Gunnar Smári Egilsson ristjóri Fréttablaðsins skrifar óvenju athyglisverða leiðara þrjá daga í röð í síðustu viku um jafnréttismál. Ég verð að játa að það er langt síðan ég hef séð jafn skemmtilega umfjöllun um þessi mál - hafi höfundur sérstakar þakkir fyrir. Það sem ekki síst vakti athygli mína og áhuga er að þessir leiðarar eru skrifaðir af virðingu fyrir málefninu. Þetta eru ekki skrif lituð af hroka og lítilsvirðingu við konur heldur miklu fremur innlegg í baráttu þeirra – ábendingar til okkar kvenna um að líta í eigin barm. Það getur ekki talist glæpur – ætti miklu fremur að vera okkur konum gleðiefni að ritstjóri dagblaðs með mikla dreifinu telji ástæðu til að skrifa um jafnréttismál þrjá daga í röð! Er ekki ástæða til að fagna því einu og sér?
Sá athyglisverðasti af þessum þremur verður að teljast sá síðasti skrifaður 27. júní undir fyrirsögninni “Jafnrétti eftir jafnréttið”. Þar vitnar höfundur á sannfærandi hátt til Halldórs Laxness og áhrifa hans á sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar á 20. öldinni. Það er ekki hægt að misskilja Gunnar Smára – hann ráðleggur okkur konum að breyta áherslum okkar í jafnréttisbaráttunni – í leit að fyrirmynd þurfum við ekki að líta lengra en til þeirra gríðarlegu breytinga sem orðið hafa á sjálfsmynd þeirrar þjóðar sem við tilheyrum á tiltölulega stuttum tíma. Að mínu mati er þessi hugmynd Gunnars Smára allrar athygli verð og ástæða til að skoða hana nánar.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að “fórnarlambshlutverkið” hafi ekki verið okkur konum til framdráttar í jafnréttisbaráttunni og raunar er ég sannfærð um hið gagnstæða. Ég t.d. velti því fyrir mér hvort að áherslur nýstofnaðs Feminstafélags Íslands séu örugglega hinni “venjulegu” konu til framdráttar eða til þess fallnar að hjálpa henni í baráttunni við að öðlast jafnan rétt. Ég er ekki svo viss um sú sé raunin. Á sama tíma og ég gleðst mjög yfir stofnun þessa félags og því að jafnréttismál eru þar með komin aftur á dagskrá – það var svo sannarlega kominn tími til – þá hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með árherslur þeirra. Það að leggja svo mikla áherslu á “aumingjahlutverkið” – konur sem fórnarlömb er ekki sérstaklega til þess fallið að efla okkur og styrkja í baráttunni.
Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr nauðsyn þess að berjast gegn misrétti og ofbeldi í heiminum – sú barátta er gríðarlega mikilvæg og kannski aldrei fremur en nú þegar mansal virðist í miklum blóma. En á þessi barátta endilega samleið með jafnréttisbaráttu hinnar “venjulegu” konu sem berst fyrir tilvist sinni jafnfætis körlum í veröldinni? Eða svo við smækkum myndina aðeins – hér á Íslandi? Ég er ekki svo viss um það. Ég er þess raunar fullviss að þessi “aumingjastimpill” sem konur höldum svo óskaplega mikið upp á vinni beinlínis gegn okkur ekki með okkur.
Ég held að barátta mín fyrir því að sitja við sama borð og karlar þegar kemur að launum eða því að eiga sömu möguleika til starfs við hæfi eigi ekki mikið skylt við réttleysi kvenna sem ganga kaupum og sölum á kynlífsmarkaði dagsins í dag. Ég held að hér séu tveir ólíkir hlutir á ferðinni sem ber mikla nauðsyn til að aðskilja. Hvor um sig á rétt á sér – en það á ekki að blanda þessu tvennu saman. Ég hef ekki nokkra trú á barátta okkar gegn þrælahaldi kynlífsmarkaðarins komi nokkurn tíma til með að hafa áhrif í þá veru að ég eða konan í næsta húsi fáum betri laun eða betri stöður. Hér er grundvallarmisskilningur á ferðinni sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir.
Þegar “sjálfstæðar konur” urðu til horfði ég til þeirra með velþóknun, fyrir það fyrsta fannst mér yfirbragðið – nafnið eitt sérlega áhugavert. Það er að vera “sjálfstæður” er svo miklu eftirsóknarverðara og uppbyggilegra en að vera “fórnarlamb” – eða hvað finnst ykkur? Því miður varð þessi hrifning mín skammvinn því málflutningur þessara kynsystra minna allar götur síðan hefur miklu fremur verið í þá átt að vinna gegn jafnrétti en að stuðla að því. Þannig hafa þær talið það sérstakt hlutverk sitt að berjast með öllum ráðum gegn konum sem ekki aðhyllast sömu pólitísku skoðanir og þær sjálfar og gengið svo langt að tala til þeirra með niðrandi hætti, allt að því fyrirlitningu æ ofan í æ eins og gleggst má sjá kosningabaráttunni sem nú nýlega er afstaðin. Það er að sjálfsögðu til of mikils mælst að við konur séum allaf sammála sem hópur. Það erum við og verðum einfaldlega aldrei vegna þess að við erum eins ólíkar og við erum margar. Væri samt ekki eftirsóknarvert að við lærðum að bera virðingu hver fyrir annarri og að við gerðum það að sérstöku markmiði að standa saman í baráttunni fyrir raunverulegu jafnrétti hvar svo sem við erum staddar í hinu pólitíska litrófi?
Hugmyndin um “sjálfstæðar konur” – án þess að staðsetja þær í hinu flokkspólitíska litrófi er þó enn athyglisverð og full ástæða til að halda henni á lofti. Ég skil skrif Gunnars Smára Egilssonar á þann hátt að hann sé að efla okkur konur til dáða. Örva okkur til þess að vera hnarreystar og kröfuharðar – gerendur – í eigin lífi í stað þess að vera - þiggjendur. Ég gæti ekki verið meira sammála honum hvað það varðar, það er svo sannarlega fyrir löngu síðan komin ástæða til að við konur förum í naflaskoðun og lítum markvisst á það hver ábyrgð okkar er í jafnréttisbaráttunni. Þar er heilmikið starf óunnið. Það er jafnan svo að það er sjaldnast öðrum að kenna þegar tveir deila það sama á við í baráttu kvenna fyrir jafnrétti. Málið er flóknara en svo að við leysum það með því að benda á eitthvað eitt eða segja að ástandið sé körlum að kenna, enda held ég að flestir hafi nú þegar gert sér grein fyrir því. Aftur á móti er ég ekki svo viss um að meirihluti kvenna sé þess meðvitaður hversu mikla ábyrgð við berum sjálfar á því að við náum meiri árangri. Það er svo miklu auðveldara í þessu máli – sem og öllum öðrum að benda á sökudólga en að líta í eigin barm.
Nú efa ég ekki að margur lesandinn bregðist hvumsa við – hvað varð um jafnréttissinnann Signýju Sigurðardóttur sem nú nýverið skrifaði grein hér á vefinn í tilefni af 19. júní – er hún ekki komin hér í algjöra mótsögn við sjálfa sig? Það held ég ekki. Þær skoðanir sem hér eru settar fram hafa lengi verið mér sérstakt áhugamál. Það að vera “jafnréttissinni” er ekki endilega það sama og sættast á að vera “fórnarlamb” þar er langur vegur á milli. Með þeim orðum gengst ég ekki við því að ábyrgðin á ójafnréttinu sé eingöngu okkar kvenna, engan veginn. Við eigum hlut í því að ná fram leiðréttingu en ábyrgðin er margra – raunar allra sem búa í samfélaginu. Krafan um breytingar hlýtur að koma frá okkur – það er okkar að koma umræðunni um jafnréttismál á það plan að sem flestir hlýði á okkur. Það er okkar að benda á og koma með rök fyrir ójafnréttinu á málefnalegan hátt. Við eigum beinlínis að gera miklar kröfur – til atvinnulífsins, stjórnmálaflokka, fjölmiðla og annarra sem málið varðar en við eigum ekki síður að gera kröfur til okkar sjálfra.
Að síðustu ætla að ég að kasta fram þeirri ósk að umræddir leiðarar Fréttablaðsins verði til þess að koma af stað öflugri umræðu um jafnréttismál. Hvaða atriði eru það sem eru efst á baugi í dag? Hvaða málefni eru það sem ég og þú og konan í næsta húsi eigum fyrst og fremst við að stríða í dag? Getur verið að það séu önnur atriði mikilvægari en barátta okkar gegn notkun kvenlíkamans í auglýsingum? Getur verið að það sé kominn tími til að breyta áherslum í stað þess að hjakka alltaf í sama farinu? Getur verið við séum á kolrangri braut? Getur verið að okkur líki vel að vera fórnarlömb? Getur verið að það sé okkar að koma umræðunni á annað plan? Ég ætla að varpa fram þeirri áskorun til kynsystra minna – verum ekki hræddar við gagnrýni á okkar þátt í ójafnréttinu – heldur tökumst á við það á málefnalegan hátt!
Birt á pallborði www.kreml.is 30.06.2003
Engin ummæli:
Skrifa ummæli