Einhver skyldi ætla að eftir allt offorsið fyrir kosningarnar hlyti mér að vera mál að fjalla um úrslitin og það sem gerst hefur í kjölfar þeirra en svo er ekki. Mér er annað málefni meira hugleikið þessa dagana. Atburðir þeir sem komið hafa upp í viðskiptalífi landans undanfarnar vikur eru mér ofar í huga og eru tilefni þeirra hugleiðinga sem hér fara á eftir.
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvar við Íslendingar almennt erum staddir í siðferðilegu tilliti í samanburði við aðrar þjóðir, í viðskiptalífi sem annars staðar. Viðskiptalífið er ekkert annað en ein mynd af samfélaginu sem við búum í og ég held að íslenskt viðskiptalíf endurspegli ekkert annað en okkur sjálf. Getur það verið að siðferði Íslendinga sé á fremur lágu plani? Hvað er siðferði og í framhaldi af því - hvað er viðskiptasiðferði?
Það verður ekki leitast við að skilgreina það í þessari stuttu grein. Flest okkar höfum ákveðnar hugmyndir um það hvað telst "siðlegt" og hvað ekki. Þáttur eins og heiðarleiki í orði og á borði er væntanlega þar ofarlega á blaði. Vitað er að menning þjóða er mikill áhrifavaldur hvað varðar afstöðu til siðferðis, það sem telst siðlegt og sjálfsagt í einu landi telst langt frá því siðlegt í öðru. Rannsóknir á þessu sviði eru allrar athygli verðar og það er vissulega ástæða til fyrir okkur Íslendinga að velta því fyrir okkur hvað við teljum "siðlegt" og hvað ekki. Hvers konar samfélag hvers konar þegna við viljum skapa. Hvers konar siðferði viljum sem þjóð endurspegla?
Sumt sem að mínu mati er algjörlega ósiðlegt þykir orðið svo sjálfsagður hlutur hér á landi að meira að segja prestar taka málið upp á sína arma og tala um það sem "vandamál". Til hvers er ég að vísa hér? Ég er vísa til þess hversu sjálfsagt það þykir hér á landi að ræða það opinberlega að það borgi sig ekki að skrá sig í sambúð eða gifta sig því maður tapar svo mikið á því peningalega! Umræða af þessu tagi hefur lengi verið viðloðandi í umræðunni og enginn gerir neinar athugasemdir við það. En hvað er verið að fara með yfirlýsingum eins og þessum? Það er verið að vísa til þess að það sé sjálfsagt að pör í sambúð nýti sér lagaramma sem settur var til stuðnings einstæðum foreldrum og var eingöngu hugsaður til þess að gera þeim lífið bærilegra. Hugsunin með lögunum var aldrei sú að það væri sjálfsagt að svindla á þeim. Er það sjálfsagt og eðlilegt að við fjöllum um þau á þann hátt? Hér tek ég einungis eitt borðliggjandi dæmi en dæmin eru mörg ef grannt er skoðað og flest okkar þekkjum þau vel. Þykir okkur ekki sjálfsagt að svíkja undan skatti, ef við mögulega komumst upp með það?
Í Viðskiptaháskólanum á Bifröst lagði einn kennarinn fyrir okkur nemendur litla könnun þar sem við áttum að svara því hvernig við myndum bregðast við eftirfarandi;
"Þú ert farþegi í bíl náins vinar. Hann keyrir á gangandi vegfaranda. Þú veist að hann keyrði á a.m.k. 60 km hraða í hverfi þar sem er 30 km hámarkshraði. Það eru engin vitni að atburðinum. Lögfræðingur vinar þíns segir að ef þú berð eiðsvarið vitni um það að hann hafi verið á 30 km hraða þá gæti það bjargað honum frá alvarlegum afleiðingum.
Hvaða rétt hefur vinur þinn á því að þú verndir hann?
1a) Vinur minn á fullan rétt á því að búast við því að ég sem vinur hans beri vitni fyrir hann um lægri hraðann.
1b) Hann á nokkurn rétt á því sem vinur minn að búast við því að ég beri vitni fyrir hann um lægri hraðann.
1c) Hann á engan rétt á því að ég sem vinur hans beri vitni um lægri hraðann.
Hvað heldur þú að þú myndir gera í þessu tilfelli?
1d) Bera vitni um að hann hafi keyrt á 30 km hraða.
1e) Segja sannleikann.
Niðurstaða þessarar litlu könnunar sem lögð var fyrir í tíma og engan veginn getur fallið undir vísindalega rannsókn var sú að 61% okkar nemenda Viðskiptaháskólans á Bifröst völdum 1b eða 1c og 1e. Þessi niðurstaða flokkaði okkur með þjóðum eins og Grikkjum (61%), Indónesum (57%) og Mexíkóum (64%). Aðrar þjóðir sem við viljum oftast meina að við eigum meira sameiginlegt með eins og Þjóðverjar, Hollendingar, Bretar og Bandaríkjamenn sýndu mun meiri svörun við þessa liði eða frá 87 upp í 93%. (Það skal tekið fram að spurningarnar sem lagðar voru fyrir voru að fyrirmynd alþjóðlegrar könnunar sem sýndi ofangreindar niðurstöður.)
Það hvort að þessi litla könnun sem lögð var fyrir á Bifröst endurspegli Íslendinga sem þjóð skal ósagt látið eða eins og kennarinn sem lagði fyrir okkur verkefni í kjölfarið sagði "Hvað segir þetta okkur um Íslendinga, segir þetta okkur kannski meira um nemendur Viðskiptaháskólans á Bifröst?" Þeirri spurningu er augljóslega ósvarað hér og nú en er ekki full ástæða til að við veltum fyrir okkur spurningum eins og þessum? Er ekki full ástæða til að við Íslendingar tökum upp umræðu um hluti sem þessa? Að við veltum því upp af og til hvað er rétt og hvað er rangt? Í viðskiptalífi okkar sem annars staðar?
Fyrir hvaða gildi viljum við standa? Hvaða þættir eru það sem við leggjum áherslu á í uppeldi barnanna okkar? Hvaða þættir eru það sem við teljum að skipti mestu máli í samfélagi okkar manna hér á jörð? Um hvað fjalla fjölmiðlar okkar Íslendinga? Hvað má lesa út úr umræðunni að sé okkar helsta og heitasta áhugamál? Er það í lagi og hið besta mál að jafnvel umræða um mannslíf snúist upp í umræðu um peninga? (Eins og gerst hefur æ ofan í æ þegar hjálparsveitir leitast við að bjarga mannslífum á fjöllum.) Getur verið að það sé eitthvað að í íslenskri þjóðarsál sem við ættum að leitast við að laga? Eða erum við kannski sannfærð um að við séum æðisleg og frábær og miklar fyrirmyndir annarra að við þurfum ekkert að ræða annað?
Getur verið að eltingarleikur við gullkálfinn sé ekki besta uppeldisaðferðin? Getur verið að það sé eitthvað að "fyrirmyndunum"?
Spyr sá sem ekki veit... en svarið brennur!
Sjá; Trompenaars, F. et. Al.. Riding the Waves of Culture. McGraw/Hill, 1998, bls. 35.
Birt á pallborði www.kreml.is 3. júní 2003
Höfundur þessa bloggs er alin upp á Melum í Hrútafirði og hefur haft ólæknandi áhuga á samfélaginu frá barnsaldri. Byrjaði að skrifa greinar og fékk birtar á vefnum www.kreml.is á árunum 2003 – 2004 eða þar til honum var lokað. Hef síðan af og til fengið birtar greinar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Skrifaði blogg þegar þegar efnahagshrunið dundi yfir og var mjög virk á árinu 2009. Tek hér saman allar mínar greinar og vonast til að hér megi þær liggja.
þriðjudagur, 3. júní 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Tilkynning um framboð í forystusæti Viðreisnar 31. jan. 2026
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Ég, Signý Sigurðardóttir, býð mig fram í forystusæti Viðreisnar í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég geri það vegna þess að mé...
-
Eitt af því sem maður þarf að meðtaka verandi kona er að allt sem þykir „kvenlegt“ er ómerkilegt. Nýtur ekki sjálfgefinnar virðingar eins og...
-
Málflutningur leikskólakennara og stjóra í þá veru að senda konum skömmina af því að vilja vinna fullan vinnudag hefur náð svo miklum árangr...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli