skoðanakönnunum, það er ekki það sem fjöldinn vill. Við verðum að geta treyst ykkur, við verðum að hafa trú á að þið séuð staðföst í stefnubreytingum og hafið ekki það eitt að markmiði að komast að völdum. Til hvers þá að kjósa ykkur? Til þess eins að þeir sem eru við stjórnvölinn heiti vinstri fylkinging en ekki hægri fylking? Hvað færir það okkur kjósendum? Hvað skilur á milli? Það er spurning sem ég hef langt frá því svar við og skil eftir opna hér. Ég er fyrir svo löngu, löngu síðan orðin hundleið á því að pólitíkusar skuli ekki hafa aðrar hugsjónir en þær að hvíla í skjóli 18. aldar manna. Skyldi hugmyndasmiðum þeirrar aldar einhvern tíma hafa dottið í hug að þeirra hugmyndir ættu eftir að verða svo langlífar sem raun ber vitni?

Hvað er ég að fara með þessu, er ég eitthvað öðruvísi en þeir sem ég er að gagnrýna? Sit hér heima í stofu og gagnrýni út og suður en hvað hef ég svo sem fram að færa annað en það? Ég hef það eitt mér til málsbóta að ég hef kosið að láta mér nægja að vera kjósandi í þessu landi, ekki frambjóðandi. Ég nýt því þeirra forréttinda að mega vera í þeirri stöðu að gagnrýna þá sem hafa kosið aðra leið, þá sem hafa kosið að bjóða sig fram til þess að gefa mér eitthvað að trúa á, eitthvað að lifa fyrir. Þar greinir á milli.

Ég kýs fremur að fá að heyra stefnu þeirra sem ég kýs. Ég hef engan áhuga á að hlusta bara á niðurrif þeirra á annarra stefnu, það er eitthvað sem allir aðrir hafa gert á undan þeim. Í stað þess að heyra þá rífa niður skattapólitík núverandi valdhafa kýs ég að fá að heyra hvað þeir ætla sér að gera, hvernig er þeirra útfærsla á skattaumhverfinu ef þeir komast að?

Þá þrái ég líka að þeir sem ég kýs hafi stefnu um þau atriði sem ég vil kjósa um. Ég vil kjósa flokk sem hefur það að markmiði að stefna á aðild að Evrópusambandinu. Ég hef engan áhuga á að kjósa flokk sem bakkar með þá hugmyndafræði um leið og þjóðin stendur frammi fyrir hindrun í samningaviðræðum um endurnýjun EES samningsins. Til hvers eru hindranir annars en að sigrast á þeim? Höldum við Íslendingar virkilega að við getum alltaf fengið allt fyrir ekki neitt? Erum við svo æðisleg, svo frábær, svo meiriháttar í öllu tilliti að við þurfum ekki að taka tillit til eins eða neins?

Þá ætla ég að koma inn á hugleiðingar sem ég hef ekki sett fram áður en er svo sannarlega fyrir löngu kominn tími til. Það rifjaðist raunar upp fyrir mér þegar ég las grein á Kreml.is í dag, en það er sjávarútvegsstefna Samfylkingarinnar. Á síðasta ári tók ég þá ákvörðun, einmitt hennar vegna að ég yrði að kjósa Framsóknarflokkinn. Ég gæti ekki kosið flokk sem stæði fyrir slagorðakenndri gamaldags þjóðernispólitík hvað varðar undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum var ég hrifin af Halldóri Ásgrímssyni og stefnumálum hans. Honum tókst að drepa þá ætlan mína fljótt og vel með viðbrögðum sínum gagnvart framboði Ingibjargar Sólrúnar og ekki hefur tekið betra við í kjölfarið. Hann hefur kosið að fylgja gömlum stefnumálum FLOKKSINS og þar með snúið baki við öllu því sem ég taldi hann standa fyrir svo sem að berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu. Hann kaus að fylgja Guðna og öðrum gamaldags Framsóknarmönnum sem eru fyrir löngu búnir að gleyma hvað pólitík stendur fyrir annað en að viðhalda FLOKKNUM. Ég hef ekkert með slíka hugmyndafræði að gera, að ég tali nú ekki um rökstuðning þeirra fyrir stríði í Írak. Sá málflutningur raunar dæmir sig sjálfur og verður til þess að ég óska þess eins að Framsóknarflokknum takist að þurrka sig út í komandi kosningum. Hvernig geta þeir leyft sér, hvernig geta þeir boðið okkur upp á það að heimsvaldastefna Bandaríkjanna sé eitthvað sem Íslendingar styðja?

Og þá að sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þeir berjast fyrir kommúnisma í sjávarútvegi, en frelsi til athafna í öðrum atvinnuvegum? Hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja að sjávarútvegurinn einn allra atvinnuvega landsins þurfi að sætta sig við óstöðugt umhverfi og eignaupptöku? Hvernig í ósköunum stendur á því að Samfylkingingunni telur sér skylt að vera sérstakur málsvari Morgunblaðisins í þessu fáránlega áróðursstríði sem vaðið hefur uppi í sjávarútvegsmálum landans? Mér hefur oft orðið hugsað til orða Guðbergs Bergssonar sem sagði einhvern tíma "Íslenska þjóðin hefur alltaf hatast út í það sem hún hefur lifað á", ég held að það sé mikill sannleikur í þessum orðum. Hvernig höfum við ekki hagað okkur út í landbúnaðinn í gegnum tíðina? Kratar hafa vaðið elginn og látið eins og bændum væri um að kenna allt sem miður hefur farið í íslensku þjóðfélagi. Lifðu ekki Íslendingar af landbúnaði um aldir? Það er vissulega nokkur tími síðan, en samt ekki svo að ástæða sé til að láta eins og við þurfum að skammast okkar fyrir það að landbúnaður er sá atvinnuvegur sem hefur haldið lífi í þjóðinni öldum saman. Þess vegna ættum við miklu fremur að vera stolt af honum. Við ættum að hjálpa honum til sjálfshjálpar, nýta okkur þá þekkingu sem til staðar er og þróa hana til frekari afreka. Ekki haga okkur eins og honum sé um að kenna allt sem miður fer. Það sama á við um sjávarútveginn. Íslendingar hafa lifað af sjávarútvegi meira og minna alla tuttugustu öld. Það er fyrst og fremst vegna hans sem við lifum við þær aðstæður sem við lifum í dag. Ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum var það svo allt fram til loka aldarinnar að meira en þriðjungur útflutningstekna kom frá sjávarútvegi. Hvað þýðir það? Það þýðir það að gjaldeyririnn sem við Íslendingar höfum þarfnast í gegnum þennan tíma til að EYÐA í allan þann innflutning sem erum svo dugleg við, hefur komið frá sjávarútvegi! Með öðrum orðum, "sægreifarnir" sem við erum alltaf að tala um hafa gert okkur Íslendingum kleift að lifa í vellystingum praktuglega. Í stað þess að hatast út í þá, ættum við að þakka þeim. Það er þeirra vegna sem við lifum því lífi sem við lifum í dag. Sú fáránlega umræða sem vaðið hefur uppi og er undirstaða einhverra þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram um að "sameign þjóðarinnar" eigi að vera opin öllum en ekki "örfáum útvöldum" er þegar betur er að gáð ekkert annað en gamaldags kommúnismi. Orðfærið "sameign þjóðarinnar" sem Morgunblaðið og margir pólitíkusar þessa lands kjósa að slá um sig með þýðir nefnilega ekkert annað en hið gamalkunna hugtak "ríkiseign", þjóðin getur ekki átt neitt saman og hefur aldrei getað öðruvísi en að það sé íslenska ríkið sem á þá eign. Þjóðin getur ekki átt eitt eða neitt öðruvísi en að það sé ríkið sem á það, þannig er það, þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Því er það ótrúlega fáránleg umræða sem vaðið hefur uppi í fjölmiðlum síðasta áratug að fiskurinn í sjónum sé "sameign þjóðarinnar" og eigi því ekki að vera úthlutað fáeinum aðilum gefins. Það að við berjumst fyrir því að auðlindirnar séu "sameign þjóðarinnar" þýðir að við erum að berjast fyrir því að auðlindin, fiskurinn í sjónum, sé eign ríkisins og þar af leiðandi á færi stjórnmálamannanna okkar að úthluta eins og þeim sýnist. Sýnist okkur það tryggja réttlæti, hefur framkvæmdavaldið - handhafi ríkisvaldsins reynst okkur svo sérlega vel í úthlutun á slíku valdi? Viljum við með öðrum orðum "ríkisvæða" sjávarútveginn, þannig að það sé á valdi misviturra stjórnmálamanna að úthluta honum eftir þörfum? Ég veit ekki með ykkur en ég veit með mig. Ég er stolt af Samherja, ég er stolt af Granda og ég er stolt af Þormóði ramma. Ég er stolt af því að þessi íslensku sjávarútvegsfyrirtæki hafa náð þeim árangri sem þau hafa náð, ég er stolt af því að þau eru svo sterk sem raun ber vitni. Ég hef sem íslenskur þegn ekki þjáðst vegna þeirra, ég hef miklu fremur fengið að njóta ávaxtanna af rekstri þeirra. Þessi fyrirtæki eru ekkert öðruvísi í mínum augum en Össur, Bakkavör og Baugur, þau eru alþjóðleg fyrirtæki sem hafa barist fyrir þeirri stöðu sem þau eru í í dag og þau hafa sýnt að þau hafa þekkingu og færni sem er eftirsóknarverð á erlendum mörkuðum. Á sama tíma og ég segi þetta, veit ég vel að það er fullt af einstaklingum út um alla firði landsins sem telja sig beitta "óréttlæti". Á móti spyr ég, síðan hvenær er eitthvað "réttlæti" í því að takmarka ótakmarkaðar auðlindir? Það hefur alltaf verið og hlýtur alltaf að vera "óþægilegt" að takmarka eitthvað sem áður hefur verið litið á sem ótakmarkað. Við getum tekið vatnið okkar sem dæmi. Við berum enga virðingu fyrir hreinu köldu vatni. Við erum vön því að geta gengið að því alla daga, alltaf og það sem meira er - okkur finnst það sjálfsagt. En það er það ekki. Það vitum við ef grannt er skoðað. Það er hreint ekki sjálfsagt í þessum heimi að ganga að hreinu og köldu vatni úr krananum alla daga, það er lúxus, lúxus sem við erum aðnjótandi en meirihluti heimsins er ekki. Ef þessi auðlind væri takmörkuð er ég hrædd um að við gengjum af göflunum, en hvernig væri hægt að tryggja "réttmæta skiptingu" þessarar auðlindar? Ég kasta fram þessari spurningu en ég svara henni ekki, læt ykkur það eftir. Ég bið ykkur einungis að hugleiða þetta samhengi, að hugleiða þetta áróðursstríð sem farið hefur fram á blöðum Morgunblaðisins dag eftir dag, ár eftir ár í heilan áratug. Það er áreiðanlega margt athugavert við kvótakerfið, áreiðanlega margt sem þarf lagfæringar við, en það er áreiðanlega ekki það að ÍSLENSKA RÍKIÐ þurfi umfram allt að eiga þessa auðlind, þá fyrst þyrftum við - Íslendingar, íslenska þjóðin að hafa áhyggjur af því hvernig með hana er farið!

Ég ætla ekki að láta eins og mér sé skemmt, því það er mér ekki. Ég skal játa hér að mér líður illa, raunar mjög illa af þeirri tilhugsun einni saman að sá hræðilega ólýðræðislegi maður sem hér hér hefur verið við stjórnvölinn fái að halda áfram að stjórna þessu landi. Síðast í morgun þegar ég var á leið í vinnuna og hlustaði á ræðu hans á landsfundi flokksins tók hjarta mitt aukaslag, af þeirri hugsun einni saman að þurfa að sætta mig við sama ástand næstu fjögur ár og ég hef þurft að sætta mig við síðustu 12 ár. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda. Kannski verð ég að flýja land, kannski er það eina lausnin. Það er vont að búa í landi þar sem þú hefur það á tilfinningunni að þú megir ekki hafa skoðanir, að þú megir ekki tala hátt um þær, að til þess sé ætlast að þú sért þæg og bugtir þig og beygjir fyrir þeim skoðunum sem þú MÁTT HAFA! En það er nákvæmlega þannig sem forsætisráðherra vor hefur haldið á umræðunni. Hann hagaði sér þannig sem borgarstjóri á sínum tíma, hann lét af þeirri hegðun sinni í upphafi stjórnarferils síns sem forsætisráðherra, sennilega vegna þess að hann gerði sér grein fyrir því að hann þurfti að vinna sér fylgi. En í seinni tíð, á þessu kjörtímabili hefur gamli karakterinn komið í ljós, hann er sá sem valdið hefur og hann sýnir það leynt og ljóst og það skulu sko allir hafa verra af sem leyfa sér að gagnrýna hann. Guð hjálpi íslensku þjóðinni ef hún kýs þennan valdhafa yfir sig aftur, eitt kjörtímabilið enn. En kannski hefur hún engan annan kost, eða hvað?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026

Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...